ASHWAGANDHA VIRKAR VEL Á HEILSUNA

ASHWAGANDHA VIRKAR VEL Á HEILSUNA

Lestrartími: 3 1/2 mínúta

Nafnið er langt og flókið, en áhrifin af efnunum úr þessum sígræna runna sem vex í Asíu og Afríku eru það síður en svo. Ashwagandha er ein mikilvægasta jurtin í hinum aldagömlu Ayurvedískum  náttúrulækningum sem stundaðar eru á Indlandi. Í þúsundir ára hafa Indverjar notað Ashwagandha til að draga úr streituálagi hjá fólki, auka orku líkamans og bæta einbeitinguna, auk þess sem Ashwagandha hefur verið notað til að draga úr liðagigt og gegn svefnleysi.

Ashwagandha runninn er hluti af plöntuhópi sem kallast adaptógen, en þessar plöntur eru þekktar fyrir að stuðla að betri heilsu þegar þeirra er neytt, hvort sem er í gegnum te, duft, tinktúrur eða bætiefni. Ashwagandha er líka þekkt sem ginseng Indlands, stundum kallað  vetrarkirsuber en latneska heitið á plöntunni er Withania somnifera.

Helstu hlutar plöntunnar sem notaðir eru til lækninga eru rætur hennar og ber. Úr þessum plöntuhlutum eru svo unnin bætiefni, ýmist í dufthylki eða í fljótandi formi. Ég gríp oft til Ashwagandha þegar ég „heyri nýrun mín kvarta“ undan miklu álagi og vinnu og það skeikar ekki að það dregur úr innri streitu og orkan eykst.

SJÖ GÓÐ ÁHRIF ASHWAGANDHA Á HEILSUNA

Þegar leitað er heimilda um Ashwagandha á ýmsum erlendum vefsíðum kemur í ljós að rannsóknir víða um heim hafa sýnt fram á að það hefur að minnsta kosti þessi sjö jákvæðu og heilsueflandi áhrif á líkamann:

1 – DREGUR ÚR STREITU OG KVÍÐA

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á getu Ashwagandha til að draga verulega úr bæði streitu og kvíða hjá fólki.

Ein sérstök rannsókn sýndi fram á að Ashwagandha hafði sérlega góð áhrif á svefn þátttakenda, en þeir sem fengu jurtalyfið sváfu mun betur en hópurinn sem fékk lyfleysu[i].

2 – LÆKKAR BLÓÐSYKUR OG FITU Í BLÓÐI

Nokkrar minni rannsóknir hafa sýnt fram á að Ashwagandha geti dregið úr glúkósamagni í blóði og lækkað þríglýseríð, en það er algengasta fitan í blóðinu[ii]. Ein rannsókn sýndi meira að segja þá niðurstöðu að Ashwagandha lækkaði blóðsykurinn álíka mikið og lyf sem notuð eru gegn sykursýki týpu 2[iii].

3 – EYKUR STYRK OG VÖÐVASTÆRÐ

Rannsóknir hafa sýnt að áhrif Ashwagandha leiða til aukins styrks og vöðvastærðar. Ekki er bara um aukinn vöðvastyrk að ræða, heldur líka lægri fituprósentu og lægra kólesteról í blóði þegar Ashwaganda er notað.

Rannsókn sem einungis var gerð á karlmönnum og sýndi að þeir sem tóku inn Ashwagandha juku mjög styrk sinn (mælt með bekkpressu og fótleggjaæfingum), svo og vöðvastærð bæði í handleggjum og bringu, auk þess sem dró úr fituprósentu líkamans og minna var um vöðvaskaða eftir æfingar[iv].

4 – EYKUR KYNORKUNA HJÁ KONUM

Að minnsta kosti ein rannsókn sýnir fram á aukna kynorku hjá konum sem höfðu upplifað kyndeyfð[v]. Notkun á Ashwagandha leiddi til marktækrar breytingar á örvun, fullnægingu og ánægju þeirra sem þátt tóku. Að auki fjölgaði samförum hjá þeim og þær fundu fyrir minni kvíða og streitu í kringum kynlíf og kynvitund sína.

5 – EYKUR FRJÓSEMI OG TESTOSTERÓN HJÁ KARLMÖNNUM

Ashwagandha hefur líka jákvæð áhrif á kyngetu karla. Þegar karlmenn sem virtust ófrjóir tóku inn Ashwagandha jukust gæði sæðisins verulega, þar sem jafnvægi komst á kynhormóna þeirra. Að lokinni einni rannsókn urðu 14% af konum þátttakenda ófrískar[vi].

Í annarri rannsókn þar sem rannsakað var hvort streita minnkaði hjá þátttakendum kom í ljós að Ashwagandha jók testosterónið hjá karlmönnum en ekki konum.

6 – SKERPIR EINBEITINGU OG MINNI

Ashwagandha hefur jákvæð áhrif á hugarstarfsemi, minni og hreyfiviðbrögð. Þeir þátttakendur í rannsókn sem tóku inn Ashwagandha sýndu mun betri viðbragðstíma og skerpu þegar þeim var skipað að gera ákveðnar hreyfingar. Að auki bætti Ashwagandha athygli þátttakenda og minnisgetu[vii].

7 – STUÐLAR AÐ BETRI HJARTAHEILSU

Minnst tvær rannsóknir hafa sýnt fram á að Ashwagandha hækkar VO2 mörkin, en þau mæla hámark þess súrefnis sem viðkomandi tekur inn undir líkamlegu álagi[viii].[ix] Þessi mörk mæla úrhald hjarta-/lungnadyns (sérstakt hljóð sem heyra má við hjartahlustun og virðist tengjast hjartslætti en stafar frá lungnavef – skv. idord.is) eða hversu vel hjarta og lungu flytja súrefni út til vöðva undir líkamlegri áreynslu. Sú rannsókn var reyndar gerð á heilbrigðum íþróttamönnum, en í viðmiðunarhópnum var blandaður hópur þátttakenda.

Neytendaupplýsingar: Þú finnur Ashwagandha í verslun Mamma Veit Best á horni Dalbrekku og Auðbrekku í Kópavogi.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.

Myndir: CanStockPhoto / eskymaks og af vef Mercola Market.com

Heimildir:

[i] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_4

[ii] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_5

[iii] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_6

[iv] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_9

[v] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_10

[vi] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_12

[vii] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_16

[viii] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_17

[ix] https://www.forbes.com/health/body/ashwagandha-benefits/#footnote_18

https://www.healthline.com/nutrition/ashwagandha
https://www.webmd.com/vitamins/ai/ingredientmono-953/ashwagandha

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 603 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram