Í HVERJU FELST RÍKIDÆMI OKKAR?

MEGINEFNI GREINARINNAR:

  • Ríkidæmi er hægt að meta á margan máta og hver og einn leggur sitt mat á það.
  • Það eru þó fimm þættir, sem kannski skipta mestu máli þegar kemur að ríkidæmi, þ.e. fjárhagslegt, heilsufarslegt, samskiptalegt, huglægt og andlegt.
  • Hægt er að vinna að því að koma jafnvægi á alla þessa þætti í eigin lifi.

Höfundur: Guðrún Bergmann
Fylgstu með daglegum póstum á Facebook eða skráðu þig í Heilsuklúbbinn


Í HVERJU FELST RÍKIDÆMI OKKAR?

Flestir velta því væntanlega einhvern tímann fyrir sér í hverju ríkidæmi þeirra sé fólgið og hvað það sé sem gerir okkur virkilega rík. Sumir segja peningar, aðrir segja góð fjölskylda eða áhugaverður starfsferill og enn aðrir telja að ríkidæmi þeirra sé falið í góðri heilsu. Sennilega metum við á einhverjum tímapunkti á ævinni eitthvað af þessu sem meira virði en annað, en í raun er kannski hið eiginlega ríkidæmi okkar falið í því að jafnvægi ríki á milli ýmissa þátta í lífi okkar.

Kandískur vinur minn, Darren Jacklin, deildi með mér því sem hann lærði af einum lærimeistara sínum, en sá taldi að til að njóta eiginlegs ríkidæmis þyrftu eftirfarandi fimm atriði að vera til staðar. Ég deili þeim því áfram og læt hugrenningar mínar um hvernig megi öðlast eða upplifa ríkidæmi á hverju sviði fyrir sig fylgja með.

FJÁRHAGSLEG RÍKIDÆMI – Undir það geta fallið peningar sem þú átt í banka eða í vasanum, verðbréfin þín ef þú átt einhver, fasteignin þín ef hún er að mestu greidd eða jafnvel bara hin mánaðarlega launagreiðsla. Brasilíski rithöfundurinn Paulo Coehlo skriftaði nýlega á Twitter síðu sína: “Ég þekki mikið af fátæku fólki, en flest af því á mikið af peningum.” – svo peningarnir eru ekki allt, heldur jafnvægið við hina þætti ríkidæmisins.

HEILSUFARSLEGT RÍKIDÆMI – Það ríkidæmi snýst um heilsu og líkamlegt ástand þitt. Hvers virði er mikið af peningum ef þú hefur ekki heilsu til að njóta þeirra. Ég segi gjarnan að mitt mesta ríkidæmi sé góð heilsa, því án hennar á ég erfitt með að njóta alls annars sem er í lífi mínu. Kannski met ég hana svona mikils vegna þess að ég stóð á barmi þess að tapa henni alveg árið 2010. Því tel ég svo mikilvægt að gæta hennar, sem þess gulleggs sem hún er. Reyndar er oft sagt að “góð heilsa sé gulli betri” og því er ég svo sannarlega sammála – þótt ekki saki að hafa gullið með líka 🙂

RÍKIDÆMI Í SAMSKIPTUM – Hér erum við komin að samskiptum okkar við umhvefi okkar og annað fólk, en þó ekki síður okkur sjálf. Ríkidæmi í samskiptum getur falist í því að eiga góðan maka/félaga, upplifa sanna ást og eiga góða vini. “Maður er manns gaman” og þar sem við erum félagsverur, erum við alltaf hamingjusamari þegar við getum átt í góðum samskiptum við aðra, verið til staðar fyrir vini okkar jafnt á gleðistundum, sem og í erfiðleikum og faðmað reglulega að okkur þá sem okkur þykir vænt um. Flestir þrá að heyra að þeir séu elskaðir, svo ekki spara að segja þeim sem þú elskar frá því.

RÍKIDÆMI HUGANS – Við erum heppin ef við erum með opinn huga, tilbúin til að halda áfram að læra og þroskast allt okkar líf. Þannig söfnum við að okkur miklum auði, því ríkidæmi hugans felst í þeirri þekkingu sem við öflum okkur með námi eða reynslu, því verksviti sem við höfum lært á hvaða sviði sem er, þeim hæfileikum sem við höfum laðað fram og styrkt í okkur sjálfum og því sem skóli lífsins hefur kennt okkur í gegnum tíðina. Öll þekking og hæfni til að nýta hana falla undir þennan lið.

ANDLEGT RÍKIDÆMI – Það getur verið flókið að skilgreina, en þegar fólk hefur öðlast innri ró fer það yfirleitt ekki framhjá neinum. Flestir leggja litla rækt við andlega iðkun, en í henni felst mikil auðlegð, meðal annars sem ásættanleiki við lífið eins og það er og þakklæti fyrir það sem maður hefur hverju sinni. Hinn andlegi iðkandi er vel tengdur við sinn innri kraft og hefur öðlast hugarró, sem fátt raskar.

Nú er bara að finna leiðir til að koma jafnvægi á þessa fimm þætti, því þegar á allt er litið er í raun enginn einn sem er veigameiri en annar.

Guðrún Bergmann er höfundur 17 bóka um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjustu bækur hennar eru HREINT Í MATINN (um 80 eintök eftir af upplaginu) og HREINN LÍFSSTÍLL. Guðrún hefur leiðbeint um 800 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI hreinsikúrinn á rúmum tveimur árum.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram