#metoo SAGAN MÍN

Eftirfarandi grein var upphaflega birt á Smartlandi mbl.is 15.08.18. Tilgangurinn með henni var að vekja athygli á þeim alvarlegu afleiðingum sem misnotkun í æsku getur hafa á allt líf einstaklinga og vekja þá sem að þessum málum koma í dómskerfinu sem og annars staðar til vitundar um að sönnunargögnin sjást ekki alltaf.

#METOO OG ALLIR HINIR

Ég varð eins og fleiri agndofa þegar héraðsdómur reykjaness sýknaði stuðningsfulltrúa af kærum um gróft kynferðisofbeldi gagnvart fjórum börnum vegna skorts á sönnunargögnum. Gerir dómarinn sér ekki grein fyrir að í svona málum skortir nánast alltaf haldbærar sannanir? Veit hann ekki að menn sem beita ofbeldi eru flinkir í að fela það og að þeir ráðast á fórnarlömb sín þegar þau eru ein og óvarin? Þess vegna skortir augljósar sannanir og þess vegna komast gerendur upp með að halda iðju sinni áfram, einkum og sér í lagi ef þeir geta hlotið sýknu með því einu að bera fyrir sig minnisleysi.

ÞOLENDUR FÁI AÐ NJÓTA VAFANS

Sannarnir í svona málum eru ekki augljósar, því þær liggja í líkamsminni þeirra sem misnotaðir hafa verið, í kvíðaköstunum, sjálfshatrinu og fíknimynstrunum sem þolendur þróa með sér og í ótal öðrum atferlismynstrum, sem oft fylgja misnotkun. Eðli málsins (og þarna er ekki átt við sönnunargögn) þarf því að skoðast og frásagnir þolendanna þurfa að vera teknar trúanlegar, svo þeir fái að njóta vafans, en ekki gerandinn.

Að mínu mati ætti enginn að fá að dæma í kynferðisafbrotamálum, nema sá hinn sami hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af einhverjum toga. Einungis þá myndi viðkomandi skilja hversu mikil skömm fylgir ennþá svona málum hjá þolandanum, af hverju þolendur veigra sér við að kæra og hvaða kjark þeir þurfa í raun að sýna til að gera það – einkum og sér í lagi þegar þeir horfa upp á væga dóma yfir gerendum í slíkum málum.

SÖNNUNARGÖGNIN MARKA LÍFIÐ

Úr hverju eru þessar skoðanir mínar sprottnar? Úr eigin reynslu, því ég hef þurft að bera sönnunargögnin um gróft kynferðisofbeldi í líkama mínum frá því ég var tæplega sjö ára gömul. Þau sönnunargögn hafa litað allt mitt líf og verið rótin að ótal heilsufarsvandamálum sem ég er enn að takast á við.

Ég deili reynslu minni hér í þeirri von að það verði til þess að harðar sé tekið á gerendum sem beita börn kynferðislegri misnotkun. Einnig er það ósk mín að börn fái sem fyrst tilhlýðilega aðstoð við að komast yfir áföll sín, til að draga úr þeim alvarlegu afleiðingum sem misnotkun hefur á líkama, huga og sál og getur markað þau fyrir lífstíð.

NAUÐGAÐ SEM BARNI

Ég hafði aldrei gist annars staðar en heima hjá mér, þegar mér bauðst að gista hjá ættmennum eina nótt. Ég man enn hvað ég var spennt og full tilhlökkunar þegar pabbi keyrði mig þangað, en spenningurinn og tilhlökkunin áttu eftir að breytast í ævinlanga martröð. Hjónin ákváðu nefnilega að fara í vinaheimsókn um kvöldið og skildu mig eftir í umsjá unglingssonar þeirra.

Hann var einhver sem ég átti að geta treyst, en hann rauf það traust og ákvað að æfa sig í samförum á mér tæplega sjö ára barninu. Ég var auðveld bráð, komin upp í hjónarúmið þar sem ég átti að sofa. Sjokkið varð svo mikið þegar hann tróð sér inn í mig að ég “fraus” gersamlega og gat ekki einu sinni öskrað – enda hefði enginn heyrt í mér. Ég spennti upp magann og sveigði bakið til að reyna að ýta honum út úr mér, en það tókst auðvitað ekki.

Þegar hann hafði lokið sér af, stökk hann út úr herberginu og skildi hann mig eftir alla blauta og klístruga. Þarna lá ég, lítið brotið barn á sál og líkama, sem seint og um síðir sofnaði. Næsta morgun var hrikalega sárt að pissa og sá sársauki markaði upphafið að ævilöngu blöðruvandamáli hjá mér, sem reynt hefur verið að laga með lyfjum, aðgerðum og ýmsu öðru – en ekki gengið.

AÐ SEGJA FRÁ

Ég skil svo vel að það sé erfitt fyrir fórnarlömb að greina frá misnotkun, en í dag er umræðan þó opinskárri og börn vita meira. Ég tilheyri þögglu kynslóðinni, því árið 1957 ræddi enginn opinberlega um kynlíf og ekki voru til bækur sem kenndu börnum að verja “sín einkasvæði”. Ef einhver hefði spurt mig daginn eftir, hvað hefði komið fyrir mig hefði ég ekki einu sinni kunnað orðið nauðgun. Ég hafði aldrei heyrt það.

Ég skyldi í raun ekki hvað hafði komið fyrir mig. Það var bara eitthvað hræðilegt svo ég þagði. Mamma sagði mér síðar að ég eftir þessa gistinótt hefði ég verið mjög treg til að fara í heimsókn í þetta hús. Ég gróf reynsluna svo dúpt í undirvitundinni að ég nánast gleymdi henni. Líkaminn og sálin mundu hana hins vegar vel og hún kom fram í ýmsum veikindum, fíkn og hegðunarmynstrum.

BROTIN LÍMD SAMAN

Það var ekki fyrr en í kringum fertugt að minningin um nauðgunina kom almennilega upp í meðvitund mína á ný. Þá átti ég og rak verslunina BETRA LÍF. Ég flutti inn og las allar helstu sjálfshjálparbækur þess tíma, eins og Hjálpaðu sjálfum þér eftir Louise L. Hay, þar sem fjallað var um þörf á úrvinnslu áfalla. Stígamót voru nýstofnuð, svo ég lagði áherslu á að flytja inn bækur sem tengdust kynferðislegri misnotkun, til að þjóna þeim sem til Stígamóta leituðu – þar til ég fattaði að þær voru í raun fyrir mig.

Þegar það rann upp fyrir mér að ég þyrfti að vinna úr þessari reynslu minni, las ég allar þær bækur í búðinni sem ég hafði ætlað öðrum. Ég vann með ýmis konar æfingar og tækni sem ég lærði bæði úr bókunum, svo og í meðferðum hér heima og erlendis og vann með leiðir til að heila sálarmissinn sem verður við misnotkun, því þá er eins og sálin (eða vitundin) fari úr líkamanum og fylgist bara með því sem er að gerast ofanfrá.

Ég leitaði til hvers meðferðaraðila á fætur öðrum, til að vinna úr líkamlega og andlega áfallinu. Í því ferli komst ég að raun um að þeir sem bestir voru til að hjálpa mér voru þeir sem höfðu farið í gegnum samskonar reynslu. Þegar á batann leið fór ég því að deila þekkingu minni með öðrum og halda námskeið fyrir konur sem höfðu orðið fyrir svipaðri reynslu og ég og kenna þeim þær heilunarleiðir, sem höfðu reynst mér best.

En reynslan sat djúpt og minningarnar sátu mjög fastar í frumuminni líkamans. Því hefur heilunarferlið haldið áfram með einhverjum hléum æ síðan, en ég er að vonast til að ég sé á lokametrunum í því og geti haldið áfram lífsgöngunni með örin ein, án þess að afleiðingarnar séu sífellt að valda mér vanda.

ÁHRIF Á HEGÐUN OG HEILSUFAR

Í heilunarferlinu hef ég smátt og smátt uppgötvað hversu mikil áhrif þessi reynsla hefur haft á heilsufar mitt og hegðun. Það rifjaðist upp fyrir mér að fljótlega eftir misnotkunina varð ég mjög kvíðin og kveið til dæmis hverjum degi sem ég þurfti að fara í skólann fyrsta árið sem ég var í skóla.

Ég varð gjarnan veik þegar ég átti að gera eitthvað sem mér fannst framandi og erfitt og fékk þá alltaf í magann. Við misnotkunina hafði ég spennt upp kviðinn og reynt að ýta gerandanum út úr mér. Það tókst auðvitað ekki, en eftir þetta var ég alltaf með framstæðan kvið og hef verið meira og minna alla ævi síðan.

Þegar ég byrjaði í leikfimi í barnaskóla og allir áttu að draga inn kviðinn, spenntist minn út. Minningin réði og ég er enn að vinna með hana, því útþaninn kviður var einhvers staðar djúpt í vitundinni tákn um vernd, þótt hún hefði ekki virkað þegar ég þurfti á henni að halda.

SÆTINDIN FÖLDU SÁRSAUKANN

Ég fór að sækja í sætindi og gagnstætt öllu sem mér hafði verið kennt, fór ég að stela peningum úr buddunni þegar ég var send út í búð, til að kaupa mér sælgæti. Ég fór að fá óþol fyrir ákveðnum matartegundum og kasta upp, gjarnan að nóttu til ef ég hafði borðað eitthvað að kvöldi, sem ég ekki þoldi. Magavandamálin mögnuðust sífellt og þegar ég var tíu ára var ég greind með greinilegt magasár, eins og læknirinn sagði við móður mína eftir röntgenmyndatöku. Enginn skildi hvernig svona lítið barn gat verið með magasár.

Ég lá á sjúkrahúsið í þrjár vikur og í framhaldinu átti ég að fylgja ákveðnu mataræði næstu tvo mánuði. Það samanstóð aðallega af fiski og kartöflum. Ég hætti að kasta eins oft upp, en áfram héldu meltingavandamálin.

Um þrítugt byrjaði ég að lesa mér til í kínverskri læknisfræði en þar er lögð áhersla á heildrænar lækningar, það er að heila líkama, huga og sál. Í þeim fræðum eru lungu og ristill pöruð líffæri og tengjast sorg, missi og eftirsjá – og það er margs að sakna þegar maður er rændur æskunni með svona innrás í líkamann.

Varðandi lungun, hef ég oft undrað mig á af hverju ég hef alltaf andað svona grunnt og verð móð við minnstu áreynslu. Ég náði jafnvel ekki að breyta því með öndunaræfingum í jógakennaranáminu fyrir átján árum síðan, þrátt fyrir stöðugar æfingar. Svo rifjaðist nýlega upp fyrir mér í einni heilunarmeðferðinni að ég hætti nánast að anda á meðan á nauðguninni stóð. Ég fann því skýringuna, en á enn eftir að ná alveg tökum á önduninni.

BAKVERKIR OG BLÖÐRUVANDAMÁL

Í kringum tólf eða þrettán ára aldurinn var ég komin með stöðuga verki í mjóbakið sem lítil skýring fannst á. Ég var sett í bakæfingar, en þær dugðu skammt. Síðar lærði ég í gegnum kínversku læknisfræðina að þetta svæði í bakinu er tengt blöðrubrautinni, og þar sem hún skaddaðist verulega við nauðgunina varð mér tengingin augljós.

Bakverkirnir, svo og mikil grindargliðnun hafa fylgt mér alla tíð og stundum er sársaukinn nánast óbærilegur. Hugsanlega tengjast þessir verkir spennunni sem ég setti í líkamann þegar ég fraus við nauðgunina. Nú er ég með alveg sérstakt æfingaprógramm í gangi sem ég vonast til að hjálpi mér að styrkja vöðvana á þessu svæði nægilega vel til að ég nái bata.

SYKURFÍKN OG MELTINGARVANDAMÁL

Sykurfíknin hjá mér magnaðist mikið á unglingsárunum. Þá var ég alveg til í að sleppa máltíðum og lifa bara á kóki og prins, sem var vinsælt þá og svo fór ég að reykja. Sem betur fer stóð reykingartímabilið bara í tæp 3 ár, en sykurfíknin hélt áfram. Hún var svo sæt leið til að fela sársaukann og breiða yfir vanlíðanina.

Meltingarvandamálin hafa fylgt mér frá því ég var misnotuð og litað allt mitt líf. Nú á síðari árum hef ég loks komið jafnvægi á þau með því að fylgja ákveðnu mataræði og hugsa vel um líkama minn. Til þess hef ég þurft að velja að setja mig í fyrsta sæti, sem er eitthvað sem mér fannst ég lengi ekki eiga skilið.

SÖNNUNARGÖGNIN ERU ÞAULSETIN

Á sextíu og sjö ára afmælisdegi mínum í október á síðasta ári lofað ég mér því að nú skyldi ég finna í eitt skipti fyrir öll leið til að vinna endanlega úr þessu áfalli. Hugsanlega er þessi grein ein leið til þess, en ég hef lært í gegnum allar þær sálfræðimeðferðir, námskeið, heilunartíma og annað sem ég hef sótt til að vinna úr þessu áfalli að það er aldrei bara um eina leið að ræða. Það eru svo margir þættir sem þarf að heila og heilunarferlið er í lögum og má líkja við lauk. Þú tekur eitt blað af og þá kemur hið næsta undir í ljós.

Síðari hluta janúar hóf ég fjarnám í taugavísindum hjá áströlskum doktor í fræðunum. Dýpri skilningur á heilanum og því hvernig hann virkar varð enn á ný til þess að vekja upp gamlar minningar. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði kæft skelfingaröskrið sem varð til innra með mér þegar mér var nauðgað. Ég hafði ekki varið mig með hljóði. Hugsanlega tengist það rödd minni og raddbeitingu, en röddin hefur alltaf verið frekar rám og oft gefið sig þegar ég er að tala – og ég get alls ekki sungið.

Sönnunargögn líkamlegs ofbeldis eins og nauðgunar liggja því víða og það þarf að leggja á sig mikla vinnu til að losna við þau úr líkama, huga og sál.

Mynd: Can Stock Photo/gina_sanders

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram