FULLT TUNGL Í KRABBA

FULLT TUNGL Í KRABBA

Rétt eftir miðnætti eða klukkan 00:33 í nótt, þann 27. desember, varð Tunglið fullt í Krabbanum. Á fullu Tungli eru Sól og Tungl alltaf í hundrað og áttatíu gráðu andstöðu við hvort annað. Í þessu tilviki er Sólin á fjórum gráðum og 58 mínútum í Steingeit og Tunglið á fjórum gráðum og 58 mínútum í Krabba. Þetta er þriðja Tunglið í röð af sex, sem eru í kringum fimm gráður í þeim merkjum sem þau lenda í. Ef þið eruð með einhverjar plánetur svona á bilinu fjórar til sex gráður í einhverjum merkjum, koma þessi fullu Tungli til með að hafa nokkuð sterk áhrif á ykkur.

KRABBINN STJÓRNAR TUNGLINU

Krabbinn stjórnar Tunglinu og því er þetta fulla Tungl mjög fallegt tákn fyrir árstímann, því Krabbinn er mjög umhyggjusamur, viðkvæmur og með ríka samúðarkennd og vill hlúa að öðrum. Þótt gott sé að hlúa að ástvinum, vinum og vandamönnum er ekki síður mikilvægt að hlúa að sjálfum sér.

Hið áhugaverða við þessa afstöðu er að Tunglið táknar þörf okkar fyrir tilfinningalegt öryggi og það tengist Krabbanum og Sólin táknar þörf okkar fyrir fjárhagslegt öryggi, svo ákveðnir þættir í tengslum við þessi mál gætu verið að koma í ljós á þessum tíma. Skoðið því hvar þessar gráður lenda í kortum ykkar. Eitthvað þessu tengt gæti verið að koma í ljós á þessum tímapunkti, sem Tunglið væri að beina ljósi sínu að, svo skoðið endilega hvar fjórar gráður í Krabba lenda í kortunum ykkar.

Kortið er fyrir Reykjavík

NOKKRAR SEXTÍU GRÁÐU AFSTÖÐUR

Það er sextíu gráðu samhljóma afstaða á milli Sólar á fjórum gráðum og 58 mínútum í Steingeit og Satúrnusar á tveimur gráðum í Fiskum. Einnig er sextíu gráðu samhljóma afstaða á milli Satúrnusar á tveimur gráðum í Fiskum og Júpiters á fimm gráðum í Nauti. Júpiter á fimm gráðum í Nauti er svo í sextíu gráðu afstöðu við Tunglið á fjórum gráðum og 58 mínútum í Krabba.

Þessar þrjá sextíu gráðu afstöður styrkja öll þau tækifæri sem upp kunna að koma á þessum tíma og geta tengst frjósemi og því að við séum að klekja út eitthvað fyrir framtíðina, sem er bæði mjög jákvætt og víðfeðmt.

Afstaðan á milli Júpiters og Satúrnusar tengist þessu dásamlega jafnvægi á milli útþenslu í vexti og varkárni eða varkárrar bjartsýni, svo það er um að gera að flýta sér ekki um of, heldur hugsa hlutina vel áður en framkvæmt er. Þetta er táknmynd um jákvæðan stöðugleika og við eigum eftir að sjá mikið af slíku árið 2024.

GABRÍEL ERKIENGILL

Satúrnus er einnig í samstöðu við eina af fjórum konunglegum stjörnum Persíu, fastastjörnuna Fomalhaut sem er á þremur gráðum í Fiskum. Sú stjarna er mjög tengd Gabríel erkiengli, en hann er táknrænn fyrir hinn andlega kennara. Júpíter sem er á fimm gráðum í Nauti, er á nákvæmlega þeirri gráðu sem Tunglmyrkinn í Nauti varð á þann 28. október.

Svo ef þið lítið til baka og skoðið hvað var að gerast þá gætuð þið fengið einhverjar vísbendingar um hverju þetta tengist. Þið gætuð fengið einhverjar vísbendingar þar eða í kringum fjármálin ykkar, t.d. hvort þetta tengist endurskipulagningu þeirra.

ÁRAMÓTAHEIT

Orkan er eins og bergmál af því sem var að gerast á Tunglmyrkvanum 28. október svo það er yndislegt á þessu fulla Tungli í Krabba, líkt og á Sólstöðunum, að setja sér áramótaheit og búa til mynd af þeirri útgáfu af ykkur sjálfum eins og þið viljið vera árið 2024. Í reynd ættu þetta ekki bara að vera áramótaheit, heldur lýsing á því hvernig við viljum að líf okkar verði við lok árs 2024. Við megum búast við miklum breytingum, því við erum líkleg til að fara í gegnum mörg skammtafræðileg (Quantum) stökk í þroska okkar á komandi ári.

MARS OG ÚRANUS

Mars er enn í hundrað og fimmtíu gráðu afstöðu við Úranus, svo rennið yfir það sem var að gerast í lok október hjá ykkur. Norðurnóðan verður áfram í Hrútnum allt árið 2024 og fer ekki inn í Fiskana fyrr en í janúar 2025. Afstöðurnar núna undirstrika því enn frekar að við þurfum að sýna meiri seiglu, vera meira sjálfbjarga og draga fram brautryðjandann í okkur sjálfum. Vera jafnframt öruggari í okkar innri krafti og okkar innra sjálfi. Leita eftir meira sjálfræði og öðlast fullvissu á því hver við erum.

CHIRON BREYTIR UM STEFNU

Rétt í kringum þetta nýja Tungl (26. desember) kemur Chiron til með að stöðvast til að breyta um stefnu og fara fram á við. Þið munið hvað gerist þegar pláneturnar eru að snúa sér. Þær bora sig niður á einn punkt og orkan frá þeim verður enn magnaðri en vanalega. Þessi mikilvægi viðsnúningur kemur til með að verða á sömu gráðu í Hrút og stóri Almyrkvinn verður í Hrútnum þann 8. apríl 2024. Almyrkvinn kemur að mati ALLRA stjörnuspekinga til með að verða mjög magnaður.

Skoðið fæðingarkortin ykkar, vegna þess að í því sjáið þið hvar upprunalega áfallið eða særindin eru. Allir eru með Chiron einhvers staðar í fæðingarkorti sínu og okkur er ætlað að breyta því áfalli eða þeim særindum í lífi okkar yfir í leiðtogahlutverk, á leið okkar í gegnum lífið.

Í HVAÐA HÚSI KEMUR CHIRON FRAM

Þeir sem eru með Chrion til dæmis í Hrútnum, eru gjarnan með áfallið sitt eða særindin í kringum ég vitund sína, ég er, ég hef leyfi til að vera til – svo þeir gætu hafa orðið fyrir einhverju áfalli eða særindum í kringum slík mál þegar þeir voru litlir, ekki fundist þeir eiga tilverurétt annað hvort vegna fjölskyldunnar eða vegna  þess samfélags eða menningar sem þeir fæddust inn í, sem gæti leitt til fórnarlambstilfinningar, en þessi fórnarlambsmeðvitund er mjög ríkjandi í heiminum.

Afstaða Chiron á þessu fulla Tungli í Krabba snýst líka mikið um sjálfsumönnun og heildin mun fá  annað mjög stórt tækifæri til slíks þegar Sólmyrkvinn verður þann 8. apríl á næsta ári. Þá gefst sameiginlegt tækifæri til heilunar á þessari fórnarlambsvitund. Þetta gæti hugsanlega breytt skammtabylgjustrúktúrnum og þannig breytt framtíðinni.

PLÚTÓ Á TUTTUGU OG NÍU GRÁÐUM

Plútó er á þessu fulla Tungli á tuttugustu og níundu gráðu í Steingeit, en sú gráða er táknræn fyrir skuggahlið merkisins. Því er líklegt að á þessum tíma komi fram margar kröfur um sannleika, frelsi, jafnrétti og réttlæti þegar við höldum inn í árið 2024 en Plútó mun verða á þessari gráðu, ekki bara við fulla Tunglið, heldur líka í janúar, september október og nóvember á næsta ári. Eftir að hann fer inn í Varnsberann verður ekki aftur í Steingeit fyrr en eftir um það bil 240 ár.

Við getum því búist við að gerð verði örvæntingarfull tilraun til að viðhalda óbreyttu ástandi Steingeitarkerfisins, sem er táknrænt fyrir lóðrétta stjórnun að ofan. Sú krafa verður sífellt meira eins og hljóð í tómri tunnu, en með aukinni Vatnsberaorku (Plútó í Vatnsberanum) og Úranusi sem stjórnar Vatnsberanum, getur hún orðið öfgakenndari. Verið meðvituð um það vegna þess að þegar við förum inn í 2024 er líklegt að óskir um frelsi og sannleika muni aukast.

SÓL OG IXION Í SAMSTÖÐU

Sólin er í samstöðu við dvergplánetuna Ixion, sem er á fjórum gráðum í Steingeit, en Ixion er samkvæmt Alan Clay stjörnuspekingi, táknrænn fyrir hina leitandi meðvitund. Með því að þróa áreiðanleika okkar og fylgja innri hamingju, með því að finna gleði í gegnum einfaldleikann og þetta ótamda barn í okkur og elska það, styrkjum við sjálfstæði andans. Spurningin sem Ixion spyr er hvort reglurnar sem við erum að spila eftir séu þær réttu. Hún getur varla verið meira viðeigandi, miðað við það sem framundan er árið 2024.

MERKÚR OG MARS Í SAMSTÖÐU

Á þessu fulla Tungli eru Mars á tuttugu og þremur gráðum og Merkúr á tuttugu og fimm gráðum í Bogmanni í þéttri samstöðu og Merkúr er einnig í samstöðu við dvergplánetuna Varda á tuttugu og sjö gráðum. Þessar plánetur eru svo í níutíu gráðu spennuafstöðu við Neptúnus á tuttugu og fimm gráðum í Fiskum, en afstaða Varda við Neptúnus mun vara allt næsta ár.

Merkúr veitir okkur nokkurs konar beint miðilssamband, því hann var boðberi guðanna, og veitir okkur aðgang að þessari hátíðniorku til að skapa nýja heiminn okkar með. Við erum að gera það einmitt núna og í andlegu samhengi er níutíu gráðu spennuafstaða Merkúrs við Neptúnus dásamleg. Spennuafstaðan er ekki krefjandi heldur er hún bara eins og sandkornin í ostruskel sem mynda perluna.

Samstaðan á milli Merkúrs og Mars skerpir hugann og við gætum verið mjög áhugasöm og tjáð okkur um framtíðarsýn okkar, þá nýju Jörð sem okkur dreymir um. Hún getur verið svo fljót að mótast, vegna þess að pláneturnar eru í Bogmanni, en hann er breytilegt eldmerki.  Marsorkan í breytilegum eldi getur verið svolítið örg og pirruð og talað of hratt – svo það er mikilvægt að hafa það í huga og muna að draga andann. Einnig er gott að vera varkár í félagsmálum og í fjölmiðlum, því það getur verið stutt í kveikjuþræðinum.

PLÚTÓ OG ÖXULNÓÐAN

Plútó er í nokkurs konar minnkandi níutíu gráðu spennuafstöðu við Öxulnóðuna. Suðurnóðan er eins og þið vitið alltaf í hundrað og áttatíu gráðu spennuafstöðu við Norðurnóðuna og er því á tuttugu og einni gráðu í Vog. Afstaðan hefur hins vegar verið mjög öflug allt þetta ár og þvingað okkur til að velja á milli þess hvort við viljum lifa í kærleika eða ótta, lifa í fórnarlambshlutverki eða í fullri meðsköpunarvitund. Árið 2023 hefur því verið stóra valárið. Hver og einn hefur tekið ákvörðun fyrir sig og þannig höfum við stillt upp lífi okkar fyrir árið 2024 og áfram inn í framtíðina.

JÚPITER BREYTIR UM STEFNU

Í lok desember stöðvast Júpíter á fimm gráðum og 34 mínútum í Nauti, til að breyta um stefnu og fara fram á við. Ef þið eruð með plánetur í föstu merkjunum Nauti, Ljóni, Sporðdreka eða Vatnsbera á bilinu þrjár til sjö gráður eru líkur á að stórt tækifæri sé í uppsiglingu, eða einhver viðurkenningu eða útvíkkun í viðskiptum ykkar, allt eftir því hvar þetta lendir í kortunum ykkar.

Þessi afstaða er mjög hvetjandi og við getum haldið áfram inn í árið 2024 með tilfinningu fyrir bjartsýni, því þann 1. janúar fer Merkúr líka beint fram á við. Þá munu allar pláneturnar, nema Úranus, vera á ferð beint fram á við. Úranus bætist ekki í hópinn fyrr en þann 27. janúar, svo okkur mun á vissan hátt finnast við laus úr gildru þá. Hlutirnir munu gerast hratt, vegna þess að þetta verður viðburðaríkt og dramatískt ár.

VIÐ SKÖPUM OKKAR EIGIN RAUNVERULEIKA

Við sköpum okkar eigin raunveruleika með tíðni okkar og erum 100% ábyrg fyrir honum. Raunveruleikinn sem við sjáum í kringum okkur er skapaður af heildinni, frekar en okkar eigin tíðni. Við höfum hins vegar ekki að fullu skilið þá krafta sem við búum yfir til að skapa okkar eigin raunveruleika og mörg okkar skiljum alls ekki að við skulum hafa geta skapað þennan hrylling sem við sjáum í kringum okkur í heiminum.

Sem líkindi má segja að ef við horfum í spegilinn og erum súr á svip, getum við ekki breytt spegilmyndinni með því að fara inn í  spegilinn. Við verðum að gera það með því að brosa og þá fáum við bros til baka. Munið því þegar þið setjið ykkur markmið eða ásetning fyrir árið 2024 að hafa hann í fyrstu persónu, eins og hann hafi nú þegar gerst.

Hægt er að panta persónulegt stjörnukort með því að SMELLA HÉR.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn. Allir nýjir áskrifendur fá ókeypis netútgáfu af bók minn LEIÐ HJARTANS þegar þeir skrá sig.

Myndir: Shutterstock.com – Stjörnukort/Guðrún

Heimild: Úrdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory sem sjá má í heild sinni HÉR.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram