SAMSPIL HINNA MÖRGU ÞÁTTA LÍFSINS

Nú eftir Verslunarmannahelgina eru margir að hefja vinnu á ný eftir sumarfrí eða langa útivistarhelgi. Leikskólar opna fljótlega á ný eftir sumarleyfi og það styttist í að skólar byrji. Þá þarf að koma jafnvægi á ýmsa þætti hins daglega lífs. En hvað er jafnvægi?

Jafnvægi er í raun bara tálsýn, því ef við hefðum jafnvægi á öllu værum við að verja jafnlöngum tíma í vinnu, heimili, uppeldi, skemmtun með vinum og vandamönnum, líkamsrækt eða hvað annað það er sem við erum að sinna – og það er aldrei þannig.

Því þurfum við að læra að láta alla þætti lífsins spila saman, þannig að þeir myndi fléttu, sem við verðum ánægð með og sátt við. Stundum þurfum við að fórna einhverju til að fá annað. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir að um val er að ræða og sætta sig svo við valið hverju sinni.

Hér koma nokkrar hugmyndir að því hvernig má láta það ganga betur.

1 – VERTU ÞAR SEM ÞÚ ERT HVERJU SINNI

Ég man eftir bónda einum sem sagði mér að það hefði verið erfitt að vera bæði með útgerð og búskap. Þegar hann fór á sjó, horfði hann sífellt upp á land og hugsaði með sér að hann hefði frekar átt að vera að heyja. Og þegar hann var í landi horfði hann út á sjó og hugsaði með sér að hann hefði frekar átt að vera þar.

Þegar við erum með hugann annars staðar en við erum tvístrum við orkunni okkar og eigum erfitt með að einbeita okkur. Því er mikilvægt að leggja sig fram um að vera með hugann allan við vinnuna þegar verið er þar – og með hugann allan við fjölskylduna þegar verið er með henni. Í raun snýst þetta um að vera fullkomlega til staðar þar sem þú ert hverju sinni.

2 – VERTU SKAPANDI ÞEGAR ÞÚ SKIPULEGGUR TÍMANN ÞINN

Skipuleggðu þig minnst viku fram í tímann. Planaðu hvar og hvernig þú ætlar að fá sem mest út úr tímanum með maka eða börnum. Láttu aukavinnuna bíða þar til börnin eru farin að sofa á kvöldin. Skipuleggðu “stefnumótakvöld” með makanum einu sinni í viku. Slík stefnumót gleymist oft að setja í dagbókina, en það eru kannski mikilvægust stefnumótin. Farðu fyrr að sofa á kvöldin til að geta vaknað fyrr á morgnana til að skrifa, teikna eða vinna hugmyndavinnu tengda starfinu. Svefn fyrir miðnætti skilar meiri hvíld en að sofa frameftir á morgnana.

3 – ÆFÐU ÞIG Í AÐ SLEPPA TÖKUM

Sama hvað hver segir, þá getum við aldrei gert ALLT. Við verðum því að velja og hafna. Helsta æfing flestra felst í því að segja “nei” við verkefnum, boðum, skemmtunum og öðru sem á fjörur þeirra kanna að reka. Þegar búið er að segja “nei” þarf að sleppa fullkomnlega tökum, svo “ég hefði nú kannski átt að…” hugsunin skjóti ekki upp kollinum. Settu í forgang það sem er þér mikilvægast í lífinu og það er sem þú vilt verja mestum tíma í og sinntu því vel.

4 – HAFÐU Á HREINU HVERJUM ÞÚ HLEYPIR INN Í “ÞITT HERBERGI”

Ímyndaðu þér hvað myndi gerast ef þú lifðir allt þitt líf í einu herbergi með aðeins einar dyr og á þeim stæði “Inngangur”? Hver sem kæmi inn um þær væri um leið í herberginu þínu fyrir lífstíð. Myndirðu velja betur hverjum þú hleyptir inn um þessar dyr? Reyndar er þetta bara myndlíking, en hún gæti líka verið staðreynd og þegar einhver er kominn inn er oft erfitt að koma honum út. Því er gott að velja vini sína vel og leggja rækt við þann vinskap sem maður vill að blómstri.

5 – GERÐU ÞAÐ SEM ÞÉR ÞYKIR GAMAN AÐ

Leggðu þig fram um að hafa gaman af öllu sem þú ert að gera, hvort sem það er í leik eða starfi. Ef verkefnin eru erfið eða krefjast mikillar endurtekningar, er um að gera að setja upp skemmtilegt viðhorf gagnvart þeim. Í einni Chicken Soup for the Soul bókinni var sagt frá manni sem starfaði við tollhlið á einum af vegunum sem lágu inn til San Francisco. Hann var alltaf í góðu skapi. Alla daga bauð hann brosandi hvern einasta mann sem fór í gegn hjá honum velkominn og óskaði þess að dagurinn hans yrði ánægjulegur. Hann var í starf sem krafðist mikillar endurtekningar – en með viðhorfi sínu hafði hann gaman af því og naut hvers dags. Hafðu gaman af öllu sem þú gerir, því hver dagur er svo mikilvægur.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Fylgstu með Guðrúnu á FACEBOOK eða skráðu þig í HEILSUKLÚBBINN

Mynd: Can Stock Photo / alphaspirit

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram