RAVIOLI MEÐ TRUFFLUFYLLINGU

Matarbloggari síðunnar hún Björg Helen
er með uppskrift að pastarétti  þessa
vikuna, sem hún segir að sé fljótlegt
að gera fyrir vini og vandamenn
ef tími til eldamennsku er
takmarkaður.


Kæri lesandi!

Þegar þið langar að fá einhvern í mat til þín en hefur lítinn tíma til að standa yfir pottunum er frábært að skella í einn pastarétt. Flestir elska pasta og þessi réttur heppnaðist sérlega vel hjá mér, svo það er vel þess virði að prófa hann.

Gott er að bera pastað fram eitt og sér en hægt er að útbúa gott hvítlauksbrauð með eða bara gott ostabrauð til að bera fram með honum.

Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen

 

RAVIOLI MEÐ TRUFFLUFYLLINGU

INNIHALDSEFNI:

1 ½-2 kassar Ravioli (fæst í Kjötkompaníinu) – en hægt að nota hvaða ravioli eða pasta sem er
1 box sveppir
2 litlir hvítlaukar
ferskt kóríander
1 tsk trufflukrydd (fæst í Sælkerabúðinni)
rifinn börkur af einni sítrónu
safi úr ½ sítrónu
sítrónuolía
1 – 1 ½  sveppateningur lífrænn
2 ½ dl rjómi, má vera matreiðslu- eða venjulegur rjómi
Parmesan ostur
chilli flögur
smjör
svartur pipar frá Kryddhúsinu
salt – t.d. himalajasalt

AÐFERÐ:

1 – Steikið sveppina upp úr smjöri, ásamt smátt söxuðum eða rifnum hvítlauk. Saltið eftir smekk.

2 – Bætið rjómanum út í. Setjið sveppatening út í ásamt 1 tsk eða meira af trufflukryddinum sem er geggjað.

3 – Raspið sítrónubörkinn og setjið út í.

4 – Saxið ½ búnt af kóríander og setjið út í ásamt safa úr ½ sítrónu. Notið hinn helminginn af kóríandernum til að strá yfir í lokin.

5 – Gott að setja líka smá sítrónuolíu út í, ásamt nóg af nýmöluðum svörtum pipar.

6 – Mér finnst líka gott að setja smávegis af chilliflögum út í rjómann þannig að bragðið rífi aðeins í.

7 – Rífið ½ parmesan ostinn og setjið út í sósuna, en við það þykknar hún aðeins.

8 – Smakkið sósuna til og bætið í hana meira kryddi ef ykkur finnst þurfa þess. Gott að láta þetta standa í um 1 tíma áður en þið setjið pastað út í.

9 – Sjóðið Raviolið samkvæmt leiðbeiningum og setjið síðan út í rjómasósuna.

Hvort sem þið berið Ravioli-ið fram á fati eða í eldföstu formi er flott að rífa helling af Parmesan yfir pastað.

Stráið chilliflögum og kóríander yfir í lokin ásamt svolítið af sítrónuolíunni. Svo er um að gera að hafa auka Parmesan á borðinu þannig að hver og einn geti fengið sér meira af honum. Pasta er „ekki neitt“ ef það er ekki nóg af Parmesan .

Þetta er frekar stór uppskrift þannig að þið getið minnkað hana í samræmi við það hversu margir eru í mat.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

Neytendaupplýsingar: Kryddin frá Kryddhúsinu er hægt að fá í öllum helstu stórmörkuðum eins og Krónunni, Nettó, Hagkaup, Samkaup og Kjörbúðinni. Einnig er hægt að panta þau í gegnum netverslun: www.kryddhus.is

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram