ORKUHLIÐ SÍRÍUSAR

ORKUHLIÐ SÍRÍUSAR

Vegna ferðalaga hef ég síðustu vikurnar ekki haft mikinn tíma aflögu til að skrifa um stjörnuspeki eða þýða skýringar annarra, en nú stendur yfir merkilegt tímabil, sem í raun hófst þann 5. júlí og stendur til 20. júlí, svo ég má til með að fjalla aðeins um það.  

Þann 5. júlí kveiknaði nýtt Tungl í merki Krabbans, en Krabbinn er mjög viðkvæmt vatnsmerki. Samhliða nýju Tungli í Krabba eflist alltaf tilfinningagreind hjartans, svo þið kunnið að finna meira fyrir samúð og kærleika eða hugsanlega eruð þið í einhverju fyrirgefningarferli. Orkan sem fylgir Tunglinu hjálpar okkur að mýkja viðhorf  okkar og tengjast betur tilfinningum okkar.

Krabbanum fylgir líka mjög nærandi móðurleg orka, sem hjálpar okkur að skapa okkur innra öryggi, svo og öryggi á eigin heimili, í fjármálum og að styrkja tilfinningalegt stuðningsnet okkar. Innra öryggi hjálpar okkur að vinna andlegu vinnuna og halda áfram að hækka tíðni okkar með kærleiksríkri orku.

SÍRÍUS TENGINGIN

Á þessu nýja Tungli er einstök kosmísk afstaða, þar sem Tunglið er í beinni línu við Síríus. Þessi afstaða kallast af ýmsum orkuhlið Síríusar! Á nýju Tungli eru Sól og Tungl alltaf í samstöðu, svo þessar plánetur verða beintengdar andlegu Sólinni okkar, sem er stjarnan eða plánetan Síríus. – Sjá meira um það í bók minni LEIÐ HJARTANS!

Síríus er tuttugu og þremur sinnum bjartari en Sólin okkar. Orkan frá Síríusi tengist andlegri vakningu mannkyns, því að uppgötva ýmsan sannleika sem hingað til hefur verið okkur hulinn og fá mikilvægar andlegar upplýsingar með hækkandi tíðni.

Fyrri tíma menningarheimar veittu Síríusi sérstaka athygli og samræmdu marga helgisiði við hreyfingar plánetunnar. Landnemarnir hér á landi kölluðu stjörnuna Sám, en Sámur er hundsheiti. Væntanlega tengdist nafnið því að oft er vísað til Síríusar sem Hundastjörnunnar, því hún er hluti af Canis Major stjörnumerkinu, sem táknar veiðihundinn Óríon.

Hundadagar sumarsins tengjast þeim tíma árs þegar Síríus rís í austri við dögun og þeir ná hámarki þann 8. ágúst. Þá verður belti Óríons í beinni línu við pýramídana í Egyptalandi, en sú afstaða var hér áður fyrr táknræn fyrir flóðin í Níl og markaði hið fornegypska nýár.

SÍRÍUS Í EGYPSKRI DULSPEKI

Síríus er sérstaklega mikilvæg í egypskri dulspeki, en stjarnan var talin vera tákn gyðjunnar Sopdet, sem Grikkir kölluðu reyndar Sothis, en hjá Egyptum var Sopdet nátengd Isis, Osiris og Anubis. Í fornegypskri dulspeki veitti Síríus aðgang að andlegu sviðunum og boðaði komu mikillar frjósemi, lífs og guðlegs ljóss inn í heiminn.

Orkuhlið Síríusar opnast árlega og einkennist af samstillingu Sólar og Síríusar. Þetta orkuhlið Síríusar núna er hins vegar mjög sérstakt því bæði Sólin og Tunglið, liggja í beinni línu við Síríus. Þetta er því sérstakur og öflugur tími til að tengjast orkunni frá Síríusi

Sú háa orkutíðni sem myndast við þessa sjaldgæfu samstilling plánetanna, getur hjálpað okkur að tengjast uppsprettu alls sem er og skynja að við erum hluti af einingu Alheimsins. Hún er því öflug fyrir alla andlega vinnu og gefur okkur tækifæri til heilunar og samtengingar við þá hluta af sálum okkar sem hafa glatast við áföll í lífi okkar.

HÆRRI TÍÐNI

Með alla þessa jákvæðu orku sem streymir til okkar er mikilvægt að fylla líf sitt gleði og bjartsýni og láta kærleiksorkuna verða leiðandi í eigin lífi. Samhliða þeirri háu tíðni sem frá Síríusi kemur, fylgir mikil vitundarvakning.

Við getum því átt von á því að með henni komi fram nýjar og einstakar hugmyndir, ýmsar nýjungar á sviði heilunar og hæfileikinn til að hugsa út fyrir svið hins skilyrta huga. Á heildina litið verður þetta gríðarlega öflugur tími til að efla tengingu við og hækka tíðnina í ljóslíkama okkar og til að skapa nýja framtíð með aukinni vitundarvakningu.

LJÓSLÍKAMI OKKAR

Ljóslíkami okkar tjáir útgeislun sálarinnar, tengingu við hina guðlegu uppsprettu og óendanlegar andlegar víddir tilverunnar. Í raun tengingu við Quantum sviðið eða svið ótakmarkaðra möguleika. Við öðlumst æðri þekkingu og tengjumst visku hins guðlega sköpunarhuga sem nær yfir allar víddir.

Við gætum jafnvel náð því að sameinast aftur þeim sálarbrotum, sem tapast hafa við ýmis áföll, hvort sem er á þessu eða fyrri æviskeiðum. Við áföll lokum við oft á einhvern hluta sálarinnar til að reyna að flýja sársaukann sem áföllunum hefur fylgt. Öll heilun er því mikilvæg á þessum tímabili.

Þessi hækkun á tíðninni í ljóslíkama okkar mun tengja okkur æðri greind og sameina okkur aftur visku æðri andlegra tilverusviða. Þetta gæti kveikt nýjar hugmyndir, nýjungar og innblástur sem gætu frelsað okkur frá takmörkunum hins skilyrta huga og breytt lífi okkar til hins betra.

Á heildina litið snýst þessi uppfærsla okkar á ljóslíkamanum um að leysa upp þéttleika til að rýma fyrir mikilli hækkun á meðvitund okkar. Næstu vikur er því gott að spyrja sig: „Hvað þarf ég að losa mig við til þess að hið nýja komist að?“ Það gætu bæði verið efnislegir hlutir sem ekki er lengur not fyrir, svo og gamlar sársaukafullar minningar og áföll sem við ætlum ekki lengur að burðast með. Framundan er því tími heilunar á ýmsum sviðum.

SAMSTAÐA VIÐ SALACIA

Nýja Tunglið þann 5. júlí var í samstöðu við dvergplánetuna Salacia á ellefu gráðum í Hrút. Plánetan er nefnd eftir eiginkonu Neptúnusar og táknar fegurð glitrandi ljóss sem merlar á hafs- og vatnsflötum. Salacia er líka táknræn fyrir orku hafmeyjunnar og hafmeyjan táknar andlegan kraft mannlegrar meðvitundar til að kanna víðfeðm svið ótakmarkaðra möguleika.

Salacia, táknar samruna ljóss og vatns og þegar við aukum ljósmagn líkamans, færum við hina háu tíðni guðlegs ljóss inn á jarðneska planið. Á sviði andans er ljósið hið raunverulega efni vitundarinnar. Vatn er hinn jarðneski þáttur sem fæðir meðvitund inn í hina líkamlegu, jarðnesku vídd tilverunnar.

VATNIÐ TENGIR LJÓSIÐ

Reyndar tekur vatn strax á sig kóðun hverrar meðvitaðrar tíðni eða hugsunar sem sett er í það. Til að læra meira um þetta, er hægt að skoða rannsóknir Dr. Masaru Emoto sem sannaði að meðvitund mannsins getur haft áhrif á sameindabyggingu vatns. Í framhaldi af vinnu hans með vatn tók Nýsjálendingurinn Veda Austin að rannsaka og vinna með það og ný bók hennar um vitundina í vatninu er að koma út á næstunni.

Samtenging okkar við orkuna frá Salacia, sem er táknræn fyrir hið guðlega ljós og vatnið, leiðir til nýrrar uppbyggingar í líkömum okkar. Þegar við höfum í huga að líkamar okkar eru 60 til 70 prósent myndaðir úr vatni, gerum við okkur betur grein fyrir þeirri staðreynd að VIÐ erum að umbreytast.

Vatn er miðill til að bera ljós æðri meðvitundar inn í líkama okkar og líkamlegan veruleika. Ef við erum að upplifa miklar, andlegar breytingar í lífi okkar eru því líkur á að við séum í miðju virkjunarferli eigin ljóslíkama. Það getur styrkt það ferli að vera í nálægð við ár og vötn í náttúrunni eða að blessa það vatn sem við drekkum, því vatn mun verða mjög mikilvægt fyrir líkama okkar á næstunni.

HREINSUN LÍKAMANS MIKILVÆG

Nýja Tunglið þann 5. júlí var mjög vatnsríkt Tungl, því það var bæði í Krabba sem er vatnsmerki og í samstöðu við dvergplánetuna Salacia sem er táknræn fyrir ljósið í vatninu. Því er mikilvægt á þessum tíma að hreinsa ýmsar eiturverkanir úr fortíð okkar, sem geta tengst neikvæðum tilfinningum eða eiturverkanir sem tengjast blóðinu og flæði annarra líkamsvökva.

Svo er gott að stilla sig inn á líkamann og biðja um skilaboð frá honum um það hvað við þurfum að gera varðandi heilsuna, afeitrunarferlið og mataræðið – eða hvað annað sem þarf til að við höldum þreki og innra jafnvægi í þessari hækkandi tíðni.

Afeitrun geta fylgt ýmis líkamleg einkenni eins og þreyta, aukin þörf fyrir svefn, heilaþoka og grátur, en allt eru þetta merki sem í raun tengjast bata. Það fylgir því nefnilega svo mikill léttir að gera upp gömul karmísk mynstur, áföll fortíðar og hætta að dæma sjálfan sig og aðra – því það opnar leið fyrir uppbyggjandi framtíðarsýn fyrir líf okkar. 

MARS OG ÚRANUS Í SAMSTÖÐU

Dagana 14. til 16. júlí – og áhrifanna gætir jafnvel í tvo daga fyrir og eftir þessa daga – verða Mars og Úranus í nákvæmri samstöðu – og ekki nóg með það. Þessar plánetur verða líka í samstöðu við fastastjörnuna Algol, en hún er táknræn fyrir þá sem tapa höfðinu. Það tap má tengja beinni afhöfðun, en líka því að missa vitið, eins og sagt er, eða falla úr háu embætti.

Úranus er táknrænn fyrir hið óvænta og skyndilega, fyrir jarðhræringar og eldgos, hvort sem er manna á milli eða í náttúrunni. Mars er hins vegar táknrænn fyrir hernaðarorku sína.

Vedíski (Indversk stjörnuspeki) stjörnuspekingurinn Joni Patry, sem hefur verið nokkuð sannspá í gegnum tíðina, spáir miklum jarðskjálftum í San Francisco einhvern þessara daga – og þar sem við búum á eldfjalla- og jarðskjálftalandi, eru allar líkur á að hér skjálfi eitthvað og titri – og það jafnvel á stöðum sem enginn á von á, því Úranus tengist hinu óvænta.

Svona hræringar færa oft mikilvægan sannleika upp á yfirborðið og geta gerbreytt og leyst upp eiturefni fortíðarinnar. Samhliða því megum við vænta þess að gömul valdakerfi séu að hrynja og valdið að færast meira yfir til fólksins. Þótt það gerist ekki samstundis, er ferlið hafið og ný framtíðarsýn fyrir samfélög heims með dreifðu valdi er að mótast.

MARS OG CERES

Sú endurnýjandi orka sem streymir nú til Jarðar felur í sér aukna frjósemi, heilsu og næringu sem styður okkur í að þrífast sem best í þessum heimi. Krabbaorka nýja Tunglsins er mjög nærandi og að auki er hundrað og tuttugu gráðu samhljóma afstaða á milli Ceres og Mars, en plánetan Ceres er táknræn fyrir kornrækt, uppskeru og matvælaframleiðslu.

Þessi afstaða plánetanna er því táknræn fyrir aukna vitundarbreytingu mannskyns gagnvart sambandi þessi við matvælaframleiðslu, búskap og Móður Jörð. Mannkynið er að leita aftur í rætur sínar og teningu við náttúruna, skilningi á mikilvægi ræktunar matvæla og að auka skilningi sinn á mikilvægi þess að rækta mat á náttúrulegan, lífrænan hátt og vernda heilsu jarðvegsins.

ÆÐRI ANDLEGUR SKILNINGUR

Þetta tímabil frá 5.-20. júlí er tímabil mikils niðurhals af æðri andlegri þekkingu sem tengist vatni og kemur í gegnum orkuhlið Síríusar! Það eru því bæði vatns- og jarðarþættirnir sem kröftuglega undirstrikaða fyrir okkur mikilvægi þess að læra að beita og vinna með þessa þætti á þann hátt sem styður við æðri meðvitund okkar og nýja Jörð.

Á meðan þetta nýja Tungl er að ná fyllingu sinni verður 120 gráðu afstaða á milli Neptúnusar og Venusar. Þeirri afstöðu fylgir falleg, skapandi orka sem hefur tilhneigingu til að vera mjög græðandi og hreinsandi fyrir hjartað og sambönd okkar.

Látum hjartað því leiða okkur áfram! Munið að orkan núna er að auka greindina í hjarta okkar og hjálpa okkur að skilja raunverulegustu tilfinningar okkar.

Gefum okkur því rými í hjarta okkar og huga til að átta okkur á raunverulegum þörfum okkar. Því betur sem við skiljum raunverulegar tilfinningar okkar og þarfir, því betur erum við í stakk búin til að fá þessar þarfir uppfylltar og upplifa djúpa næringu alveg inn í hjarta okkar.

AÐEINS UM NÁMSKEIÐ OG STJÖRNUKORT

Ég verð með sérlega öflugan og sjálfseflandi 888 námskeiðsdag þann 8. ágúst fyrir konur. Enn eru nokkur pláss laus. Þú getur skráð þig með því að SMELLA HÉR!

Ef þig langar að eignast stjörnukort með persónulegu plánetunum (þeim gömlu) og dvergplánetunum (þeim nýju) geturðu pantað þér kort með því að SMELLA HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum!

Myndir: Shutterstock.com

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram