FULLT TUNGL Í TVÍBURA
FULLT TUNGL Í TVÍBURA
Þann 8. desember kl. 04:07 að nóttu til hér á landi varð Tunglið fullt á 16 gráðum og 1 mínútu í Tvíbura. Þetta er sérlega áhugavert fullt Tungl. Sérhvert fullt Tungl tengist hápunkti eða endalokum einhvers sem tengist húsinu sem það lendir í, í kortum okkar og getur lýst upp eitthvað sem við erum ekki meðvituð um. Ef þið eigið stjörnukort er gott að skoða hvar 16 gráður í Tvíbura lenda í því og meta út frá því hvað það er sem Tunglið er að lýsa upp.
Tvíburinn snýst mjög mikið um val okkar. Mars í Tvíbura hefur verið í langtíma níutíu gráðu spennuafstöðu við Neptúnus í Fiskum. Mars hefur tilhneigingu til að auka orkuna í því merki sem hann er staðsettur í og í Tvíburanum eykur hann orku hugans og hugsana okkar. Það getur leitt til þess að þær þjóta hratt um hugann – því Tvíburinn er breytilegt merki og því geta hugsanirnar okkar verið mjög tvístraðar.
MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
Þar sem Mars er á ferð aftur á bak um Tvíburann (og verður það fram í janúar á næsta ári), tengist orka hans því að fara aftur yfir staðreyndir og upplýsingar (Tvíburinn), yfir það sem gerst hefur og það sem við höfum gert (Mars) í fortíðinni. Því er verið að endurmeta það sem valið var, byggt á þeim upplýsingum sem við töldum okkur hafa. Þessi spennuafstaða er ekki alveg nákvæm, en áhrifa hennar gætir þó ennþá.
Líklegt er að þessu fulla Tungli fylgi orka, sem muni hjálpa okkur að skilja hlutina betur. Gæti jafnvel komið okkur upp á hærra stig í skilningi á þessum staðreyndum og upplýsingum.
TUNGLIÐ Í STJÖRNUKORTUM ÞJÓÐA
Tunglið í stjörnukortum þjóða er táknrænt fyrir fólkið og getur því þýtt að fólkið verði reitt yfir þeim upplýsingum og staðreyndum sem fram eru að koma. Spennuafstaðan milli Neptúnusar og Tunglsins er enn virk, en Tunglið sem er á 16 gráðum í Tvíbura og Sólin á 16 gráðum í Bogmanni eru bæði í 90 gráðu spennuafstöðu við Neptúnus – og mynda því T-spennuafstöðu.
Henni getur fylgt löngun í meira skapandi líf og sterk ósk um andlegri tengingu. Kannski tekst okkur að líta á þá valkosti sem verið er að endurmeta meira út frá andlega sjónarhorninu. Í ljósi þessa fulla Tungls veltum við væntanlega fyrir okkur hvað okkur finnst um þetta val okkar.
PLÁNETUR Í BREYTILEGUM MERKJUM
Líkt og þegar Tunglið varð nýtt þann 23. nóvember síðastliðinn erum við með sex plánetur í breytilegum merkjum, en þau merki eru Tvíburinn, Bogmaðurinn, Fiskarnir og Meyjan. Breytileikinn er merki um að við þurfum að vera sveigjanleg og aðlaga okkur breyttu umhverfi. Þegar það er mikið um breytilega orku getur okkur hins vegar fundist eins og „allt sé út‘um allt“ og hlutirnir séu frekar yfirþyrmandi, svona eins og við náum ekki utan um það sem er að gerast.
Það stórkostlega við þetta er hins vegar að með þessum breytileika er eins og losnað hafi um orkuna, svo við getum endurmótað hana út frá hærra vitundarsviði – og það getur veitt okkur tækifæri til að skynja heiminn út frá öðru sjónarhorni.
MIKILDRAGI ER RISASTÓR RYKSUGA
Eitt sem er mjög öflugt í kringum þetta fulla Tungl, fyrir utan að það er í samstöðu við rísinguna í korti Bandaríkjanna og í 180 gráðu spennuandstöðu við DC í korti ríkjasambandsins – er að Sólin er í samstöðu við það sem kallast The Great Attractor eða Mikildragi (Skv. orðabók: gríðarlegt samsafn vetrarbrauta og hulduefnis í stjörnumerkinu Mannfáki), sem er á 14 gráðum í Bogmanni.
Mikildragi er ekki pláneta sem er á ferð um sporbaug sinn, en ef þið eruð með einhverja plánetu við eða í tveggja gráðu fjarlægð til hvorrar hliðar við 14 gráður í Bogmanni getið þið verið mjög næm á orku. Kannski eruð þið að vinna með orku.
Til að öðlast frekari skýringar á Mikildraga er gott að kynna sér vefsíðu Philip Sedgwick (www.philipsedgwick.com) en hann er sérfræðingur í Mikildraga. Mikildragi er fyrirbrigði sem er á ferð aftur á bak um geiminn á 600 km hraða á sekúndu. Hann er eins og risastór ryksuga sem sogar til sín stjörnukerfi (eða vetrarbrautir).
NÝTT TÍÐNISVIÐ
Mikildragi er mjög öflugur, en menn vita samt lítið um hann. En það sem þó er vitað er að hann sendir frá sér víðfeðmt svið af nýjum tíðnum, sem við notum til að skapa Jörðina okkar með. Ný tíðnisvið, sem ekki koma bara frá auknum gosum og blossum á Sólinni, heldur líka frá Mikildraga, því hann er í samstöðu við Sólina á þessu fulla Tungli. Mikildragi er svo öflugur í geimnum að hann getur „beygt“ ljósið, svo og víddir og tíma. Þeir sem hafa hann í kortum sínum eru oft forspáir og geta „séð fyrir horn“ og séð hvað framundan er.
Þetta er dásamlegt og þessari afstöðu fylgir aukin orka frá Sól og Venusi í Tvíbura og frá Merkúr sem er í 90° spennuafstöðu við Júpiter Sú spennuafstaða var alveg nákvæm þann 23. nóvember síðastliðinn og er enn virk. Þessar afstöður tengjast stórri framtíðarsýn svo spurningin er hvort við getum bætt við þá sýn? Getum séð fyrir okkur framtíð sem er fallegri en sú nútíð sem við erum í? Séð fyrir horn og ímyndað okkur hvernig hún getur orðið?
LÖG NÁTTÚRUNNAR
Bogmaðurinn sem tengist lögum, frelsi og sannleika er mun tengdari en aðrar plánetur því sem kalla má „lög náttúrunnar“. Lög náttúrunnar tengjast Jörðinni og Alheiminum. Þegar svona mikið af upplýsingum hellist yfir okkur (Mars í Tvíbura) getur fylgt því sterk tilfinning um að við séum ofurliði borin og vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga (Tvíburinn).
Þá er gott ráð að spyrja sig hvort það sem er að gerast samræmist „lögum náttúrunnar“. Er það í samræmi við Jörðina, náttúruna og það lífræna? Eða nýtur náttúran góðs af því? Þessar spurningar um „lög náttúrunnar“ er gott að hafa sem viðmið. Flestar Kuiper-beltis pláneturnar eru mjög tengdar „lögum náttúrunnar“.
PLÚTÓ OG BLACK MOON LILITH
Plútó er í nokkuð nákvæmri 180 gráðu spennuafstöðu við Black Moon Lilith sem er á 26 gráðum og 38 mínútum í Krabba. Black Moon Lilith hefur kvenkyns orku, en karakter hennar er frekar villtur og hvatvís. Hún fer aldrei milliveginn, gefur ekkert eftir, berst til endaloka og er mjög tengd „lögum náttúrunnar“ – ekki þeim lögum sem mennirnir hafa sett. Það er því sterkt þema í korti þessa fulla Tungls.
Black Moon Lilith er í Krabbamerkinu en það merki tengist móðurhlutverkinu og börnum. Black Moon Lilith er líka í 180 gráðu andstöðu við Plútó, en hann er mjög tengdur stjórnun að ofan eins og frá stjórnvöldum, stofnunum og stórfyrirtækjum. Það verður því áhugavert að sjá hvernig móðurhlutverkið og börnin koma inn í myndina hér, svo og þetta með val okkar eða valkosti.
Sólin sem er á 16 gráðum í Bogmanni er í 150 gráðu afstöðu við Úranus, sem er á 16 gráðum í Nauti. Sú afstaða tengist mikilvægi frelsis og sannleika. Það er ekki bara Úranus sem tengdur er frelsi og sannleika, því Bogmaðurinn er það einnig. Því að vera sjálfráða, vera sá/sú sem fer sínar eigin leiðir og lýtur ekki öllum lögum mannanna.
DVERGPLÁNETURNAR Í KUIPER-BELTINU
Allar dvergpláneturnar í Kuiper-beltinu fara einn hring um sporbaug sinn á um það bil 300 árum. Þær fara því mjög hægt yfir. Það telst því vera stórmál, þegar þær eru í spennuafstöðu, samstöðu eða andstöðu í stjörnukortunum.
ALTJIRA
Skoðum fyrst Altjira sem er á 17 gráðum í Tvíbura og er því í samstöðu við bæði Mars og Tunglið. Altjira er yndisfögur. Hún er mjög tengd frumbyggjum Ástralíu og sönglínum þeirra, þeim sið þeirra að fara á „walkabout“ eða í Draumaferð og vefa inn í veruleikann stærri og betri framtíð. Orka hennar er því bæði falleg og mjög jákvæð.
TEHARON’HIAWAKO
Á 18 gráðum í Fiskum er svo Teharon‘hiawako í samstöðu við Neptúnus. Teharon‘hiawako var í mýtunni bóndi og skapandi Guð, mjög tengdur Jörðinni, landinu og landbúnaði. Hann sá um að gæta fræjanna, til að tryggja að heilbrigðum fræum væri sáð, svo enginn myndi líða hungur þegar að uppskerutíma kæmi. Að allir fengju fæðu og enginn liði skort.
ORCUS
Orcus er virkilega heillandi en hann er á 15 gráðum í Meyju. Með honum myndast breytilegur kross í kortinu vegna þess að þessar dvergplánetur og Sólin og The Great Attractor eða Mikildragi eru öll á milli 14-18 gráðum í breytilegu merkjunum. Orcus er á 15 gráðum í Meyju, í 90 gráðu spennuafstöðu við Altjira á 17 gráðum í Bogmanni.
Hún er svo aftur í 90 gráðu spennuafstöðu við Teharon‘hiawako sem er á 18 gráðum í Fiskum. Teharon‘hiawako er bæði í 90 gráðu spennuafstöðu við Sólina á 16 gráðum og Mikildraga (The Great Attractor) á 14 gráðum í Bogmanni. Þessar plánetur mynda því breytilegan stórkross, en stórkrossar eru alltaf mjög öflugir, því þeir gefa til kynna beinar aðgerðir.
ORCUS OG HELGU LÖGIN
Ef við skoðum það sem Orcus stendur fyrir, snýr hann að helgum lögum – sem eru mjög lík lögum náttúrunnar. Hann refsar þeim sem brjóta af sér gagnvart Jörðinni og andlegum lögum og fer með þá dýpra inn í myrkrið sem þeir hafa búið í og svo inn í ljós sannleikans.
Annað sem er mjög áhugavert er að Orcus er mjög tengdur því sem kallað hefur verið „Stokkhólms heilkennið“, en þetta „heilkenni“ myndast hjá fólki sem hefur verið rænt, hefur lent í gíslatöku eða er fangar einhverra hluta vegna. Eftir ákveðinn tíma fer fólkið að tengjast þeim sem halda þeim föngnum tilfinningaböndum – og fer að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni.
Þetta kallast „Stokkhólms heilkennið“, því þetta er leið þeirra sem fangnir eru til að aðlaga sig kringumstæðum og takast þannig á við þær. Í þessu tilviki er það tilgangur Orcusar að taka það inni í myrkrið og svo inn í ljós sannleikans. Þetta er mjög áhugavert í tengslum við allar þær upplýsingar sem fram eru að koma.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.
Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.
Myndir: CanStockPhoto / ifong /lucidwaters
Heimildir: Útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory, sem þýddar eru með hennar leyfi. Skýringar hennar í fullri lengd má finna á Youtube rás hennar. Sjá einnig vefsíðu hennar: www.pamgregory.com
Um höfund
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar15/09/2024FULLT OFURTUNGL OG TUNGLMYRKVI
- Greinar02/09/2024NÝTT TUNGL Í MEYJU 03.09.24
- Greinar23/08/2024LÍKAMINN GEYMIR ALLT
- Greinar19/08/2024FULLT TUNGL Í VATNSBERA 19.08.24