
Við höfum kosið að kalla þetta námskeið LJÓSLÍKAMINN, HÆRRI TÍÐNIR, AÐRAR VÍDDIR OG AUKIÐ NÆMI, sem er langt heiti en nær nokkurn veginn yfir það sem við stefnum á að vinna með á þessu námskeiði sem er sjálfstætt framhald af námskeiðinu OKKAR ANDLEGA HULDA MEYJA sem við héldum síðastliðið haust.
Námskeiðið er andlega styrkjandi auk þess sem það eykur sjálfsstyrk og sjálfstraust þátttakenda. Vegna hækkandi tíðni og ljósorku er mikilvægt að þjálfa eigið innsæi og næmi, því í framtíðinni verða samskipti manna á milli meira með hugsanaflutningi.
Námskeiðið fer fram í Setrinu í Borgarnesi og miðast við hámark TÓLF konur sem þátttakendur. Það verður haldið helgina 14.-16. mars, en þann 14. er Tunglið fullt og nokkrum dögum eftir að námskeiðinu lýkur verða Jafndægur á vori, svo orkan er mögnuð á þessum tíma og allar orkulínur Jarðar galopnar og mjög virkar.
ATHUGIÐ! Vegna annarra verkefna koma Guðrún og Bryndís Fjóla ekki til með að bjóða upp á annað námskeið af þessum toga fyrr en í fyrsta lagi í haust.
Dagskrá námskeiðsins í grófum dráttum:
- Sérstök helgiathöfn fyrsta kvöldið til að fagna fullu Tungli
- Þjálfun í fjarskynjun með vatni og umhverfi, en vatnið hefur verið sótt á ýmsa staði í Borgarfirðinum og við lærum og nemum hvað vatnið er að segja okkur
- Tenging við orkuna frá Haumea, Salcia og Sedna og skynjun á hvað þessar dvergplánetur eru að kenna okkur um leið og þær færa okkur inn á svið ótakmarkaðra möguleika
- Styrking á Ljóslíkama okkar, tenging við hærri tíðnisvið, meistara á innri sviðum og svið einingar og kærleika
- Vinna með orku dreka og hafmeyja í náttúrunni og hvernig þau geta liðsinnt okkur á okkar andlegu braut
- Þjálfun í samskiptum við álfa og huldufólk í Borgarnesi og nágrenni.
Öll okkar vinna er unnin í kyrrð og ró og þátttakendur læra að hlusta betur á innri rödd sína og treysta henni. Það felst líka mikill styrkur í hópnum og því að vinna með öðrum konum á sömu braut sem eru líka að styrkja sitt innsæi.
Gisting í 2ja manna herbergjum og fæði er innifalið í námskeiðsgjaldi.
Fullt verð er 88.000 kr.* miðað við staðgreiðslu