JÚPITER OG SATÚRNUS Í SAMSTÖÐU

JÚPITER OG SATÚRNUS Í SAMSTÖÐU

Hér á eftir fylgir þýðing á skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á orkunni í kringum JÚPÍTER OG SATÚRNUS Í SAMSTÖÐU í Vatnsberamerkinu þann 21. desember og áhrifum frá plánetunum fram yfir jól.

Pam hefur veitt fullt leyfi fyrir þýðingum á skýringum hennar. Gott er að líta á þær sem nokkurs konar veðurspá fyrir orkuna sem fylgir framvindu og afstöðum himintunglanna.

TILKOMUMIKIÐ NÝTT UPPHAFIÐ

Pam segir að desember sé yfirfullur af gífurlega mögnuðum stjörnuafstöðum og að við komum til með að finna fyrir þeim. Hún hefur talað mánuðum saman um að þetta sé topppurinn á hinum stigmagnandi styrkleika orkunnar, sem hefur farið smátt og smátt vaxandi allt árið 2020.

Þann 14. desember var ALMYRKVI Á SÓLU á 23° í Bogmanni, en um hann fjallaði Pam í síðustu skýringum sínum. Hún hvetur okkur til að renna yfir þær upplýsingar vegna þess að þær tengjast hinu TILKOMUMIKLA NÝJA UPPHAFI þann 21. desember, sem er hækkun á meðvitund okkar og huganum. Bogmaðurinn er einmitt táknrænn fyrir meðvitund og huga og því tengjast upplýsingar um ALMYRKVANN líka því tímabili sem Pam fjallar um núna – og það er um margt að fjalla.

Fljótlega eftir ALMYRKVANN eða þann 17. desember fer Satúrnus loks út úr Steingeitinni og inn í Vatnsberann. Tveimur dögum síðar eða þann 19. desember fer svo Júpiter úr Steingeit yfir í Vatnsberann. Þessar plánetur mætast svo þann 21. desember til að mynda þessa mikilvægu samstöðu.

NOKKRAR ÁSTÆÐUR FYRIR MIKILVÆGI SAMSTÖÐUNNAR

Pam segir að nokkrar ástæður séu fyrir því að þessi samstaða sé sérstaklega mikilvæg út frá stjörnuspekinni. Í fyrsta lagi er það vegna þess að hún verður sama dag og Vetrarsólstöður verða, sem gerir hana öflugri.

Í öðru lagi vegna þess að samstaðan er á 0° og 29 mínútum í Vatnsberamerkinu, en það undirstrikar þetta nýja upphaf, þessa nýju fyrirmynd að Vatnsberaorkunni. 

Í þriðja lagi er þetta upphafið á nýjum 20 ára hring, en þessar plánetur mætast á 20 ára fresti í sama elementinu. Í stjörnuspekinni eru fjögur element, VATN, ELDUR, JÖRÐ OG LOFT og þessar tvær plánetur mætast í einu af þessum elementum á 20 ára fresti. 

Undanfarin 200 ár hefur samstaða þeirra átt sér stað í JARÐARmerkjum að undanskildu því að hún var í Voginni árið 1991. Við erum hins vegar nú við upphafið á 200 ára hring, þar sem þessar plánetur munu mætast í LOFTmerkjum og það er stórmunur á þessum elementum, því orka LOFTSINS er mun hraðari. Því getum við átt von á að allt gerist mun hraðar á næstunni.

KYNSLÓÐAPLÁNETUR

En hvað táknar samstaða Júpiters og Satúrnusar? Oft er litið á þessar plánetur sem kynslóðaplánetur og í raun standa þær fyrir nýja sýn á heiminn, einkum þegar þær eru að fara úr einu elementi yfir í annað. Ný heimssýn tengist fyrirkomulagi samfélagsins, stjórnmálanna, menningu hvers tíma, gildismati, efnahagsmálum og í raun öllu því sem snýr að því hvernig þessi kerfi samfélagsins starfa.

Það eykur mikilvægi þessara umbreytinga að Plútó er enn í Steingeit, en þar er plánetan táknræn fyrir niðurbrot hins gamla og þar heldur sama þemað áfram en gengur hugsanlega hraðar fyrir sig vegna þess að Júpiter og Satúrnus eru nú í LOFTelementinu.

Þar að auki er þessi samstaða ekki bara í gegnum stjarnfræðilega lengdargráðu, sem er venjulega aðferðin til að mæla samstöður – það er eftir hreyfingu þegar þeirra yfir sólbaug. Núna er líka um að ræða „declanation“ samstöðu – sem þýðir að pláneturnar eru samhliða í samstöðunni í jafnri fjarlægð frá sólbaug. Sem sagt ekki bara lóðrétt, heldur líka lárétt og sú samstaða er nákvæm á jóladag, þann 25. desember.

Þessi samstaða plánetanna mun sjást á himnum sem ein skær stjarna, sumir tala um ljósið frá þeim sem jólastjörnu, því þær eru svo nálægt hvor annarri. Svona samstaða hefur ekki átt sér stað síðan árið 1623, sem er ein ástæða þess að hún er svo mögnuð. Samstaðan hefur heldur ekki verið í Vatnsberamerkinu síðan árið 1405, en það var í kringum þann tíma sem upphaf endurreisnartímabilsins (Renaissance) hófts, en því fylgdi blómlegt sköpunartímabil í bókmenntum og listum, eins og þið kannist við úr sögunni.

BLÓMLEGT MENNINGARTÍMABIL

Pam telur að við megum því eiga von á blómlegu skeiði í okkar tegund af menningu. Hún metur hins vegar út frá því hvar við erum stödd í heiminum núna að það gæti orðið menningarlega, en þó meira skapandi á tæknisviðinu.

Hún telur að við eigum eftir að sjá mikinn framgang á næstu árum í uppgötvunum og tækniframförum sem munu bæta og lengja lífsgæði okkar. Hún talar einnig um alls konar nýjar leiðir til að sjá heiminn.

BREYTINGAR Á FJÁRMÁLAKERFINU

Pam telur að það eigi eftir að verða stórbreytingar á fjarmálakerfinu, í raun mjög róttækar breytingar. Það verður mun meiri dreifing á auðæfum heimsins og meira jafnræði. Það er vegna þess að við erum að fara úr heimsmynd sem tengst hefur JARÐARelementi og snúist hefur um þéttleika, efnishyggju, kapítalisma, eignaraðild, eignir og allt það sem við höfum þurft að leggja á okkur til að vinna fyrir heimili eða bíl eða hverju sem er – og þeirri upplifun samhliða því sem hefur verið að „ég hef unnið fyrir þessu“ – „það er mitt“.

Þegar farið er yfir í Vatnsberann munu hlutirnir snúast meira um samvinnu, samfélög, verkefni tengd mannúðarmálum, allir saman að vinna að einhverju – eða því að við höldumst í hendur um allan hnöttinn. Tilfinningar sem tengdar eru LOFTelementinu snúast meira um að deila með öðrum.

ÞVERSTÆÐ SAMVINNA

Pam telur að draga muni úr skipunum að ofan og niður, eins og nú eru og að í stjórnmálum og hjá stórfyrirtækjum verði meira um þverstæða samvinnu. Líklegt er að samfélög fari að starfa meira frá grasrótinni og upp.

Líkur eru á að upp spretti staðbundin samfélög, en líka að fólk tengi sig við hópa í gegnum Netið, eða að fólk tengist öðrum eins þenkjandi og vinni með þeim að verkefnum. Hún sér þetta því fyrir sér sem mjög spennandi.

MAGNAÐUR DAGUR TENGDUR SPÁDÓMUM

Hinn 21. desember er því ekki bara magnaður dagur út frá stjörnuspekinni, heldur fylgja honum margþættar umbreytingar, sem hafa lengi tengst þessum tíma. Til eru margir fornir spádómar um þennan tíma, meðal annars frá Hopi indíánum í Norður-Ameríku, í Biblíunni og frumbyggjar margra landa búa yfir spádómum tengdum þessum tíma.

Mörg ykkar vitið væntanlega af því að í miðri eyðimörk Ástralíu er stór steinn sem kallast Uluru og spádómar frumbyggjanna segja að undir honum sé Töfrakassi. Frumbyggjarnir verða með seremóníu þar að kvöldi 21. desember þar sem þeir ætla að virkja orkuna í Töfrakassanum, en það mun leiða til hækkandi meðvitundar hjá okkur. 

(Innskot: Hápunktur athafnarinnar er kl. 21:02 við Uluru. Þeir sem vilja senda tæra kærleiksorku til Uluru héðan frá Íslandi og styðja þannig við afhöfina með orku sinni gera það kl. 11:32 að morgni 21. desember.)

Tíðnimælingar á Schumann skalanum hafa undanfarið hækkað upp í tölur sem aldrei hafa áður sést, en hann mælir „hjartslátt Jarðar“. Tölurnar eru að mati Pam að gefa til kynna að uppfærsla Jarðarinnar og uppfærslan á meðvitund okkar sé í fullum gangi.

FÆÐING NÝRRAR MEÐVITUNDAR

Pam er sannfærð um að þetta tímabil marki fæðingu nýrrar meðvitundar. Hún markast af því hliði sem við förum í gegnum þann 21. desember. Auðvitað á þessi breyting eftir að koma smám saman í ljós á næstu mánuðum og árum, en 21. desember markar hliðið. Við erum að fæða, erum loks að komast út í gegnum fæðingarveginn eftir allar þessar vikur af spennu og samdrætti.

Hún hefur einnig talað um allt það kosmíska ljós sem streymir til Jarðar, þar sem við erum að fara í gegnum Photon beltið. Pam segir því að það séu fjölmargar ástæður fyrir því að við erum að sjá þetta stökk fram á við, sem það í raun er, því allar spár tengjast við þessa samstöðu Júpiters og Satúrnusar þann 21. desember.

SKILABOÐ FRÁ VINSAMLEGUM VERUM

Pam segir að í viðbót við allt sem upp er talið að framan, sé mikið um skilaboð frá vinsamlegum geimverum – en það eru margir sem eru að miðla verum utan úr geimnum. Myndbönd þeirra má finna á YouTube. Sjálf hefur hún talað um eina af þessum verum á Facebook síðu sinni. Skilaboðin frá öllum eru á sama veg. Við erum að koma að hápunktinum á þessari orku sem er í meginatriðum táknræn fyrir endurfæðingu okkar.

Pam vill sérstaklega þakka hinni hæfileikaríku Janet Treloar sem er transmiðill, en hún miðlar hinum háþróaða andlega leiðbeinanda Zacharia, sem er betur þekktur sem Zac. Hann er háþróuð hlið af hinum upphafna meistara Djwal Khul. Pam segist hafa fylgst með Zacharia í mörg ár, svo og samvinnu Janet og Hazel Newton, en það er Hazel sem spyr spurninga í viðtali við Zac, þegar leitað er svara í viskubrunni hans. Viðtölin birtast einu sinni í mánuði.

Pam sendir þakkir til hans og leiðbeininga hans, því þótt Janet sé hætt að veita einkaviðtöl, gerði hún undantekningu og veitti Pam viðtal við Zac, svo hún gæti spurt hann um þær fjarlægu plánetur sem hún ætlar að ræða um hér á eftir. Ef þú hefur áhuga á að vita meira um Janet, Hazel og Zac, er hlekkur inn á síðuna þeirra hér neðst í greininni.

VIÐ ERUM Á LEIÐ INN Í VATNSBERAÖLDINA

Pam segir að við séum að fara í gegnum TILKOMUMIKLAR breytingar, sem gefa merki um að við séum við upphafið á Vatnsberaöldinni. Við verðum hins vegar ekki alveg komin inn í hana fyrr en Plútó fer inn í Vatnsberann árið 2024. Þá verðum við líka væntanlega komin með meiri skilning á því að við séum ekki bara ríkisborgarar Jarðar, heldur ríkisborgarar Vetrarbrautarinnar.

Við eigum á þessu tímabili eftir að þróa með okkur nýja hæfileika, sem fara að láta á sér bera undir lok desember. Pam finnst mikilvægt að láta ykkur vita að til að styðja þetta ferli er hægt að taka þátt í hinum ýmsu hóphugleiðslum þann 21. desember og bendir á hægt sé að finna upplýsingar um þær á Netinu. Hún kemur ekki til með að leiða neinar sjálf, heldur stefnir hún á að vera þátttakandi í einni eða tveimur.

ALLIR FÁ UPPFÆRSLU

Pam segir líka að mörg okkar eigi ekki eftir að finna fyrir breytingum þann 21. desember. Hún hvetur fólk til að verða ekki fyrir vonbrigðum eða hafa áhyggjur ef það er málið. Þeir sem eru næmir munu finna fyrir miklum breytingum í orkunni. En Pam bætir því við að hvort sem við finnum fyrir einhverju eða ekki, þá erum VIÐ ÖLL að fá uppfærslu þennan dag. Meðvitundin verður uppfærð hjá öllum, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki.

Hún á von á því að á næstunni förum við að taka eftir breyttri og fíngerðari meðvitund, samhliða meira næmni, nýrri hæfni, getu til hugsanaflutnings og heilunar og öðrum hæfileikum, sem koma fram á næstu mánuðum og árum. Hæfileikum sem við getum í augnablikinu ekki ímyndað okkur hverjir verða.

Sólkerfi Plútó, sem er dvergpláneta í Kuiper beltinu, utan við Neptúnus. Plútó er stærsta
þekkta dvergplánetan í sólkerfinu. Mynd frá NASA.

KUIPER BELT PLÁNETURNAR

Pam segir að það sem sé spennandi við þetta allt séu tengingar við pláneturnar eða dvergpláneturnar í Kuiper beltinu. Hún minntist aðeins á þær í síðustu skýringum sínum og vill enn og aftur þakka bandaríska stjörnuspekingnum Kelly Hunter fyrir að rannsaka þær.

Þann 21. desember eru Sól og Merkúr á 0° í Steingeit, en Vetrarsólstöður eru þegar Sólin fer inn í Steingeit. Þessar tvær plánetur eru báðar í samstöðu við Quaoar, sem er pláneta sem hún fjallar meðal annars um í myndbandi sínu New Planetary Archetypes. Þessi pláneta er ein af KBO pláentunum en KBO stendur fyrir Kuiper Belt Objects. Sumar plánetur á þessu belti eru utan við braut Neptúnusar og Plútó, en brautir þeirra eru mjög langar.

Arketýpa Quaoar er mjög tengd hugmyndum frumbyggja um að við drögum til okkar efni úr eternum og gerum það að veruleika. Frumbyggjar hafa talað um að þeir syngi og dansi til að búa til samstæða eða samloðandi tíðni við það sem þeir vilja mögulega gera að veruleika og dragi það svo út úr Quantum súpunni – eða út úr eternum og geri að raunveruleika.

Sýn frumbyggjanna er því mjög tengd Quantum módelinu um það hvernig raunveruleikinn vinnur. Pam finnst þetta afar spennandi, því margar af þessum KBO eða Kuiper Belt Objects plánetum tengjast Quantum kenningunni um það hvernig við sköpum raunveruleika okkar.

SALACIA OG CHIRON

Önnur athyglisverð afstaða við þessa TILKOMUMIKLU samstöðu Júpiters og Satúrnusar tengist Tunglinu sem er á 27° í Fiskum þann 21. desember. Það er því statt mitt á milli Neptúnusar sem er á 18° í Fiskum og Salacia og Chiron (særði heilarinn) sem eru á 4° í Hrút.

Pam talaði um Salacia í síðasta spjalli, en hún var eiginkona Neptúnusar. Hún bjó yfir hafmeyjarorku og gat umbreytt sér (shape shifting – breytt um ásýnd), var glitrandi og tengd mjög hárri ljóstíðni, sem glitraði í regnbogalitum á hafinu.

Pam veltir fyrir sér hvort þessi afstaða tengist hágæða heilunarljósi, sem hafa muni áhrif á strengina í DNA-inu okkar og stuðla að þessari endurfæðingu okkar. Hún talar alla vega um orku Salacia sem afar töfrandi orku.

SÁLARLJÓSMÓÐIRIN CHARIKLO

Pam segir að það sé enn ein falleg afstaða á þessum tímapunkti, en hún tengist Chariklo. Það er pláneta sem hún fjallaði um fyrir nokkrum mánuðum síðan, en hún býr yfir mjög fallegri orku.

Í mýtunni var Chariklo eiginkona Chiron. Pam telur hana vera tengda hinni Búddísku orku tilverunnar. Chariklo býr yfir þessum varanleika kyrrðarinnar, bara því að vera og getur heilað fólk í þögninni einni með því að vera til staðar.

Chariklo er nokkurs konar sálarljósmóðir, því hún er til staðar þegar líkaminn deyr og aðstoðar sálina við að skipta um tíðnisvið. Hún er líka mjög tengd umbreytingum á meðvitundinni, eitthvað sem Pam telur mjög athyglisvert.

Chariklo er þann 21. desember á 27° í Steingeit, mitt á milli Plútó sem er á 23° í Steingeit, en Plútó er táknrænn fyrir gamla heiminn/kerfið og Júpiters og Satúrnusar sem eru á 0° í Vatnsberanum. Chariklo er því mitt á milli hins gamla og hins nýja og hún er mjög tengd heilun og endurfæðingu.

SPENNUAFSTAÐA VIÐ HAUMEA

Enn bætist við tengingarnar, því til viðbótar við það sem að framan er komið, eru pláneturnar Plútó, Chariklo, Júpiter og Satúrnus allar í spennuafstöðu þann 21. desember við Haumea á 28° í Voginni, en það er pláneta sem Pam hefur oft fjallað um áður.

(Innskot: Samkvæmt vef NASA þá er snúningur Haumea einn sá hraðasti af plánetunum í sólkerfi okkar. Í raun svo hraður að hann afmyndar lag plánetunnar svo hún lítur út eins og fótbolti.)

Haumea er skyld Hawai‘i-ísku frjósemisgyðjunni og er gyðja endurlífgandi orku. Hún getur því endurnýjað náttúruna og Jörðina, jafnvel svæði sem hafa verið alveg eyðilögð. Hún getur sett þessa endurlífgandi orku í Jörðina til að veita henni næringu og hún getur framleitt fæðu á landi og úr sjó.

QUANTUM ORKA

Þessum plánetum fylgir ótrúlega mikil Quantum-stökks orka, en þær eru allar að gefa til kynna stökk í þróun mannsins. Og þær búa yfir töfrum. Þær eru ekki rökfræðilegar og ekki í þriðju víddinni. Þær eru því ekki að ýta eða leggja mikið á sig. Þær skilja bara að tíðnin er allt sem máli skiptir og þegar við skiljum það líka breytist allt.

Pam segir að þegar við stillum orku okkar á ákveðið ástand, setjum fram skýran ásetning, búum til samræmda tíðni við hátíðni kærleika, gleði eða annarra jákvæðra tilfinninga, getum við staðfest hlutina. Við drögum þá til okkar áreynslulaust.

Þetta er fimmtu víddar sýn á lífið og þangað liggur leið okkar. Við erum samt ennþá með raunverulegt bil eða gljúfur á Jörðinni, því í þriðju víddinni verða áframhaldandi átök og hrun hins gamla.

MARS, ERIS OG PLÚTÓ

Þann 22. desember verður Mars í nákvæmri samstöðu við plánetuna Eris, þá sem vekur upp kvenorkuna og eflir til ólgu og óeirða. Mars á því eftir að efla orkuna í Eris, en pláneturnar eru á 23° í Hrút. Pam segir jafnframt að Mars veiti okkur innra hugrekki, sannfæringarkraft og þá óhagganlegu trú að við getum staðið þetta allt af okkur.

Þann 23. desember verður Mars svo í þriðja sinn á árinu í 90° spennuafstöðu við Plútó. Sú afstaða snýst um að sá sem hefur valdið hefur rétt fyrir sér, það er að segja spennu milli einstaklinga og ríkisvalds, en þetta er síðasta spennuafstaðan milli þessara plánetna.

PLÚTÓ, TUNGLIÐ OG MARS

Þann sama dag eða 23. desember er Tunglið í Hrútsmerkinu í samstöðu við Mars og í spennuafstöðu við Plútó í Steingeit. Þessari afstöðu fylgir mikil frumorka og á hún eftir að vera mjög óstöðug víða á Jörðinni, þar sem komum til með að sjá átök og hrun hins gamla.

En ef við horfum hins vegar til himins og beinum sjónum okkar að Kuiper beltinu, með þessum merkilegu dvergplánetum erum við að sjá eitthvað óendanlega öðruvísi og óendanlega töfrandi og spennandi, þar sem býr orka sem hjálpar okkur að taka stökk fram á við þaðan sem við erum.

Pam telur að á næstu mánuðum eigum við eftir að verða meðvitaðri um það hversu einstök við erum, en líka hafa meiri skynjun á því hversu tengd við erum öllu mannkyni um allan hnöttinn.

HRAÐARI OG ÓSTÖÐUGRI ORKA

Pam lítur svo á að allar þessar afstöður gefi til kynna mikla umbreytingu í orkunni. Allt bendir því til þess að það vindist hraðar ofan af hruni hins gamla og því verði orkan á síðustu dögum desember mánaðar og í janúar og febrúar mjög óstöðug og kaótísk.

Hún segir jafnframt við okkur – haldið innri ró, haldið innra jafnvægi – vegna þess að þetta verður að gerast, til að við komumst á lygnari sjó. Hún kemur til með að fjalla nánar um stjörnuspeki fyrir árið 2021, þegar við höldum inn í nýja árið. Hún telur að hlutirnir virðist ætla að verða mun auðveldari og í meira jafnvægi, jafnvel svo frjálslegir að við getum fagnað þegar við höldum inn í síðari hluta marsmánaðar á næsta ári.

SETJIÐ AUGNHLÍFARNAR UPP

Pam hvetur okkur líka til að setja augnhlífarnar upp (þessar sem settar eru á hesta svo þeir fælist síður), þannig að þótt við vitum að eitthvað ógnvekjandi eða slæmt sé að gerast, þá þurfum við ekki að sogast inn í það.

Hún minnir okkur jafnframt á að þegar við tökum flugið bæði við ALMYRKVANN 14. desember og við SAMSTÖÐU Júpiters og Satúrnusar þann 21. desember, þá sé mikilvægt að hafa náð eins hárri tíðni og við getum – svo við tökum umbreytingarflugið við hæsta hlið eða flugvöll, eins og hún talaði um í síðasta spjalli.

Hún hvetur okkur því til að hafa augnhlífarnar á okkur, halda öguðum fókus á að verða það besta sem við getum orðið, með hæstu tíðni sem hægt er að ná, til að ná sem bestu flugtaki til að skapa þann hæsta farveg sem við getum fyrir framtíð okkar.

VELJUM JÁKVÆÐAR TILFINNINGAR

Pam segir að hvað sem við erum að hugsa eða hvaða tilfinningar sem við erum með, þá séu þessar hugsanir og tilfinningar að næra framtíð okkar og draga hana til okkar. Ef við erum reið og óttaslegin, erum við að laða þá framtíð að okkur, með því að næra hana á orku okkar.

Ef við erum glöð og kærleiksrík, hamingjusöm og þakklát, erum við að draga þá framtíð eða tímalínu að okkur. Við erum að næra framtíð okkar með hugsunum okkar og tilfinningum, því hún hefur ekki enn verið sköpuð. Við erum hins vegar að skapa hana á hverju einasta augnabliki.

Pam segist vona að þessar skýringar hafi hjálpað okkur. Ef þið vitið ekki hvar allar þessar afstöður falla í stjörnukortinu ykkar eða eigið ekki stjörnukort, getið þið farið inn á síðuna hennar www.pamgregory.com og gert þar ókeypis stjörnukort. Þar eru líka upplýsingar um bækur hennar og myndbönd.

Með lokaorðum sínum hvetur Pam okkur til að halda skýrri sýn á framtíðina, treysta og láta okkur hlakka til. Það eru mikil umskipti að eiga sér stað.

 

Nánari upplýsingar: Ef þið hafið áhuga á Zac og miðlunum frá honum, þá er slóðin: https://www.patreon.com/Zacsportal  

P.S. Vildi svo láta ykkur vita að það verða hóphugleiðslur víða um heim þann 17. desember þegar Satúrnus fer inn í Vatnsberann, en þangað fer hann kl. 05:04 f.h. á okkar tíma.

Það verða líka hóphugleiðslur þann 19. desember þegar Júpiter fer inn í Vatnsberann, en þangað fer hann kl. 13:06 e.h. á okkar tíma.

Ef þið hafið áhuga á og/eða tækifæri til að hugleiða á þessum dögum og tímum, erum við með því að senda kærleik og ljós til Jarðar, að byggja upp orkuna fyrir athöfnina við Uluru þann 21. desember og sendingu á tærri kærleiksorku þangað kl. 11:32 f.h. þann dag á okkar tíma.

Myndir: CanStockPhoto.com / Tristan3D – Nasa images – mreco99 – Jozef – isuneomP – spaxiax

 

 

 

 

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram