VERÐUR LÍFSBÓKIN 2017 METSÖLUBÓK?

Þeirri hugsun laust niður í huga minn, þegar ég vaknaði á þessum fyrsta degi ársins 2017 að markmið, áskoranir eða önnur plön fyrir árið væru eins og bókaskrif. Maður byrjar á því að gera ramma að bókinni, ákveða kaflaheiti, innihald og svo framvegis, en því má líkja við markmið eða áskoranir, sem settar eru fyrir árið. Þetta árið er ég bæði með ákveðin tímasett markmið, en hef líka sett mér áskoranir, sem ég er þegar byrjuð að sigrast á.

Svo hefst vinnan við skrifin eða mótun ársins. Eins og með skrifin, breytist ýmislegt í ferlinu eða árinu. Kaflinn sem átti að verða næstsíðastur er allt í einu orðinn fyrstur. Eitthvað nýtt lærist og þá breytist handritið. Eitthvað óvænt kemur upp og þá þarf að bæta því inn í bók lífsins. Þess vegna getum við aðeins gert ramma að því ári sem framundan er, en svo þarf að fylla inn í rammann dag fyrir dag, mánuð fyrir mánuð.

Skemmtilegast er auðvitað þegar við þurfum að fara aðeins út fyrir rammann sem við höfum sett okkur og læra eitthvað alveg nýtt eða takast á við verkefni sem við héldum að við gætum ekki leyst – og að sjálfsögðu leysa það með stæl. Þá erum við svo sannarlega að vaxa og þroskast, en það er auðvitað hluti af lífsferlinu.

Megi árið 2017 færa okkur öllum hamingju, hagsæld og góða heilsu, svo við getum notið sem best þeirra gæða sem felast í því að búa hér á Jörð.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Skráðu þig á póstlistann minn, til að fylgjast með tilboðum, námskeiðum, fyrirlestrum eða öðru sem er á dagskrá hjá mér.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram