KARRÝÞORSKUR MEÐ FETAOSTI OG KÓKOSMJÓLK

Matarbloggari vefsíðunnar hún Björg Helen Andrésdóttir
er þessa vikuna með uppskrift að dásamlegum fiskrétti.
Þetta er bragðgóður og einfaldur réttur sem tekur
ekki langan tíma að útbúa.


Mér finnst fiskur í kókosmjólk eða rjóma og karrýi vera skotheld samsetning. Að bæta síðan sítrónusmjöri (lemon curd) við þessi hráefni gerir réttinn ennþá betri. Enn og aftur geri ég rétt á einfaldan og auðveldan máta með því að setja allt í eldfast mót og inn í ofn. Bragðgott og einfalt finnst mér málið. Þessi réttur er góður í kvöldmatinn, saumaklúbbinn eða bara við hvaða tækifæri sem er.

Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen

 

KARRÝÞORSKUR MEÐ FETAOSTI OG KÓKOSMJÓLK

INNIHALDSEFNI:

600-700 gr. þorskur eða annar góður fiskur
möndlumjöl
1 egg
3-4 tómatar
olía
1 lítil krukka fetaostur
1 ½ dl. kókosmjólk (þykk) eða rjómi
1-2 msk.sítrónusmjör (lemon curd) eða safi úr hálfri sítrónu
1 msk. indversk karrýblanda frá Kryddhúsinu eða gott karrý
1 tsk. hvítlauksduft frá Kryddhúsinu
salt eftir smekk
svartur pipar
rifinn ostur til að dreifa yfir – má sleppa

AÐFERÐ:

1 – Skerið tómatana í þunnar sneiðar og raðið í eldfast mót.
2 – Stráið yfir helmingnum af fetaostinum ásamt olíunni sem hann er í yfir tómatana.
3 – Setjið eggið í skál og pískið það vel saman.
4 – Skerið þorskstykkin í bita, veltið þeim upp úr egginu og síðan möndlumjölinu og setjið ofan á tómatana og fetaostinn.
5 – Stráið um  það bil 1 msk. af karrýblöndunni eða karrýinu ásamt hvítlauksduftinu yfir fiskinn.
6 – Saltið vel og piprið og hellið síðan aðeins meiri olíu yfir fiskinn.
7 – Setjið kókosmjólkina í skál og bætið lemon curd út í og hrærið vel saman.
8 – Hellið blöndunni í eldfasta mótið meðfram fiskinum.
9 – Stráið að lokum restinni af fetaostinum yfir fiskinn, svo og bætið við rifnum osti, en honum má sleppa.
10 – Setjið inn í 190 gráðu heitan ofn í 25-30 mínútur.

Gott er að bera þennan rétt fram með kínóa, hrísgrjónum, fersku salati, kartöflum eða því sem hugurinn girnist.

Mynd: Björg Helen Andrésdóttir

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram