VEISTU HVORT ÞINN LÍKAMI SÉ SÚR?

Ekki er ýkja langt síðan farið var að ræða um mikilvægi þess fyrir heilsuna að halda sýrustigi eða pH-gildi líkamans í jafnvægi. Því nær sem pH-gildi blóðsins er 7,35-7,45, þeim mun heilbrigðari er líkaminn og hefur þar með meiri möguleika á að veita sjúkdómum og ýmsum forstigum þeirra viðnám. Ein besta leiðin til að afsýra líkamann er að fara á HREINT MATARÆÐI. Með hreinsikúrnum vinnurðu að jafnvægi í líkamanum og hreinsar hann af súrum úrgangi.

Í bók okkar Hallgríms heitins Magnússonar læknis, Candida sveppasýking, fjölluðum við um súran líkama og áhrif hans á heilsuna. Margir hafa unnið að rannsóknum á sýrustigi líkamans og áhrifum þess á heilsufar okkar, meðal annars bandaríski náttúrulæknirinn Gary Tunsky. Hann hefur starfað við náttúrulækningar í tæp þrjátíu ár og hans skýringar á súrum líkama eru að mínu mati sérlega greinargóðar.

KENNINGAR TRUNSKYS
Kenningar Tunskys eru að heilsufar líkamans ákvarðist af heilbrigði hverrar einustu frumu hans. Hann lítur svo á að allir sjúkdómar eigi upptök sín á frumustiginu, ekki í líffærinu eða líffærakerfinu. Heilbrigðar frumur myndi þannig heilbrigða vefi. Heilbrigðir vefir myndi síðan heilbrigð líffæri eins og hjarta og lungu. Heilbrigð líffæri myndi svo heilbrigð kerfi eins og innkirtlakerfið eða ónæmiskerfið og heilbrigð kerfi leiði til heilbrigðs líkama. Ef heilbrigði frumunnar er grunnurinn að þessu öllu, hvað myndar þá heilbrigða frumu? Svar Tunskys er einfalt. „Það sem þú borðar, drekkur, andar að þér eða baðar þig í mun annaðhvort næra þær 75 trilljónir frumna sem í líkamanum eru með súrefni, vatni, vítamínum, steinefnum, jurtaefnum, nauðsynlegum fitusýrum (EFA), glúkósa og amínósýrum – eða menga frumurnar með því að eitra hægt og rólega blóðrás líkamans.“

ALLT ENDAR Í BLÓÐRÁSINNI
Málið er nefnilega að það sem þú andar að þér, hvort sem það er súrefni eða aðskotaefni úr umhverfinu, endar í blóðrásinni. Það sem þú borðar, hvort sem það eru lífrænt ræktaðir ávextir, grænmeti, hnetur, kornmeti, laufgrænmeti og fræ eða hreinsuð, fullunnin, næringarlaus fæða og eitraðir sykurhlaðnir drykkir, endar allt eftir meltingu í blóðrásinni. Blóðrásin er fljótið sem streymir til allra frumna og veitir þeim næringu og losar þær við súran úrgang. Spurningin er því hvort blóðrás þín sé fljót lífsins eða fljót dauða og sjúkdóma! Sýrustig eða pH-gildi líkamans er líkt og hitamælir sem sýnir hækkun eða lækkun á sýru og basískum gildum blóðs og annarra vökva líkamans. Frávik upp fyrir eða undir 7,35-7,45 á pH-gildi blóðs kann að gefa til kynna breytingar sem gætu leitt til alvarlegra sjúkdóma.

Þegar líkaminn getur ekki gert sýrurnar hlutlausar eða losað sig við þær
kemur hann þeim fyrir í vökvum utan við frumurnar og í bandvefjarfrumunum,
en hvort tveggja ógnar styrk frumnanna í líkamanum.

MELTINGARFERLIÐ REIÐIR SIG Á JAFNVÆGI
Allt meltingarferlið reiðir sig á jafnvægi á sýrustigi líkamans. Eftir því sem meiri súr úrgangur safnast upp í líkamanum, því meir mallar líkaminn í sínum eigin eitraða úrgangi. Sýrustig líkama sem er stöðugt of súr tærir líkamsvefina og étur sig hægt og rólega inn í þá 96.000 km af blá- og slagæðum sem í líkamanum eru, líkt og sýra sem étur sig inn í marmara. Þetta er það sem vísindin kalla blæðingar (hemorrhage). Sé ekkert að gert mun þetta ástand trufla alla frumuvirkni og starfsemi líkamans, allt frá hjartslætti þínum að taugaboðum heilans.

INNANFRÁ OG ÚT
Dr. Trunsky telur að of súr líkami trufli og leiði til þess ójafnvægis í líkamanum sem síðan veldur sjúkdómum. Í grundvallaratriðum þjónar allt stýrikerfi líkamans, þar með talin öndun, fæðuneysla, blóðflæði, hormónaframleiðsla, taugaboð og svo framvegis, þeim tilgangi að koma jafnvægi á sýrustig líkamans. Þegar þú borðar mat gerjast hann, alveg eins og banani sem liggur á eldhúsborðinu gerjast frá því að vera grænn, yfir í gulan, yfir í brúnan og loks svartan. Bananinn rotnar að innan og út, ekki að utan og inn.

Þess vegna getur mannfólkið litið út fyrir að vera heilbrigt,
þótt það sé í raun að rotna og hrörna innan frá.

Slíkt ástand líkamans er í dag skilgreint sem hrörnunarsjúkdómar. Sjúkar örverur (microforms) í líkamanum framleiða sterk og súr aukaefni, sem enn hækka sýrustig líkamans og trufla lífkerfi hans. Það ferli leiðir til frekari sjúkdóma í gegnum bakteríur, gerjun, sveppi og myglu og í kjölfarið fylgja alvarleg, lífshættuleg sjúkdómseinkenni. Tunsky lítur svo á að sjúkdómar komi að innan og út og að umhverfi líkamans sé hvatinn að þróun og framgangi allra sjúkdóma. Slíkt útilokar auðvitað ekki þætti vegna utanaðkomandi aðstæðna eins og áfalla, örvera sem berast með loftinu, loftmengunar, geislunar, efnamengunar og lyfja. Allt leiðir þetta þó til neikvæðra súrra áhrifa á líkamann, því ójafnvægið í líkamanum á rætur að rekja til viðbragða frumnanna við þessum áhrifum.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Þú getur skráð þig á póstlistann minn með því að smella á hlekkinn. Ég deili listanum ekki með öðrum, en sendi reglulega út pósta með hlekk á nýjar greinar, upplýsingum um námskeið sem ég held, tilboðum og hagnýtum fróðleik um náttúrulegar leiðir til að efla heilsuna.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram