HLIÐ LJÓNSINS 2024

HLIÐ LJÓNSINS 2024

Tímabilið sem kallast almennt HLIÐ LJÓNSINS, stendur frá 26. júlí fram til 12. ágúst. Það myndast við þá kosmísku afstöðu þegar Jörðin og plánetan eða stjarnan Síríus í belti Óríons, raðast saman í eina röð. Óríon beltið lítur út eins og hundur og þess vegna er þetta tímabil oft kallað Hundadagar.

NÝTT ÁR HJÁ FORN-EGYPTUM

 Á tímum Forn-Egypta var þetta tímabil talið marka upphaf á nýju ári og var 8. ágúst hápunkturinn í því upphafi. Í ár fylgir þessu tímabili og deginum 8. ágúst 2024 meiri orka en vanalega, því samtalan af 2024 er átta.

Þetta er því 8.8.8 ár og almennt telja menn að þessu HLIÐI LJÓNSINS muni fylgja enn hærri tíðni og meiri möguleiki á allsnægtum en áður hefur verið, en talnaröðin 888 hefur alltaf verið táknræn fyrir allsnægtir á öllum sviðum lífsins.

HIN GUÐLEGA KVENÍMYND

Rétt fyrir 8. ágúst eða þann 4. ágúst kveiknar nýtt Tungl í Ljónsmerkinu. Um svipað leyti kemur Venus aftur í ljós, út úr skugga Sólarinnar, sem kvöldstjarnan. Hún mun því hafa mikil áhrif samhliða nýja Tunglinu á orkuna þann 8.8.8. Þann dag gefst okkur færi á að stíga inn í hina Guðlegu kvenímynd og taka fullt sjálfræðisvald í eigin lífi, auka innri styrk okkar og efla þar með okkar eigin sálarsjálf.

Við megum líka eiga von á að hæfni okkar til að raungera (manifest) það sem okkur dreymir um að verði að veruleika í lífi okkar aukist og að þessari orku fylgi meiri andleg heilun og aukið innsæi.

Þennan dag er ég einmitt með námskeið fyrir konur sem ég kalla 888 UMBREYTINGARDAGUR, sem dagurinn verður svo sannarlega. Við komum til með að vinna með einfald en öfluga tækni til að losa okkur við hið gamla og fagna því nýja, auk þess sem boðið verður upp á tónheilun undir lok námskeiðsins.  Enn eru nokkur pláss laus og hægt að skrá sig með því að SMELLA HÉR!

HVAÐ VILJUM VIÐ OG HVAÐ EKKI?

Við könnumst mörg við að hafa verið að flokka upp á síðkastið hvað við viljum og hvað við viljum ekki hafa í framtíð okkar. Við skynjum að breytingar eru í farvatninu, án þess að gera okkur beint grein fyrir hverjar þær verða.

Hins vegar kemur það fram í gegnum stjörnuspekina, sem er byggð á líkindareikningi, sama hvort það er vestræn eða vedísk stjörnuspeki, að miklar breytingar eigi eftir að eiga sér stað í heimi okkar fram að Vetrarsólstöðum.

Breytingarferlið hófst með Sumarsólstöðum og við höfum verið að sjá miklar og óvæntar breytingar í heiminum upp á síðkastið.  Viðhorf okkar gagnvart þessum breytingum og andlegur þroski okkar hafa mikil áhrif á það hvernig heimurinn verður, því hugsanir okkar spila þar stóra rullu. Því er mikilvægt að halda innri ró, senda frá sér kærleiksríkar hugsanir og biðja fyrir friði í heiminum, því slíkar bænir búa yfir miklu afli, einkum þegar margir biðja á sama tíma.

AUKIÐ LJÓSMAGN

Við erum öll hér til að skína og auka ljósmagnið í okkur sjálfum, svo við getum aukið ljósmagnið á Jörðinni. Samhliða því hækkar tíðni líkama okkar og ljósið ásamt tíðnihækkuninni færir okkur lengra inn í hina Nýju Jörð eða þá umbreytingu sem framundan er.

Sólblossar og Sólgos, ljósagnir frá Sólinni og orkan frá öllum dvergplánetunum sem eru á Quantum sviðinu eru að hafa áhrif á okkur öll. Sumir nema það betur en aðrir og þeir eru því opnari fyrir þeim umbreytingum og þeirri hækkun á tíðni sem nú er í boði fyrir alla.

Hækkun á tímalínum eða tíðni getur haft ýmis konar líkamleg áhrif á fólk eins og ég hef oft fjallað um áður. Okkur gengur misjafnlega vel að samþætta alla þessa orku sem streymir til Jarðar og hefur áhrif á hækkandi tíðni í líkama okkar. Sumir leita inn á við og þurfa meiri ró næði, meðal annars til að sinna líkama sínum betur. Aðrir eiga erfitt með svefn eða hann er óreglulegur og sumir finna fyrir þreytutilfinningum, meðan líkaminn er að aðlagast þessari hækkandi tíðni.

ÞAKKLÆTIÐ HJÁLPAR TIL

Hvernig sem staða mála er hjá hverju og einu okkar, erum við saman að hækka ljóstíðnina á Jörðinni. Með því að tengjast okkar æðra sjálfi til dæmis á kvöldin áður en við förum að sofa, rifja upp daginn og þakka fyrir allt það góða sem hann gaf okkur getum við stuðlað að hærri tíðni.

Það er gott að leggja hendur á hjartað meðan við þökkum fyrir okkur, því orkusvið hjartans er að stækka og við komum til með að þurfa að læra að vinna að öllu út frá hjartaorkunni í framtíðinni.

NÁTTÚRUTENGINGIN  

Náttúrutenging okkar er mikilvæg í þessu ferli og því frábært að verja tíma utandyra eins oft og við getum. Horfa á fegurðina sem í öllu er og tengjast Jörðinni, til dæmis með því að ganga berfætt á grasi eða sjávarsteinum. Meta það lifandi vatn sem er að finna í lækjum og lindum og njóta þagnarinnar sem í náttúrunni er að finna. Það að vera í takti við náttúruna, mun hjálpa okkur að meðtaka hækkandi tíðni.

Eins er gott að halda dagbók og skrifa tilfinningar sínar í hana, þakka fyrir alla orkuna sem til okkar streymir og læra að treysta innsæi okkar, ef okkur finnst við vera að fá skilaboð. Öll innri vinna er mikilvæg, hvort sem það er öndunarvinna, jóga, hugleiðsla eða einhver önnur leið sem við veljum til að leita inn á við og hlusta á skilaboð, hvort sem þau koma frá líkamanum sjálfum eða í gegnum hann utanfrá.

DREKAR OG EINHYRNINGAR

Við erum öll á leið inn í samþættingarferli sem nær ákveðnu hámarki þann 8. ágúst. Í gegnum HLIÐ LJÓNSINS fáum við orkulegan styrk til að taka öflugri stjórn á eigin lífi, til að magna upp sköpunarkraft okkar og getu til að raungera hlutina á nýjan máta.

Við erum á ári Drekans og tengingar okkar við Dreka í náttúrunni eru að aukast, meðal annars vegna þess að svokallaðar Dreka-orkulínur í Jörðinni eru að opnast. Hið sama á við um Einhyrninga sem eru á sama tíðnisviði og englar. Það er að opnast fyrir skynjun okkar á þessum víddum.

Töfrarnir gerast þegar við þorum að sleppa tökum á því gamla, sem þjónar okkur ekki lengur og tökum fagnandi á móti því nýja, hærri tíðni og auknu ljósmagni og sköpum kærleiksríkari heim á sviði ótakmarkaðra möguleika eða Quantum sviðinu.

Minni aftur á að þann 8.8.8 er ég með námskeið sérstaklega ætlað konum, sem ég kalla 888 UMBREYTINGARDAGINN. Enn eru örfá pláss laus og hægt að skrá sig með því að SMELLA HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum

Þér er velkomið að skrá þig á póstlistann minn. Nýir áskrifendur fá ókeypis hugleiðslu sem tengir þá við Einhyrninginn sinn.

Myndir: Shutterstock.com

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram