Síðasti dagur ársins er runninn upp og þótt hann sé í raun bara venjulegur sunnudagur, markar hann tímamót sem við höfum lengi nýtt okkur til að gera upp hið gamla og undirbúa komu hins nýja. Þessi tímamót gefa okkur tækifæri til að líta yfir farinn veg, sjá hvað vel hefur gengið og hvað miður, hvað við höfum lært og hvað það er sem við þurfum ekki endilega að taka með okkur inn í nýtt ár.
Ég rifjaði það upp um daginn að ég hef sennilega verið að setja mér skrifleg markmið, ýmis fyrir daginn, vikuna eða árið allt frá árinu 1985 þegar ég eignaðist minn fyrsta Time Manager – en ekki frá árinu 1990, eins og ég hafði lengi haldið. Skriflegu markmiðin voru ný fyrir mér þegar ég sat fyrst með Time Manager-inn í höndunum, en þau urðu fljótt að föstum lið í lífi mínu og hafa hjálpað mér að sjá mælanlegan árangur á svo mörgum sviðum lífs míns alla daga síðan þá.
Í nokkrar vikur hef ég verið að hugsa um hvaða markmið ég vil setja niður á blað við þessi áramót, hvað það er sem ég ætla að losa mig við úr lífi mínu og hvert draumar mínir og markmið munu leiða mig á næsta ári. Þetta er skemmtilegt ferli og það sem er auðvitað skemmtilegast við það er að líta um öxl í lok hvers árs og sjá hvaða árangur hefur náðst.
66 ÁSKORANIR
Í upphafi þessa árs setti ég mér 66 áskoranir, eitthvað sem ég vildi ná árangri í, ljúka verkefnum sem þurftu að verða að áskorun svo ég myndi ljúka þeim, ferðalög sem ég vildi fara, fjöll til að klífa og svo framvegis. Ég fór yfir það blað í gær og sá að ég hafði uppfyllt um fjörutíu þeirra, sem ég hafði skrifað niður á gamlársdegi 2016. Sumar áskoranirnar höfðu ekki gengið eftir vegna ytri aðstæðna, á meðan aðrar urðu á vissan hátt úreltar, þar sem líf mitt tók aðra stefnu en ég hafði planan að það gerði, þegar leið á árið. Yfir árið bættust því nýjar áskoranir á listann og við lokauppgjör hafði ég því náð minum 66 áskorunum og aðeins betur, því þær urðu 70.
Eina áskorun gleymdi ég hreinlega að setja niður á blað í upphafi árs, en hún var sú að kaupa mér íbúð í Reykjavík. Mér fannst það svo eðlilegt verkefni að ekki þyrfti að setja það á blað. Í ljós kom að það varð ein stærsta áskorun ársins, enda stóð leitin yfir í fjóra mánuði. Það sýnir að stundum tekur langan tíma að yfirstíga áskoranirnar, á meðan öðrum er náð á einum eftirmiðdegi eða jafnvel styttri tíma.
ÚRVINNSLA TILFINNINGA
Eins og alltaf hefur þetta ár bætt við þroska minn, bæði í gegnum starf mitt og eins í gegnum mína eigin tilfinningaúrvinnslu. Öll áföll sem við verðum fyrir sitja í frumuminni líkamans og því þarf að vinna úr þeim. Líkaminn gleymir engu og því er ég alltaf svo þakklát þegar eitthvað ýtir við mér og gefur mér merki um eitthvað sem þarf að vinna úr, en hafði verið mér hulið. Ég fékk nokkur slík merki á árinu og fékk því að upplifa bæði léttinn og þá innri hamingju sem fylgir því að losa um eitthvað sem hefur í raun verið hindrun, án þess að ég hefði gert mér grein fyrir því.
BETRI MOLAR Á NÆSTA ÁRI
Í kvikmyndinni um Forrest Gump er fræg setning sem útleggst einhvern veginn svona: “Lífið er eins og konfektkassi. Við vitum ekki hvaða mola við fáum.” Treysti því að lífið hafi ekki útdeilt þér of erfiðum molum þetta árið og þínir molar árið 2018 verði góðir og innihaldi allt það sem þú óskar þér að fá, til að njóta alls hins besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Það hjálpar að hafa markmið, því þá eru meiri líkur á að hægt sé að velja réttu molana.
Guðrún Bergmann hefur haldið fyrirlestra og verið leiðbeinandi á ýmsum sjálfsræktarnámskeiðum undanfarin 28 ár. Hún er höfundur 17 bóka sem flestar fjalla um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjustu bækur hennar eru HREINT Í MATINN (uppseld) og HREINN LÍFSSTÍLL. Guðrún hefur leiðbeint um 900 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI hreinsikúrinn á tæplega þremur árum.
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar7. desember, 2024MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
- Greinar28. nóvember, 2024LÉTT YFIR NÝJU TUNGLI Í BOGMANNI
- Greinar31. október, 2024MAGNAÐAR PLÁNETUAFSTÖÐUR Í NÓVEMBER
- Greinar21. október, 2024SÓLIN Í SPORÐDREKA