FULLT TUNGL Í LJÓNI 2025

Tunglið verður fullt þann 12. febrúar, en líkur eru á að flestir dagar í þessari viku verði fullir af skyndilegum og óvæntum atburðum, hugsanlegum jarðskjálftum, eldgosum eða fjárhagslegum óstöðugleika. Ýmislegt er líklegt til að koma í ljós, meðal annars tengt leiðtogum í hinum  ýmsu löndum heims. Ljónið er tákn konunga og leiðtoga – svo leiðtogahlutverkin verða í brennideplinum.   

ÚRANUS MJÖG VIRKUR

Úranus varð kyrrstæður þann 30. janúar á tuttugustu og þriðju gráðu í Nauti. Þegar pláneta er kyrrstæð aukast áhrif hennar í nokkra daga sitt til hvorrar áttar við gráðuna. Úranus er tengdur skyndilegum áföllum eða viðsnúningi hluta sem leiða oft óvæntan sannleika í ljós. Leyndarmál opinberast og það getur verið mikil skjálftavirkni, bæði bókstafleg, svo og í fjármála eða pólitíska geiranum. Við gætum líka átt von á  netárásum og rafmagnstruflunum.

Úranus verður áfram á tuttugustu og þriðju gráðunni í Nauti allan febrúar og fram til 13. mars. Á þessum tíma megum við meðal annars eiga von á truflunum á flugi. Skoðaðu endilega fæðingarkortið þitt og athugaðu hvort þú sért með einhverja plánetu á milli tuttugu og tveggja og tuttugu og fjögurra gráða í Nauti – eða einhverja plánetu í afstöðu við þessar gráður í Ljóni, Sporðdreka eða Vatnsbera, sem Úranus er þá að hafa áhrif á.

EIRÐARLEYSI OG ÆÐRI HUGUR

Sé svo, eru líkur á að þú finnir fyrir eirðarleysi og óróleika, svona eins og þú sért ekki lengur að passa í það sem er í kringum þig. Úranus er líka tengdur við æðri huga og byltingar og það er að verða mikil meðvitundarbylting, svo og kærleiksbylting. Við megum líka eiga von á byltingum á götum úti, einkum í Evrópu bæði á þessu ári og fram á það næsta.

PLÚTÓ AFHJÚPAR SPILLINGU

Plútó verður í Vatnsberanum næstu nítján árin eða fram í janúar 2044. Plánetan mun með orku sinni afhjúpa hvers konar spillingu í vísindum og tækni (en Vatnsberinn er tengdur þessum greinum) og þar munu mörg leyndarmál koma í ljós, svo það er hluti af þessari byltingarorku.  

Það eiga líka eftir að koma fram nýjungar einkum í flugi, en fyrir nokkru síðan var kynnt til sögunnar fyrsta flugvélin sem búin er til úr hampi og drifin áfram með hampolíu. Við megum því eiga von á miklum tækniframförum, svo og framförum í læknisfræði og ýmsum öðrum vísindagreinum.

NEPTÚNUS Í FISKUM

Neptúnus er á tuttugustu og áttundu gráðunni í Fiskum og hann kyndir undir ímyndunarafl okkar og framtíðardrauma okkar, því hann er í samstöðu við Norðurnóðuna (sem er táknræn fyrir framtíðarleið heildarinnar) á tuttugu og sjö gráðum í Fiskum.

Þessar tvær gráður, áður en Neptúnus heldur inn í Hrútinn eru síðustu gráðurnar í stjörnumerkjahringnum, því Hrúturinn er fyrsta merkið. Með Neptúnus á þessum gráðum gætu orðið hjá okkur tilfinningaskil, það er að segja við gætum haft tilfinningu fyrir því að vera að falla í tómarúm, því við vitum að framundan eru endalok ákveðinna þátta í lífi okkar en við höfum ekki ennþá tengt okkur við það sem er að koma. Þessi upplausn er að losa um gamla orku hjá okkur til að við getum tekið á móti því nýja.

NEPTÚNUS OG SATÚRNUS Í HRÚT

Þann 30. mars mun Neptúnus fara inn í Hrútinn, en plánetan hefur ekki verið þar í sextíu og fimm ár. Neptúnusi fylgja nýir draumar og hugsjónir fyrir framtíðina. Satúrnus fylgir á eftir Neptúnusi inn í Hrútinn, þó ekki fyrr en undir lok maímánaðar, en þessar plánetur eiga eftir að verða í samstöðu á fyrstu gráðunni í Hrútnum, sem er af mörgum kölluð sköpunargráðan. 

Síðast þegar þessar tvær plánetur lentu í samstöðu á núll gráðunni í Hrútnum var samkvæmt rannsóknum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory fyrir tólf þúsund árum síðan, svo samstaða þeirra þar er sjaldgæf og boðar miklar umbreytingar.

TILFÆRSLA MILLI MERKJA

Margar dvergplánetur eru að fara milli stjörnumerkja, sem styður enn fremur við mikið umbreytingarár framundan. Allar ytri pláneturnar skipta líka um merki á þessu ári. Neptúnus er bæði pláneta andlegs næmis og drauma, svo það er mikilvægt að leyfa sér að dreyma bæði dag- og næturdrauma og halda draumadagbók.

Júpíter er í kyrrstöðu í stefnu beint fram á við á ellefu gráðum í Tvíburum. Bæði Júpíter og Úranus eru mjög tengdir sannleikanum og framtíðinni og þar sem Júpiter er í Tvíburunum eru líkur á að mikið af upplýsingum komi fram á næstunni.

Við gætum verið að breyta um stefnu eða um sjónarhorn og breyta viðhorfum okkar, því Júpíter breytir skoðunum okkar á staðreyndum og upplýsingarnar koma í gegnum Tvíburana, svo við gætum haft aðra skoðun eða mismunandi sjónarhorn á upplýsingunum sem fram koma. Einnig er mikilvægt að muna að Tvíburinn er tengdur fuglum og lungum – ef þú skilur mig, svo þetta verður áhugavert.

FULLA TUNGLIÐ

Tunglið verður fullt á tuttugu og fjórum gráðum í Ljóni klukkan 13:55 samkvæmt GMT tíma þann 12. febrúar. Sólin er á tuttugu og fjórum gráðum í Vatnsbera, en á fullu Tungli eru Sól og Tungl alltaf í andstöðu við hvort annað og Ljónið er fast merki. Ljónið er eldmerki, tengt hinu konunglega ljóni frumskóganna, auk þess sem það er mjög tengt fullveldi og því að láta okkar eigið ljós skína á skapandi og sterkan hátt. Svona eins og: Ég veit hver ég er og með því að skína mínu eigin ljósi geri ég öðrum kleift að gera slíkt hið sama. Þannir færir Ljónið okkur hugrekki til að stíga að fullu inn í eigin styrk.

Sólin á tuttugu og fjórum gráðum í Vatnsbera er í hundrað og áttatíu gráðu spennuafstöðu við Tunglið á tuttugu og fjórum gráðum í Ljóni og báðar pláneturnar eru svo í níutíu gráðu spennuafstöðu við Úranus. Það er hiti í málunum, uppreisnarorka í gangi og krafa um heiðarleika, sannleika og réttlæti öllum til handa.

ÚRANUS OG SEDNA

Úranus er í samstöðu við umbreytingarpláentuna Sedna sem er ein af dvergplánetunum. Samstaðan er kannski frekar gleið þar sem það er rétt um sex gráður á milli plánetanna en Úranus á eftir að nálgast Sedna nokkuð hratt og vera kominn inn í Tvíburana og í nána samstöðu við Sedna þann 7. júlí á þessu ári. Það eru því allar líkur á að margir verði á næstu mánuðum eða framundirlok árs að „sleppa tökum“ á því sem þeir hafa haldið fast í, því Sedna snýst um myndbreytinguna sem verður þegar við sleppum tökum á því gamla og umföðmum hið nýja. Úranus kann að valda því að fólk þarf að sleppa skyndilega og án mikils fyrirvara.

Líkur eru á að á þessu ári skipti margir um starf, hætti í samböndum sem þeir eru í, finni sig ekki lengur í félagasamtökum sem þeir hafa starfað í og annað slíkt – eða flytji skyndilega. Allt þetta skyndilega er framundan fyrir okkur flest.

MARS Í KRABBA

Mars er enn á ferð aftur á bak í Krabba og verður það til 24. febrúar. Hann er því eins nálægt Jörðu og hann getur verið og auk þess sem hann er utan marka fram til 7. apríl. Hann getur því verið nokkuð öfgafullur og stjórnlaus. Mars í Krabba er mjög táknrænn fyrir þörfina til að vernda allt sitt, sitt land, sitt svæði og sína fjölskyldu.

Mars er í hundrað og tuttugu gráðu samhljóma afstöðu við Satúrnus í Fiskum, en Satúrnus er táknrænn fyrir mörkin okkar, sem oft eru óljós þegar hann er í Fiskum. Hann er líka í sextíu gráðu samhljóma afstöðu við Úranus, sem getur þýtt að þótt Krabbinn sé almennt umhyggjusamur geti hann gert eitthvað frekar óvanalegt og jafnvel ögrandi á næstunni.

Mars er líka á síðustu gráðu í tólfta húsi í kortinu fyrir Reykjavík, sem getur bent til mála sem þarf að gera upp – eða einhvers sannleika sem kemur skyndilega (Úranus) upp á yfirborðið sem getur leitt til mikils tilfinningahita.

ERIS, SÓLIN OG TUNGLIÐ

Sólin er í sextíu gráðu samhljóma afstöðu við dvergplánetuna Eris í Hrút og Eris er síðan í hundrað og tuttugu gráðu samhljóma afstöðu við Tunglið í Ljóni. Það er eldur og hiti í afstöðunni á milli Eris og Tunglsins, en í kortum þjóða er Tunglið táknrænt fyrir fólkið. Eris berst fyrir frelsi og réttlæti og því að hlustað sé á hverja einustu rödd. Hennar rödd gæti því heyrst hátt á götum úti eða á samféalgsmiðlunum.

LJÓNIÐ ER TENGT HJARTANU

Stjörnuspekilega séð er Ljónið það merki sem tengist mest hjartanu. Það er því mjög hjartatengd orka sem fylgir þessu fulla Tungli í Ljóni, sem hvetur okkur til að hækka tíðni okkar og fara upp úr Sólar Plexus orkustöðinni, eða baráttu- og valdastöðinni og upp í hjartað. Senda orku frá hjartanu út til allra í kringum okkur, æfa okkur með því að stunda daglega hjartaöndun og koma á betri tengingu á milli huga og hjarta.

Með hjartaöndun öndum við inn og út í gegnum hjartað og myndum þannig tengingu milli hjarta og huga, en hjartað sendir fimm þúsund sinnum fleiri boð til heilans en heilinn til hjartans. Hjartað er öflugasta orkustöðin og með því að örva hana erum við að auka kærleiksorkuna í heiminum. Þannig getum við umbreytt honum til betri vegar.

Með því að SMELLA HÉR geturðu séð skýringar á orkunni fyrir árið 2025.

STJÖRNUKORTIN frá mér eru á sérstöku Valentínusartilboði út þessa viku. SMELLTU HÉR til að panta kort fyrir ástina þína – eða sjálfa/-n þig.

Heimildir:  Útdráttur úr skýringum Pam Gregory stjörnuspekings í bland við eigin skýringar á orkunni

Myndir: Stjörnukort og Shutterstock.com

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram