Veistu hvernig meltingin virkar?

Í starfi mínu sem heilsumarkþjálfi og leiðbeinandi á stuðningsnámskeiðum við HREINT MATARÆÐI hef ég komist að því að nánast allir þeir sem til mín leita þjást af einhvers konar meltingarvandamálum, sem leiða yfirleitt til þess að hægðir safnast upp í ristilinum og hann hættir að starfa eðlilega. Losun á hægðum er afar mikilvæg, því ef hægðir safnast upp í ristlinum og liggja við ristilvegginn geta þær lamað hann og gert það að verkum að hann missir hæfni sína til að ýta úrganginum áfram, í átt að endaþarminum.

Allir þeir sem vilja taka einhverja ábyrgð á eigin heilbrigði komast fljótt að þeirri niðurstöðu að það ræðst fyrst og fremst af fæðunni, hvort þeir ná árangri í því að endurheimta heilsu sína, því allur bati hefst innan frá og vinnur sig síðan út á við.

Meltingarvegurinn liggur í miðju líkamans og þar verða endurbæturnar að hefjast til þess að hinn raunverulegi bati geti orðið annars staðar í líkamanum. Hin forna læknisfræði Indverja og Kínverja, líkt og hin gamla hefðbundna náttúrulækningafræði, gera ráð fyrir því að níu af hverjum tíu sjúkdómum eigi rætur að rekja til meltingarfæranna, en skoðum aðeins hver þau eru og hvaða hlutverki þau gegna.

MAGINN
Maginn er perulaga vöðvapoki, sem ætlað er að taka við um 500 ml af fæðu. Fæðan kemur í magann eftir að við höfum tuggið hana með tönnunum og hreyft hana til með vörum, tungu og kjálkum. Í munninum bætist vökvi frá munnvatnskirtlunum við fæðuna, þótt undirbúningur að meltingunni hefjist oft við það eitt að við horfum á matinn. Þá þegar fara meltingarefnahvatar að streyma frá munnvatnskirtlunum en þangað á máltakið „…að fá vatn í munninn…“ væntanlega rætur sínar að rekja. Einnig fara ýmis hormón að sjást í blóðinu og blóðflæðið eykst til þarmanna. Í munnvatnskirtlavökvanum eru efnahvatar sem brjóta sterkju niður í fjölsykrunga sem síðan breytast yfir í glúkósu sem líkaminn getur notað.

Í munnvatninu er hins vegar ekki að finna neina efnahvata sem hjálpa til við niðurbrot á fitu eða eggjahvítuefnum. Þess vegna er mikilvægt að gera sér grein fyrir samsetningu fæðunnar, um leið og hennar er neytt, því hún ræður því hversu vel niðurbrotið fer af stað. Massinn sem verður til í munninum þegar maturinn er tugginn, fer síðan niður um vélindað þegar við kyngjum og endar í efri hluta magans. Maginn tekur þá til við sinn hluta meltingarinnar með hjálp magasafans.

Í magasafanum er að finna efnahvata sem byrja á því að brjóta niður eggjahvítuefnin í matnum, til dæmis kjöt, fisk og egg. Þeir blandast fæðunni og umbreyta henni svo að líkaminn geti nýtt sér eggjahvítuefnin betur. Meðan þetta efnaniðurbrot fer fram, losnar vökvi frá matnum, eins og til dæmis vökvinn sem við höfum drukkið með matnum, og fer í gegnum magavegginn inn í blóðrás líkamans. Í þeim vökva er að finna ýmis efni sem losnað hafa frá matnum í þessu ferli eins og til dæmis sölt. Á sama tíma vinna vöðvar magans stöðugt að því að velta matnum til og mynda þannig seigfljótandi massa sem kallast iðramauk.

Töluverðar umbreytingar hafa því orðið á matnum þegar hann yfirgefur magann og fer niður í smáþarmana, sé starfsemi líkamans eins og hún á að vera. Þegar maturinn kemur niður í smáþarmana er hann mjög súr og hefst þar næsta meltingarferli. Ef um sveppasýkingu í þörmum er að ræða, breytist meltingarferlið. Magavökvinn nær ekki að vinna úr matnum og maginn verður eins og gerjunartunna, sem tæmir sig ekki eðlilega og fyllist því af gerjandi og rotnandi mat, sem veldur einkennum eins og uppþembu og brjóstsviða. Sveppasýking myndast því einnig vegna rangt samsettrar fæðu, sem leiðir til þess að maturinn stoppar lengur í maganum og fær tíma til að gerjast.

SMÁÞARMAR
Smáþarmarnir eru um þrjátíu fet eða rúmlega níu metrar á lengd og taka tiltölulega lítið pláss í líkamanum, miðað við hversu langir þeir eru. Þegar smáþarmarnir eru skoðaðir að innanverðu eru þeir eins og afar fíngert flauel með fjöldann allan af smátotum sem stækka yfirborð þarmanna. Með þessu aukna yfirborði ná þarmarnir betur að taka á móti fæðunni og blanda ýmsum öðrum efnum saman við hana. Þegar iðramaukið sem kemur frá maganum niður í smáþarmana blandast við það nokkrir mismunandi vökvar.

Einn þeirra er gallvökvi sem kemur í smáþarma frá lifur og gallblöðru, annar kemur úr briskirtlinum og svo kemur vökvi frá smáþörmunum sjálfum. Í þessum vökvum eru efnahvatar sem halda áfram að brjóta matinn niður og í safanum sem kemur frá briskirtlinum er matarsódi sem á að breyta sýrustiginu í maukinu sem kemur frá maganum, svo efnahvatarnir geti unnið sína vinnu. Ef sýrustigið breytist ekki heldur maukið áfram að gerjast og meltingin verður líkamanum skaðleg, því efnahvatar líkamans eru þannig gerðir að þeir vinna best við ákveðið sýrustig. Allur þessi vökvi í smáþörmunum á að mýkja og leysa iðramaukið upp í þrjú mismunandi næringarefni.

  • Í fyrsta lagi er um að ræða „peptin“, sem eru amínósýrur sem verða til vegna umbreytinga á eggjahvítuefnum sem við borðum.
  • Í öðru lagi verður til iðramjólk (chyle), sem kemur úr fitunni sem við borðum og í þriðja lagi sykur, sem verður til vegna breytinga á sterkjuefnum.
  • Þessi þrjú efni eru síðan tekin upp í gegnum þarmaveggina og berast svo með blóðinu til lifrarinnar, þaðan sem þau dreifast út um líkamann eftir að lifrin hefur umbreytt þeim i þau efni sem hann þarfnast.

Þau efni í fæðunni sem ekki eru tekin upp í gegnum veggi smáþarmana fara í gegnum ristillokuna, eða ileocecal lokuna í ristlinum. Þessi loka er þannig gerð að þau efni sem koma frá smáþörmunum eiga greiða leið í gegnum hana inn í ristilinn, en hún hindrar jafnframt að fæðan fari aftur frá ristlinum og upp í gegnum smáþarmana. Næstur í meltingarferlinu er svo ristillinn.

RISTILL
Ristillinn er um það bil fimm fet eða um 150 cm á lengd, en er samt mun stærri að ummáli en smáþarmarnir. Hann liggur hægra megin upp kviðinn, síðan þvert yfir kviðarholið og niður vinstra megin, þar sem hann endar við endaþarminn. Þeir sem aðhyllast náttúrulæknisfræði líta á ristilinn sem eitt af mikilvægustu líffærum líkamans. Í ristlinum er að finna mjög mikið af allskonar örverum sem hjálpa til við meltingu á matarleifunum.

Samsetningin örveranna á að vera þannig að 85% þeirra séu bakteríur sem þarfnast súrefnis til að lifa og 15% bakteríur sem geta lifað í súrefnissnauðu umhverfi. Í dag er talið að þessi hlutföll hafi snúist við hjá flestum Vesturlandabúum og að nú sé í þörmum þeirra 85% súrefnissnauðra baktería og 15% sem þarfnast súrefnis til þess að vinna.

Ef einstaklingur ákveður að koma heilsunni í lag, til dæmis með því að losa sig við candida sveppasýkingu, endurheimtir hann jafnvægi í líkamann fyrst og fremst í gegnum bætta starfsemi ristilsins. Öllu máli skiptir hvaða mat hann borðar og hvernig melting matarins fer fram. Þegar matarleifar færast frá smáþörmunum yfir í ristilinn eru þær í fljótandi formi, en eftir því sem ristillinn ýtir þeim lengra áfram og dregur til sín vökvann úr þeim, verða þær stöðugt þéttari í sér. Örverur í ristlinum sjá um þessa vinnu og mynda til dæmis ýmis vítamín úr matnum.

Undir eðlilegum kringumstæðum tekur það matinn um það bil átta klukkustundir að fara niður í gegnum maga og smáþarma. Sé hins vegar um að ræða candida sveppasýkingu á háu stigi getur ferlið tekið mun lengri tíma eða allt frá sextíu til hundrað klukkustundir. Það er auðvitað mun lengri meltingartími en getur talist eðlilegur og það hefur áhrif á niðurbrot fæðunnar, sem í raun brotnar ekki niður heldur rotnar og gerjast. Ýmsar fleiri örverur geta valdið þessari rotnun og gerjun en candida sveppurinn er skæðastur.

Verði svona rotnunar- og gerjunarferli allsráðandi í ristlinum, nær hann ekki að starfa rétt. Losun hans hættir að vera eðlileg og í hann safnast óhreinindi sem hreinlega setjast þar að og festast. Alls konar sjúkdómseinkenni eiga rætur að rekja til þeirra óhreininda. Margir þeir sem hafa sveppasýkingu í þörmum, kannast við að líkamlega vanlíðan í kviðarholslíffærum og jafnvel víðar getur aukist þegar lægðir koma yfir landið eða í þoku og rigningu. Það er vegna þess að myglusveppir þrífast best þar sem raki og hiti er nægilegur. Í rökum og dimmum kjöllurum sjáum við myglu aukast við kjöraðstæður. Þetta á einnig við um candida sveppinn. Hann þrífst best í raka og hita. Í ristlinum geta því skapast kjöraðstæður fyrir hann til að fjölga sér gríðarlega. Sveppagróðurinn veldur auknu álagi á ristilinn og lifrin hefur ekki undan að vinna úr niðurbrotsefnunum.

Álagið verður svo mikið á lifrinni að lífsorkan eða Qi orkan staðnar þar. Við það hægist á blóðflæði í gegnum lifrina en það leiðir til þess að hjartað þarf að erfiða meira
og það leiðir til hækkunar á blóðþrýstingi.

Þar sem lifrin nær ekki að sinna sínu hlutverki til fulls berast ýmis niðurbrotsefni út í blóðrásina. Þaðan berast þau til lungnanna og valda þar ofnæmiseinkennum eins og astma og fleiri öndunarörðugleikum. Eitt það mikilvægasta sem gert er til að meðhöndla sjúkdóma sem rekja má til gerjunar í þörmum er því að stytta þann tíma sem matarleifar eru í ristlinum.

Besta leiðin til þess er að breyta mataræðinu og vinna að því að í ristlinum skapist þær aðstæður að þar fari að þrífast góðir bakteríustofnar. Með vissu má segja að eggjahvíturík fæða er verst fyrir ristilinn og fer hægast í gegnum hann. Í þeim fæðuflokki er allt kjöt, fiskur, egg og síðast, en ekki síst, hinn fitusprengdi og gerilsneyddi mjólkurmatur,
sem unninn er úr kúamjólk.

Þær fæðutegundir sem best fara með ristilinn eru meðal annars ferskir ávextir, ýmis konar grænmeti og ákveðið kornmeti, hnetur og fræ. Til gamans má geta þess að líkamslykt af fólki myndast í ristlinum og því er oft hægt að dæma ástand ristilsins eftir því hvernig fólk lyktar. Öll efnaskipti eiga í raun að fara fram í bruna. Því er rotnun og gerjun í ristlinum mjög óeðlileg fyrir líkamann, en undir slíkum kringumstæðum myndast alls konar lofttegundir og niðurbrotsefni. Þau fara síðan í gegnum ristilveggina út í blóðið og berast með því út um allan líkamann og valda okkur alls konar óþægindum.

Í þessu ferli getum við hugsað okkur að ristillinn verði eins og vaskur með hálfstífluðu niðurfalli sem hleypir ekki óhreinindum frá sér. Væri ristillinn vaskur, værum við stöðugt að vaska upp úr sama vatninu í tvo til þrjá sólarhringa í röð. Slíkt myndum við ekki álíta eðlilegt ef um leirtau væri að ræða.

Því er nauðsynlegt að hætta að leita eftir bata með því að ráðast á einkennin eins og við gerum í dag. Við verðum að ráðast að rót vandans en hana er að finna í ristlinum. Helsta leiðin liggur í gegnum matarvenjur okkar, það hvaða mat við borðum, hvaða fæðutegundir við setjum saman í eina máltíð og hvenær sólarhrings við borðum. Fullkomið heilbrigði er einungis hægt að öðlast með því að huga að því hvaða „eldsneyti“ við gefum líkamanum og ef við gefum honum ekki mat sem veldur bruna – fóðrum við hann á mat sem gerjast og rotnar í þörmum okkar.

Efnið í þessari grein er að meginhluta tekið úr bókinni CANDIDA SVEPPASÝKING eftir Hallgrím Þ. Magnússon lækni og Guðrúnu Bergmann.

Ef þú hefur áhuga á frekari fræðslu um heilsumál geturðu skráð þig á póstlista Guðrúnar.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram