NÝRUN ÞURFA STUNDUM ATHYGLI

Umræða um hreinsandi drykk fyrir nýrun á nýlegum fundi á HREINT MATARÆÐI námskeiði hjá mér varð til þess að einn þátttakandinn „fann“ gamla grein sem ég hafði skrifað á mbl.is um drykkinn. Þar sem góð vísa er aldrei of oft kveðin, fór ég aðeins yfir greinina, uppfærði hana og bætti henni svo við greinasafnið hér á síðunni minni.

HJÁLPAÐU SJÁLFUM ÞÉR

Ég er ein af þeim heppnu sem á ennþá eintak af bók Louise L. Hay heitinnar, Hjálpaðu sjálfum þér. Hún er ein af þessum sjálfshjálparbókum sem virðist endalaust halda gildi sínu. Því miður hefur hún verið ófáanleg í mörg ár á íslensku, en á frummálinu heitir hún You Can Heal Your Life.

Aftast í bókinni er að finna kafla sem heitir Listinn. Þar tengir Louise saman mismunandi líffæri og heilsufarsástand við tilfinningar okkar. Hún segir til dæmis nýrnavanda tengjast gagnrýni, vonbrigðum, uppgjöf, mistökum, hirðuleysi um sjálfið, kvíða og barnalegum viðbrögðum. Nýrnabólga tengist að hennar mati ofurviðbrögðum við vonbrigðum og mistökum.

Til að heila nýrun er gott að nota þessa staðfestingu: “Allt er rétt sem á sér stað í lífi mínu. Ég losa um hið gamla og fagna hinu nýja. Allt er gott.”

 

 

 

HREINSANDI DRYKKUR FYRIR NÝRUN

Hvort sem við heilum nýrun með því að vinna úr tilfinningum okkar eða ekki, er líklegt að salt og ýmis eiturefni úr blóðinu safnist upp í þeim, en það er einmitt eitt af hlutverkum nýrnanna að sía blóðið. Eftirfarandi drykkur getur hjálpað þér að hreinsa nýrun og létta um leið álagi af þeim.

Takið ½ búnt af ferskri steinselju eða heilt búnt af fersku kóríander (cilantro) og þvoið. Ég vel alltaf kryddjurtir sem ræktaðar eru á Íslandi sé þess mögulega kostur. Athugið að ýmsar kryddjurtir sem ræktaðar eru erlendis eru seldar undir íslenskum vörumerkjum.

Skerið jurtirnar í litla bita og setjið í pott. Ef þið notar kóríander setjið þið það í ca 1,5 lítra af vatni. Ef þið notið steinselju setjið þið það í 1 lítra af vatni. Það er vegna þess að steinseljan er öflugri og það þarf minna af henni en af kóríanderinu.

 

Látið suðuna koma upp og jurtirnar sjóða svo áfram við vægan hita í 10-15 mínútur. Takið pottinn af hellunni og látið vökvann kólna. Sigtið svo vökvann og setjið hann í hreina flösku. Setjið í flöskuna í ísskáp til að kæla vökvann alveg.

  • Drekka má eitt glas – um 2-2,5 dl á dag ef soðið er kóríander.
  • Drekka má 1 dl tvisvar á dag ef soðin er steinselja, því hún er mun öflugri.

Líkaminn kemur til með að losa sig við salt og önnur uppsöfnuð eiturefni úr nýrunum í gegnum þvagið. Við það verður lyktin af því sterkari. Einn skammtur af svona jurtaseiði á að duga til að hreinsa nýrun, en svo má endurtaka hreinsunina aftur eftir einhvern tíma.

Mynd: Can Stock Photo

Heimildir: Bókin Hjálpaðu sjálfum þér og upplýsingar frá góðum jurtafræðingi.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram