VANVIRKNI Í NÝRNAHETTUM

Vanvirkni í nýrnahettum kemur fram í því að þær framleiða ekki nægilegt magn kortisóls, kortisóns, aldósteróns, DHEA, adrenalíns, noradrenalíns, kynhormóna og annarra hormóna sem nauðsynlegir eru til þess að tryggja næga orku til ensímmyndunar, framleiðslu taugaboðefna, sýkingavarna, viðhalds á jafnvægi blóðsykurs og orkumyndunar með eðlilegum næringarefnaskiptum.

Vanvirkni í nýrnahettum birtist í mörgum myndum, en getur meðal annars komið fram í eftirfarandi líkamlegum, huglægum og tilfinningalegum einkennum.

Þau helstu eru: stöðug þreyta – þunglyndi – fjandskapur – kvíði – veik ónæmisviðbrögð – þrálátar smásýkingar – verkir í mjóbaki – tíð veikindi – blóðsykurlækkun – vefjagigt – athyglisbrestur – lélegt minni – sykursækni – skjaldkirtilsvandmál (aðallega vanvirkni) – stöðug kuldatilfinning – þyngdaraukning eða þyngdartap – og svo öll þrálát eða sjálfsónæmistengd einkenni.
Ef eitthvað af þessu á við um þitt heilsufar, lestu þá endilega áfram.

ORSAKIR VANVIRKNINNAR

Vanvirkni í nýrnahettum getur stafað af óheilbrigðu mataræði, uppsöfnun eiturefna eins og til dæmis þungmálma í líkamanum, andlegu eða líkamlegu áfalli, of mikilli vinnu án hvíldar og mikilli neyslu á örvandi efnum eins og kaffi, tei, tóbaki og fíkniefnum. Samt er í raun hægt að draga allar þessar orsakir saman í eitt orð sem er einfaldlega: STREITA!

Streita veldur því að líkaminn beitir fyrir sig „flótta- eða árásarviðbragði“ en það krefst mikillar orku frá nýrnahettunum. Nýrnahetturnar bregðast við streitu með því að framleiða aldósterón sem gefur nýrunum merki um að auka endurupptöku á natríum og kopar. Natríum og kopar eru örvandi efni sem senda skyndiorku frá sér til að knýja „flótta- eða árásarviðbragð“ sympatíska taugakerfisins. Á sama tíma gefur aldósterón nýrunum merki um að skilja út mikið magn sinks og magnesíums, en þau efni hafa róandi áhrif á taugakerfið. Líkaminn hefur ekki not fyrir neitt róandi þegar hann þarf að vera á varðbergi og tilbúinn í slaginn, en hlutverk „flótta- eða árásarviðbragðs“ líkamans er einmitt að vernda okkur gegn hættu.

MAGNESÍUM OG SINK MIKILVÆGT

Um leið og magn sinks og magnesíums minnkar dregur úr getu líkamans til að melta fæðu og vinna næringarefni úr henni. Það er vegna þess að sink er líkamanum nauðsynlegt til að framleiða alla eggjahvítu í líkamanum, þar með talin meltingarensím í maga, briskirtli og þörmum sem sjá um að brjóta fæðuna niður í smáagnir svo líkaminn geti tekið næringu úr henni upp í gegnum þarmaveggina. Sink og magnesíum eru þau steinefni sem eru hvað mest róandi, þannig að ef styrkur þeirra minnkar vegna þess að líkaminn er stöðugt í „flótta- eða árásarviðbragði“ dregur það verulega úr getu okkar til að takast á við streitu. Við svona ástand lendum við í vítahring:

1-Streituviðbrögð leiða til þess að sink- og magnesíumbirgðir eyðast upp.

2-Þú þarft sink og magnesíum til þess að halda ró þinni og svo streitan sé ekki stöðugt með yfirhöndina. Stöðug streituviðbrögð leiða til enn meiri streitu.

3-Meiri og meiri kopar hleðst upp í líkamanum fyrir tilstilli aldósteróns.

4-Kopar einn og sér virkar mjög örvandi á taugakerfið, eykur tilfinningasveiflur og viðbrögð við áreiti sem koma í veg fyrir að þú getir slakað á og veldur auknum áhyggjum, svefntruflunum og eykur jafnvel enn meir á streituna.

5-Kopar bælir virkni sinks í líkamanum, svo það litla sink sem eftir er tapar virkni sinni í því mikla magni kopars sem hleðst upp vegna streituviðbragða.

6-Streitan stigmagnast þar til að því kemur að leitað er í lyf eins og róandi lyf, svefnlyf, þunglyndislyf og hugsanlega önnur lyf sem einungis halda niðri einkennum kopareitrunar og skorti á sinki og magnesíum.

7-Sink og magnesíum eru einnig nauðsynleg fyrir mörg orkumyndandi efnaskipti í líkamanum. Þegar þessi lífsnauðsynlegu næringarefni skortir leggst aukin byrði á nýrnahetturnar sem þurfa nú að framleiða jafnvel enn meiri orku þar sem sú orka sem myndast á við efnaskipti fæðunnar er ekki nægjanleg.

Smám saman leiðir þetta ástand til vanvirkni í nýrnahettunum, því þær standast ekki álagið. Viðkomandi fer að finna fyrir ofþreytu í lok vinnudags. Stundum er fólk ófært um að hvíla sig nægjanlega og róa hugann vegna skorts á sinki, en sink framleiðir meðal annars róandi taugaboðefni eins og serótónín og dópamín. Þetta getur leitt til kvilla eins og athyglisbrests (ADD), lélegs minnis, óraunveruleikatilfinningar, skapstyggðar, svefnleysis og þunglyndis.

Eitt besta bætiefnið til að taka við þessar kringumstæður er Magnesium & Calcium, reverse ratio 2:1 frá NOW, en í því er ekki bara magnesíum og kalk, heldur einnig sink og D-3.

MERKI UM VANVIRKNI Í NÝRNAHETTUM

Þegar þér líður eins og flutningabíll hafi keyrt á þig eða þú þurfir krana til að hífa þig út úr rúminu á morgnana, finnst þú ofhlaðin/-n verkefnum sem þú sérð ekki fram úr, þú fyllist angist af minnsta tilefni eða þig skortir sjálfsöryggi eða sjálfsstjórn eru allar líkur á að nýrnahetturnar í þér séu vanvirkar.

Margir gera sér ekki grein fyrir þessari vanvirkni, því þeir halda sér gangandi með neyslu koffíns (kaffi, grænt te, gosdrykkir, orkudrykkir) eða annarra örvandi efna. Slík örvandi efni gera ástandið verra því þau neyða nýrnahetturnar til að framleiða meira adrenalín en þær eru í raun hæfar til. Þú getur ekki fengið eitthvað fyrir ekki neitt. Koffín veldur aukinni kröfu á nýrnahetturnar um að framleiða meiri orku. Samt ráða þær ekki við það og líkaminn verður eins og bíllinn þinn þegar hann er að verða bensínlaus. Til að spara eldsneytið verður þú að aka hægar.

Flestir eru þó í afneitun og hlýða þeim ráðleggingum ekki, heldur auka við koffínneysluna en hún gefur þá tálmynd að tankurinn sé fyllri en hann er, á meðan raunin er sú að líkaminn er bara að brenna hraðar upp því litla eldsneyti sem eftir er. Einn góðan veðurdag tæmist tankurinn alveg og líkaminn krefst þess að fá endurgreiddar þær úttektir sem stofnað var til á orkukorti hans.

VANVIRKAR NÝRNAHETTUR – BATALEIÐIR

Það fyrsta sem þú þarft að gera til þess að vinna bug á vanvirkum nýrnahettum er að hætta að reyna að pína meiri orku út úr þeim. Í stuttu máli þýðir þetta að þú þarft að:

Hætta að yfirkeyra þig

Taka þér reglulega hlé yfir daginn og hvíla þig, helst leggjast

Lengja nætursvefntímann

Fækka þeim verkefnum sem þú tekur að þér

Draga úr streituþáttum í lífi þínu

Takast á við streituna með því að hugleiða, stunda jóga eða quigong

Jafna orkuflæði líkamans með nálastungumeðferð

Iðka eitthvað annað sem dregur úr streitu eins og til dæmis léttar göngur

Kappsamt og duglegt fólk sem setur markmið sín hátt hefur tilhneigingu til að ganga um of á líkamlegar orkubirgðir og enda á því að brenna upp síðar á lífsleiðinni. Mikill metnaður leiðir oft til þess að fólk festist í vítahring vanvirkra nýrnahettna sem getur leitt til andlegs þunglyndis. Lykilatriðið er að endurnýja orkuforða líkamans. Einungis er hægt að gera það með því að hvílast meira. Sé það ekki gert má líkja ástandinu við einhvern sem segist vera að safna peningum en eyðir samt samstundis öllu sem hann aflar afar kæruleysislega. Það kostar líkamlega orku að vinna sér inn peninga og þess vegna er jafn mikilvægt að fara vel með fjármuni og orkubirgðir líkamans.

Heimildir: Candida sveppasýking eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu Bergmann

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni á endilega með öðrum.

Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með skrifum Guðrúnar skráðu þig þá á póstlista hennar.

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 551 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?