BLEIKJA MEÐ SÆTKARTÖFLUMÚS

Það er snillingurinn okkar hún Björg Helen Andrésdóttir sem á uppskrift
vikunnar. Hún er svo dugleg að deila með okkur bragðgóðum og einföldum
réttum, sem tekur ekki langan tíma að elda.


BLEIKJA MEÐ SÆTKARTÖFLUMÚS

Hæ Björg Helen hér!

Mér finnst svo mikilvægt að rifja reglulega upp hvað það tekur oft lítinn tíma að elda hollan og bragðgóðan mat. Mér verður oft hugsað til Ítalanna, því þeir búa til þennan líka dásamlega mat sem er oft svo einfaldur.

Þeir nota yfirleitt fá hráefni í réttina sína sem samt bragðast svo vel.

Hér ég ég með uppskrift að rétti með nýrri bleikju með basil-sætkartöflumús. Þennan rétt tekur ekki langa stund að elda en bragðið svíkur engan.

INNIHALDSEFNI:

bleikja
himalajasalt
Asískt fiskikrydd – Kryddhúsið
olía
smjör

2 stórar sætar kartöflur helst lífrænar
basilíka fersk
sítrónuolía Olitalia eða raspaður börkur af sítrónu og safi úr henni
smjörklípa – má sleppa
1 tsk blómahunang eða Agave síróp frá Himneskri hollustu
sjávarsalt
svartur pipar

AÐFERÐ:

Best er að byrja á að útbúa sætkartöflumúsina því bleikjuna tekur litla stund að steikja.

1 – Afhýðið sætkartöflurnar og skerið í bita, alls ekki of litla og sjóðið. Hellið vatninu úr pottinum og látið þær liggja eftir.
2 – Saltið, piprið og setjið eina teskeið af hunangi eða agave sírópi út í. Setjið 2 teskeiðar af sítrónuolíunni út í, meira eða minna eftir smekk – eða rífið börk af einni sítrónu og setjið út í ásamt svolitlu af ferskum sítrónusafa.
3 – Mér finnst æðislegt að setja smá klípu af íslensku smjöri út í en það má sleppa því.
4 – Stappið þessu öllu vel saman þannig að úr verði sætkartöflumús.
5 – Síðast en ekki síst grófsaxið ferska basilíku og hrærið saman við.

Svo er það bleikjan.

1 – Setjið svolítið vel af olíu og klípu af smjöri á pönnuna og bræðið.
2 – Þegar pannan er orðin heit setjið bleikjuna á hana og snúið roðinu niður. Saltið og stráið Asíska fiskikryddinu yfir.
3 – Þar sem að bleikjuflökin eru svo þunn sný ég þeim ekki á pönnunni. Leyfi þeim bara nokkurn veginn að eldast í gegn á roðinu.
4 – Set síðan lok á pönnuna rétt í lokin til að elda í gegn. Sumir vilja snúa bleikjunni og það er líka í góðu lagi.
5 – Steikingin ætti ekki að taka nema um 5-8 mínútur.

Njótið vel 🙂

Mynd: Björg Helen Andrésdóttir

 

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 517 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?