MÍN SKOÐUN Á BBC ÞÆTTINUM

Ég sá ekki þáttinn frá BBC þegar hann var frumsýndur á RÚV, en vatt mér í að horfa á hann í gær eftir að hafa fengið spurningu um það frá einum þátttakanda á HREINT MATARÆÐI námskeiðinu hjá mér, hvaða skoðun ég hefði á því sem þar kom fram. Ég tók niður nokkra punkta meðan ég horfði á hann og deili hér skoðun minni á sérkennilegum samanburði, tímalengd “rannsókna” og því að vatn sé ekki mikilvægasti vökvi líkamans.

SÉRKENNILEGUR SAMANBURÐUR
Í prófunum sem gerð voru, var aldrei var talað um mismunandi blóðflokka þeirra sem þátt tóku, né þá staðreynd að fæðan hefur mismunandi áhrif á fólk eftir því í hvaða blóðflokki það er samkvæmt rannsóknum Dr. Peter D’Adamo náttúrulæknis og margra annarra. Í samanburði á verði á hinum ýmsu fæðutegundum var heldur ekki fjallað um það hvort það skipti máli að kaupa vörur sem væru lífrænt ræktaðar, gagnstætt því að kaupa vörur sem ræktaðar eru með “hefðbundum” aðferðum og þar með öllum þeim eiturefnum sem felast í illgresis- og skordýraeitri sem notað er við ræktunina.

Þegar kom að samanburði á kókosolíu og annarri olía var samanburðurinn vægast sagt sérkennilegur. Að bera saman kaldpressaða kókosolíu og svo repjuolíu (markaðssett sem rapeseed oil á Bretlandi en sem canola eða vegetable oil annars staðar). Þegar um ódýra útgáfu af repjuolíu er að ræða kemur hún úr fjöldaframleiðslu, þar sem fræin sem hún er unnin úr hafa verið hituð til að ná olíunni úr þeim. Við hita umbreytist olían og er í mesta lagi góð til steikingar. Til er kaldpressuð útgáfa af repjuolíu, sem væri þá sambærileg kókosolíunni og myndi væntanlega kosta svipað.

Best er þó að mínu mati að nota kaldpressaða ólífuolíu (extra virgin), því hún hentar vel öllum blóðflokkum.

JARÐARBER OG GOJI-BER
Það hefur komið mörgum á óvart sem sækja HREINT MATARÆÐI námskeiðin mín að fólk er hvatt til þess meðan á hreinsikúrnum stendur að forðast jarðarber. Til að svara áleitnum spurningum þátttakenda hafði ég samband við Clean Program í Bandaríkjunum til að fá nánari skýringar á hvers vegna. Svarið sem ég fékk var að jarðarber væru á FORÐIST listanum vegna þess að þau eru gegndræpust berja og draga því í sig meira en önnur ber allt það illgresis- og skordýraeitur sem notað er við ræktunina, hvort sem þau eru ræktuð eftir lífrænum eða hefðbundnum aðferðum.

Tiltölulega stutt er síðan farið var að bjóða upp á goji-ber í verslunum á Vesturlöndum, væntanlega vegna þess að þau vaxa ekki í þessum heimshluta. Það er hins vegar staðreynd að þau hafa verið notuð í margar aldir í kínverskri læknisfræði. Reyndar eru þau ekki bara notuð til lækninga, því ég kynntist því í einni ferð minni til Kína að almenn neysla á þeim er mikil. Þar sýður fólk meðal annars súpur úr þeim.

Með þessa þekking í huga myndi ég ef val mitt stæði á milli jarðarberja og goji-berja, alltaf velja goji-berin.

VARÐANDI GRÆNT SALAT OG HVÍTKÁL
Ef skoðaður er munurinn á salati og hvítkáli með tilliti til áhrifa á meltingarveginn, myndi ég frekar velja græna kostinn en hvítkálið, þótt það sé ódýrara. Í hvítkáli eru óuppleysanlegar trefjar sem eru mjög grófar og ef það er borðað hrátt, skaða þær viðkvæma þarmaveggi, einkum ef þar eru bólgur fyrir. Áhrifunum má líkja við að nudda vírbursta í opið sár. Hvítkál myndar líka mikið loft í þörmum, sem er ekki á bætandi ef um hægðavandamál eða önnur meltingarvandamál er að ræða, en þau virðast ansi algeng.

MÆLINGAR OG TÍMALENGD TILRAUNA
Flestar mælingar voru gerðar í gegnum blóðprufur, sem hafa margsýnt að ná ekki að “mæla” nema að takmörkuðu leyti það sem er að gerast í líkamanum. Vegna ónákvæmni mæla blóðprufur t.d. hvorki glúten- né mjólkuróþol/ofnæmi nema hugsanlega ef mæld eru gildi, sem almennt eru ekki mæld. Eina mælingin sem dugar þar er að hætta að neyta vörunnar í 30 daga, finna betri líðan og prófa svo aftur að setja þessar matvörur inn og ef líðanin versnar, er um óþol/ofnæmi að ræða.

Varðandi vítamíninntökuna sem stóð yfir í 4 daga ef ég man rétt, langar mig að vísa í Hallgrím heitinn Magnússon og áralangar rannsóknir hans og pælingar á virkni bætiefna. Hans niðurstöður voru að það færi ekki að sjást mælanlegur munur af inntöku fyrr en eftir 3-4 mánuði. Þetta kom ítrekað fram hjá honum þegar við héldum fyrirlestra saman og síðan þá hef ég ráðlagt inntöku á bætiefnum í lágmark 3-4 mánuði ef fólk væntir þess að bætiefnin skili mælanlegum árangri.

Þegar staðhæft var í þættinum að fjölvítamín væru skaðleg heilsu fólks, kom aldrei fram hvaða tegund um var að ræða, né hvaða þáttur í bætiefniblöndunni hafi verið skaðlegur. Þá var heldur ekki greint frá lífsstíl, né mataræði þeirra “ónefndu” sem áttu að hafa beðið skaða af inntöku á fjölvítamínum, en slíkt hlýtur að hafa áhrif.

VATNIÐ ER MIKILVÆGASTA VÖKVINN
Varðandi vatnið, þá er það rétt að upptakan er meiri ef það er salt í vatninu (myndi velja himalajasalt frekar en venjulegt salt), þótt ég hafi aldrei fyrr heyrt að í því þurfi líka að vera sykur og sítrónusafi. Einfalt er að gera sér saltvökva úr himalajasalti – uppskrift er í bókinni minni HREINT Í MATINN – sem bæta má út í hristinga, safa eða glas af vatni til að fá nægar saltbirgðir fyrir einn sólarhring.

Hallgrímur heitinn var ekki einn um þá skoðun að líkaminn skynji einungis vatn sem vatn og allan annan vökva sem fæðu, því hann þarf að melta hann, hvort sem það er mjólk, kaffi, appelsínusafi eða fjöldaframleiddir orkudrykkir.

Þeir sem halda öðru fram hafa ekki lesið The Hidden Messages in Water eftir Masaru Emoto, sem gerði magnaðar rannsóknir á vatni með því að frysta það. Í ljós kom að kristallarnir í vatninu voru mismunandi að gerð eftir því hvaða hugsanir voru settar í vatnið og hvort það var hreint eða mengað. Né heldur hafa þeir lesið Water: for Health, for Healing, for Life eftir F. Batmanghelidj M.D., sem talar um að jafnvel sé hægt að lækna magasár með vatni.

Víst er að þegar hamfarir verða einhvers staðar í heiminum kemur strax neyðarkall um vatn. Enginn biður um mjólk, kaffi eða appelsínusafa.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Með því að skrá þig á póstlistann færðu greinarnar mínar sendar reglulega, auk þess sem í fréttabréfum mínum eru upplýsingar um námskeið, tilboð og fleira.

Mynd: Can Stock Photo/Gunnar3000

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?