TUNGLMYRKVI 30. NÓVEMBER

TUNGLMYRKVI 30. NÓVEMBER

Hér á eftir fylgir þýðing á skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á orkunni í kringum TUNGLMYRKVA á FULLU TUNGLI í Tvíburamerkinu þann 30. nóvember og áhrifum plánetanna fram í miðjan desember.

Pam hefur veitt fullt leyfi fyrir þýðingum á skýringum hennar, en það er gott að lesa á þær sem veðurspá fyrir orkuna sem fylgir framvindu himintunglanna.

STÓRBROTINN TÍMI Í SÖGUNNI

Pam hóf skýringar sínar á því að tala um að þetta væri stórbrotinn tími í sögunni. Hún sagði að afstaða plánetanna gæfi til kynna að nú yrði umbreyting aldanna – eða aldahvörf og að hennar mati er það það sem framundan er. Hún segist svo sannarlega trúa því, en umbreytingin á einkum við nokkrar næstu vikur framundan.

Áður en hún fjallar um TUNGLMYRKVANN, vill hún aðeins stíga til baka og minna okkur á heildarmyndina. Hún telur að það muni draga úr kvíðanum, sem hrjáir svo marga þessa dagana.

HEILDARMYNDIN

Heildarmynd breytinganna tengist Plútó á ferð í gegnum Steingeitarmerkið. Það ferli tekur mörg ár og plánetan er snú stödd á 23° í Steingeit. Hún mun því halda áfram að mala sig í gegnum næstu sjö gráðurnar, þar til plánetan byrjar að færa sig yfir í Vatnsberann árið 2023.

Plútó (oft skilgreindur sem pláneta dauða og endurfæðingar) brýtur niður allt sem táknrænt er fyrir það stjörnumerki sem plánetan fer í gegnum. Svo spurningin er, hvað er Steingeitin táknræn fyrir?

Hún er táknræn fyrir pólitíska kerfið, ríkisstjórnakerfin, stórfyrirtækjakerfin og stórar stofnanir eins og til dæmis heilbrigðiskerfið. Í raun öll kerfi sem hafa völd yfir okkur og tengjast „ofan frá og  niður“ stjórnun.

Þar sem Plútó í transit er að fara í gegnum Steingeit, hafa stjörnuspekingar lengi horft til þess að þessi kerfi myndu hrynja á einhvern máta. Ef við horfum í kringum okkur sjáum við að þessi kerfi eru ekki að virka vel, því sum þeirra hafa verið kaótísk og illa starfandi eða óstarfhæf. Niðurbrot þeirra er því að eiga sér stað núna eins og stjörnuspekin hefur gefið sterkt í skyn.

Pam segir að við verðum nefnilega að brjóta niður hið gamla áður en við getum byggt upp hið nýja. Við erum því í raun ekki á leið í gegnum byggingarsvæði sem stendur, miklu frekar niðurrifssvæði meðan við förum í gegnum þetta tímabil.

Hún segir að hlutirnir eigi eftir að verða betri, örugglega mun betri áður en kemur að árinu 2023, en þetta er ferlið sem við erum að fara í gegnum núna og þetta er það sem við áttum von á.

ÞEMAÐ SETT Í UPPHAFI ÁRS

Stóra þemað fyrir árið 2020 var samstaða Plútó og Satúrnusar í upphafi árs, eða nánar tiltekið þann 12. janúar. Sú samstaða gaf tóninn fyrir allt árið.  Stjörnuspekingar gerðu sér grein fyrir að sögulega séð er þessi samstaða Satúrnusar og Plútó tengd misnotkun valds.

Við megum því eiga von á því að allir þeir leiðtogar og þau Steingeitarkerfi, sem hafa misnotað vald sitt og hefur skort heilindi og/eða gagnsæi og ábyrgðarskyldu, verði hluti af hruninu, þegar spilling þeirra verður dregin fram í dagsljósið.

Þetta lagði grunninn að heildarmyndinni fyrir árið 2020, bæði þar sem Plútó er í Steingeit, svo og samstaða Plútó og Satúrnusar í upphafi árs.

ERFITT FERLI

Pam bendir á að þetta ferli sem við erum að fara í gegnum sé virkilega erfitt. Hún segist vita um marga sem hafa átt mjög erfitt ár bæði huglægt, fjárhagslega eða tilfinningalega og er meðvituð um það.

Þótt þetta sér erfitt ferli að vinna sig í gegnum trúir Pam því og segist vita það innst inni, að það verði miklar breytingar á orkunni á næstunni, því um leið og við förum inn í desember verður stutt í breytingarnar.

Tímabilið sem við erum að fara í gegnum núna er hins vegar frekar magnað, því við erum komin inn í „myrkva“ tímabilið og þótt tunglmyrkvinn sé ekki fyrr en 30. nóvember gætir áhrifa hans nú þegar.

PLÁNETUR Á LEIÐ FRAM Á VIÐ

Pam telur mikilvægt að minnast aðeins á eitt enn. Allar pláneturnar verða, þegar kemur að 30. nóvember á brautu fram á við, fyrir utan Úranus, sem breytir ekki um stefnu fyrr en um miðjan janúar.

Pam segir þetta mikla breyting frá því fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar flestar pláneturnar voru í bakkgírnum, en fyrstu viðsnúningar þeirra aftur á bak tengdust fyrstu lokunum í tengslum við Covid-19. Við það snerist allt inn á við og varð að nokkurs konar naflaskoðun. Planið var að halda aftur af okkur og það tengist á mjög skýran hátt hreyfingum þessara pláneta aftur á bak um himinhvolfið.

Með þeirri svellandi orku sem fylgir því þegar pláneturnar fara beint fram á við, þessum tilfinningalega krafti og þeim skriðþunga sem þær bera með sér, skapast allt önnur tilfinning, sem Pam fjallar um aðeins síðar, en hún minnir okkur á að Neptúnus tengist þessari orku hinna plánetanna daginn fyrir tunglmyrkvann.

STEFNUBREYTING HEFUR MIKIL ÁHRIF

Eins og Pam hefur áður sagt, má líkja snúningi á plánetum í himinhvolfinu við það að snúa stóru skipi. Pláneturnar hægja og hægja á sér uns þær stöðvast alveg. Svo fara þær að snúa sér. Neptúnus sem hefur verið á ferðinni aftur á bak stöðvast einmitt þann 29. nóvember til að geta breytt um stefnu.

Stefnubreyting eykur alltaf á áhrif þess þema sem plánetan stendur fyrir. Neptúnus er hinn þokukenndi sjávarguð og við sjáum mikið af lægri birtingu eða tíðni Neptúnusar í heiminum núna og munum sjá enn meira við tunglmyrkvann, en sú birting kemur fram sem þoka, kaos, skortur á skýrleika og botnleðja.

Neptúnus myndar líka T-spennuafstöðu (square eða 90° afstöðu) við Öxulnóðuna sem er í transit, en sú spennuafstaða verður nákvæm í janúar, eins og kom fram í síðustu skýringum Pam. Þemað í kringum þessa afstöðu snýst um hvað er satt og hvað er logið, en það er einmitt mjög áberandi í heiminum í dag.

Okkur finnst við hafa allt á hreinu eina stundin, en lendum svo í þoku. Svo finnst okkur við aftur hafa allt á hreinu en lendum þá í botnleðju – og þannig virðast hlutirnir vera ætla að ganga, í þessari lægri birtingu Neptúnusar.

SKIPTUM PERSÓNULEGA UM GÍR

Við getum hins vegar VALIÐ að skipta persónulega um gír í tengslum við ferð plánetanna um himingeiminn – vegna þess að á æðri sviðum veitir sterkur Neptúnus okkur tækifæri til að tengja okkur við upprunann eða allt sem er. Pam segir Neptúnus tengjast hinu guðlega, óskilyrtum kærleika og heilun og í raun öllu sem stendur fyrir einingu.

Hann tengist umbreytingarástandinu þegar þú verður sjaldnar eins og öreind og oftar eins og bylgja, en þannig skilgreinir eðlisfræðin það. Við töpum einhverju af þéttleika okkar til að geta skipt yfir á léttara tilverusvið, sem er mjög andlegt. Pam bendir á að þar sem Neptúnus sé svona sterkur núna, getum við nýtt okkur orku hans einmitt til þessara umbreytinga. Hún bendir á að eitt af því besta við stjörnuspeki sé að þegar við skiljum hana, getum við nýtt okkur hana á skipulegan hátt.

En sem sagt, frá og með 30. nóvember verða allar þessar plánetur á leið fram á við, nema Úranus sem bætist ekki í hópinn fyrir en um miðjan janúar.

VIÐ LENDUM Á VEGG

Mikilvægt er þó að vita að Satúrnus kemur til með að vera á síðustu gráðu í Steingeitarmerkinu frá 7.-17. desember.  Síðasta gráðan í hverju merki, sú tuttugasta og níunda, kemur oft fram sem skuggahlið þess merkis. Í þessu tilviki er sú orka einkar sterk, þar sem Satúrnus stjórnar Steingeitinni.

Pam segir orkuna þá oft koma fram sem blokk eða hindrun og í þessu tilviki er það gagnvart allri þeirri orku sem streymir fram á við frá plánetunum, sem eru á leið framávið. Og eins og fyrr segir snýst Satúrnus í Steingeit um völd og stjórnun og reglur og reglugerðir. Reglur sem þú þarft að fara eftir því Steingeitin tengist stjórnvöldum.

Við eigum því eftir að lenda á vegg, ekki bara út af Satúrnusi á 29°, heldur líka vegna annarar afstöðu. Pam fjallar nánar um hana aðeins síðar, en það er 90° spennuafstaða milli Plútó og Eris. Við þurfum því að takast á við þennan vegg eða hindrun í einhvern tíma, en það losnar um hana 17. desember, jafnvel strax þann 16. því þá mjakar Satúrnus sér úr Steingeit og yfir í Vatnsberann.

Það telst stórviðburður, því Satúrnus verður ekki aftur í Steingeitarmerkinu fyrir en eftir 27 ár. Margir núlifandi eiga því ekki eftir að upplifa það.

DREGUR ÚR ÞÉTTLEIKA OKKAR

Þegar Satúrnus fer yfir í Vatnsberann breytist orkan og það á eftir að draga úr þéttleikanum sem mörg okkar hafa fundið fyrir frá þessum þremur stóru plánetum, Júpíter, Satúrnus og Plútó sem hafa verið í Steingeit. Plútó verður þar áfram en Júpíter og Satúrnus fara yfir í Vatnsberann upp úr miðjum desember. Það kemur því til með að draga úr þéttleiki í okkur frá og með miðjum desember, en Pam fjallar nánar um það í næsta myndbandi sínu og segir að þá verði mikið um að tala.

Pam vill jafnframt minna okkur á að pláneturnar Sól og Merkúr eru á leið í gegnum Bogmanninn og verða þar fram til 20. desember. Bogmaðurinn er stjörnumerkið sem tengist lögum og sannleika. Pam telur því að lög og sannleikur eigi eftir að spila stóran þátt í mörgum löndum næstu vikurnar.

TUNGLMYRKVINN

Nú loks er Pam tilbúin til að fjalla um tunglmyrkvann. Þetta er hlutamyrkvi, en er þrátt fyrir það mjög öflugur og honum fylgir mikil spenna. Hann verður á 8° og 38 mínútum í Tvíburamerkinu klukkan 09:29 fyrir hádegi hér á landi þann 30. nóvember.

Tunglmyrkvar eru eins og stórt fullt tungl, því þeir beina ljósi sínu að því sem við höfum ekki séð áður. Algengt er því að upp komist um leyndrmál í tengslum við tunglmyrkva. Pam segir að við eigum eftir að fara í gegnum öldur af uppljóstrunum á þessu og næsta ári. Sannleikurinn á eftir að sjá dagsins ljós í gegnum uppljóstranirnar því það er hluti af hruni hins gamla.

Tunglmyrkvinn er í Tvíburamerkinu, en því er stjórnað af Merkúr. Tunglmyrkvar eru eins og fullt tungl, tákn um enda einhvers ferlis eða ferla á einn eða annan máta. Þeir tákna lokaþætti í lífi þínu. Pam hvetur þig því til að skoða hvar 8° og 38 mínútur í Tvíbura lenda í kortinu þínu, til að sjá hvaða þættir eru að líða undir lok og hvað er að taka við.

Myrkvum, einkum tunglmyrkvum fylgir oft sterk tilfinning um varanleika eða óumbreytanleika. Svona þegar málinu er lokið, er því endanlega lokið! Pam telur því að það verði áhugavert að fylgjast með þessu ferli.

MIKLAR TILFINNINGAR OG RINGULREIÐ

Hún segir að fullu tungli, einkum þó ef um tunglmyrkva er að ræða, fylgi alltaf miklar tilfinningar. Og hún spyr um hvað þær tilfinningar muni snúist í tengslum við þennan myrkva? Þar sem tunglið er í Tvíburamerkinu koma þær til með að snúast um uppljóstranir, staðreyndir og upplýsingar, fréttirnar og fjölmiðlana.

Merkúr er mjög tengdur fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og hvað sem á eftir að koma upp á yfirborðið á næstunni, er líklegt að það laði fram mikið af tilfinningalegum viðbrögðum.

Merkúr er líka tengdur lægri hugsunum okkar, það er að segja samtali okkar við okkur sjálf, þessu innra hugarspjalli og daglegum samræðum. Tvíburamerkið er breytilegt (óstöðugt) loftmerki og þar sem því fylgir sundurleit orka, verðum við auðveldlega huglægt tvístruð, hoppum úr einu í annað og frá einu máli til annars. Pam segir að við getum orðið óákveðin, séð báðar hliðar mála og því verður mjög auðvelt fyrir okkur að verða annars hugar eða viðutan.

Það eiga eftir að hellast yfir okkur tonn af upplýsingum sem geta verið mjög mótsagnakenndar. Munið að Neptúnus er í transit og því ekki auðvelt að greina hvað er satt og hvað logið í þeim upplýsingum sem fram koma. Við gætum því lent í því að hoppa frá einni fréttastöð til annarar og fá yfir okkur stórhríð af óskýrum upplýsingum, meðan við reynum að finna út úr því hvað er satt og hvað ekki.

TREYSTUM INNRI LEIÐSÖGN

Pam segir að kjarninn á þessum tunglmyrkva sé að færa okkur upp um áttund, upp í hærri hugann, en hærri hugur Merkúrs tengist Úranusi. Úranus er einmitt sterkur um þessar mundir og hann er pláneta uppljómunar og vitundarvakningar. Hann er tengdur yfirvitund okkar, því hann er í raun æðra vitundarstig okkar og núna er tíminn þar sem við getum fengið uppljómanir eða tekið á móti skilaboðum, því Úranus er á þessum tunglmyrkva í mjög þéttri samhljóma 150° tengingu við Sólina. Úranus er á 7° í Nauti og Sólin á 8° í Bogmanni.

Þessi samhljóma tenging snýst svo sannarlega um sannleika og skýrleika, sem kemur frá hærri sviðum. Kannski ertu að hlusta á fréttirnar eða lesa eitthvað á samfélagsmiðlum á Merkúrsviðinu – en á Úranusarsviðinu ertu að taka á móti skilaboðum í gegnum drauma eða eftir öðrum leiðum, sem eru að veita þér allt aðra innsýn og upplýsingar.

Pam hvetur okkur til að hlusta á þær upplýsingar og treysta alltaf innri leiðsögn.

BLACK MOON LILITH

Á þessum tunglmyrkva er Black Moon Lilith líka í þéttri samstöðu við Úranus. Báðar þessar plánetur tengjast byltingakenndri orku. Black Moon Lilith er herská og fylgin sér, vill ekki fara eftir reglum og samsamar sig byltingarkenndri orku Úranusar.

Orka Úranusar er grasrótarorkan, orka sem leitar upp á við frá fólkinu á götunni. Pam minnir okkur á að hún hefur áður fjallað um tengingu Úranusar við jarðskjálfta, eldfjöll, pólitískar jarðhræringar, áföll og hið óvænta. Við getum því átt vona á fullt af sláandi féttum sem koma upp á yfirborðið núna, því þetta er Tvíburatungl, sem stjórnað er af Merkúr.

Við gætum líka orðið fyrir tölvuárásum og það gæti jafnvel verið klippt á Internetið, en allt er þetta tengt Úranusi. Pam segir að allt þetta geti gerst, vegna þess að Úranus býr yfir þessari skyndilegu orku sem sker á hlutina og orku sem getur valdið skyndilegri röskun á öllu.

MIKILVÆGUR TUNGLMYRKVI FYRIR BANDARÍKIN

Þetta verður einkar mikilvægur tunglmyrkvi fyrir Bandaríkin og Pam fjallar um kort Bandaríkjanna núna, ekki út af því sem er að gerast í samfélaginu þar, heldur einfaldlega út frá því sem stjörnuspekin bendir til að verði að gerast þar á næstunni.

Þessi tunglmyrkvi fellur beint yfir ASC – DSC línuna í korti Bandaríkjanna, en hún notar kortið sem markar fæðingu ríkjasambandsins þann 4. júlí árið 1776 kl. 17:10 eftir hádegi í Fíladelfíu. Pam hefur notað það kort í áratugi og þar sem tunglmyrkvinn fellur á þessa línu, gefur það til kynna að það verði einhver breyting á ASC (sem er rísandi landsins) eða ímynd þess á næstunni.

Tunglið á 8° í Tvíburamerkinu er líka mjög tengt Úranusi í korti Bandaríkjanna. Við sjáum því Úranusorkuna koma upp aftur, þessa sjokkerandi uppreisnarorku og Úranus í korti Bandaríkjanna stjórnar þriðja húsinu. Í stjörnukortum fyrir lönd er þriðja húsið tengt fólkinu, fjölmiðlum og frjálsum fjölmiðlum. Hér kemur því sama þemað upp aftur og Pam hefur fjallað um hér að framan.

Það er líka áhugavert að í korti Bandaríkjanna frá árinu 1776 er Tunglið, sem er táknrænt fyrir fólkið, í Vatnsbera – og Úranus með sína uppreinsarorku stjórnar Vatnsberamerkinu. Bandaríkin voru einmitt stofnuð sem ríki út frá uppreisn, eftir að landnemar þar brutust undan yfirráðum Bretakonungs og á sumum svæðum yfirráðum Frakka. Pam telur því að við megum því eiga von á að sjá mikið af svona „gjósandi“ orku þar á næstunni.

8° Í TVÍBURAMERKINU

Pam telur það afar athyglisvert að 8° í Tvíburamerkinu eru mjög tengdar mikilvægum viðburðum í sögu Bandaríkjanna. Hún segist ekki hafa tíma til að fara nánar yfir það núna, en hún fór í gegnum það í síðasta fréttabréfi sem hún sendi frá sér (hægt að gerast áskrifandi á www.pamgregory.com ). Þessi gráða er tengd borgarstyrjöldinni í Bandaríkjunum og mikilvægum leiðtogum þar í landi á fyrri tímum.

Pam hvetur okkur til að hafa bara í huga að 8° í Tvíburamerkinu er mikilvæg fyrir Bandaríkin. Sú gráða er líka mikilvæg fyrir mögulegan væntanlegan forseta Bandaríkjanna, án þess að hún vilji fara nánar út í stjórnmálin.

HEILDARMYND BANDARÍKJANNA

Hvað varðar heildarmynd Bandaríkjanna, minnir Pam okkur á það sem hún hefur þegar sagt um Plútó á leið í gegnum Steingeitarmerkið. Ef kort Bandaríkjanna frá árinu 1776 er skoðað þá „fæddist“ þjóðin/landið með Plútó á 27° í Steingeitarmerkinu. Plútó í transit ferli sínu hefur því komið í heilan hring og er að koma aftur á sömu gráðu og það var á við fæðingu eða persónugervingu þjóðarinnar.

Sú afstaða verður reyndar ekki nákvæm fyrr en árið 2022, en Pam segir að við séum samt komin langt í þessa umbreytingu nú þegar, einhverja grundvallarbreytingu sem verður í Bandaríkjunum – auk þess sem þetta tengist öðru húsi kortsins sem er hús efnahagslífsins.

Það sem bætist svo við þessa heildarmynd Bandaríkjanna er að boginn á milli Sólar og Plútó (Plútó í Steingeit, Sólin í Krabba) mætist á miðhimni kortsins frá árinu 1776, en miðhimininn er táknrænn fyrir leiðtoga og stjórn landsins. Þessi afstaða verður nákvæm á næsta ári, en Pam gerir ráð fyrir því að við munum strax fara að finna fyrir áhrifunum hennar þegar við höldum inn í árið 2021.

Líklega snýst þessi staða um grundvallar umbreytingu hjá stjórn og leiðtoga Bandaríkjanna, svo það verður að mati Pam sérlega áhugavert að sjá hvernig spilast úr þessu. Einnig má gera ráð fyrir mögulegri andlegri umbreytingu fyrir Bandaríkin. Reyndar telur Pam að í orkunni næstu vikurnar verði andleg umbreyting í öllum heiminum.

Öll þessi orka og niðurbrot snúast um breytingar, en þó verða breytingarnar sérlega mikilvægar fyrir Bandaríkin.

ERIS Í HRÚT OG PLÚTÓ Í STEINGEIT

Pam vill fjalla aðeins um langtíma 90° spennuafstöðuna milli Eris í Hrút og Plútó í Steingeit. Mars hefur töluverðan hluta árs verið í samstöðu við Eris, en hefur nú fjarlægst plánetuna. Þessar tvær plánetur eiga hins vegar eftir að mynda tengingu á ný í kringum jólin og lífga aðeins upp á þau fyrir okkur. En langtíma spennuafstaðan milli Eris og Plútó á eftir að halda áfram fram til október 2021.

Pam hefur þegar talað mikið um Plútó í Steingeit, ríkisstjórnir, völd og stjórnsemi að ofan. Eris er í mítólógíunni systir Mars og hún er sú sem vekur upp kvenorkuna. Hún er herská og fylgin sér, svo ef henni finnst að ekki sé á hana hlustað og þörfum hennar ekki mætt, kemur hún af stað mótmælum og uppþotum.

Við höfum sér gífurlega mikið af slíku um allan heim upp á síðkastið. Það hafa verið mótmæli og óeirðir í mun fleiri löndum, en við höfum höfum heyrt af í okkar fréttamiðlum.

Við erum að nálgast þriðju nákvæmu 90° spennuafstöðuna milli Eris og Plútó, sem verður 10. desember á 23° og 33 mínútum í Steingeit og Hrút. Þegar afstöður eru alveg nákvæmar getum við átt von á að sjá sterkari birtingu á þessari uppreisnarorku.

ERIS OG PLÚTÓ Í KORTI BANDARÍKJANNA

Hin afstaðan sem tengist Eris og Plútó og Pam vill fjalla aðeins um tengist korti Bandaríkjanna frá árinu 1776. Í því korti er ekki bara um að ræða þessa spennu milli Eris og Plútó heldur mynda þessar plánetur T-tengingu í kortinu.

Merkúr í korti Bandaríkjanna, sem tengist öllum tegundum fjölmiðla er á 24° í Krabba, Plútó er á 23° í Steingeit og Eris á 23° í Hrút og við það myndast það sem kallast T-tenging, því Krabbi og Steingeit mynda 180° spennuafstöðu og Hrúturinn tengist svo þeirri línu með 90° tengingu.

Pam telur því að málefni sem snerta uppljóstranir, fjölmiðla og frjálsa fjölmiðla eigi eftir að vera áberandi – svo og fólk sem er óánægt  með það vald sem heldur því niðri og á því hugsanlega eftir að fara út á götur til að mótmæla. Hún telur að þetta eigi eftir að verða stórmál þar í landi á næstu mánuðum.

Einnig vill hún vekja athygli á einu enn í korti Bandaríkjanna, ekki vegna þess að kortið hafi  svona mikið aðdráttarafl vegna allra þessara spennutenginga sem í því eru, heldur vegna þess að hvað sem kemur út úr þessu tímabili og út úr bandarísku forsetakosningunum – en hún telur niðurstöðu þar sé ekki að vænta alveg á næstunni – kemur það til með að hafa áhrif á allan heiminn.  Hún er sannfærð um það út frá stjörnuspekinni, að það muni hafa áhrif á öll lönd í heiminum, þar sem Bandaríkin hafa spilað svo stórt hlutverk.

NEPTÚNUS Í KORTI BANDARÍKJANNA

Neptúnus er á 18° í Fiskamerkinu og er að mynda aðra T-tengingu í korti Bandaríkjanna. Neptúnus í transit er að myndi 180° spennuafstöðu við Neptúnus í kortinu og 90° spennuafstöðu við Mars. Neptúnus í korti Bandaríkjanna frá árinu 1776 er á 22° í Meyju sem myndar þá 180° spennuafstöðu við Neptúnus í Fiskum og Mars í kortinu er á 21° í Tvíbura, sem myndar þá 90° spennuafstöðu við þá línu.

Þessi tenging bendir ennfremur til þess að reiði og glundroði eigi eftir að brjótast út þar í landi á komandi vikum.

LJÓSIÐ VIÐ ENDA FÆÐINGARVEGARINS

Við erum að mati Pam í allra þrengsta hluta fæðingarvegarins þar sem allt er þanið og þröngt og þá er allt dálítið yfirþyrmandi, en það er eðli myrkvatímabilsins. Samt sem áður erum við farin að sjá grilla í ljós við enda fæðingarvegarins, en það verða mikil umskipti þegar við nálgumst sólmyrkvann þann 14. desember og vetrarsólstöður 21. desember.

Á vetrarsólstöðum verður hin langþráða samstaða milli Satúrnusar og Júpiters í Vatnsbera og þá verður gífurlega mikil umbreyting á orkunni, en um það fjallar Pam nánar í næsta pistli sínum.

Sú umbreyting verður það sem Pam kallar framþróunarstökk (evolutionary jump) fyrir okkur. Það stefnir allt að þessum eina punkti í stjörnuspekinni á margan og nákvæman máta. Það tengist líka eðlisfræðinni og því að ljós á hærri tíðni streymir nú til Jarðarinnar, því við erum að fara í gegnum nýjan hluta af Kosmósinu.

HÆKKUN Á TÍÐNI

Þessu fylgir mikil hækkun á tíðni, ekki bara fyrir Jörðina, heldur fyrir allt sólkerfið og þessar upplýsingar úr stjörnuspekinni, eru samhljóma skýrum skilaboðum sem koma frá andlega samfélaginu. Þetta er samruni, þar sem mörg gildissvið koma saman. Þessar umbreytingar tengjast einnig mörg þúsund ára gömlum spádómum ýmissa frumbyggja og því telur Pam að þetta sé hluti af hinu Guðlega plani.

Hækkunin verður mest í kringum 21. desember og því langar Pam að biðja okkur um að nota þessar næstu fáeinu vikur, þennan stutta tíma sem er mjög samþjappaður, til að undirbúa okkur. Hún segir að það sé mjög auðvelt að verða annars hugar og tapa fókus í þessari Tvíburaorku – en Tvíburinn snýst líka um VALKOSTI.

BEINUM ORKUNNI INN Á VIÐ

Spurningin snýst um það hvort við veljum að beina orku okkar að lægri tíðni Merkúrs og fréttunum og dramanu eða hvort við veljum að beina fókus okkar að hærra tíðnisviði Merkúrs?

Pam hefur talað mikið um þetta í myndböndum sínum, en hún telur að best sé að nota komandi vikur eða mánuð til að leita inn á við. Beina sjónum inn á við til að fókusa á okkar eigin tíðni. Við eigum nefnilega öll eftir að finna fyrir þessu orkustökki þann 21. desember.

Hvar sem við eru stödd sem einstaklingar, ræður sú orka einstaklingsins þeim áhrifum sem hann hefur á heildina. Fólk sem hefur áhrif á heildina kemur til með að ákvarða til langtíma þá braut sem við förum, jafnvel það sem eftir er ævinnar. Pam telur þetta mjög mikilvægt, en segir að orkan snúist um tíðnisamræmingu.

Ef við erum tvístruð, reið eða óttaslegin, erum við ekki á góðum stað í undirbúningi fyrir þá breytingu sem verður 21. desember. Pam segist ekki vera að segja þetta til að valda okkur áhyggjum, heldur til að veita okkur von og innblástur.

Ef okkur tekst að halda tíðni okkar hárri næsta mánuðinn, ef við getum fundið eitthvað sem við getum fókusað á sem veitir okkur gleði, frið, þakklæti, virðingu, umburðarlyndi, ástríðu og tengingu við aðra sem eru á sama tíðnisviði – sem eru með sömu viðleitni og tilgang til að hækka eigin tíðni. Þá höfum við fundið spegil okkar og samhljómurinn verður sjálfkrafa og ræður því hver braut okkar verður inn í framtíðina.

STJÓRNUM ÞVÍ HVAR VIÐ SETJUM ORKU OKKAR

Árangur (Mastery á ensku) næst ekki með því að látast hvorki heyra né sjá það sem er að eiga sér stað í umbyltingu þriðju víddar heimsins. Árangur næst þegar við stjórnum því hvert við setjum orkuna okkar. Það gerum við með því að segja NEI við því að eyða orku okkar, kröftum og athygli í þriðju víddar atburði.

Við náum árangri með því að velja hvar við ákveðum að halda athygli okkar það sem eftir lifir árs – og sjá svo bara til hvert það flytur okkur þegar við komum út úr fæðingarveginum.

Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur sem einstaklinga og mikilvægt fyrir heildina, því við erum öll að hafa áhrif á heildina hvert einasta augnablik.

Á þessum tíma sem framundan er eigum við eftir að verða mun meðvitaðri um að við erum fjölvíddar verur – og við eigum því eftir að beina sjónum okkar meira til stjarnanna og út í vetrarbrautina – og minna að hrynjandi byggingum og kerfum.

Þessi umbreyting er fyrirfram ákveðin og mun eiga sér stað hvort sem við viljum það eða ekki.

Pam treystir því þó að þessar upplýsingar hafi hjálpað þér. Í næstu umfjöllun hennar verður hún með nánari upplýsingar um þessar miklu umbreytingu sem væntanleg er.

Myndir: CanStockPhoto.com / 3DSculptur – robwilson39 – Tristan3D – Vadimsadovski – underworld

Upplýsingar: Ef þú hefur áhuga á bókum Pam og kennslumyndböndum er hægt að finna þau á vefsíðu hennar www.pamgregory.com

Pam er með FB síðuna: The Next Step – Pam Gregory Astrologer ef þú vilt fylgjast með henni þar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram