SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA OG GAMLIR TAKTAR

Ég var að flytja, sem er kannski ekki í frásögur færandi, en það er samt alltaf eitthvað lærdómsríkt við flutninga. Í þetta skipti flutti ég í Ljónsmerkinu og er því spennt að sjá hversu frábrugðið það er því að flytja Tvíburamerkinu, en ég hef í þrjú síðustu skipti flutt í því merki. Þá voru heimili mín alltaf eins og “járnbrautarstöð” með gesti sem komu og fóru, alls konar fræðsla og miðlun í gangi og mikið líf og fjör. Hvað fylgir Ljónaheimilinu kemur í ljós á næstu mánuðum.

SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTAN
Ég keypti mér íbúð í gömlu fjölbýli og því var ýmislegt sem þurfti að gera, áður en ég gat flutt inn, svona eins og að mála bæði íbúðina og geymsluna. Ég hafði um það leyti sem ég keypti séð grein á Smartlandinu þar sem fjallað var um endurgerð á gömlu eldhúsi og minnst var á að málningin hefði verið keypt í SérEfni. Ég þurfti nú að leita á vefnum til að finna hvar sú málningarverslun er staðsett, en eftir fyrstu heimsókn varð ég fastagestur – alla vega þar til málningin var þornuð á síðasta fletinum.

Móttökurnar voru frábærar, ótal litaprufur dregnar fram og spáð og spekúlerað með mér. Ég valdi nokkra liti og er svo ótrúlega þakklát ráðum Árnýjar, sem hvatti mig til að kaupa litlar dósir af litunum sem ég væri spennt fyrir og gera prufur á veggina. Sem betur fer fylgdi ég þeim ráðum, því ég skipti alveg um skoðun á litavali eftir það og er ekkert smá ánægð með útkomuna á möttu málningunni frá þeim.

GAMLIR TAKTAR
Ég hafði nú ekki mikið málað í rúm 15 ár eða frá fyrstu árunum á Hellnum, þegar við gerðum allt sjálf, hvort sem var að mála, smíða eða gera við hitt og þetta. Því kom mér á óvart hversu stutt var í gömlu taktana og hvað gaman það var að vera aftur með pensil í hönd. Nú er ég með hugmyndir um að mála hitt og þetta með afganginum af málningunni – þótt ég láti nú duga í bili að taka upp úr kössum, skrúfa saman stóla og festa upp gardínur.

Fæ reyndar hjálp við gardínurnar í dag, en þegar ég límdi upp svartan plastpoka fyrir svefnherbergisgluggann í fyrradag velti ég því fyrir mér hvort löggan myndi mæta með hund í stigaganginn til að kanna hvort ég væri að rækta hass. J

ENGILL Á VEGGINN
Það fyrsta sem fór upp á vegg hjá mér meðan ég var enn að bíða eftir sendibílnum með búslóðina var engillinn á myndinni. Ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi mexíkósku listakonunnar Frida Kahlo, sem var ótrúlega mögnuð í alla staði. Engilinn fann ég í verslun í Austin í Texas, sem selur listmuni frá Mexíkó og kannski var hann fyrstur á vegginn, því ég var svo ánægð með að koma honum heilum heim.

Um tíma (2 daga) fundust fæturnir á rúmið mitt ekki og ég hélt þeir hefðu tapast í flutningunum, en sem betur fer kom í ljós að svo var ekki. Vinkona mín sagði í gríni að við Frida hefðum báðar flutt fótalausar inn í íbúðina – en nú eru fæturnir komnir undir rúmið og Frida vakir yfir heimilinu með vængjaþyt, á milli þess sem hún slettir sporðinum, en hann er auðvitað “fætur” hennar.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í tæp 29 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 199 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í tæp 29 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar