LÍKAMINN GEYMIR ALLT

LÍKAMINN GEYMIR ALLT

Um það leyti sem ég stofnaði verslunina Betra Líf árið 1989 trónaði bókin HJÁLPAÐU SJÁLFUM ÞÉR (á frummálinu You Can Heal Your Life) eftir Louise L. Hay efst á meðsölulistum um víða veröld. Bókin var aðgengileg og auðlesin og er að mínu mati ein besta sjálfshjálparbók allra tíma.

Aftast í bókinni var að finna Listann, en hann hafði Louise gefið út í litlu hefti sem kallaðist Bláa bókin, löngu áður en hún skrifaði bókina sjálfa. Það hefti gaf hún svo fólki á fyrirlestrum og fundum í kirkjunni sinni.

Á Listanum voru talin upp ótal heilsufarsvandamál og tenging þeirra við tilfinningar okkar og minningar um áföll, ásamt staðfestingum til að snúa minningum okkar við. Ég komst reyndar að því síðar að staðfestingarnar einar sér leystu ekki þann skaða sem áföllin ollu, en hjálpuðu til.

EFTIRSJÁ BREYTIR EKKI FORTÍÐINNI

Væntanlega höfum við flestöll eða jafnvel öll gert eitthvað í lífi okkar sem við sjáum eftir – eða lent í kringumstæðum og reynslu sem við myndum helst viljað hafa sloppið við. En ef við trúum því að við lifum aftur og aftur og að Jarðardvöl okkar sé nokkurs konar þroskaskóli, setjum við væntanlega upp plan um hvað við ætlum að læra hverju sinni fyrir hverja jarðvist. Áföllin sem við plönuðum að lenda í geta því verið leið til að læra að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum.

Þegar við komum svo til Jarðar gleymum við samstundis planinu og höldum af stað inn í tilvist með ýmis konar áföllum sem setjast svo að í líkamsminninu og birtast oftar en ekki í einhvers konar “heilsufarsvandamálum”. Allt hluti af planinu.

Eftirsjáin breytir hins vegar engu þar um, en úrvinnsla áfallanna úr líkamsminninu og fyrirgefningin, bæði að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum breytir öllu og losar okkur undan áþján áfallsins og minninganna.

AÐ ELSKA SJÁLFAN SIG

Í kringum þann tíma sem bók Louise L. Hay varð að metsölubók, var annar rithöfundur mjög vinsæll vestanhafs. Hann hét Wayne Dyer. Hann ásamt Louise, benti á þann einfalda hlut í bókum sínum að við þyrftum að læra að elska okkur sjálf til að geta unnið úr áföllum okkar.

Þar væri byrjunin, en sú byrjun hefur reynst mörgum erfið hindrun. Flestir vilja beina ást sinni til annarra, þótt margir meistarar hafi í gegnum tíðina bent okkur á mikilvægi þess að elska okkur sjálf. Við þurfum nefnilega að eiga fullt hjarta af kærleika til að geta ausið úr þeim brunni til annarra.

KVÍÐI BREYTIR EKKI FRAMTÍÐINNI

Áföll úr fortíðinni búa yfirleitt til kvíða fyrir framtíðinni. Samt breytir kvíðinn engu til hins betra. Hann býr bara til innri streitu, nagandi vanlíðan, meltingarvandamál; því við erum ekki að “melta” heiminn í kringum okkur, og önnur heilsufarsvandamál, hvort sem þau eru andlegs eða líkamlegs eðlis.

Enn á ný felst lausnin í því að vinna úr tilfinningalegum áföllum sínum. Það tekur tíma, því við höfum oft lokað svo vandlega á þau að erfitt er að opna fyrir þau aftur og vinna úr þeim.

Það er samt hægt en lögin sem fara þarf í gegnum til að það takist geta verið mörg og jafnvel getur verið um viðvarandi endurtekið mynstur í fjölskyldum að ræða, þar sem áföllin ganga kynslóð fram af kynslóð og því þarf að rjúfa tengingu við endurtekninguna.

ÞAKKLÆTI BREYTIR NÚTÍÐINNI

Ráðin við úrvinnslu áfalla eru þau sömu í dag og þau voru þegar Louise og Wayne voru að skrifa bækur sínar – og ef við sitjum enn föst í áföllum okkar er það væntanlega vegna þess að við erum ekki að fara eftir þeim – eða höfum ekki leitað okkur aðstoðar til að gera það.

Hins vegar er þakklæti eitt af því sem bæði heilar og breytir miklu um líðan okkar. Bara það að venja sig á það að morgni dags að þakka fyrir það að fá að vakna til lífsins, eiga rúm til að sofa í, húsnæði til að búa í, eiga vini og fjölskyldu eða hvað annað sem er þakkarvert í lífi okkar.

Með því að temja sér að halda dagbók og skrifa í hana á hverjum morgni þrjá hluti sem maður er þakklátur fyrir, breytist margt í lífi manns. Þakklætið laðar nefnilega til sín aðra góða hluti og eykur ásættanleikann í lífi okkar.

Ég er til dæmis mjög þakklát fyrir að þú skyldir nenna að lesa þessa grein – og væri enn þakklátari ef þú væri til í að deila henni með öðrum – í þeirri trú að þá gætu fleiri orðið þakklátir.

Þér er velkomið að skrá þig á póstlistann minn og fá um leið ókeypis hugleiðslu.

Mynd: Shutterstock.com

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 609 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram