FRÁBÆR BÓK Í JÓLAPAKKANN

Ef þú ert ekki þegar búin/-n að setja einhverja bók á óskalistann fyrir jólin, mæli ég eindregið með bók þeirra hjóna, Margrétar Þorvaldsdóttur og Sigmundar Guðbjarnasonar, HEILNÆMI JURTA OG HOLLUSTA MATAR. Allir þeir sem áhuga hafa á náttúrulegum leiðum til betri heilsu finna eitthvað við sitt hæfi í bókinni og læra heilmikið um bæði innlendar og erlendar jurtur sem nota má til að styrkja heilsuna.

Hið merkilega er að hjónin eru að fjalla um þær lækningar sem hafa verið stundaðar frá örófi alda um allan heim, allt fram í byrjunar 20. aldar. Þá ákvað Rockerfeller að stofna lyfjafyrirtæki í Bandaríkjunum. Stefna hans í framhaldinu var að gera starf þeirra sem stunduðu hómópatískar lækningar eða jurtalækningar tortryggilegar og bola þeim af markaðnum.

FRÆÐSLA UM SJÚKDÓMA OG LEIÐIR TIL BATA

Sigmundur er fræðimaður fram í fingurgóma og þið kannist kannski við hann fyrir rannsóknir hans á lækningagildi ætihvannar. Hann er stofnandi Saga Medica og hefur þróað bætiefni úr hvönninni, sem hafa verið í sölu í fjölda ára. Sigmundur fjallar um ýmislegt í sínum hluta bókarinnar, meðal annars er að finna í kafla IV sem fjallar um Virkni náttúruefna úr jurtum og sjúkdóma, undirkafla sem fjallar um kvef og flensur. Auk þess að fjalla þar um bakteríur og sýkla sem okkur stendur ógn af, fjallar hann á mjög einfaldan en skilmerkilegan hátt um varnarkerfi líkamans.

Í öðrum köflum í bókinni fjallar Sigmundur um þau næringarefni og hjálparefni sem í matnum eru og um jurtir sem eru í kringum okkur í náttúrunni og við getum nýtt okkur til heilsubótar.

SAGA JURTALÆKNINGA Á ÍSLANDI

Margrét fjallar í sínum hluta bókarinnar, en ljóst er að þau hjónin hafa skipt skilmerkilega með sér verkum, um jurtalækningar á Íslandi en þær eiga sér greinilega mjög langa sögu. Þessi hluti bókarinnar finnst mér afar merkilegur og hef haft gaman af að lesa um læknismenntaða menn sem heimildir eru um hér á landi allt frá 13. öld.

Margrét vísar meðal annars í LÆKNINGBÓKARHANDRIT Þorleifs Björnssonar. Þar kemur fram að jurtir eins og anís, basilíka, birki, blaðlaukur, búrót, dill og einir, svo og margar fleiri væru góðar til lækninga við hinum ýmsu sjúkdómum. Í raun er ekkert sem segir að ekki sé hægt að nota þessar jurtir ennþá til þess.

Einnig vitnar hún í bókina GRASANYTJAR BJÖRNS Í SAUÐLAUKSDAL við Patreksfjörð, en hann benti fólki á nýta sér jurtir sem uxu allt í kringum það, sér og sínum til lækninga. Hann var mikill ræktunar- og jurtaáhugamaður, flutti fyrstur manna inn kartöflur til landsins árið 1758 og fékk fyrstu uppskeruna árið 1759.

Þar sem mágkona mín Guðný Ólafsdóttir á ættir sínar að rekja til Sauðlauksdals, hafði ég af einskærri forvitni samband við hana, þegar ég var að skrifa þessa grein. Mig langaði að vita hvort hún tengdist Birni á einhvern hátt – og í ljós kom að hún er ein af afkomendum hans.

LANGLÍF HANDBÓK

Þessi flotta bók þeirra hjóna á að mínu mati eftir að verða langlíf handbók, væntanlega á fleiri heimilum en mínum. Mæli eindregið með henni sem fróðleiksnámu um lækningamátt jurta, auk þess sem hún eykur almennan skilning á starfsemi líkamans og þekkingu á lækningasögu landsmanna.

Neytendaupplýsingar: Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum.
Myndir: Kápumynd birt með leyfi útgefanda – Hvannarmynd úr myndasafni Guðrúnar

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram