MÁTTUR JÁKVÆÐNINNAR
Við erum öll með mismunandi sýn á lífið og á vissan hátt má segja að við búum öll í okkar eigin heimi. Sýn okkar á lífið er almennt byggð á gildismati okkar og því sem okkur dreymir um að verði að raunveruleika í lífi okkar. Til að svo megi verða, þurfum við að gera okkur grein fyrir að viðhorf okkar skiptir miklu máli.
MEÐ EÐA Á MÓTI
Ef við tökum sem dæmi eitthvað sem við flest þekkjum, þá vilja allir frekar frið en stríðsrekstur. Við getum valið að beina orku okkar að því að hvetja til friðar, frekar en að nota hana til að tala á móti stríðsátökum.
Á yfirborðinu virðist þetta einn og sami hluturinn, en þegar við erum með einhverju, fylgir því meiri orka til umbreytinga, en þegar við erum á móti einhverju. Þegar við erum með einhverju eru mun meiri líkur á að sú jákvæða orka sem því fylgir skili meiri árangri.
JÁKVÆÐAR HUGSANIR
Jákvæðar hugsanir og hvatningar eru uppörvandi og veita okkur orku og traust á því að draumar okkar og hugsjónir geti virkilega ræst. Þær hvetja okkur til að vinna daglega að því að ná þeim markmiðum sem okkur langar að verði að veruleika í lífi okkar.
Þegar þú ert með einhverju, skapar sú hugsun jákvæð orkuumskipti í heiminum, sem þýðir að hvorki þú né þeir sem hafa sömu sýn og þú, eru í vafa um að draumarnir geti ræst.
Að vera á móti er yfirleitt auðvelt, þar sem þú þarft bara að segjast vera á móti. Hins vegar fylgir því oft meiri áskorun að vera með einhverju, vegna þess að þú kannt að vera að kynna fyrir fólki hugmyndir, sem innst inni vekja hjá þeim ótta. Til að yfirvinna slíka áskorun þarftu að sækja í mátt jákvæðninnar og láta ekki úrtölur annarra trufla þig.
MÁTTUR JÁKVÆÐNINNAR
Væntanlega hefurðu oft heyrt það sagt að enginn einn geti haft mælanleg áhrif á heiminn sem við búum í. Ef þú skoðar hins vegar söguna, kemstu að raun um að draumar og draumsýnir margra einstaklinga hafa haft mótanleg áhrif á heim okkar. Þeir voru með einhverju, trúðu á drauma sína og að þeim tækist að láta þá rætast.
Vilji þinn til að standa fast með því sem þú trúir á, svo og vilji þinn til að tala frá hjartanu og treysta draumum þínum býr yfir miklum mætti. Þær jákvæðu hugsanir sem þú velur að senda frá þér, munu veita þér mátt til að fylgja eigin sannfæringu, deila gildismati þínu með öðrum og að lokum leiða til varanlegra breytinga – ef ekki í öllum heiminum, þá í þínu eigin lífi.
Þar hefjast hvort eð er allar breytingarnar.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum. Ef þú hefur áhuga á að efla mátt jákvæðninnar í eigin lífi gæti námskeiðið STJÖRNUSKIN verið fyrir þig.
Mynd: CanStockPhoto.com/macniak
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar7. desember, 2024MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
- Greinar28. nóvember, 2024LÉTT YFIR NÝJU TUNGLI Í BOGMANNI
- Greinar31. október, 2024MAGNAÐAR PLÁNETUAFSTÖÐUR Í NÓVEMBER
- Greinar21. október, 2024SÓLIN Í SPORÐDREKA