SKEMMTILEG LEYNDARMÁL

Ég hef undanfarna daga verð að lesa mig í gegnum nýja bók eftir Dr. Yael Adler, sem heitir LEYNDARMÁL HÚÐARINNAR og verð að segja að þau sem þar koma fram eru bæði áhugaverð og skemmtilega framsett. Mörg leyndarmálanna vissi ég um, en nokkur komu vel á óvart eins og það að hægt sé að losna við njálg með límbandi, að hor og eyrnamergur tengist húðinni og að einungis séu fimm ár síðan farið var kerfisbundið að rannsaka kynæsandi svæði líkamans.

HÚÐIN ER STÆRSTA LÍFFÆRIÐ
Líkamar okkar eru umvafðir húð, en yfirborðið er um tveir fermetrar. Hún veitir okkur vernd með þykku lagi sínu en getur jafnframt verið risastór lífrænn pottur fyrir bakteríur, sveppi, vírusa og snýkjudýr. Það er í raun dásamlegt hvernig tungumálið lýsir svo vel tengslum okkar við húðina, því suma daga “líður okkur ekki vel í eigin skinni”, aðra erum við “hörundsár” og svo “vinnum við okkur reglulega til húðar” – og það síðastnefnda þekki ég vel af eigin raun.

KYNÆSANDI SVÆÐIN
Dr. Adler fjallar um kynæsandi svæðin á húðinni, sem við sennilega vitum öll af, án þess að hugsa beint um þau sem hluta af húðinni. Það eru kynfærin, húðin og heilinn sem eru hin skilvirka þrenning að baki vel heppnuðu kynlífi. Samt eru ekki nema 5 ár síðan farið var kerfisbundið að rannsaka kynæsandi svæði húðarinnar. Þá kom í ljós að staðsetning þeirra var nokkuð lík hjá körlum og konum, en að konur skynja erótískt áreiti við snertingu eitthvað sterkar en karlar. Þessi hluti bókarinnar er með skemmtilegar skýringar á mörgu sem maður veit, en rifjar þarna upp. Og svo bara til að hafa eitt á hreinu, þá segir Dr. Adler að kynlíf geri mann fallegri.

ÝMIS LEYNDARMÁL
Það kom skemmtilega á óvart að komast að raun um að hægt sé að vinna bug á njálg með því að láta þann sem af honum þjáist beygja sig fram strax að morgni, setja límband við endaþarminn og kippa því svo af – og með því orminum og öllum eggjunum sem hann varp um nóttina, en ormurinn kemur út úr þörmunum að nóttunni til að gera það.

Uppáhaldssvæði fólks til að bora í nefið er í bílnum, eins og fólk fatti ekki að það eru rúður á bílnum. Húðin framleiðir meira af flösu ef hún þarf að losna við truflandi sýkla sem valda áreiti og þegar húðin fer sýnilega að eldast milli þrítugs og fertugs, verða helstu breytingarnar í leðurhúðinni – eða á 3ju hæðinni.

Þetta er að sjálfsögðu bara brot af þeim mörgu leyndarmálumsem fram koma í bókinni, sem er opinská og einlæg, um leið og hún er skemmtilega framsett, sem skilar sér vel í þýðingu Rakelar Fleckenstein Björnsdóttur. Það er vel þess virði að lesa hana til að fletta enn frekar ofan af þeim leyndarmálum sem húðin kann að búa yfir – og við höfum ekki vitað um.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Þú getur skráð þig á PÓSTLISTANN MINN með því að smella á hlekkinn.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 589 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram