NÝTT TUNGL, MARS, ERIS OG PLÚTÓ

NÝTT TUNGL, MARS, ERIS OG PLÚTÓ

Lestrartími: 4 1/2 mínúta

Nokkrar afstöður pláentanna eru áberandi nú þegar við stefnum inn í Nýtt Tungl í Krabba þann 29. júní. Fyrst ber þar að nefna áhrifin frá Sumarsólstöðum en afstaða plánetanna þá setur yfirleitt tóninn fyrir næstu þrjá mánuði eða fram að Jafndægrum á hausti.

Margar af Kuiper-beltis plánetnum eru að hafa áhrif þar sem þær eru á fyrstu gráðum í Kardinála merkjunum, svo og Sólin sem var að renna inn í Krabbamerkið. Á Sólstöðum myndaðist því stórkross í stjörnukortinu og Kuiper-beltis pláneturnar eru að færa okkur nýja og hærri meðvitund.

MARS OG ERIS Í SAMSTÖÐU

Þann 27. júní verður svo pláentan Mars, sem er í sínu eigin merki Hrútnum, í samstöðu við Eris í Hrút, sem er í mýtunni sögð vera systir Mars og býr því líka yfir stríðsorkunni líkt og Mars gerir. Orka Eris tengist mikið einstaklingnum, því lykilorðin fyrir Eris eru: „ÉG ER – ÉG ER TIL“ – svo hún er mjög tengd sjálfræði, sjálfstæði og einstaklingnum.

Eris berst gegn allri mismunun, en plánetan er búin að vera í 90° spennuafstöðu við Plútó frá því snemma árs 2020, allt árið 2021 og verður það fram í október á þessu ári – en Plútó sem er sem stendur á 27° í Steingeit – er táknrænn fyrir stjórnvöld og „kerfið“.

Í samstöðu við Eris magnar Mars upp orkuna hjá þessari Gyðju óreiðunnar, sem hefur ásamt Úranusi verið með orkuna sem ýtt hefur í raun undir eða hrint af stað öllum mótmælunum undanfarin ár

Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna í málinu Roe vs. Wade fyrir helgina, megum við búast við að sjá óeirðir víða þar í landi og jafnvel líka í öðrum löndum heims.

NÝTT TUNGL Í KRABBA

Nýja Tunglið kveiknar á 7° og 22 mínútum í Krabba þann 29. júní kl. 02:52 að nóttu til hér á landi, en hvert Nýtt Tungl er frábær tími til að setja fram ásetning sinn um allt það sem þið viljið að verði að veruleika í lífi ykkar.

Sólin og Tunglið eru alltaf í samstöðu á Nýju Tungli og í þetta sinn eru þau líka í samstöðu við Black Moon Lilith, sem er á 8° og 34 mínútum í Krabba. Black Moon Lilith er í níu mánuði í hverju merki fyrir sig, sem er áhugavert því það er jafn langur tími og meðganga barna. Black Moon Lilith er líka í Krabbamerkinu, en það tengist móðurhlutverkinu, meðgöngu og ungbörnum.

Black Moon Lilith var í mýtunni mjög tengd þungun og meðgöngu, en þar sem börn hennar voru drepin – hefndi hún sín með því að ráðast á þungaðar konur og það olli fósturláti eða því að börn fæddust andvana.

BLACK MOON LILITH OG USA

Áhugavert að þessi afstaða sé á plánetunum nú, þegar niðurstaða í málinu Roe gegn Wade liggur fyrir. Nýja Tunglið á 7° og Black Moon Lilith á 8° í Krabba eru í samstöðu við Júpiter í korti Bandaríkjanna, en korti landsins er stjórnað af Júpiter vegna þess að rísandinn í kortinu er í Bogmanni. Sólin í korti Bandaríkjanna er líka í Krabba (4. júlí).

Þetta mál er mjög tilfinningalegt hjá öllum sem að því koma, svo búast má við að það verði heitt í kolunum. Bæði Eris og Black Moon Lilith fylgja lögum náttúrunnar, en ekki þeim lögum sem mennirnir hafa sett, svo það verður áhugavert að sjá hver framvindan verður.

JÚPITER ÞENUR HLUTINA ÚT

Júpiter er í Hrútnum í 90° spennuafstöðu við Sólina, Tunglið og Black Moon Lilith. Júpiter er því að þenja út allar tilfinningar tengdar þessum málum þar sem Krabbinn er tilfinningaríkt Vatnsmerki og vill vernda þá sem hann elskar.

 SPARK Í RASSINN

Þann 1. júlí verður Mars svo í nákvæmri 90° spennuafstöðu við Plútó. Með þeirri afstöðu magnar hann upp Eris – Plútó spennuafstöðuna, sem hefur varað svona lengi eða frá upphafi árs 2020. Mars er að gefa spennuafstöðunni „spark í rassinn“ ef svo má að orði komast. Orkan frá honum er þrjósk og gerir hlutina af ásettu ráði, er hvatvís og nokkuð stjórnlaus og heit.

Þegar Mars kemur í spennuafstöðu við Plútó snúast málin dálítið um völd. Valdatafl og heimting á völdum geta því verið áberandi. Þessi orka getur bæði komið fram í okkar eigin persónulega lífi eða á leiksviði heimsins – en snýst mikið um baráttu einstaklinga við „kerfið“.

NEPTÚNUS BREYTIR UM STEFNU

Inn í þetta allt spilar svo Neptúnus, en honum fylgir allt öðruvísi orka. Neptúnus stöðvast þann 28. júní til að breyta um stefnu og fara aftur á bak. Í hvert sinn sem plánetur, einkum ytri pláneturnar stöðvast eru þær eins og risaskip sem hægja á sér og taka svo langan tíma til að snúa sér áður en þær fara á hreyfingu aftur. Orka þeirra magnast því upp við þessi umskipti.

Neptúnus er í Fiskunum, sem hann stjórnar en Fiskarnir eru Vatnsmerki líkt og Krabbinn. Æðsta birting Neptúnusar tengist ósk okkar eftir meiri andlegri tengingu og því að lifa lífinu meira í samræmi við andlega þáttinn – og jafnvel tengjast andlegum samfélögum (félögum, hópum).

Lægri birting hans er mjög dramatísk og tengist glundroða og ringulreið, málefnum tengdum lyfjum eða vírusum, sjúkdómum og eitrunum meðal annars tengdum vatni, þar sem Neptúnus er í Fiskum.

Neptúnus er líka mjög tengdur alls konar leyndarmálum og á lægsta sviðinu er hann tengdur blekkingum – því að hlutirnir eru ekki eins og þeir virðast vera – eða því að ákveðnir aðilar vilja ekki að við sjáum hvernig þeir eru.

SPENNUÞRUNGNIR DAGAR FRAMUNDAN

Það verður eitthvað spennandi og magnað að gerast næstu daga:

  • Mars og Eris lenda í samstöðu 27. júní
  • Neptúnus stöðvast til að breyta um stefnu 28. júní
  • Nýtt Tungl kveiknar þann 29. júní – í samstöðu við Black Moon Lilith og í spennuafstöðu við Júpiter
  • júlí verður Mars svo í samstöðu við Eris og í spennuafstöðu við Plútó.

ANDAÐU Í ÞIG INNRI RÓ

Í allri þessari spennu hvet ég fólk til að halda innri ró og finna sér kyrrðarstundir yfir daginn með því að stunda HJARTAÖNDUN, þ.e. anda inn og út í gegnum hjartað eins og það væri lunga. Með því að anda þannig í 2-3 mínútur í einu kyrrist öll starfsemi líkamans og það myndast meira jafnvægi milli huga og hjarta.

Heimildir: Útdráttur úr skýringum Pam Gregory stjörnuspekings fyrir Nýtt Tungl 29. júní – Skýringarnar  birtast í heild sinni í STJÖRNUSKINS hópnum og eru þýddar með leyfi frá Pam.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN hjá mér til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að vernda heilsuna.

Myndir: CanStockPhoto / viperagp/ KarolinaL/ Photolux 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram