FYLLTIR PORTOBELLO SVEPPIR

Uppskrift vikunnar er frá henni Björgu Helen Andrésdóttur.

Hún heldur áfram að koma okkur á óvart með sköpunargleði sinni og
búa til rétti sem gleðja svo sannarlega bragðlaukana.


FYLLTIR PORTOBELLO SVEPPIR

Portobello sveppir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst svo spennandi að fylla þá af allskonar gúmmelaði. Þeir geta verið forréttur eða fullkomin máltíð, bornir fram t.d. með fersku salati eða hrísgrjónum eða bara einir og sér.

Hægt er að setja í þá allskonar hráefni s.s. kjötálegg, osta, grænmeti, pestó, hummus og svona gæti ég haldið áfram að telja upp. Þessi uppskrift er meinholl og að sjálfsögðu með hrein og góð hráefni.

Mig langar að hvetja ykkur til að prufa að fylla portobello sveppi af ykkar uppáhalds hráefnum og sjá hvort það heppnist ekki vel.

Verði ykkur að góðu 🙂

FYLLING Í PORTOBELLO SVEPPI

Baunamauk (hummus) 

1 dós kjúklingabaunir frá Himneskri hollustu
1 – 2 rif hvítlaukur
2 tsk Grænmetis-Paradís frá Kryddhúsinu
chilli frá Kryddhúsinu eftir smekk
salt
svartur pipar
2-3 msk af góðri olíu

Ofan á baunamaukið:

2 stórir tómatar
vorlaukur 2-3 stönglar
1 stór mosarella kúla

1 – Setjið öll hráefnin sem fara í baunamaukið í matvinnsluvél og hrærið vel saman. Saltið og piprið mjög vel.
2 – Takið stilkana af sveppunum. Smyrjið vel af baunamaukinu á sveppina (látið kollana snúa niður).
3 – Skerið vorlaukinn smátt niður og stráið yfir sveppina.
4- Skerið tómatana og mosarella-ostinn í sneiðar. Raðið tómötunum yfir laukinn og síðan mosarella yfir tómatana. Það má í rauninni nota hvað ost sem er í þennan rétt, því bragðmeiri því betri.
5 – Stráið Grænmetis-Paradís kryddinu síðan yfir ostinn og smávegis af salti.

Bakist við 200 gráður í 25-30 mínútur. Hellið smá olíu yfir sveppina þegar þeir koma úr ofninum. Ekki verra að hafa sítrónuolíu. Gott að borða með góðu fersku salati með góðri salatsósu. Læt eina góða salatsósu fylgja hér með. Hún geymist vel í ísskáp í nokkra daga

SALATSÓSA – góð á allt

2 dl góð olía
½ – 1 dl vatn (má sleppa)
1 msk Dijon sinnep
1 sóló hvítlaukur (kúlulagaður) eða 2 hvítlauksrif
3-4 cm engiferrót
sítróna
salt
Cayenna pipar (má sleppa)

AÐFERÐ:

Finnst best að nota krukku með loki sem ég set allt út í og hristi.

Set olíu, vatnið og sinnepið í krukkuna. Nota fínt rifjárn til að rífa niður hvítlaukinn og engiferinn. Ríf einnig börkinn af sítrónunni og kreisti síðan safa úr ½ sítrónu út í. Set smá salt út í og Cayenna pipar (má sleppa).

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram