KÍNÓASALAT MEÐ ASPAS, HNETUM OG RÆKJUM

Matarbloggari vefsíðunnar hún Björg Helen Andrésdóttir
er þessa vikuna með uppskrift að dásamlegu og bragðgóðu
kínóasalati, sem hentar vel á heitum og sólbjörtum dögum


Þegar sólin loksins lætur sjá sig og hitatölurnar hækka á höfuðborgarsvæðinu er tilvalið að skella í þetta fallega og bragðgóða kínóasalat. Mér finnst fátt betra en að nota aspas til að gleðja braglaukana mína ásamt góðum hnetum. Þess vegna er nóg af þessu hráefni í réttinum. Þeir sem ekki borða rækjur geta notað kjúkling eða annað kjöt í staðinn fyrir þær eða einfaldlega bara sleppt þeim.

Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen

 

SÓSAN / DRESSINGIN

5 msk ólífuolía
1 tsk hvítvíns- rauðvíns- eða eplaedik
1 – 1 ½ msk hnetusmjör
½-1 msk sætt Dijon sinnep
1 tsk tamarin sósa frá Clearspring eða sojasósa
2 tsk Grænmetis paradís Kryddhúsið
½ tsk Cayenne pipar Kryddhúsið má sleppa
1 stórt hvítlauksrif
1-2 msk vatn til að þynna ef vill

salt (smakkist til)

KÍNÓAÐ

1 ½ bolli kínóa eða hrísgrjón
2 ½ – 3 bollar vatn
Salt

Sjóðið kínóað þar til allt vatn er soðið upp. Látið það svo kólna alveg.

ANNAÐ INNIHALDSEFNI Í SALATIÐ

500-750 gr. aspas t.d. frá Costco
rækjur eftir smekk
3-4 litlar paprikur (fást saman í poka)
1 poki furuhnetur ristaðar
1 lúka pekanhentur ristaðar

AÐFERÐ:

1 – Skerið aspasinn í ca 3 bita, hvern stöngul og steikið hann létt upp úr olíu eða smjöri og saltið. Alls ekki steikja hann of mikið því gott er að hafa svolítið „bit“ í honum. Kælið.

2 – Skerið paprikurnar smátt. Fallegast að hafa þær í sem flestum litum.

3 – Ristið hneturnar í sitt í hvoru lagi og saxið síðan pekanhneturnar, ekki of smátt.

4 – Blandið saman t.d. á kaldri pönnu aspasnum, kínóanu, rækjunum og paprikunni (geymið smávegis af henni til að strá yfir réttinn) og setjið síðan í fat eða skál.

5 – Stráið hnetunum yfir eftir smekk, en mér finnst mjög gott að hafa vel af hnetunum því þær gefa svo gott bragð. Stráið síðan restinni af paprikunni yfir.

6 – Hægt er að hella sósunni yfir réttinn eða láta hvern og einn skammta sér sjálfum.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram