HVAÐ BER ÁRIÐ 2023 Í SKAUTI SÉR?

HVAÐ BER ÁRIÐ 2023 Í SKAUTI SÉR?

Eins og alltaf þegar nýtt ár er að hefjast velta margir fyrir sér hvað það muni bera í skauti sér. Stjörnuspekin og talnaspekin gefa okkur smá innsýn í það hvers er að vænta orkulega séð, en svo er það okkar að vinna úr þeirri orku sem til staðar er. VIÐ erum nefnilega meðskaparar í þessum heimi og hugsanir okkar og tilfinningar ráða miklu um það hver útkoman verður.

Við megum gera ráð fyrir að þetta ár verði magnað ár mikilla umbreytinga og viðsnúnings fyrir mannkynið. Allt mun gerast mun hraðar en áður, sem þýðir að við megum vænta þess að mikil óreiða muni ríkja á þriðju víddar sviðinu meðal annars vegna þess að gömlu kerfin eru að hrynja.

TALNASPEKIN

Samkvæmt talnaspekinni erum við að fara inn í Alheimsár með samtöluna SJÖ þar sem samtalan af 2+0+2+3 er SJÖ. Þetta er árið þar sem við brúum bilið milli þess sem var og þess sem verður. Árið 2023 eða Alheimsárið SJÖ, hvetur okkur til að kafa eftir nýjum fyrirmyndum, nýjum tækifærum og treysta innsæi okkar eða sjötta skilningarvitinu og taka stökkið fram á við inn í nýja lífsreynslu.

Við prófum nýja hluti, við storkum þeim grunni sem líf okkar hefur verið byggt á og göngum inn í nýjar víddir vitundarinnar. Með innri vinnu og endurmati á eigin lífi, uppgötvum við nýjar leiðir og umbreytum því hvernig við lifum, vinnum, elskum og tengjumst lífinu.

Þetta SJÖ ár kemur til með að verða mjög andlegt ár og hvetur okkur til að treysta innsæi okkar, treysta ferlinu sem við erum að fara í gegnum og koma út úr því með dýpri skilningi á því hver við raunverulega erum.

STJÖRNUSPEKIN

Árið 2023 kemur til með að verða mjög frábrugðið síðustu þremur árum. Samstaðan á milli Satúrnusar og Plútó var öflug árin 2020 og 2021 og gerði þau að nokkurs konar eintóna árum samdráttar, stjórnunar og lokana. Til að bæta gráu ofan á svart var svo 90 gráðu spennuafstaða á milli Satúrnusar og Úranusar út árin 2021 og 2022, en um hana er nú að losna þar sem bilið á milli þessara pláneta hefur vaxið. Úranus er nú öflugri og frelsið og hið nýja virðist vera að vinna, þótt eitthvað af afturhaldinu og hinu gamla eigi eftir að fylgja okkur í gegnum árið.

Ólíkt fyrri þremur árum verða umtalsverðar breytingar í orkunni á þessu ári, þar sem pláneturnar Júpiter, Satúrnus og Plútó færast allar inn í önnur stjörnumerki á þessu ári. Þess vegna á allt eftir að gerast hraðar og það verður mun meira um skýr endalok og upphaf nýrra hluta á þessu ári.

PLÚTÓ FER INN Í VATNSBERANN

Um leið og Plútó færir sig yfir í Vatnsberann í mars á þessu ári, er hann að hefja langtíma ferli í Vatnsberanum sem mun vara alveg til ársins 2044 eða í 22 ár – og hjá mörgum mun það þýða „það sem eftir er ævinnar“.

Plútó er pláneta valdsins og hann hefur verið í Steingeit, sem er táknræn fyrir stjórn valdhafa að ofan og niður, hvort sem um er að ræða stjórnvöld, stórfyrirtæki eða stofnanir – sem hafa haft vald YFIR okkur. Elítan heldur sér á toppnum, en þeir sem minna mega sín og eru neðstir.

Þar sem Plútó er pláneta valdsins kemur hún til með að víkja frá þessari stjórnun að ofan þegar hún fer inn í Vatnsberann og byrja að færa valdið yfir til fólksins. Breytingin verður hvorki á einum degi, viku né mánuði en tilfærsla valds til fólksins hefst, vegna þess að þannig hefur það verið í öllum sögulegum hringferlum.

AFHJÚPANIR OG UPPLJÓSTRANIR

Það eiga eftir að vera GÍFURLEGAR afhjúpanir og uppljóstranir á þessu ári. Lokin eru að lyftast af alls konar málum um allt og því verður ótrúlega mikið um uppljóstranir á þessu ári. Hið áhugaverða er á tímabilinu frá október og fram til 23. apríl á þessu ári, eru sjö full Tungl í röð, sem öll verða á 16. gráðu í sínu merki, en samtalan af 1+6 er SJÖ.

Reyndar eru mörg önnur merki um nýtt upphaf, eins og til dæmis þau að það eru fimm ný Tunlg í röð, sem öll eru á 1. gráðu í sínum merkjum. Hvert sem litið er eru merki um breytingar, meðal annars þær að ytri pláneturnar (Júpiter, Satúrnus og Plútó) eru að fara yfir í önnur stjörnumerki. Kuiper-beltis plánetur eins og Sedna, Manwe og Haumea eru líka að fara milli stjörnumerkja en þær eru með mjög hægfara hringferli um sporbaug sinn.

Á LEIÐ INN Í NÝJAN KAFLA

Hvernig sem þú skerð stjörnuspekikökuna, er mjög ljóst að við erum að fara inn í algerlega nýjan kafla. Ef litið er til aðeins lengri tíma, það er frá árinu 2023 til ársins 2026, koma allar ytri pláneturnar til með að fara yfir í annað stjörnumerki en þær eru í nú – og það er ákaflega sjaldgæft.

Til að finna eitthvað líkt því þarf að fara til baka um 300 ár aftur í tímann til að skoða hvað gerðist þá, til samanburðar við það sem gæti verið framundan, en fyrir um 300 árum blómstraði sköpun og menning á Renaissance tímanum, svo það lofar góðu.

Mikið af því sem hefur verið falið á eftir að koma fram í dagsljósið. Ekki bara samtíma þættir, heldur langtíma þættir sem hafa verið í gangi á bak við tjöldin og verða afhjúpaðir á þessu ári. Meðal þess má nefna tengslin við forfeður okkar úr Vetrarbrautinni, en líklegt er að við fáum meiri upplýsingar um þau tengsl en við höfum áður haft.

Pýþagoras hafði væntanlega rétt fyrir sér þegar hann talaði um samræmi hnattanna og að hver pláneta hefði sérstaka bylgjulengd, nótu og tóntegund eða tíðni, sem stendur fyrir ákveðna meðvitund, sem við erum að vinna með á gagnkvæman máta.

ÓSTÖÐUGLEIKI Á FJÁRMÁLAMÖRKUÐUM

Allar líkur eru á að það verða MJÖG mikill óstöðugleiki á fjármálamörkuðum þetta árið. Við erum pottþétt á leið inn í rafræna mynt, meðal annars vegna þess að Úranus tengist öllu rafrænu, auk þess sem Úranus er í Nauti og Nautið tengist fjármálum, gjaldmiðlum, kauphöllum og auði almennt.

Þann 22. janúar stöðvast Úranus, en hann er pláneta sem tengist gjarnan skyndilegum atburðum, til að breyta um stefnu og fara fram á við. Nokkrum dögum eftir það má búast við einhverjum fjárhagslegum óstöðugleika. Frá og með 22. janúar eru allar pláneturnar á leið fram á við um sporbaug sinn, en það er frekar óvanalegt. Þær verða það fram í maí, en þá breytir Plútó um stefnu og fer aftur á bak.

TÆKNIN OG VALIÐ

Við stöndum frammi fyrir mjög stórum gatnamótum þar sem leiðir greinast – og við þurfum að velja hvaða leið við viljum fara. Önnur leiðin er mjög tengd teknókratíu og gervigreind (AI), en hin leiðin er það ekki. Teknókratían tengist ótta en hin kærleika – og þessar leiðir eru mjög ólíkar og bilið á milli þeirra breikkar stöðugt. Í öllum þeim smáu ákvörðunum sem við tökum yfir daginn, er mikilvægt að við séum meðvituð um hvað við VELJUM að gera.

Notkun á þessari tækni byggist á einstaklingsbundnum ákvörðunum, en beita þarf góðri dómgreind, þegar ákveðið er hvað VELJA skal og hvað ekki. Öll þessi snjalltækni, örflögur í líkamann og annað slíkt stafrænt á eftir að hellast yfir okkur á ógnarhraða. Við þurfum því að vera mjög meðvituð og gera okkur grein fyrir þessu í daglegu VALI og spyrja okkur hvað felst í því að vera mennskur (human). Það er grundvallarspurningin. Hvað felst í því að vera mennskur og viljum við áfram vera fullkomlega mennsk á lífrænan máta?

Ein af skuggahliðum Plútó í Vatnsbera er nefnilega sú, að ef hið táknræna sem plánetan stendur fyrir er tekið bókstaflega, verður öllu stjórnað af tækninni og það erum við nú þegar að sjá í Kína.

JÚPITER Í HRÚT OG NAUTI

Júpiter er fremst í Hrútnum núna og kemur til með að vera í því merki fram í maí á þessu ári, en þá fer plánetan inn í Nautsmerkið. Á meðan Júpiter er í Hrútnum getur plánetan, þar sem Hrúturinn er táknrænn fyrir stríðsmanninn, þanið út ýmis stríðsátök, auk þess sem Júpiter getur aukið líkur á útþenslu herja.

Hið jákvæða er hins vegar að þessi afstaða plánetunnar snýr líka að sjálfstæði og sjálfsyfirráðum okkar. Svona eins og ÉG VEIT HVER ÉG ER, sem er táknrænt fyrir Hrútinn og Júpiter á eftir að þenja einmitt það út, þennan sterka skilning á hinu einstaka sjálfi okkar.

Öllum stendur til boða orkan sem hjálpar okkur að stíga inn í þá sjálfstjórn og þau sjálfsyfirráð sem fylgja því að VITA HVER ÉG ER. Það er engin heift eða ofsi sem fylgir þessu, heldur bara sú fullvissa að standa í eigin krafti og víkja hvorki né hörfa fyrir andstæðingnum og hafa hæfni til að geta varið sig.

SATÚRNUS Í VATNSBERA OG FISKUM

Satúrnus hefur verið á ferð í gegnum Vatnsberann frá 22. mars árið 2020. Vatnsberinn er táknrænn fyrir frelsi á meðan Satúrnus táknar takmarkanir. Satúrnus verður í Vatnsberanum fram í mars á þessu ári, en þá fer hann yfir í Fiskana og verður þar til ársins 2025. Frelsið hefur verið mjög takmarkað meðan hann hefur verið í Vatnsberanum en treystum því að þessari tilfærslu hans yfir í Fiskana fylgi meira frelsi.

Vatnsberinn tengist Internetinu. Það tekur Satúrnus um 29 ár að fara einn hring um sporbaug sinn – og fyrir um það bil þrjátíu árum eða árið 1994, fór World Wide Web eða Netið, með vefsíðum sínum að verða aðgengilegt almenningi. Við erum nú að nálgast endurkomu Satúrnusar á sama stað og hann var á þegar www eða WorldWideWeb varð til.

Þegar Satúrnus fer inn í Fiskana þann 8. mars gætum við orðið vitni að ýmsum málefnum sem tengjast vatni, því Fiskarnir eru mjög næmt vatnsmerki sem stjórnað er af Neptúnusi, sem var sjávarguðinn. Fiskarnir stjórna líka blóðinu og ónæmiskerfinu og því er líklegt að við sjáum einhver málefni í kringum þessa tvo þætti. Satúrnusar-málefni eins og takmarkanir geta líka orðið áberandi og þá í tengslum við orku Fiskanna.

VONBRIGÐI Í ORKU FISKANA

Svo eru það þessi vonbrigði í kringum orku Fiskana, sem tengjast því þegar fólk er svipt tálvonum sínum og upp kemst að það sem það hefur trúað að sé rétt, reynist ekki vera það. Við það tapast traust á þeim sem eru í valdastöðum, þar sem stjórnað er að ofan og niður (Satúrnus). Satúrnus stjórnar Steingeitinni og við höfum verið með „tíu tonn af Steingeit“ frá því árið 2008 og á sama tíma hafa valdhafar hert stjórn sína að ofan og niður.

Fiskarnis snúast mikið um andlegu málin og Satúrnus í Fiskum snýst um að láta drauminn (Fiskar) verða að veruleika (Satúrnus). Það sem skiptir kannski mestu mál er að gera andlegu vinnuna að raunveruleika í daglega lífinu. Nýta hana á praktískan máta í eigin lífi og sýna tryggð, hollustu og trúrækni.

PLÚTÓ Í VATNSBERA

Plútó fer einungis í  stuttan tíma inn í Vatnsberann á þessu ári eða frá 23. mars og fram til 11. júní og er því bara í því merki í um tvo og hálfan mánuð þetta árið. Hinn hluta ársins er Plútó í Steingeit, því hann „bakkar“ aftur inn í merkið þann 11. júní, en á þessum stutta tíma mun hann veita okkur smá innsýn í hvers er að vænta þegar hann fer alveg inn í Vatnsberann.

Árið 2024 eyðir Plútó hins vegar bara um þremur mánuðum í Steingeit og um níu mánuðum í Vatnsberanum, þar til hann fer að fullu inn í Vatnsberann í desember 2024. Það ár verður því mun „Vatnsberakenndara“ heldur en þetta ár. Engu að síður eigum við eftir að fá mjög skýr þemu og skilaboð í mars á þessu ári, sem sýna okkur hvað þessi Vatnsberaorka snýst um og munu styður mjög við þá hugmynd um endalok og upphaf einhvers nýs.

Á þessu og næsta ári á Plútó eftir að fara FIMM sinnum yfir núll gráðuna í Vatnsbera, meðan hann fer fram og tilbaka á milli Vatnsberans og Steingeitarinnar og mun því virkja þá gráðu enn frekar, þótt hún sé nú þegar mjög virk, vegna þess að á Vetrarsólstöðum í desember 2020 varð samstaða á milli Júpiters og Satúrnusar á núll gráðu í Vatnsbera.

Meðan Plútó er að fara aftur og aftur inn á síðustu gráðurnar í Steingeitinni er hann að leysa upp gömlu kerfin, uns hann fer alveg úr Steingeitinni í desember 2024.

VALDIÐ TIL FÓLKSINS

Hið áhugaverða er að Vatnsberinn er merki frelsis og mannúðarsstefnu, mannréttinda og samfélagsréttinda. Í fyrra loftmerkjatímabilinu sem var frá árinu 1226, þegar Júpiter og Satúrnus voru í Vatnsbera, var Magna Carta mótuð í Englandi en það var fyrsta skjalið sem staðfesti að þegnarnir höfðu réttindi og konungurinn varð að fylgja reglunum. Nú erum við sem sagt komin aftur inn í samskonar tímabil.

Þetta er eitt dæmið um hvers er að vænta, en þau eru fleiri, sem gefa til kynna að valdið sé að fara yfir til fólksins. Þótt það gerist ekki að fullu árið 2023 mun það hefjast. Dæmi um það tengist valdatímabili Loðvíks XVI, sem lifði lúxuslífi meðan bændur í Frakklandi sultu. Þann 14. júlí árið 1789 gerðu bændur innrás í Bastilliuna og felldu franska konungsveldið. Konungurinn var tekinn af lífi, konungsveldið féll endanlega og þar hefur síðan verið lýðveldi.

Einum mánuði síðar eða í ágúst árið 1789, gaf L‘Ensemble National út skjal, sem kallað var Yfirlýsing um réttindi manna. Þetta var skjal sem tryggði frelsi og jafnræði gagnvart lögunum – og það skjal varð grunnurinn að lýðræði og lýðræðisríkjum í Evrópu. Því frelsi og jafnræði hefur ekki alveg verið haldið til haga, en við erum á leið aftur inn í samskonar ferli.

Og þegar Plútó var í Vatnsbera, kom Eðvarður fyrsti Bretakonungur árið 1293 á fót því sem kallast Common Law eða lög almennings. Þetta eru því mjög stek þemu um að valdið sé að fara til baka til fólksins.

MIKIÐ UM BREYTINGAR

Hinir kosmísku vindar eru með okkur – þegar kemur að því að valdið sé að koma aftur til fólksins. Við megum því vænta MJÖG STÓRRA pólitískra og samfélagslegra breytinga á næstu tuttugu árum eða svo og að innan nokkurra ára verði umhverfi okkar óþekkjanlegt því sem það er núna.

Ferli Plútós er, alltaf þegar hann fer inn í nýtt stjörnumerki, að magna upp eðli þess merkis, en líka að afhjúpa skuggahliðar þess. Skort á heilindum, ábyrgð og gagnsæi, sem tengist viðkomandi merki. Plútó mun því magna upp og hraða öllum þemum sem tengjast Vatnsberanum, en þau eru vísindi, tækni, flugmál (loftferðum) svo og allt stafrænt og stjórnun í gegnum tæknina. Á sama máta mun Plútó ýta undir meiri kröfur um mannréttindi og frelsi.

VIÐ ERUM EKKI Í LEIKMYND

Munið að við erum ekki í leikmynd, sem er stillt á ákveðin hátt. Við erum að móta allt sem er að gerast, augnablik fyrir augnablik. Það er í raun alveg frábært, vegna þess að VIÐ getum stigið inn í kærleikskraftinn okkar og látið LJÓS okkar skína skærar. Við getum verið eins og vitar í storminum og staðið teinrétt meðan allt ólgar í kringum okkur og látið LJÓS okkar skína skært og þannig smitað aðra með LJÓSINU okkar.

Ef við myndum öll gera það, myndum við svo sannarlega umbreyta orkunni í heiminum. Við erum að fá mikla hjálp og hún leiðir til mikilla breytinga í vitund okkar – eða vitundarvakningar.

Við þurfum hins vegar að halda fókus á hvað það er sem við viljum skapa, jafnvel þótt það sér bara orkulega – og halda okkur í kærleiksorkunni, gleðinni og þakklætinu. Þannig erum við á réttri leið.

Nánar má lesa um þær breytingar sem framundan eru í bók minni LEIÐ HJARTANS.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.

Myndir:  © Can Stock Photo / anatomyofrock

Heimildir: Unnið upp úr talnaspeki og útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory á helstu þemum ársins 2023. Sjá nánar hér!

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 589 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram