HVER Á SINN SIÐ Á JÓLUM

Þegar kemur að jólahátíðinni er dásamlegt að fylgjast með þeim hefðum og siðum sem einkenna jólahald hverrar fjölskyldu fyrir sig. Þessar hefðir og siðir eiga oft rætur sínar að rekja til æskuheimilisins, því svona… “höfum við alltaf gert þetta.”

Þess vegna er hangikjöt á borðum hjá stórum hluta landsmanna um jól, ásamt kartöflum í hvítri sósu og meðlæti er grænkál og grænar baunir. Hamborgarahryggurinn er líka alltaf vinsæll á þessum árstíma, svo og rjúpur hjá þeim sem ganga á fjöll og veiða sinn eigin mat til jóla.

TOPPUR EÐA STJARNA

Margir skreyta heimilið eins ár eftir ár, setja jafnvel skrautið á sama stað á meðan aðrir eru sífellt að gera einhverjar breytingar. Sumir hafa alltaf lifandi jólatré á meðan aðrir draga fram gervitréð aftur og aftur. Svo er það toppurinn. Er hann stjarna eða gamla gerðin af jóltréstoppi á þínu heimili? Lengi vel var það alltaf gamli toppurinn á mínu heimili. Svo saumaði ég eitt árið stjörnu á toppinn á trénu, festi ljósaseríu á hana og hún sló í gegn í nokkur ár, þar til ég keypti Georg Jensen jólastjörnuna sem síðan tók við sessi þeirrar heimasaumuðu.

Jólalögin eru svo annað dæmi um hefðir. Fyrsta jólaplatan sem ég eignaðist eftir að ég stofnaði mitt eigið heimili var Rocky Christmas Christmas með John Denver. Hjá mér er hefð að spila hana meðan ég er að skreyta jólatréð. Ljúfir tónarnir draga fram minningar fyrri ára og fylli mig svo mikilli innri gleði og hamingju. Synir mínir voru að sjálfsögðu aldir upp við þessa jólatónlist, svo og Silfurkórinn, sem við spiluðum undir kyrrðastund þegar kveikt var á fyrsta aðventukertinu.

KÚREKATÓNLIST UM JÓLIN

Þegar synir mínir fluttu að heiman og stofnuðu sitt eigið heimilið ákvað ég að gefa þeim John Denver diskinn, því lögin á honum höfðu sérstakt minningargildi fyrir okkur öll. Þegar annar þeirra dró svo fram diskinn sinn og fór að spila sneri konan hans sér að honum og spurði: “Hva, ertu með kúrekatónlista á jólunum?” Hún hafði sem sagt ekki alist upp við að hlusta á Rocky Mountain Christmas um jólin.

En hver sem jólatónlistin er hjá þér, hvaða mat sem þú borðar og hvort sem jólatréð er gervi eða lifandi óska ég þér gleðilegrar hátíðar og treysti því að hún verði hamingjurík.

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram