FULLT TUNGL Í DAG
Ég hef undanfarið fylgst með umfjöllun breska stjörnuspekingsins Pam Gregory. Hún er yfirleitt með myndbönd á YouTube þar sem hún fjallar um orkuna í kringum nýtt og fullt tungl.
Þar sem ég er mikil áhugamanneskja um stjörnuspeki og áhrif himintunglanna á líf okkar hér á Jörðu niðri, fylgist ég alltaf með. Ég hef líka tekið upp á því að vera með stutt spjall, sem byggt er á umfjöllunum Pam, inni á Facebook síðunni minni nokkuð reglulega.
TUNGLIÐ HEFUR ÁHRIF Á ÞIG
Þessu fulla tungli í dag fylgir tunglmyrkvi. Það er ekki almyrkvi, bara hlutamyrkvi, en tunglið er fullt klukkan 17:12 að íslenskum tíma á 15°og 34 mínútum í Bogmanni.
Ef þú átt stjörnukort getur verið gott fyrir þig að skoða hvort þú sért með einhverja plánetu í námunda við 15° í Bogmannsmerkinu til að sjá hvar í kortinu þínu, það er að segja í hvaða húsi, þessi mikla orka kemur til með að hafa áhrif.
Þetta er einn af þremur myrkvum sem verða frá 5. Júní til 5. Júlí, en í ár eru 6 myrkvar á sól og tungli í stað þeirra fjögurra sem vanalega eru, það er að segja tveir á tungli og tveir á sól.
Sól- og tunglmyrkvar eru því mikilvægir árið 2020 og Pam segir að þeir þrýsti mannkyninu áfram í þroska, en þeim fylgir yfirleitt mikil spenna. Hana má skynja víða um heim þessa dagana.
Þessi tunglmyrkvi kemur til með að hafa áhrif á þema þitt næstu 18 mánuðina, svo það verður áhugavert að fylgjast með.
NEPTÚNUS STERKUR
Pam hefur áður talað um að Neptúnus sé sterkur í kortunum núna. Í sinni bestu orku tengist hann óskilyrtum kærleika – og getur því núna tengst andlegu stökki fram á við fyrir heildina.
Hin hliðin á Neptúnusi, sem heitir eftir sjávarguðinum forna, getur haft þokukennd áhrif og því segir Pam að vangaveltur um hvað sé satt og rétt og hvað ekki, eigi eftir að halda áfram út júní
ENDURMAT Á SAMSKIPTUM
Venus er í Tvíburamerkinu í spennuafstöðu við Neptúnus í Fiskum, þótt hún sé ekki alveg nákvæm. Venus er í bakflæði – það er að segja plánetan bakkar um himinhvolfin.
Bakflæði táknar endurmat og endurskoðun á hlutum. Því er eðlilegt að fólk sé að fara í gegnum endurmat á ástarsamböndum, fjármálum (endurfjármagna lán) og skoða hvað veitir ánægju og hvað ekki.
En þar sem Neptúnus er í Fiskamerkinu getur það skapað togsteitu á milli huga (Tvíburinn tengist hugsun og upplýsingaöflun) og hjarta (tilfinningasemi Fisksins) svo það getur slegið í brýnu þarna á milli. Pam Gregory hvetur fólk til að reyna að fylgja hjartanu.
SVIK OG BLEKKINGAR
Sólin er í Tvíburamerkinu í spennuafstöðu við Neptúnus í Fiskum fyrstu tvær vikurnar í júní. Hún beinir athyglinni að svikum og blekkingum sem eiga eftir að koma upp á yfirborðið.
Sól og Venus eru líka í samstöðu við norður nóðuna í Tvíburamerkinu. Þessari afstöðu fylgir straumur af nýjum upplýsingum, meðal annars upplýsingum um svik og blekkingar, sem eiga eftir að hrista upp í sannfæringakerfi okkar.
Pam hvetur okkur til að sogast ekki inn í átök, heldur reyna að vera áhorfendur í þessu ferli og halda ró okkar og innra jafnvægi.
Það eiga eftir að vera alls konar uppljóstranir út allt árið 2020 – en sérlega mikið af þeim núna í júní, því þegar það verður myrkvi á TUNGLI, sem fer svo aftur að skína, mun það lýsa upp hluti sem hafa ekki áður sést.
RÉTTLÆTI OG SANNLEIKUR
Réttlæti er stóra þemað núna, því TUNGLIÐ er í Bogmannsmerkinu. Bogmaðurinn er táknrænn fyrir frelsi, réttlæti, sannleika, lög og reglur og sannfæringar okkar um hvað sé rétt og rangt – og þetta er öflugt tungl.
Júpiter, sem er plánetan sem stýrir Bogmanninum, er í samstöðu við Plútó sem er pláneta dauða og endurfæðingar, svo við erum öll að endurmeta skilning okkar á heiminum.
Þessu getur fylgt mikill pirringur og reiði, sem meðal annars kemur fram í mótmælum víða um heim. Það er gott að sogast ekki inn í þessa reiði, reyna frekar að halda sig við jákvæða hlið Neptúnusar og senda óskilyrtan kærleika til allra jarðarbúa.
MARKMIÐIN Á REIKI
Mars sem tengist framkvæmdaorkunni, verður í samstöðu við Neptúnus síðustu þrjár vikurnar í júní. Pam segir að þær vikur séu flottur tími til að taka andlegt stökk fram á við, leggja áherslu á að sýna umburðarlyndi og stunda æfingar sem tengja okkur inn á við eins og jóga og tai-chi eða taka þátt í Heimshugleiðslunni 14. júní.
Þar sem Mars er í Fiskamerkinu getur verið að markmið okkar verði svolítið á reiki næstu vikurnar, en þá er alltaf gott að leita inn á við og hugleiða, til að finna leið sína á ný.
BYLTINGAKENNDAR HUGMYNDIR
Merkúr verður í 60° afstöðu við Uranus í júní. Merkúr er táknrænn fyrir hugsun og Úranus fyrir byltingakenndar hugmyndir. Við megum því eiga von á því að fram komi hugmyndir og lausnir, sem eru svolítið fyrir utan vanalega boxið sem við erum í.
FORTÍÐIN ER HORFIN
Tunglmyrkvinn hefur áhrif víða um heim, meðal annars í Asíu, Afríku, Evrópu, Ástralíu og suðurhluta Suður Ameríku. Hann tengist suður nóðunni og sem er táknræn fyrir endalok einhvers.
Pam segir að skilaboðin séu skýr. Fortíðin er horfin – heimurinn verður aldrei eins og það er tilgangslaust að reyna að endurskapa hann eins og hann var. Við þurfum að horfa til nýrrar framtíðar.
Þessi myrkvi er í 1° samstöðu við The Great Attractor, sem er magnaður vetrarbrautarkraftur í alheiminum sem sogar sólkerfi til sín. Pam segir að honum fylgi hrá orka til að skapa úr nýjan heim.
Hún segir jafnframt að framundan séu rúmir sex mánuðir af dýnamísku ári – og að í lok 2020 verði ekkert eins og það var í upphafi árs. Við erum meðskapendur í nýjum heimi, svo við þurfum að hugsa um það hvernig við viljum að hann verði.
Mynd: CanStockPhoto / underworld
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025