NÝTT OFURTUNGL Í FISKUM

NÝTT OFURTUNGL Í FISKUM

Á sunnudaginn eða þann 10. mars rís nýtt Tungl. Daginn áður eða þann 9. mars er nákvæm 90 gráðu spennuafstaða á milli Mars á 19 gráðum í Vatnsbera og Úranusar á 19 gráðum í Nauti. Þessari afstöðu fylgir mjög uppreisnargjörn og byltingarkennd orka vegna þess að Úranus stjórnar Vatnsberanum, svo orkan er tengd frelsi, uppreisn og byltingu, þar sem sérhver rödd gerir kröfu um að fá að heyrast.

Því má vænta hvatvísi og óstöðugrar orku þennan dag, en sú orka getur leitt til meiri skjálftavirkni, einkum vegna þess að bæði Vatnsberinn og Nautið eru föst merki. Einnig vegna þess að Úranus er í Nauti og Nautið tengist jörðinni, svo líkur eru á að einhvers konar þrýstingur byggist upp í henni, sem þarf að finna útrás sem getur þá gerst mjög skyndilega.

Hugsanlega getur orkan í kringum þessa afstöðu líka leitt til truflana á flugi, vegna þess að Úranus er tengdur flugi, auk þess sem orkan getur tengst rafmagnsleysi eða óvæntum netárásum vegna ósamfelldrar orku Úranusar.

NÝJA TUNGLIÐ

Næsta dag rís svo nýtt Tungl klukkan 09:00 að morgni dags á 21 gráðu og 26 mínútum í Fiskum. Á nýju Tungli eru Sól og Tungl alltaf í nákvæmri samstöðu. Allar persónulegu pláneturnar eru í mjög samþjappaðri afstöðu til hvor annarar og það er styrkur í þeim, því þær halda áfram að vera í þéttri samstöðu, fyrir utan Tunglið sem hreyfist mjög hratt. Afstaða persónulegu plánetanna til hvor annarri leiðir okkur inn í ákveðna stöðu miklu seinna á árinu, sem fjallað verður um síðar.

OFURTUNGL

Þetta er annað nýja Tunglið í röð af fimm sem er Ofurtungl, sem þýðir að nýja Tunglið er mjög nálægt Jörðu á braut sinni. Við erum vanari því að það séu full Tungl sem eru Ofurtungl, en þá skynjum við að Tunglið er nær okkur og það er miklu stærra og bjartara, svo okkur finnst stundum að við gætum teygt okkur út og snert það.

En nýtt Tungl getur líka verið ofurtungl og þar sem við erum með fimm ný Ofurtungl í röð, bendir það til þess að þau Tungl komi til með að hafa sterkari áhrif en venjulega á sálarþroska okkar.

Nýtt Tungl er eins og alltaf fullkominn tími til að setja sér nýjan ásetning svo skoðið hvar 21 gráða í Fiskum lendir í fæðingarkortum ykkar, einkum í hvaða húsi til að gera ykkur grein fyrir því hvar í lífi ykkar þið ættuð að vera að setja fókusinn og styrkja markmiðin ykkar – og munið að setja þau fram eins og þau hafi nú þegar orðið að veruleika.

FJÓRAR PLÁNETUR Í FISKUM

Það eru fjórar plánetur í Fiskum á þessu nýja Tungli, en þær eru Sól, Tungl, Satúrnus og Neptúnus. Fiskarnir eru breytilegt vatn svo það er mikið næmi hér á ferð, samkennd, góðvild, mildi og tilfinning fyrir einingu og tengingu við hið guðdómlega. Einnig fylgir Fiskunum lækningarorka og aukið sálrænt næmi okkar allra.

Nýju Tungli og orkunni í kringum það fylgir því vaxandi tilfinning fyrir fjölvídd og því að við erum að fara handan þriðju víddarinnar, en Satúrnus í Fiskunum stuðlar einnig að þessari umbreytingu. Orkan er dásamleg fyrir sköpunargáfuna og ímyndunaraflið og mjög tengd draumum vegna þess að Neptúnus er frekar nálægt þessu nýja Tungli og Sól. Núna er því  góður tími til að halda draumadagbók. Munið að þið þurfið að skrifa þá niður áður en þið farið fram úr rúminu, til að „tína“ þeim ekki.

FISKAR OG FLÓÐ

Fiskarnir eru vatnsmerki sem stjórnað er af Neptúnusi, sem kallaður hefur verið herra hafsins. Orkan í kringum Fiskana getur tengst vatnsflóðum, líkt og hefur verið í Bretlandi upp á síðkastið vegna mikilla rigninga.

„Flóðin“ geta líka verið tilfinningalegs eðlis, svona eins og þegar fólki finnst það vera bugað af einhverju og ræður ekki við kringumstæður. En við getum alltaf reynt að umbreyta orkunni og nota hana til að vera meira skapandi, auk þess sem samúð og mildi eru stórir þættir í orku Fiskanna.

SATÚRNUS OG NEPTÚNUS

Áhugavert er að Satúrnus og Neptúnus eru í frekar víðri samstöðu við bæði Sól og Tungl. Satúrnus er á 11 gráðum í Fiskum eða einungis í 9 gráðu fjarlægð frá nýja þeim og Neptúnus sem er á 27 gráðum í Fiskum eða í einungis sjö gráðu fjarlægð frá þeim. Sól og Tungl eru því í raun á miðpunkti mitt á milli Satúrnusar og Neptúnusar, en það styttist í samstöðu þessara tveggja pláneta.

Satúrnus hreyfist miklu hraðar en Neptúnus, en nokkuð nákvæm samstaða á milli þeirra verður í mars á næsta ári – og svo aftur í júní, júlí og ágúst sama ár, þegar þessar plánetur verða á innan við gráðu – en ekki upp á mínútu í samstöðu.

Hin nákvæma samstaða þeirra verður ekki fyrr en í febrúar árið 2026 og þá á núll gráðu í Hrútnum, sem oft er kölluð sköpunargráðan og boðar væntanlega alveg nýtt tímabil hjá okkur öllum, en sú staðreynd að nýja Tungl skuli falla á miðpunkt á milli þessara tveggja pláneta gefur til kynna mikilvægt upphaf tengt áhrifum frá þessum tveimur plánetum.

SÍÐASTA SAMSTAÐA

Síðast þegar Satúrnus og Neptúnus voru í samstöðu var það fyrir um 35 árum eða í nóvember 1989. Margir sem þekkja söguna muna kannski hvað var að gerast á þessum tíma, en þetta var þegar Berlínarmúrinn féll. Satúrnus er tengdur múrum, landamærum og  girðingum sem okkur er ekki ætlað að komast úr fyrir. Berlínarmúrinn var þessi mikli múr sem var reyndar tvöfaldur veggur, um 155 kílómetra langur og skildi að Vestur- og Austur-Þýskalandi og í raun Mið- og Austur-Evrópu.

Þegar Berlínarmúrinn féll var samstaðan á milli Satúrnusar og Neptúnusar nákvæmlega á 10 gráðum í Steingeit, um 14 mínútum frá því að vera algerlega nákvæm. Hrun hans varð upphafið að falli kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu og þar raungerðist hugsjónastefna Neptúnusar og leysti upp gamla reglu Satúrnusar.

Í raun fylgdi þessu hugsjónatilfinning, framtíðarsýn og alveg ný byrjun fyrir draum og hugsjón fólks um frelsi. Eitt af stóru þemum Satúrnusar og Neptúnusar er að gera drauminn að veruleika, svo við ættum að sjá meira af því á næsta ári. Mikilvægt er að undirstrika þetta, því afstaðan er eins og fræ sem sáð er og gefur okkur innsýn í það sem líklegt er að vaxi upp af henni.

TEHARONHIAWAKO

Dvergplánetan Teharonhiawako er í nákvæmri samstöðu við nýja Tunglið og Sólina, en Teharonhiawako var hinn skapandi bændaguð, mjög tendur búskap og sá sem tryggði að nóg væri til af fræjum fyrir næstu uppskeru, til að hægt væri að fæða alla. Það gætu orðið truflanir í fæðuframboði með öllu þessu óstöðuga jarðsegulmagni sem við nú höfum. Með því að rækta smá grænt í eldhúsglugganum eða láta fræ spíra getum við verið með góðan næringargrunn til að bæta í annað sem við erum að borða.

NÝJAR HUGMYNDIR OG ENDURNÝJUN

Rétt er að minnast líka á að Merkúr á núll gráðu í Hrút er í samstöðu við Neptúnus á 27 gráðum í Fiskum. Þar sem Merkúr er á núll gráðunni í Hrút er hann á heimsásnum, sem er mjög öflugur staður fyrir nýjar hugmyndir og nýja hugsun sem gæti komið fram á opinberum vettvangi á mjög mikilvægan hátt.

Ekki bara það, heldur er hann í samstöðu við dvergplánetuna Manwe en eins og þið munið þá skapaði Manwe í goðsögninni heiminn ásamt eiginkonu sinni Varda. Hann er því líklega að endurfæða kosmósið okkar, en hann var hugsjónaríkur skapari fyrir Alheiminn og jörðina. Þetta er öflugt og enn eitt merki um nýtt upphaf.

MERKÚR OG HAUMEA

Merkúr er líka í 150 gráðu afstöðu við Haumea, sem er á 1 gráðu í Sporðdreka. Sú afstaða er enn eitt táknið um endurnýjandi hugmyndir fyrir Jörðina og hvernig við þurfum að læra að lifa í sátt og samlyndi og einingu með henni. Norðurnóðan er á 15 gráðum í Hrút er í mjög þéttri samstöðu við Chiron á 17 gráðum í Hrút. Hér höfum við öll tækifæri til að vinna úr og heila fórnarlambsvitund okkar á sameiginlega sviðinu.

PLÚTÓ OG HAUMEA

Plútó er í langtíma 90 gráðu spennuafstöðu við Haumea, sem mun vara allt þetta ár og allt næsta ár. Þar er enn eitt merkið um djúpa umbreytingu og svo endurfæðingu og endurnýjun, sem við eigum væntanlega eftir að sjá mikið af á þessu ári og því næsta. Plútó á 1 gráðu í Vatnsbera er í mjög þéttri 60 gráðu samhljóma afstöðu við Merkúr á 1 gráðu í Hrútnum, en það getur verið táknrænt fyrir djúpa hugsun um málefni tengd frelsi og mannréttindum, en líka tækni og umræðu um hana.

SAMSTAÐA JÚPITERS OG ÚRANUSAR

Það er líka vaxandi samstaða hér á milli Júpíters og Úranusar, en þessar plánetur verða í nákvæmri samstöðu þann 20. apríl næstkomandi á 21 gráðu og 29 mínútum í Nauti. Þessi samstaða markar enn einn af mikilvægum þáttum ársins, vegna þess að Úranus styrkist við það að Plútó er í merkinu sem hann stjórnar (Vatnsberanum). Sem stendur eru einungis 7 gráður á milli Júpiters og Úranusar og þess vegna er orkan tengd samstöðu þeirra nú þegar orðin virk.

Hún tengist nýjum uppgötvunum, stökki í meðvitund heildarinnar, Quantum stökki, nýjum viðhorfum og ýmsu sem tengist nýrri þróun í alls konar vísindum og tækni, lækningatækjum og alls konar nýjum uppgötvunum um Alheiminn. Þetta verður því mjög þýðingarmikil samstaða.

14. MARS

Þann 14. mars er enn einn dagur þar sem orkan verður nokkuð uppreisnargjörn, því Tunglið verður í samstöðu við Úranus, í 90 gráðu spennuafstöðu við Mars. Merkúr er líka í 45 gráðu afstöðu við Mars, svo þarna er aftur á ferð þessi uppreisnargjarna, hvatvísa og byltingarkennda orka, sem verður mjög sterk það sem eftir er af þessu ári, bæði vegna Vitundarvakningarinnar miklu og byltinga á ýmsum sviðum mannlífsins.  

STJÓRN Á HUGA OG TILFINNINGUM

Allt snýst um breytta og hækkandi tíðni á þessu ári og það hversu mikil áhrif við höfum á allt í heiminum með hugsun okkar og tilfinningum.  Við þurfum að læra að hafa stjórn á þeim 24 tíma á dag 7 daga vikunnar og hætta að láta það áreiti sem beint er að okkur utan frá trufla okkur, með því að læra að halda okkur í friði og kærleika, alveg sama hvað.

Orka Fiskanna er friðsamleg orka og við getum tamið okkur að vera í henni og stuðlað að auknum kærleika í heiminum með því að halda okkur daglega í innri friði og senda frá okkur kærleiksríkar hugsanir.

Við eru í ljósneti sem tengist öllum tíðnibrautum í Alheiminum og getum með hugsunum okkar og tilfinningum haft áhrif á allt í kringum okkur – og í raun smitað aðra til að finna til sömu tilfinninga. Því skiptir miklu máli að vera með fólki í hópum sem eru með álíka hugarfar og við, því að þannig aukum við áhrif orkunnar. Við getum gert mikið upp á eigin spýtur, en ennþá meira ef við komum saman og sendum frá okkur samskonar hugsanir og tilfinningar.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Ef þú hefur áhuga á að eignast stjörnukort með bæði persónulegu plánetunum og mörgum af dvergplánetunum, sem skýra líf þitt á mun dýpri máta en önnur kort gera, geturðu pantað þér kort með því að SMELLA HÉR

Mynd: Stjörnukort af stöðu plánetanna á nýju Tungli í Reykjavík – og af shutterstock.com

Heimild: Brot úr stjörnuspekiskýringum Pam Gregory fyrir þetta nýja Tungl, sem sjá má í fullri lengd HÉR

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram