NÝTT OFURTUNGL Í SPORÐDREKA

NÝTT OFURTUNGL Í SPORÐDREKA

Hér á eftir fylgir þýðing á skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á orkunni í kringum NÝTT OFURTUNGL í Sporðdreka þann 15. nóvember og áhrifum plánetanna út nóvember. Pam hefur veitt fullt leyfi fyrir þýðingum mínum á skýringum hennar.

MARS Í HRÚTSMERKINU

Í upphafi skýringa sinna byrjaði Pam á að fjalla aðeins um plánetuna Mars. Eins og áður hefur komið fram í umfjöllunum hennar fer Mars yfirleitt í gegnum eitt stjörnumerki á sex vikum, en á þessu ári hefur Mars skipt oft um stefnu og farið fram og til baka um himinhvolfið í sama merkinu. Mars hefur verið í sínu merki Hrútsmerkinu, frá því um miðjan júní og verður þar fram í miðjan janúar 2021, sem er mjög óvanalegt.

Pam hvetur okkur til að skoða hvar Hrútsmerkið er í okkar stjörnukorti, það er í hvaða hús það fellur – sjá skýringu á húsunum í greininni TÓLF HÚS STJÖRNUKORTANNA – og fyrir hvað það hús stendur. Þannig eigum við auðveldar með að sjá hvaða þáttur í lífi okkar hefur verið að ganga í gegnum endurnýjunarferli og um leið örvast frá því um miðjan júní.

 

Mars hefur svo verið að fara öfugan hring um Jörðu frá 9. september, en þegar hann er í slíkri stefnu getur það veitt okkur góðan tíma til að endurgera hlutina. Hugsanlega hefur þetta samt verið erfiður tími fyrir ýmsa, því Mars býr yfir mjög beinskeyttri framkvæmdaorku. Svona fyrstu persónu orku eins og: Ég vil bara gera hlutina núna. Ég vil ná markmiðum mínum. Ég vil ekki þurfa að lúta stjórn einhvers og vill engar truflanir eða hindranir. Ég vil bara gera hlutina hratt og ná árangri.

Mars hefur ekki bara verið að fara öfugan hring um Jörðu frá því 9. september, heldur hefur hann líka verið í 90° spennuafstöðu við pláneturnar Júpiter, Satúrnus og Plútó í Steingeit. Þörf Marsorkunnar fyrir frelsi, sjálfstæði og sjálfræði hefur því verið heft af alls konar reglum og skipunum frá stjórnvöldum – og það hefur komið fram í „uppreisn“ Marsorkunnar víða um heim.

MARS BREYTIR UM STEFNU

Þann 14. nóvember stöðvast Mars á himinhvolfinu og breytir um stefnu og fer réttsælis á ný. Í hvert skipti sem pláneta stöðvast og breytir um stefnu er eins og verið sé að snúa við stóru skipi. Orka viðkomandi plánetu borar sig niður á ákveðna gráðu meðan hún hægir á sér, snýr sér og fer svo af stað aftur í aðra átt.

Mars kemur því til með að vera að grafa djúpt á 15° og 16° í Hrútnum,  frá 14. nóvember og út mánuðinn. Ef við erum með einhverjar plánetur á þessum gráðum í eftirfarandi merkjum, Hrút, Krabba, Vog eða Steingeit, gætum við hafa fundið til vanmáttakenndar í lífi okkar undanfarið, þar sem þessi afstaða hefur haldið aftur af okkur að gera það sem okkur dreymir um.

Frá og með 14. nóvember getum við hins vegar átt von á að hlutirnir fari að ganga betur og symbólismi Marsorkunnar fari að magnast, ekki bara þann dag, heldur í nokkra daga sitt hvorum megin við hann. Þau einkenni sem tilheyra stríðsmannsorkunni í Mars geta því orðið mjög áberandi, en það eru reiði, yfirgangssemi, árásarhneigð og hvatvísi og við megum búast við að sjá þetta birtast í heiminum í kringum okkur.

Pam hvetur okkur til að lyfta þessum tilfinningum á hærra tíðnisvið og taka þær inn á við, til að við getum upplifað meiri samhæfingu innra með okkur og hættum að vera eins tætt og margir hafa verið undanfarna mánuði. Með því getum við gert þessa orku að hugrekki okkar eigin stríðsmanns. Sú orka getur styrkt sannfæringar okkar og eigin hetjuorku.

STEFNUBREYTING HJÁ PLÁNETUNUM

Við eigum líka örugglega eftir að fá skýrari mynd af hlutunum og ýmsum breytingum á eftir að fylgja meiri skriðþungi, því frá og með miðjum mánuði verður Merkúr, sem breytti um stefnu í réttsælis hring þann 3. nóvember, svo og pláneturnar Júpiter, Satúrnus og Plútó allar á sömu braut fram á við.

Neptúnus bætist svo í hópinn þegar plánetan breytir um stefnu fram á við þann 29. nóvember, en Pam kemur frekar inn á það síðar í skýringum sínum. Eina plánetan sem enn verður í á afturábak rólinu er Úranus í Nauti.

Pam telur þessa breytingu mjög áhugaverða, því fyrr á árinu voru margar af þessum plánetum á réttsælisbraut um Jörðu. Um það leyti sem fyrstu sóttvarnarreglur voru svo settar í mars og fólk gerði sér grein fyrir að um nýjan vírus væri að ræða, fór fólk á vissan hátt inn í hellinn sinn. Um svipað leyti breyttu þessar áhrifamiklu pláneturnar um stefnu, samhliða því að heimurinn fór í gegnum „afturhaldstímabil“ sem fæstir höfðu áður upplifað.

HVAÐ FINNST OKKUR UM EINANGRUN?

Þar sem pláneturnar eru nú flestar að fara beint áfram og þriðja einangrunaraldan er að ganga yfir stóran hluta heims, gætu hlutirnir snúist svolítið um það núna hvað okkur finnst um alla þessa einangrun. Er hún öðruvísi nú en í fyrstu umferð? Viðbrögðin geta því orðið áhugaverð, því þessum breytingum getur fylgt meiri skriðþungi og við um leið haft meira á hreinu hvert við viljum fara og hvað við viljum gera.

Líklegt er að gildismat okkar hafi breyst á þessu ári. Engu er líkara en orkan sé að „gefa í“ –  og þótt við séum enn að mestu lokuð inni á heimilum okkar, telur Pam að nú eigi eftir að velta fram alls konar uppljóstranir, sem eiga eftir að hraða hlutunum á öllum sviðum.

Þessi orka á pottþétt eftir að hraða falli hins gamla – á MIKILFENGLEGAN MÁTA. Og hún endurtekur á MIKILFENGLEGAN MÁTA!

ORKUMIKLIR TÍMAR FRAMUNDAN

Pam telur tímann framundan mjög áhugaverðan og henni finnst þessir tveir mánuðir, einkum nóvember, en líka fyrri hluti desember vera svo hlaðnir stjörnuspekilegum tengingum og afstöðum að hana skortir orð til að lýsa þeim.

Hún segir að nú sé því einkar gott tækifæri til að nýta orkuna vel, einkum þá orku sem hjálpar okkur að staðfesta hlutina, en hún kemur nánar að því síðar í skýringum sínum.

NÝTT OFURTUNGL

Þann 15. nóvember kl. 05:07 kveiknar NÝTT OFURTUNGL á 23°og 17 mínútum í Sporðdreka. Pam hvetur okkur öll til að skoða hvar þessi staða lendir í stjörnukortum okkar og jafnframt hvetur hún okkur til að setja okkur nýjan ásetning fyrir framtíðina. Spyrja okkur sjálf hvaða fræjum við viljum sá á því sviði lífsins, sem tengt er húsinu sem tunglið lendir í.

Þetta er þriðja OFURTUNGLIÐ í röð og er það táknrænt fyrir stigmagnandi uppbyggingu á því sem þarf fyrir nýtt upphaf. Tunglið er mjög nálægt Jörðu núna eins og heitið OFURTUNGL gefur til kynna, en það er táknrænt fyrir nánd þess við Jörðina. Tilfinningar okkar geta því magnast á þessum tíma, þar sem tunglið stýrir tilfinningum okkar.

Ekki bara það, heldur er tunglið í Sporðdrekamerkinu og Sporðdrekinn er tilfinningaríkasta merki allra merkja í stjörnuhringnum. Tilfinningar geta því orðið sterkar, alveg gífurlega sterkar á þessum tíma.

SPORÐDREKINN  OG MYRK LEYNDARMÁL

Ekkert annað merki er jafn tengt leyndarmálum og Sporðdrekinn og hann kafar alltaf djúpt til að komast að rótum þeirra. Pam segist sjá þessa eiginleika hjá vísindamönnum, réttarmeinafræðingum og rannsóknarlögreglumönnum sem hafa sterkan Sporðdreka, en hann birtist í eðlisávísun þeirra og þörf á að komast til botns í málum.

Sporðdrekarnir eru aldrei yfirborðslegir. Þeir vilja komast til botns í málunum og þegar þau tengjast Sporðdrekamerkinu eru lýkur á að málin séu frekar myrk og snúist um ýmislegt sem hefur lengi verið haldið leyndu, um kynlífshneyksli eða annað í þeim dúr.

Þessi þörf Sporðdrekans til að kafa djúpt er mjög sterk og þar sem Merkúr er á 5° í Sporðdreka, ýtir það frekar undir þá þörf heldur en hitt, en Merkúr er einmitt í langtíma andstöðu við Úranus í Nauti. Merkúr kafar því einnig djúpt niður á leyndarmálin, en Úranus snýst um skýrleika, sannleika og aukna vitundarvakningu – og er mjög tengdur uppljóstrunum.

UPPLJÓSTRANIR ALLT NÆSTA ÁR

Pam segir þetta vera mjög skýrt þema og að margt eigi eftir að koma upp á yfirborðið núna. Hún segir þessar uppljóstranir hins vegar ekki bara tengdar þessu OFURTUNGLI, því þær eiga eftir að halda áfram að koma upp á yfirborðið allt næsta ár. Þessi tími núna er hins vegar einn af hápunktunum í uppljóstrunarferlinu.

Merkúr í andstöðu (180° spennuafstöðu) við Úranus snýst um skýrleika, sannleika og aukna vitundarvakningu. Þetta getur því einnig verið tími þar sem við tökum á móti miklu af upplýsingum. Úranus er tengdur huga Guðs, yfirvitund okkar og geimnum. Við gætum fengið fréttir utan úr geimnum á þessum tíma eða fólk gæti fengið skilaboð frá geimverum. Það er í raun mjög líklegt.

Pam segir að orkan geti líka tengst netársásum eða því að Netið gæti lokast, svo hún hvetur okkur til að tryggja gögnin okkar, svona til öryggis, og taka afrit af þeim.

ÁSTRÍÐUFULLT OFURTUNGL

Þetta er mjög ástríðufullt og öflugt OFURTUNGL, ekki bara af því að það er í Sporðdrekanum sem tengist öllu tilfinningaríku og ástríðufullu, né heldur bara af því að það er nálægt Jörðu, heldur vegna þess að auk þessara tveggja atriða, er Mars í kyrrstöðu og stefnir svo fram á við.

Plánetan Mars stjórnaði Sporðdrekanum til forna. Mars er í sínu eigin merki Hrútnum og orka hans er magnaðri vegna þess að hann er í kyrrstöðu – og af því að hann er hinn forni stjórnandi Sporðdrekans. Þessari stöðu fylgir mikil einbeiting, fókus og ölfug og tilfinningarík orka, svo og þörf fyrir að kafa djúpt.

Pam talaði um það í síðasta myndbandi sínu að það væru tvö tákn sem tengdust Sporðdrekanum. Annað væri Sporðdrekinn sjálfur og hitt væri Fönixinn. Mars, hinn gamli stjórnandi Sporðdrekans, er góður fulltrúi Sporðdrekatáknsins, sem tengist dýrslegri eðlisávísun, viðbrögðum undirvitundarinnar, frumþörfum, reiði, árásargirnd og hvatskeytni.

PLÚTÓ STJÓRNAR SPORÐDREKANUM

Þegar Plútó fannst árið 1930 var ákveðið að sú pláneta yrði betri stjórnandi Sporðdrekans. (Aleistair Crowley  heitinn var einn hvatamaður þess. – Innskot) Plútó, sem nú stýrir því Sporðdrekanum, er jafnframt pláneta sem tengist andlegum umbreytingum. Plútó er djúpstæð umbreytingapláneta og stendur fyrir Fönixinn og er táknræn fyrir getuna til að rísa upp yfir kaosið og óstöðugleikann í öllu sem við eigum eftir að sjá í heiminum. Fönixinn hjálpar okkur til að komast upp á hæstu tinda óhlutdrægni, þaðan sem við getum horft á það sem er að gerast – en haft um leið stjórn á því hvert við beinum orku okkar og hvað við erum að skapa.

Óhlutdrægnin er mikilvæg og hindrar að við lendum aftur í endurtekningarferli andstæðnanna – hægri/vinstri, gott/slæmt, svart/hvítt eða andstæðna í stjórnmálum. Þær andstæður og hávaðinn í kringum þær er eitthvað sem hefur varað í þúsundir ára.

Við verðum að rjúfa mynstrið til að ná einhuga vitundarvakningu, rjúfa mynstrið til að komast í eitthvað betra – og þessi staða Fönixins í hæstu hæðum í tengslum við Sporðdrekamerkið veitir okkur þetta tækifæri. Þetta er því einkar magnað OFURTUNGL.

HVAÐ ANNAÐ ER AÐ GERAST?

Sól og tungl eru alltaf í samstöðu á NÝJU TUNGLI, í þetta sinn í Sporðdrekanum og eru upp á gráðu í 60° afstöðu við bæði Júpiter og Plútó.

Júpiter vill að við víkkum út sjóndeilarhring okkar, veitum okkur meira frelsi og látum eftir okkur að dreyma um ferðalög og annað þess háttar. Plútó getur stutt við slíkt og uppbyggingu á því til framtíðar. Pam telur þessa afstöðu vera mjög mikilvæga og telur hana geta ýtt undir skilning okkar á Plútó/Júpiter orkunni eða dýpri merkingu í lífi okkar.

Í framhaldi af því veltir hún fyrir sér á hvaða hátt við getum fundið þessa dýpri merkingu. Er það í gegnum esóterísk eða dulræn málefni eða stjörnuspeki, sem er að mati Pam mjög tengd Sporðdrekamerkinu? Snýst þetta um leit að dýpri tilgangi í eigin lífi eða snýst það um að stofna til sterks tilfinningalegs sambands, ef þessar plánetur lenda í fimmta eða sjöunda húsinu í fæðingarkorti þínu? – Sjá TÓLF HÚS STJÖRNUKORTANNA.

Skoðaðu hvað þessi staða er að toga eða laða til þín – eða hvert hún er að leiða þig. Með henni eigum við eftir að öðlast skýrari mynd af markmiðum okkar og hvert við viljum fara í næsta hluta eða kafla í lífi okkar, jafnvel þótt líf okkar sé mjög heft í sóttkví í augnablikinu.

VENUS, ÁSTIN OG GJALDMIÐLAR

Á þessu NÝJA TUNGLI myndar svo Venus í Vog T-tengingu (180° og 90°) við Steingeitarpláneturnar þrjár og Eris í Hrútsmerkinu. Þessi staða gæti tengst breytingum á gengi gjaldmiðla, þar sem Venus tengist alltaf gjaldmiðlum. Þetta gæti líka tengst einhverju í því sambandi sem þú ert í. Annars vegar getur verið að þú þráir frelsi vegna áhrifa frá Eris í Hrút – og hins vegar hefurðu líka þörf fyrir stöðugleika, einkum eins og ástandið er nú.

Því myndast togstreita þarna á milli. Pam segir að gott sé að vera meðvitaður um hana. Kannski gerirðu ekkert í málunum miðað við núverandi aðstæður, heldur tekur bara eftir togstreitunni.

Eris er líka í 90° spennuafstöðu þann 17. nóvember við Júpiter og Plútó í Steingeit á 23°. Enn á ný kemur upp þetta þema Eris, sem er með systurorku Mars, þar sem henni finnst að hvorki sé hlustað að hana, né heyrt eða tekið eftir henni. Hún vill því mótmæla á götum úti gegn regluverki frá stjórnvöldum. Við eigum væntanlega eftir að sjá þá orku halda áfram á næsta ári, því Eris verður í spennuafstöðu við Plútó fram í október 2021. Því eru líkur á að samfélagslegar og borgaralegar óeirðir verði í gangi allan þann tíma.

STERK NEPTÚNUSARORKA

Pam lítur svo á að það sé áhugavert að við erum ekki bara með þessa orku sannleika, skýrleika og vitundarvakningar frá Úranusi í andstöðu við Merkúr núna, heldur erum við líka með sterka Neptúnusarorku. Hún er vegna langtíma spennuafstöðu milli Neptúnusar og Norður-Suður Öxlunóðurnnar, sem verður alveg nákvæm í janúar 2021 – en núna vantar bara 2° upp á að hún sé nákvæm.

Þær bylgjur af uppljóstrunum sem við megum eiga von á að streymi nú fram, geta eina stundina valdið því að okkur líði eins og við séum með allt á hreinu – en svo lendum við í þoku Neptúnusar, þar sem plánetan er í spennuafstöðu við Öxulnóðurnar og hún veldur því að við vitum ekki hvað er satt og hvað er logið.

Neptúnus á lægri tíðnum getur snúist um blekkingar, ímyndanir og ranghugmyndir – og þegar orkan frá Neptúnusi blandast saman við orkuna frá Úranusi og Merkúr, geta myndast svona lög þar sem við skynjum einn daginn alveg hver sannleikurinn er – en svo kemur þokan og þá erum við í vafa – en svo kemur upp meiri sannleikur – og aftur meiri þoka.

Pam segir að með þessu ferli, sé verið að hnekkja gömlum sannfæringum okkar um hvað sé raunverulegt og hvað ekki, alveg niður í grunninn. (Svona taka okkur út úr Truman Show orkunni. – Innskot) Neptúnus er tengdur Öxulnóðunni og Suðurnóðan er í Bogmanni, en hún er táknræn fyrir gömul gildi og sannfæringar.

SKÖPUNARKRAFTUR OG DRAUMAR

Á hærri tíðnum getur orkan frá Neptúnusi líka verið yndisleg. Þann 24. nóvember er frábær 120° tenging á milli Neptúnusar og Merkúrs. Hún er öflug fyrir ímyndunarafl okkar og sköpunarkraft – og þann 29. nóvember stöðvast Neptúnus og breytir um stefnu og fer beint áfram á 18° í Fiskum. Á æðri tíðnisviðum getur þessi afstaða opnað fyrir tengingu við Uppsprettu alls eða við etersviðin.

Fylgstu vel með draumum þínum á þessum tíma. Neptúnus hefur sterka tengingu við drauma, svo haltu draumadagbók ef þú gerir það ekki nú þegar, einkum í kringum þennan tíma, því þú gætir fengið mikilvægar leiðbeiningar í gegnum draumana.

UMBREYTINGAR

Pam vill taka fram að á heildina litið sé þetta mjög samþjappaður tími umbreytinga framundan. Hún hefur áður notað þá samlíkingu að við séum á leið niður fæðingarveginn – og við erum að fara í gegnum þrengsta hluta hans í nóvember og fyrri hluta desembermánaðar.

Barnið getur festst í fæðingarveginum en það snýr ekki við og fer aftur til baka. Það er ekkert sem heitir að snúa til baka, því fortíðin er horfin. Þessi tími framundan getur því reynt á, en við erum engu að síður á leið í endurfæðingu nýrrar Jarðar.

Því skiptir það miklu máli, þar sem þetta er mikilvæg opnun (window of opportunity) og einstakt tækifæri til að staðfesta með þeirri tíðni sem við sendum frá okkur, að við séum sérlega meðvituð um hugsanir okkar og tilfinningar á þessari stundu.

HUGSANIR OG TILFINNINGAR

Pam segir að okkur kunni að finnast þetta galið (hér notar hún skemmtilega breska orðið „daft“), einkum ef við búum ein og tölum ekki mikið yfir daginn og enginn heyrir hvorki hugsanir okkar né tilfinningar. Hún segir það hins vegar staðreynd, að þar höfum við rangt fyrir okkur.

Kannski er ekki sé hægt að heyra hugsanir okkar, en það er auðvelt að nema þær.  Hugsanir okkar eru rafboð og tilfinningar okkar eru segulmagnaðar öldur, sem sameinast í ósjálfráðri geð- eða tilfinningalykkju (biofeedback loop), sem myndar tilfinningalegt stöðuástand okkar – og það er það sem við sendum út í umhverfið – til heildarinnar.

Jafnvel þegar við erum ein heima hjá okkur og erum ekki meðvituð um það – erum við alltaf að gera þetta og þar með að skapa okkar einstaklingsbundnu framtíð.

Til að staðfesta að þetta sé ekki eitthvað rugl í henni, segir Pam að hægt sé að mæla hugsanir okkar utan við höfuð okkar með tæki sem heitir Magnitoensephalography (sjá nánar HÉR). Þetta tæki mælir utan við höfuðið á þér þá tíðni sem þú ert að senda frá þér.

STJÓRN Á TILFINNINGUM OG HUGSUNUM

Til að hafa betri stjórn á því sem við sendum frá okkur segist Pam vera með eitt ráð sem hún telur að geti hjálpað okkur. Hún segir við getum ímyndað okkur að hugsanir okkar og tilfinningar – jafnvel þegar við erum ein heima í þögn – séu tengdar við hátalara og að við séum í raun að hrópa þær út til heimsins. Þær hafa raunveruleg áhrif á heildina (Sbr. óttann við Covid 19 – Innskot) og þegar kemur að okkar eigin framtíð, erum við að skapa hana með hugsunum okkar og tilfinningum.

Þar sem tjaldið á milli okkar og hærri tíðnisviða er þynnra er staðfestingakraftur okkar meiri í augnablikinu en áður hefur verið. Samhliða því eru hugsanir okkar og tilfinningar öflugri og við getum með þeim skapað annað hvort slæma eða frábæra framtíð.

VIÐ EIGUM ALLTAF VAL

Pam er með annað ráð sem hún notar oft og hefur gert lengi, sem hún telur að geti komið okkur að góðum notum núna. Ef hún heyrir einhverjar slæmar fréttir, sem henni líka ekki – og þær fréttir hellast nánast stöðugt yfir okkur í fjölmiðlum, ekki satt, segir hún einfaldlega. „Ég VEL þetta ekki sem raunveruleika minn,“ og svo beinir hún samstundis athygli sinni að því sem hún VELUR sem raunveruleika sinn.

Hún segir að það geti verið ást til einstaklings eða gæludýrs, ást á trjánum eða gróðrinum – eitthvað táknrænt sem samstundis er hægt að beina sjónum sínum að – eitthvað sem við berum nú þegar tilfinningar til.

Pam segir að ef við notum orð eins og „Ég vil gjarnan upplifa annan raunveruleika“, ýti það óskum okkar inn í framtíðina. Þess vegna verðum við að velja eitthvað sem við höfum nú þegar tilfinningar til, sem gæti til dæmis verið:

Ég elska að vera með maka/félaga mínum.

Ég elska að vera með hundinum mínum.

Ég elska að vera með barninu mínu.

Þannig umbreytum við hugsunum okkar samstundis eins og smellt sé fingri og þær nýju verða að raunveruleika okkar. Ekki „stöffið“ sem verið er að tala um og við kunnum að líta á sem slæmar fréttir. Þess vegna hvetur Pam okkur til að nota þessa setningu: „Ég VEL þetta ekki sem raunveruleika minn,“ til að breyta okkar raunveruleika.

DÆMISAGA

Svona undir lokin kemur svo frá henni dæmisaga, sem henni var sögð fyrir mörgum árum og hafði mikil áhrif á hana þá. Sagan fjallar um tíbeskan meistara, sem starfar í hofi í Himalajafjöllunum. Hann var að tala við einn nemanda sinn og sagði honum að fyrir utan hofið væru tveir hundar sem ættu að vernda það.

Annar hundurinn var mjög blíður, vingjarnlegur og undirgefinn og með mjög þægilegt eðli. Í raun yndislegur hundur. Hinn hundurinn var árásargjarnari og hvatvísari og því ekki eins aðlaðandi að vera í kringum hann. Sá árásargjarnari réðist stöðugt á blíðari hundinn og þeir lentu í slagsmálum.

Nemandinn spurði þá Meistarann: „Hvor hundurinn sigrar? – og Meistarinn svaraði: „Sá sem ég næri oftar.“

Á HVAÐA TÍMALÍNU ERTU?

Pam hvetur okkur til að velta því fyrir okkur á hvaða tímalínu við erum akkúrat núna. Við getum alltaf valið margar mismunandi tímalínur, en í augnablikinu eru tvær mjög skýrar og virkar tímalínur.

Önnur er þriðju víddar tímalínan sem er að hrynja – og hin er fimmtu víddar tímalínan sem við erum að byggja upp. Hún brosir þegar hún segir að við séum að byggja átta akgreina hraðbraut inn í fimmtu víddina og að hún stækki stöðugt.

Næsta spurning hennar er því: „Hvaða tímalínu ertu stöðugt að næra með hugsunum þínum og tilfinningum?“

TUNGLMYRKVI Í LOK MÁNAÐAR

Við finnum feiknakraft orkunnar aukast núna. Við erum nú þegar farin að finna fyrir orkunni frá tunglmyrkvanum sem verður í Tvíburamerkinu þann 30. nóvember – en um hann fjallar Pam í næsta myndbandi sínu. Hún segir of langt mál að gera það núna. Við erum hins vegar þegar komin inn í orkusvið tunglmyrkvans, en hann er táknrænn fyrir þungamiðju breytinganna.

Pam segir að því hærri sem okkur helst að halda tíðni okkar, þeim mun hraðar getum við laðað hina nýju Jörð til okkar – og þeim mun stórkostlegri getum við gert hana ef okkur tekst öllum að nýta okkur þann skriðkraft sem nú er og sigla á öldu kærleika, friðar, gleði, alsælu og hláturs fram á við – um leið og við löðum að okkur fallegan framtíðarheim.

Pam vonast til að þessar skýringar hennar og ráð séu okkur hjálpleg. Hún óskar öllum yndislegs nýs OFURTUNGLS þann 15. nóvember og hvetur okkur til að muna að setja okkur ásetning fyrir framtíðina.

Myndir: CanStockPhoto / MSchmeling – Vadimsadovski – anatomysfrock – Tristan 3D

Upplýsingar:

Ef þið hafið áhuga á bókum Pam og kennslumyndböndum er hægt að finna þau á vefsíðu hennar www.pamgregory.com

Pam er með FB síðuna: The Next Step – Pam Gregory Astrologer ef þú vilt fylgjast með henni þar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram