MACA FYRIR HORMÓNAKERFI LÍKAMANS
MACA FYRIR HORMÓNAKERFI LÍKAMANS
Lestrartími: 4 mínútur – uppskrift neðst í greininni!
Maca rótin vex í 3700-4500 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllunum í Perú og víðar í Suður-Ameríku. Maca rótin getur verið bæði hvít, rauð og svört og hefur verið borðuð bökuð, steikt eða í súpum og pottréttum í gegnum aldirnar, auk þess sem hún hefur verið nýtt sem lækningajurt í meira en 3000 ár svo vitað sé.
Maca er adaptógen, en það er efni sem styrkir mótstöðuafl líkamans gegn streitu, auk þess sem Maca rótin býr yfir öðrum einstökum eiginleikum sem styrkja kerfi líkamans. Því er oft talað um hana sem eina af hinum náttúrulegu ofurfæðum heimsins. Bætiefni úr Maca rótinni fást annað hvort í dufti eða í hylkjum.
RÍK AF VÍTAMÍNUM
Í duftinu sem unnið er úr Maca rótinni er að finna yfir 20 amínósýrur, þar af 8 nauðsynlegar amínósýrur. Í því eru líka fitusýrur (lauric, linolenic, palmitic acid, oleic og steric acid), B-1 og B-2, C-vítamín og D-vítamín.
Að auki er í Maca rótinni kalk, magnesíum, kalíum, kopar, sink, mangan, forfór, selen, brennisteinn, natríum og járn. Og svo til að toppa allt er í Maca rótinni að finna mikið af jurtanæringarefnum (phytonutrients).
Mér finnst mjög þægilegt að taka inn minn daglega skammt af Maca með því að blanda ½ teskeið af Maca dufti frá Dr. Mercola út í bústið mitt á morgnana. Þeir sem ekki byrja daginn á bústi geta tekið Maca inn í hylkjum, en best er að taka það inn fyrir hluta dags.
MACA FYRIR KONUR Á ÖLLUM ALDRI
Rannsóknir á Maca rótinni hafa sýnt að hún dregur úr skapsveiflum, kvíða og þunglyndi hjá konum sem komnar eru á breytingaskeiðið og eykur jafnframt hjá þeim kynhvötina. Einnig er talið að Maca rótin komi jafnvægi á estrógenmagn í líkamanum. Sé það annað hvort of hátt eða of lágt getur það leitt til þess að konur eigi erfitt með egglos og að verða þungaðar.
Konur geta verið að nota Maca rótina á öllum aldri, því yngri konur geta nýtt sér hana ef þær eiga erfitt með að verða barnshafandi. Þær sem eldri eru geta notað hana meðan þær eru að fara í gegnum tíðahvörfin. Ég valdi einmitt náttúrulegu leiðina í gegnum það ferli og notaði hana mikið á tíðahvarfaárunum.
Eftir að tíðahvarfatímabilinu lýkur er gott að taka fjögurra mánaða Maca kúr tvisvar á ári til að styrkja hormónakerfið, því við þurfum enn á hormónum að halda þótt við séum komnar úr barneign.
MACA SEM ORKUGJAFI
Spænsku landkönnuðirnir sem komu til Suður-Ameríku um miðja sextándu öld uppgötvuðu fljótt að Maca rótin var nokkurs konar Viagra Inkanna, sem jók bæði orku þeirra, líkamlegt úthald og frjósemi. Maca rótin eykur ekki bara kynorku karla heldur líka kvenna – og fyrir karlmenn telst hún vera gott náttúrulegt stinningarlyf.
Þótt Maca rótin auki almennt orku líkamans, fylgir henni ekki aukið álag á nýrnahetturnar. Orkugjafar eins og koffín og te auka hins vegar álag á þær. Maca rótin eykur líka glútaþíonframleiðslu líkamans, en það er eitt af öflugustu andoxunarefnum hans.
ALMENNT HEILSUFAR KARLA OG KVENNA
Maca rótin er talin koma jafnvægi á hormónakerfið, bæði hjá körlum og konum, með því að styrkja innkirtlakerfi líkamans. Þar sem innkirtlakerfið hefur mikil áhrif á almennt heilsufar er mikilvægt að það sé í góðu lagi.
Í Maca er járn sem hjálpar til við endurnýjun rauðra blóðfrumna og dregur þar með úr líkum á blóðleysi og stuðlar að heilbrigðara æðakerfi. Næringarefnin í Maca stuðla einnig að betri bein- og tannheilsu og því að sár grói hraðar. Þeir sem stunda líkamsrækt samhliða inntöku á Maca geta átt von á auknum vöðvamassa.
MACA OG HÚÐIN
Sumir nota Maca til að bæta úr húðvandamálum eins og bólum og þurrum blettum. Svo eru aðrir sem telja að Maca dragi úr næmi húðarinnar og geri fólki kleift að þola betur öfga í hitasveiflum, bæði þegar það er heitt eða kalt í veðri.
HEITT KAKÓ MEÐ MACA
Sumar heimildir segja að ekki megi nota Maca í heitan mat, því þá dragi úr virkni þess. Í einni af mínum sex ferðum sem fararstjóri til Perú vann ég með konu sem var staðarleiðsögumaður í Arequipa. Hún sagðist setja Maca duft út í heitan kínóagrautinn sinn á morgnana, eftir að hann hefur verið soðinn.
Þessi uppskrift að kakói með Maca kemur úr HREINT MATARÆÐI prógramminu. Held því að Maca rótin haldi alveg virkni sinni svo framarlega sem við látum hana ekki sjóða, heldur hitum hana bara.
INNIHALDSEFNI:
- 2 ½ bolli jurtamjólk (hrís- eða möndlumjólk)
- 4 msk hrákakó
- 1 tsk Maca duft frá Dr. Mercola (eða samsvarandi magn úr hylkjum)
- 2 steinlausar döðlur
- örlítið fínt himalajasalt
- Ceylon kanill frá Kryddhúsinu (má sleppa)
Hrákakó getur verið örlítið rammt, svo þeir sem vilja sætari útgáfu af drykknum geta bætt örlitlu af dökku agave sírópi eða stevíu í hann.
AÐFERÐ:
- Best er að byrja á að mýkja döðlurnar í nokkrar mínútur í sjóðandi vatni, sem síðan er sigtað frá
- Setja svo öll innihaldsefnin í blandara og þeytið vel saman
- Hitið svo drykkinn í potti upp að suðumarki
Það er dásamlegt að drekka þennan heita drykk á morgnana nú þegar farið er að kólna eða fá sér hann spari um helgar eða hátíðir. Hann örvar á náttúrulegan hátt orku líkamans, án þess að leggja mikið álag á meltingarkerfið.
Neytendaupplýsingar: Maca duft eða Maca í hylkjum frá Dr. Mercola fæst í Mamma Veit Best á horni Dalbrekku og Auðbrekku í Kópavogi og á www.mammaveitbest.is
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.
Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.
Mynd: Can Stock Photo / bhofack2 / CITAlliance
Heimildir:
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/27548190/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/24931003/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/28231388/
Um höfund
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar15/09/2024FULLT OFURTUNGL OG TUNGLMYRKVI
- Greinar02/09/2024NÝTT TUNGL Í MEYJU 03.09.24
- Greinar23/08/2024LÍKAMINN GEYMIR ALLT
- Greinar19/08/2024FULLT TUNGL Í VATNSBERA 19.08.24