ÓDÝRT AÐ EYÐILEGGJA HEILSUNA

 MEGINEFNI GREINARINNAR: 

  • Það er ódýrt að eyðileggja heilsuna með neyslu á fæðu eins og sykri í öllum sínum myndum, gosdrykkjum og skyndibitamat.
  • Fæðan sem við neytum er eldsneyti líkamans og gæði fæðunnar hafa mikil áhrif á heilsufar líkamans.
  • Læknar víða um heim eru sammála um að besta leiðin til að koma jafnvægi á líkamann á ný ef ójafnvægið hefur leitt til sjúkdóma, sé að nota umataræði, hreyfingu, svefn og bætiefni.

Greinarhöfundur: Guðrún Bergmann
Fylgstu með daglegum færslum á Facebook eða skráðu þig í Heilsuklúbbinn 


ÓDÝRT AÐ EYÐILEGGJA HEILSUNA

Ég hef oft velt því fyrir mér hversu ódýrt það sé að eyðileggja heilsuna. Að sama skapi hef ég lært eins og svo margir aðrir hversu dýrt það er að tapa henni og þurfa að byggja hana upp aftur eftir að hún hefur “bilað”, ef það er þá hægt. Ég tel mig heppna að hafa getað snúið mínu heilsufari til betri vegar á ný, en það var fyrir rúmum 7 árum á skalanum 0-10 á milli 0-1 eftir mikið ofurálag og vinnu, en er nú á bilinu 8,5-10 á sama skala.

Aðferðin sem ég notaði er ekki flókin, en hún vefst samt fyrir mörgum, því það þarf úthald til að hún skili árangri. Mataræði, svefn, hreyfing og bætiefni hafa hjálpað mér og svo mörgum öðrum að ná betri heilsu á ný. Það þekki ég í gegnum reynslu þeirra tæplega 900 manns sem sótt hafa HREINT MATARÆÐI námskeið mín undanfarin tvö og hálft ár.

ÓDÝRT EN KOSTNAÐARSAMT
Það er ekki flókið að sjá ódýru leiðina til að eyðileggja heilsuna, því sú matvara sem skaðar heilsuna hvað mest eins og til dæmis sykur í öllum sínum myndum, svo og gosdrykkir, skyndibitamatur og fleira er yfirleitt frekar í ódýrari kantinum og oft á alls konar tilboðum, sem bjóða upp á magnkaup. Skyndibitamatur krefst ekki mikils undirbúnings – oft búinn að bíða hálfeldaður undir hitalömpum – og það tekur stuttan tíma að fá fylli sína.

Bensínstöðvar virðast ólíkt því sem áður var,  nú til dags selja minna af bensíni og olíum og þeim mun meira af sælgæti, snakki, gosdrykkjum og skyndibitamat. Þegar bensínstöðvar eru til umræðu kemur mér alltaf í huga það sem vinur minn sagði þegar, hann lét mig hróðugur vita að hann væri hættur að borða sælgæti. “Ég hætti að borða sælgæti þegar ég fattaði að ég stoppaði oftar á bensínstöðvum til að fylla á mig en bílinn!”

Ég held að hans saga sé ekki einsdæmi og að bensínstöðvar séu í æ ríkara mæli áfyllingastöðvar fyrir fólk frekar en farartæki. Þær virðast alveg hafa yfirtekið sjoppumarkaðinn og auglýsa daglega alls konar tilboð á skyndibitamat og sælgæti.

Áfyllingar sem þar fást, svo og á öðrum skyndibitastöðum eru kannski ódýrari í augnablikinu, en mjög kostnaðarsamar þegar til lengri tíma er litið.

LÍFIÐ FELST Í NÆRINGUNNI
Fæðan sem við neytum er eldsneyti líkamans og gæði fæðunnar hafa mikil áhrif á heilsufar hans. Ef fæðan er léleg fær líkaminn lélegt eldsneyti. Því skipti máli hvað borðað er. Vatnsdrykkja skiptir líka miklu máli, því vatn er eini vökvinn sem líkaminn þarf ekki að melta og lítur því ekki á sem mat, heldur einungis stuðning við vökvabúskap sinn – og það er gífurlega mikilvægt að viðhalda honum með nægilega miklu vatni daglega.

Framsæknustu læknar víða um heim, benda í dag á að laga megi ótrúlega margt af því ójafnvægi í líkamanum sem leiðir til sjúkdóma með mataræði, hreyfingu, hvíld og bætiefnum. Bætiefnin eru mun mikilvægari en fólk heldur, því við fáum ekki lengur nægilega mikið af þeim í gegnum fæðuna, ekki bara vegna þess að við borðum of mikið af skyndibitamat, heldur líka vegna þess að jarðvegurinn sem fæðan er ræktuð í er svo snauður af næringarefnum.

Í HVÍLD LÆKNAR LÍKAMINN SIG
Hvíldin er ekki síður mikilvæg og því fleiri klukkustundir sem við náum okkur í af svefni fyrir miðnætti, þeim mun betra. Bandaríski glútenóþolssérfræðingurinn Dr. Orborne heldur því fram að aðallækningatími líkamans sé frá klukkan tíu að kvöldi og fram til klukkan tvö að nóttu og því sé best að hann sé í hvíld á þessum tíma.

Ég hvet þig til að muna að “Lífið er núna, svo lifðu því vel!” Taktu ábyrgð á eigin heilsu með því að vernda hana vel, því flest okkar setja ekki rétt verðmat á heilsuna fyrr en við byrjum að tapa henni. Í mínum huga er góð heilsa eitt það verðmætasta sem við eigum.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Guðrún Bergmann er höfundur 17 bóka um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjustu bækur hennar eru HREINT Í MATINN og HREINN LÍFSSTÍLL. Guðrún hefur 27 ára reynslu í námskeiða- og fyrirlestrahaldi og hefur leiðbeint tæplega 900 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI námskeið sín undanfarin tvö og hálft ár. Síðasta námskeið ársins hefst 24. október.

Mynd: Can Stock Photo / focalpoint