Kókalauf og súrefni

Ég hef verið á ferð um Suður Ameríku, nánar tiltekið Perú og Bólivíu undanfarnar tvær vikur sem fararstjóri í ferð Bændaferða. Þetta er mín fjórða ferð á þessar slóðir, en helstu minjar um Inkaveldið og eldri menningarsamfélög þessa heimshluta eins og Machu Picchu, Cusco og Tiawanaku liggja í þetta 2300-4000 m hæð í Andesfjöllunum. Til að mæta þessari hæð þarf að aðlaga sig umhverfinu og nota til þess sömu efni og heimamenn nota.

Ertu á leið til Cusco?
Þessi spurning kom frá afgreiðslumanninum á flugvellinum í Lima, þegar ég rétti honum poka af karamellum og tyggjói með kókalaufum. Svo benti hann mér á að komið væri náttúruefni í hylkjaformi með kókalaufsdufti og ýmsum öðrum jurtaefnum, sem væru frábær gegn hæðaveiki, sem óhjákvæmilegt er að fá einhvern snert af, þegar ferðast er um Andesfjöllin. “Taktu tvær strax og svo eina á 8 tíma fresti!” Ég hlýddi og verð að játa að mér fannst þetta meira aðlaðandi aðferð en að tyggja þurr kókalaufin sem ég hafði gert í fyrri ferðum, því þau eru frekar römm, en skila þó þeim árangri að þenja lungnapípurnar svo það er auðveldara að anda eðlilega.

Kókalauf
Kókalauf hafa verið notuð af íbúum þessa heimshluta í þúsundir ára, bæði við helgiathafnir og eins til daglegs brúks, m.a. til að draga úr hungri og þorsta í erfiðu umhverfi háfjallanna. Þau eiga það eitt skylt við kókaín, að í kringum 1860 komst vísindamaðurinn Albert Nieman að því að hægt var að vinna það úr laufunum með því að einangra úr þeim efni sem þekkt er sem erythroxyline.

Sem betur fer eru kókalauf og afurðir úr þeim ekki ávanabindandi, svo það er engin hætta á að þörf sé á meðferð þegar heim kemur, þótt fólk bæði tyggi laufin og noti þau í te, taki kókalaufsduft inn í hylkjaformi eða fái sér daglega brjóstsykur eða karamellur með kókalaufi, eins og flestir erlendir ferðamenn gera.

Hitt stuðningsefnið
Hitt stuðningsefnið sem margir nýta sér á ferðalögum um Andesfjöllin og er staðalbúnaður í öllum hótelum, rútum og jafnvel bátum á þessu svæði er súrefni. Þegar komið er upp fyrir 2100 metra yfir sjávarmáli byrjar mettun súrefnisbundins blóðrauða að hrapa. Rauðum blóðflögum fækkar og þeim hvítu fjölgar. Þar sem þessar rauðu eru nauðsynlegar fyrir heilastarfsemina, koma einkennin oft fram sem höfuðverkur, svimi eða fólk verður utan við sig. Þá er gripið til þess ráðs að fá sér aukaskammt af súrefni hvort sem er á undan morgunverðinum, um miðjan daginn eða til að eiga auðveldar með að sofna á kvöldin.

Allt er þetta hluti af þeirri upplifun sem ferð um þær minjar um merkileg menningarsamfélög í Andesfjöllunum felur í sér. Flestir eru þó þakklátir fyrir að koma niður að sjávarmáli á ný og geta tekið upp fyrri lifnaðarhætti, án fyrrgreindra stuðningsefna.

MYND: Kókalaufsrunni. Myndin er tekin í Machu PIcchu í okt. 2016.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 592 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram