MEGINEFNI GREINARINNAR:
- Kúamjólk er ein helsta orsök ofnæmisviðbragða hjá ungum börnum og er í fyrsta sæti í flokki þeirra átta fæðutegunda sem valda 90% ofnæma hjá börnum.
- Einkennin geta lagst á húð, meltingarveg og öndunarfæri, auk þess sem þau tengjast atferli.
- Eina leiðin til að finna út hvort um mjólkurofnæmi eða laktósaóþol sé að ræða er að taka mjólkurvörur alveg út um tíma og prófa sig svo áfram með að setja þær inn aftur.
Höfundur: Guðrún Bergmann
Smellu á “like” á FACEBOOK síðunni til að fá daglegar hvatningar eða skráðu þig í HEILSUKLÚBBINN
MJÓLKUROFNÆMI OG LAKTÓSAÓÞOL
Á þeim tæplega fjörutíu HREINT MATARÆÐI námskeiðum sem ég hef haldið, hefur komið í ljós að margir eru með óþol eða ofnæmi fyrir kúamjólk og mjólkurvörum. Þegar ég horfi yfir mína heilsufarssögu sé ég að mjólkurofnæmi mitt kom fram strax við 3ja mánaða aldur þegar móðir mín hætti með mig á brjósti. Þá hafði enginn hugmynd um orsök þess að ég var með magakrampa og grét og grét af vanlíðan. Ég lifði því lengi með mjólkurofnæminu og ótal heilsufarsvandamálum því tengdu, áður en skýring fékkst.
ALGENGASTA OFNÆMIÐ
Kúamjólk er ein helsta orsök ofnæmisviðbragða hjá ungum börnum og er í fyrsta sæti í flokki þeirra átta fæðutegunda sem valda 90% ofnæma hjá börnum. Hinar sjö eru egg, jarðhnetur, trjáhnetur, soja, fiskur, skelfiskur og hveiti.
Hægt er að flokka einkenni mjólkurofnæmis niður í þrjá flokka, eftir því hvar einkennin koma fram, hvort heldur er hjá börnum eða fullorðnum. Exemviðbrögð við mjólkurvörum koma oft fram sem psoriasisúrbrot hjá fólki á öllum aldri.
HÚÐ: Kláði og rauð útbrot; exem; ofsakláði; dökkir baugar í kringum augun; munnangur; bólgnar varir, munnur, tunga, andlit eða háls.
MELTINGARVEGUR: Kviðverkir; kviðkrampi; þaninn kviður; niðurgangur; loft í þörmum; ógleði; uppköst.
ÖNDUNARFÆRI: Nefrennsli; stíflur í nefi; hnerri; vot eða rennandi augu; kláði í augum; hósti; más eða erfiðleikar með að anda; mæði; síendurtekið “kvef”; kinnholubólgur.
Vísindamenn hafa nú skilgreint fjórða flokkinn, sem þeir kalla ATFERLI og sett eftirfarandi einkenni undir hann: Síþreyta, mígreni, ofvirkni (ADHD), pirringur, erfiðleikar með að sofa og aumir vöðvar og liðamót.
OFNÆMI EÐA ÓÞOL
Mjólkurofnæmi byggist á viðbrögðum ónæmiskerfisins gegn ýmsum próteinum í dýramjólk, þótt orsök þess sé oftast alpha S1-próteinið í kúamjólk. Mjólkurofnæmi er stundum ruglað saman við laktósaóþol, því einkennin eru í mörgum tilvikum þau sömu, þótt skilgreiningin sé ekki sú sama. Laktósaóþol myndast þegar fólk skortir ensímið lactase, til að melta laktósann eða mjólkursykurinn í þörmum sínum.
YFIR 70% GREINA SIG SJÁLFIR
Í skýrslu sem unnin var af Allergy UK í Bretlandi, kemur fram að enn gæti mikils ruglings þegar kemur að mjólkuróþoli (ofnæmi). Fólk veit að það neytir einhvers sem leiðir til þess að því líður illa, en gerir sér samt ekki alveg grein fyrir hvað það er.
Margir leita til lækna, sem reyna að útiloka þetta og hitt, án þess þó að finna réttu skýringarnar og því tekur oft langan tíma að finna út hvað er eiginlega að. Því kemur ekki á óvart að yfir 70% þeirra sem eru með mjólkuróþol (ofnæmi) segjast hafa greint sig sjálfir.
BLÓÐFLOKKARNIR
Ég var sjálf búin að finna út mitt mjólkuróþol löngu áður en ég fékk þá greiningu staðfesta í bókunum um blóðflokkamataræðið eftir náttúrulækninn Peter D’Adamo N.D. Þar kemur fram að hvorki þeir sem eru í O- né A-blóðflokki (ég er í A-blóðflokki) eigi að neyta gerilsneiddra mjólkurafurða.
Í þeim eru prótein, sem samþýða sig ekki mótefnavakanum í þessum blóðflokkum og ráðast því á líffæri og líffærakerfi (nýru, lifur, heila, maga o.s.frv.) og kekkja þar blóðkornin. Lektín eða prótein í mjólkurvörum, svo og öðrum matvörum sem ekki samþýðast blóðflokki þínum, geta myndað heiftarlegar bólgur í viðkvæmri slímhúð þarmanna og líkist sú kekkjun oft fæðuóþoli.
EINFALDASTA LEIÐIN
Einfaldasta leiðin til þess að finna út hvort þú sért með mjólkurofnæmi eða -óþol er auðvitað að taka út allar mjólkurvörur í 6 vikur og sjá hvort ýmis heilsufarsvandamál hverfi ekki. Til að staðfesta að um mjólkuróþol sé að ræða má svo byrja að nota mjólkurvörur á ný og þá birtast einkennin yfirleitt innan fárra daga, eins og til dæmis stíflur í nefi og verkur í eyrum svo eitthvað sé nefnt.
Til að greina hvort um mjólkurofnæmi eða laktósaþol sé að ræða, þarf að þekkja mismuninn á einkennunum. Mín reynsla er samt sú, að hvort sem um ofnæmi eða óþol er að ræða, þarf á endanum að taka út allar mjólkurvörur – líka þessar laktósafríu – til að líkamanum líði betur.
HVAÐ Á AÐ NOTA Í STAÐINN?
Margir spyrja hvað hægt sé að nota í staðinn? Hrísgrjón er sú korntegund, sem er ólíklegust til að valda ofnæmisviðbrögðum og því velja margir sem eru með mjólkurofnæmi eða laktósaóþol að nota rísmjólk. Eins er hægt að nota mjólk sem unnin er úr möndlum, höfrum og kókoshnetum – og svo má bara nota vatn, sem klikkar aldrei.
Til er kókos- og hrísgrjónarjómi sem hægt er að nota í stað rjóma eða nota þykka hlutann af feitri kókosmjólk til að þeyta – svo lífið endar ekki þótt mjólkurvörum sé sleppt. Einnig er til vegan-ostalíki, meðal annars frá Follow Your Yeart, sem hægt er að nota á pistur og ofnbakaða rétti.
Svo er hægt í neyðartilvikum að nota meltingarensím frá NOW sem heitir Dairy Digest, en það hjálpar við við niðurbrot á mjólkurprótínunum og laktósa. Til þess má grípa ef víkja á eitthvað út af mjólkurlausu brautinni.
BRÁÐAOFNÆMI
Ofnæmisviðbrögð fólks geta verið mismunandi. Hjá sumum mild, öðrum alvarleg og hjá örfáum lífshættuleg. Örfáir fá bráðaofnæmisviðbrögð eða ofnæmislost, sem getur tengst ýmsum svæðum líkamans, þar á meðal húð, hjarta- og æðakerfi, öndunarvegi og meltingarvegi. Einkennin geta komið fram strax við neyslu, eða innan fjörugga tíma frá því viðkomandi var í snertingu við ofnæmisvaldinn. Slík viðbrögð krefjast tafarlausrar læknismeðhöndlunar.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.
Yfir 1000 manns hafa skráð sig á HREINT MATARÆÐI námskeiðin. Næstu námskeið eru í Reykjavík, í Skagafirði og á Akureyri.
Heimildir: Allergyuk.org
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025