MIKLAR UMBREYTINGAR Í JÚNÍ

MIKlAR UMBREYTINGAR Í JÚNÍ

Liz Adamson er breskur stjörnuspekingur, miðill og andlegur leiðbeinandi sem býr í Portúgal. Hún sendi nýlega frá sér fréttabréf fyrir júnímánuð. Ég fékk eintak af því sent frá vinkonu minni sem býr í Cape Town í Suður Afríku. Það hefur því ferðast aðeins um Netheima áður en það náði til mín.

Mér fannst efnið í fréttabréfinu svo áhugavert, einkum fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnuspeki og hafa verið að spá í tilfærsluna úr þriðju vídd og yfir í þá fimmtu að ég ákvað að deila því ekki bara með námskeiðshópnum mínum STJÖRNUSKINI, heldur setja það á vefsíðuna mína svo fleiri gætu notið þess. Því miður fann ég ekki vefsíðu Liz Adamson til að geta deilt með ykkur, en ef ég finn hana á næstunni bæti ég upplýsingum um hana hér inn.

JÚNÍMÁNUÐUR MIKILVÆGUR

Liz segir að í þessum mánuði verði mestu breytingar eða umskipti, frá því umbreytingin mikla varð við vetrarsólstöður og samstöðu Júpiters og Satúrnusar í Vatnsbera í desember síðastliðnum. Þetta verður því mögulega þýðingarmesti mánuður ársins. Þessi mánuður markar vendipunkt og með honum verða umskipti frá hinu innra til hins ytra. Fram að þessu höfum við verið að mótast og þroskast innra með okkur, en erum nú tilbúin til að stíga fram með nýjum krafti og nýta hann hið ytra.

En skoðum aðeins það sem á undan er gengið. Þann 26. maí síðastliðinn var almyrkvi á Tungli. Hann var svo öflugur að hann leysti úr læðingi flóðbylgju af þreytu og örmögnun hjá mörgum, nánast frá því augnabliki sem myrkvinn varð. Þessi orka náði hámarki fimm dögum eftir myrkvann og margir fundu þá fyrir meiri þreytu en nokkru sinni fyrr, en allt tengist þetta hækkandi tíðni hjá okkur.

GAMMA GEISLAR OG SÓLARBLOSSAR

Þegar Tunglmyrkvinn varð fylgi honum ofgnótt af Gamma Ljósi frá kjarna Vetrarbrautarinnar (Galaxy) sem myndaði svo stórar öldur að þegar þær skullu á Sólinni ollu þær Sólarblossum og CME-i (Coronal Mass Ejection). CME eru stórar útgeislanir af rafgasi og segulmagnaðri orku og tengjast sólarblossum. Einn daginn urðu ellefu sólarblossar.

Þetta jónaða Gamma Photon Ljós og rafgas ferðast síðan frá Sólinni til Jarðar. Það hefur valdið truflunum á rafmagni, gervihnöttum og nettengingu (wifi) á ákveðnum svæðum og við megum eiga von á að svo verði í nokkra mánuði enn.

SCHUMANN MEÐSVEIFLAN

Þetta hefur líka haft mikil áhrif á Schumann meðsveifluna (nokkurs konar hjartsláttur Jarðar). Við erum sem stendur í Schumann myrkvun (blackout) sem staðir hefur í 48 tíma og virðist halda eitthvað áfram. Það er skýrt merki um að Plánetan sé að breytast. Liz telur að myrkvun gefi til kynna endurstillingu eða endurkvörðun.

Hvað varðar mannlega efnislega þáttinn, þá kveikir Gamma Photon Ljósið á og endurforritar DNA-ið okkar og miðtaugakerfið. Þess vegna finnum við fyrir svo mikilli líkamlegri þreytu þar sem við erum að fara í gegnum þessa formþroskun í efnislíkama okkar.

ORKUHLIÐ ALLSNÆGTA OG BJARTSÝNI

Þann 6. júní var svo 6-6 orkuhlið. Það snerist um að opna okkur fyrir orku allsnægta, bjartsýni og skapandi orku fyrir Sólmyrkvann sem kom inn með Nýja Jörð, en hann varð þann 10. júní síðastliðinn á nýju Tungli. Orkan sem honum fylgdi hafði líka áhrif á líkamann og olli þreytu, en ekki eins mikilli og Tunglmyrkvinn gerði.

Þessi Sólmyrkvi snerist um fæðingu Nýrrar Jarðar og nýs upphafs á epsískan (mikilfenglegan) máta. Schumann myrkvunin varð daginn eftir, en orkan á þessu nýja Tungli varð enn meiri vegna þess að Tunglið var í samstöðu við Merkúr í Tvíbura. Við stöndum á þröskuldi nýs landsvæðis, sem er í snertanlegri fjarlægð. Við getum þurft á meiri hvíld og endurnæringu að halda í nánustu framtíð til að undirbúa okkur undir þessi umskipti.

SPENNUAFSTAÐAN MILLI SATÚRNUSAR OG ÚRANUSAR

Þann 14. júní var ein af þessum krefjandi afstöðum í júní, þegar önnur spennuafstaðan af þremur á þessu ári varð milli Satúrnusar og Úranusar. Hún undirstrikar þemað sem við höfum verið að takast á við síðustu 18 mánuði og við sjáum koma mjög skýrt fram í tengslum við faraldurinn. Liz hefur áður fjallað um þessa baráttu, en hún telur að með þessari spennuafstöðu höfum við náð vendipunkti í henni.

Þetta er baráttan á milli hinnar gömlu, feðraveldis stjórnunar að ofan, hafta og takmarkana sem Satúrnus stendur fyrir – og Úranusar sem er pláneta frelsis, uppvakningar, frumleika, einstaklingseðlisins, breytinga og uppreisnar.

Fyrsta spennuafstaðan milli þeirra varð 17. febrúar en þá var nánast allur heimurinn innilokaður. Við fundum vel fyrir þeirri tilfinningu að frelsi okkar væri skert og að við hefðum litla stjórn á málum. Engu var líkara en að Satúrnus væri að sigra þessa orrustu.

Þótt okkur finnist ekki enn að við séum búin að öðlast frelsi okkar á ný, telur Liz að þessi spennuafstaða milli þessara tveggja plánetna marki vendipunktinn og að Úranus fari að ná yfirhöndinni. Þegar þessar plánetur eru aftur í nákvæmri spennuafstöðu þann 24. desember telur hún að Úranus verði örugglega kominn í ráðandi stöðu – og að margir Ljósberar hafi þegar losað sig fullkomnlega undan takmörkunum hinnar gömlu Jarðar.

SUMARSÓLSTÖÐUR

Stærsti viðburðurinn í þessum mánuði verða Sumarsólstöðurnar þann 21. júní en þær verða kl. 03:32 aðfaranótt þess tuttugasta og fyrsta hér á landi. Þetta eru fyrstu Sumarsólstöður frá því við fórum inn í Gullna tímabilið í desember. Þess vegna eru þær öðruvísi en venjulegar Sumarsólstöður. Liz telur að þar sem Sólmyrkvinn kom okkur að þröskuldi framtíðarlandsins, þá muni Sumarsólstöðurnar mynda umskipti, sem veita þeim sem erum tilbúnin til og hafa náð nauðsynlegri tíðni að taka skrefið inn í það.

Hún lítur svo á að Sumarsólstöðurnar snúist um að fagna og tengjast sálum sem eru sama sinnis og við náttúruna, og upplifa hærri orkutíðni hinnar Nýju Jarðar. Við erum á svo nýju landsvæði að við verðum og bíða og sjá hvað fylgir þessum umskiptum og hvernig við eigum að „sigla“ í gegnum þau.

PLÁNETUR Á FERÐ AFTUR Á BAK EÐA ÁFRAM

Nokkrum klukkustundum fyrir Sumarsólstöðurnar stöðvast Júpiter til að fara aftur á bak. Það mun magna mjög upp öll einkenni Júpiters um útþenslu, allsnægtir og velgengni, þroska og heilun. Daginn eftir Sumarsólstöður endar „aftur á bak“ ferðalag Merkúrs, sem stöðvast og tekur stefnuna beint fram á við þann 22. júní.

Þann 24. júní fer Neptúnus svo inn í aftur á bak ferlið. Þá verða fjórar áhrifamiklar plánetur á ferð aftur á bak næstu fjóra mánuðina, en munu allar breyta um stefnu með fáeinna daga millibili í október. Á þessu tímabili þurfum við að fara í gegnum allt það sem þessar fjórar plánetur eru táknrænar fyrir og við eigum enn eftir að heila innra með okkur.

LOKAKAFLINN FRAMUNDAN

Við erum nú í lokakafla þessarar epísku sögu sem við höfum verið að fara í gegnum svo lengi. Mörgum gæti fundist við vera mun fjarri endalokunum en við erum. Við erum öll með röð af undirliggjandi vandamálum, særindi og þætti í lífi okkar sem við virðumst hafa verið undirokuð af. Þetta gætu verið þættir eins og krónísk heilsufarsvandamál, fíknir, geðræn vandamál, fjárhagsvandamál, fjölskylduvandamál eða vandamál tengd vinnu eða samskiptum.

Þetta eru þættir sem við höfum verið að vinna í aftur og aftur í gegnum tíðina og fundist að við værum búin að vinna alveg úr – en þeir koma alltaf upp aftur og aftur. Það er samt langt frá því að slíkt teljist mistök! Þetta hefur verið hluti af planinu og drifkrafturinn sem við þurftum til að hreinsa út gamla þriðju víddar „stöffið“, lag fyrir lag.

Þessi undirliggjandi vandamál munu því koma upp aftur og aftur, þar til við höfum endanlega hreinsað út síðasta lagið. Við erum að nálgast þann stað núna. Þegar okkur hefur tekist að hreinsa grunnlagið út, getum við snúið aftur til okkar eigin fullveldis/sjálfstæðis, laus við fortíðina.

Liz segir að við höfum í raun bara átt möguleika á að vinna þessa djúphreinsun, eftir þessa tvo síðustu Myrva (Tunglmyrkva í maí og Sólmyrkva í júní). Þetta snýst um að heila okkar skaddaða, afbrigðilega, stökkbreyttta og brenglaða DNA – og hreinsa það síðasta af prógrömmum og fórnarlambsorku úr okkur, en það er andstætt orku fullveldisins/sjálfræðisins – og hreinsa að lokum egó-orkuna frá viðhorfi innra barnsins.

Öll ferð okkar inn í Nýja Jörð snýst um að losa okkur við alla þætti egósins. Dýpsta lag egósins er í barninu, þar sem allur ótti og kúgun mótast. Liz telur að hinn mikli fjöldi kvíðatilfella og geðrænna vandamála sem er í flestum samfélögum, sé tengdur þeirri staðreynd að óttinn og skaðinn sem fastur er í egói barnsins, sé að byrja að koma upp á yfirborðið svo hægt sé að hreinsa hann.

Ef við vitum hins vegar ekki hvernig á að hreinsa hann, þá situm við föst eða drukknum í þessum tilfinningum, þótt þær tengist ekki á neinn hátt núverandi raunveruleika okkar.

P.S.

Ef þú hefur áhuga á að tengja þig fimmtu víddinni og heila gömul sár og áföll innra barnsins, getur þú verið með okkur á STJÖRNUSKINS námskeiðinu það sem eftir lifir árs. SMELLTU HÉR til að lesa meira og skrá þig.

Myndir:  frá Frantzou Fleurine á Unsplash og Pedro Lastra á Unsplash 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram