HJARÐSVEINSBAKA MEÐ SÆTUM KARTÖFLUM

Uppskriftin þessa vikuna kemur úr bókinni
minni HREINN LÍFSSTÍLL en í henni eru
glúten-,
sykur- og mjólkurlausar uppskriftir. 
HJARÐSVEINSBAKAN er ein af mínum
uppáhalds – og þetta er einmitt árstíminn
þar sem gott er að fá sér eitthvað 
matarmikið og bragðgott
að borða!


Þessi hjarðsveinsbaka er að mínu mati sérlega bragðgóð. Svo mjög svo, að þegar ég gerði fyrstu tilraun með hana borðaði ég gersamlega yfir mig. Það er hefð fyrir því að nota lambahakk í hjarðsveinsbökur, en það fæst oft frosið í matvörumörkuðum, svo það þarf aðeins að hugsa fyrirfram þegar gera á bökuna.

En svo má auðvitað nota nautahakk sem fæst yfirleitt ófrosið. Þeir sem vilja sleppa kjötinu geta notað aduki eða svartan baunir í staðinn. Þótt það séu nokkuð mörg innihaldaefni í réttinum er auðvelt að útbúa bökuna og hún er einmitt dásamlegur réttur fyrir laugardagskvöld, þegar hægt er að stinga fatinu inn í ofn og ganga frá öllu í eldhúsinu áður en rétturinn er fullbakaður..

Það má setja hjarðsveinsbökuna í frysti eða frysta afganginn ef einhver verður og nota síðar.

HJARÐSVEINSBAKA MEÐ SÆTUM KARTÖFLUM

INNIHALDSEFNI í rétt fyrir fjóra:

2 meðalstórar gulrætur, skornar langsum í tvennt, svo aftur langsum í tvennt og svo í litla bita
1 meðalstór laukur, smátt skorinn
2 pressuð hvítlauksrif
500 gr lambahakk 
1 tsk ferskt eða ½ tsk þurrkað timían (blóðberg)
fínt himalajasalt og svartur pipar eftir smekk
3 msk tómatpúrra 
2 msk steikarsósa (sjá uppskrift hér að neðan fyrir glútenlausa – en líka má nota tilbúina sósu)
1-1 ½ dl grænmetissoð (heitt vatn plús 1 tsk af gerlausum grænmetiskrafti)
1 msk mulin hörfræ og 2 msk volgt vatn
1 msk tapíókamjöl og 1 msk kalt vatn (ef þarf að þykkja) – má líka nota maísmjöl fyrir þá sem þola það
ólífuolía til steikingar – eins og t.d. þessi “gula” frá Bertolli 

SÆTKARTÖFLUMAUKIÐ

 7-800 gr af afhýddum sætum kartöflum – best lífrænt ræktaðar
1 msk extra jómfrúar ólífuolía 
½ tsk múskat
¼ tsk fínt himalajasalt
mozzarella vegan ostur – hægt að nota venjulegan ost fyrir þá sem eru ekki með mjólkuróþol
ólífuolía til að pensla með yfir kartöflurnar 

AÐFERÐ FYRIR BÆÐI BÖKUNA OG SÆTKARTÖFLUMAUKIÐ:

 1. Byrjið á að afhýða kartöflurnar og skera í litla bita. Gufusjóðið þar til þær eru mjúkar í gegn.
 2. Hitið ofninn í 190°C.
 3. Blandið hörfræinu og vatninu saman og látið fræin draga í sig vatnið í smástund.
 4. Hitið olíuna að meðalhita á stórri pönnu. Setjið gulræturnar á pönnuna og leyfið þeim að steikjast í 2-3 mínútur, meðan hrært er í þeim annað slagið. 
 5. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og látið steikjast í 1-2 mínútur. Bætið þá lambahakkinu út í og kryddið með salti, svörtum pipar og timíani. Steikið þar til kjötið er alveg brúnað. 
 6. Lækkið hitann. Blandið saman grænmetissoðinu, steikarsósunni, hörfræsmjölinu og tómatpúrrunni og hellið yfir hakkið á pönnunni. Hrærið vel saman.
 7. Látið vökvann sjóða niður í nokkrar mínútur og þykkið svo með tapíókamjölinu. Leyfið hakkblöndunni að sjóða aðeins lengur og þykkna. Smakkið og kryddið meira ef með þarf.
 8. Setjið hakkblönduna í smurt eldfast mót og sléttið yfirborð.
 9. Maukið sætu kartöflurnar með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Bragðbætið með ólífuolíu, múskati og salti. Smyrjið maukinu ofan á hakkblönduna.
 10. Penslið yfir maukið með ólífuolíu (má líka nota þeytt egg) og stráið mozzarella vegan ostinum yfir. 
 11. Bakið í 15-20 mínútur. Rétturinn stendur alveg einn og sér fyrir sínu, en það má líka bera fram með honum gott blandað salat og salatsósu.

BRAGÐMIKIL STEIKARSÓSA

Þetta er sykur- og glútenlaus útgáfa af steikarsósu, sem gefur borgurunum sérstakt og öflugt bragð. Hana má að sjálfsögðu nota með öðrum réttum.

½ bolli eplaedik 
2 msk glútenlaus Tamari-sósa frá Clearspring 
2 msk kalt vatn
1 msk púðursykurlíki frá Sukrin 
¼ tsk engiferduft
¼ tsk sinnepsfræ 
¼ tsk laukduft
¼ tsk hvítlauksduft
1/8 tsk kanill
1/8 tsk svartur pipar

AÐFERÐ:

 1. Allt sett í pott og hrært stöðugt í honum meðan suðan er að koma upp. 
 2. Haldið áfram að hræra í blöndunni meðan hún sýður í 1 mínútu.
 3. Látið sósuna kólna í pottinum og standa í honum yfir nótt – eða í minnst 8 tíma.
 4. Sigtið sósuna og setjið hana í glerflösku. Geymist í minnst 3 mánuði í ísskáp. Hristist fyrir notkun.

Mynd: Árni Sæberg 

Ef þú hefur áhuga á að eignast bókina HREINN LÍFSSTÍLL, þá eru þau fáu eintök sem enn eru eftir nú á TILBOÐSVERÐI

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
 • 601 Posts
 • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram