SPAGHETTI MEÐ RISARÆKJUM

SPAGHETTIRÉTTUR SEM KONUR ELSKA

Enn á ný kemur frábær föstudagsuppskrift frá henni Björgu Helen Andrésdóttur. Hún er ekki bara snillingur í að elda, heldur ber hún matinn svo fallega fram. Þessi uppskrift er þó ekki bara fyrir augað, því hún er algert sælgæti – en nú tekur Björg Helen við.


“Ég elska pasta! Það er svo dásamlega auðvelt að búa til góðan mat úr hinum ýmsu tegundum af pasta. Einnig er hægt að elda dásamlegan veislumat úr pasta. Eitt og sér er pastað frekar bragðlítið en með góðum olíum, sósum, grænmeti, kjöti eða kjötsósum, ostum, ferskum kryddjurtum, að ég tali nú ekki um með parmesan osti, þá eru endalausir möguleikarnir á að gera góðan pastarétt.

Ég ætla að deila með ykkur einum pastarétti sem er alltaf vinsæll og mér finnst svo góður. Pasta er sko ekki bara pasta….Neibb! Heldur betur ekki!

Njótið vel!”

SPAGHETTI (SPELT) MEÐ RISARÆKJUM FYRIR TVO

INNIHALDSEFNI:

¾ – 1 dl af góðri olíu eða meira

4-5 rif hvítlaukur

rifinn börkur af einni sítrónu

safi úr hálfri sítrónu

1 búnt kóríander eða basil

8-10 litlir tómatar

1 rauður ferskur chilli

15-20 risarækjur

½ pakki spelt spagetti frá Himneskri hollustu

himalaya salt

svartur pipar frá Kryddhúsinu

sítrónupipar frá Kryddhúsinu

AÐFERÐ:

1 – Setjið olíu á pönnu án þess að kveikja á hellunni.
2- Rífið hvítlaukinn í rifjárni og setjið út í ásamt söxuðum chilli.
3 – Raspið börk af einni sítrónu og setjið út í ásamt safa úr ½ sítrónu.
4 – Grófsaxið væna lúku af kóríander eða basil og setjið út í ásamt niðurskornum tómötum.
5 – Saltið vel og piprið bæði með svörtum pipar og sítrónupiparnum.
6 – Nú þegar öll þessi hráefni eru komin á pönnuna er hitinn settur á helluna og þetta látið steikjast aðeins við alls ekki of háan hita þangað til þetta er aðeins farið að taka sig.
7 – Þá er pannan tekin af og slökkt undir.
8 – Mér finnst gott að leyfa þessu að standa síðan í um 1 klukkustund þannig að hráefnin blandist vel saman í olíunni.
8 – Áður en ég set pastað út í, kveiki ég aftur undir pönnunni, set rækjurnar út í og steiki þær þangað til þær verða fallega appelsínugular. Passa að steikja þær ekki of lengi.
9 – Sýð pastað (set salt út í vatnið) þangað til það er „al dente“ eða þannig að það er smá bit í því ennþá.
10 – Helli vatninu af því og set pastað á pönnuna með rækjunum og hræri vel saman við rækjurnar og rétturinn er tilbúinn.

Til skrauts og bragðauka má strá söxuðu kóríander eða basil yfir.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir