GRÍMUR EÐA EKKI GRÍMUR

GRÍMUR EÐA EKKI GRÍMUR

Nú þegar hálf þjóðin eða meira gengur um með grímur alla daga, koma upp nokkrar spurningar í huga mínum. Kannski ætti ég ekki að vera að spökúlera neitt, eins og Ingi Hans vinur minn í Grundarfirði kallar það og bara sætta mig við hlutina eins og þeir eru.

Það er hins vegar hægara sagt en gert, því það eru svo margar mótsagnir í tengslum við grímunotkunina.

TÍU RANNSÓKNIR

CDC í Bandaríkjunum hefur til dæmis skipt nokkrum sinnum um skoðun á grímunotkun síðan Covid-19 fór að herja á heiminn. Á vefsíðu þeirra var meðal annars skrifað þann 5. maí á þessu ári að í tíu slembuðum rannsóknum (ísl. fyrir randomized trials) hafi komið fram “að notkun á andlitsgrímum sýndi ekki marktæka minnkun á inflúensusmiti.“ Síðan þá hafa CDC og aðrar einvala stofnanir haldið því fram að öðru gilti um corona-vírusinn og því þurfi heimsbyggðin að ganga með grímur.

Þessi tilvísun CDC í inflúensu, færi mig samt til að spökúlera hvort þessi farsótt sem geisað hefur um heiminn sé bara slæm inflúensa, eins og svo margir læknar hafa haldið fram. Reyndar hefur póstum þeirra á samfélagsmiðlum verið eytt jafnharðan og þær birtast, svo skoðun þeirra kemst ekki til lesenda, sem reiða sig mikið á að samfélagsmiðlar séu með réttu fréttirnar.

Þótt CDC hafi allt í einu farið að mæla með grímunotkun, spökúlera ég í því af hverju Dr. Fauci yfirmaður CDC sagði við nemendur í Georgetown háskólanum í júlí á þessu ári að hann hefði enga áætlun um að gera rannsókn á því í Bandaríkjunum hvort grímunoktun virkaði eða ekki. Hefði það ekki verið kjörið einmitt í þessu aðstæðum?

NIÐURSTÖÐUR FÁST EKKI BIRTAR

Danir voru þeir fyrstu til að rannsaka hvort almenn grímunotkun hefði einhver áhrif á útbreiðslu Covid-19. Rannsóknin hófst í apríl síðastliðnum og upprunalega stóð til að birta niðurstöður hennar í ágúst. Hún náði til 6.000 einstaklinga og telst því vera einstök og ein sú stærsta sem gerð hefur verið.

Hið sérkennilega er að þrjú vísindatímarit, the Lancet, the New England Journal of Medicine og JAMA tímarit the American Medical Association, hafa öll neitað að birta niðurstöður rannsóknarinnar. Þessi tímarit hafa hins vegar fjallað mikið um aðrar Covid-19 tengdar rannsóknir.

Danska dagblaðið Berlinske birti frétt um þetta í vikunni, en þar kemur fram að einn af þeim sem stóð á bak við rannsóknina, Dr. Christian Torp-Pedersen yfirmaður rannsóknadeilar Norður-Sjálenska sjúkrahússins, telur að þeir fái hana ekki birta, vegna þess að niðurstöðurnar geti talist umdeildar – og nú spökúlera ég hvort það geti verið rétt.

MARGIR SPURT UM NIÐURSTÖÐUR

Margir hafa beðið í ofvæni eftir að fá að vita niðurstöður rannsóknarinnar. Það er hins vegar venja innan vísindasamfélagsins er að fjalla ekki um niðurstöður rannsókna fyrr en eftir að þær hafa verið birtar í vísindatímaritum. Við þurfun því enn að bíða eftir þeim, en eins og kom fram hér að ofan voru 6.000 þátttakendur í rannsókninni. Annar helmingur þeirra var með grímur og hinn helmingurinn ekki.

Dr. Andrew Bostom við Brown háskóla í Bandaríkjunum setti á Twitter þýðingu á texta sem hann fékk varðandi rannsóknina, svo það er hægt að renna yfir hann meðan beðið er eftir frekari upplýsingum frá þeim sem að rannsókninni sjálfri stóðu – og spökúlera hvort niðurstöðurnar fáist almennt birtar.

UMFJÖLLUN Í FJÖLMIÐLUM HÉR Á LANDI

Einungis einn læknir, Elísabet Guðmundsdóttir lýtalæknir, hefur stigið fram og bent á það opinberlega að grímur veiti enga vernd gegn vírusum. Ég spökúlera því hvort hún sé eini læknirinn hér á landi með þessa þekkingu – en umfjöllun hennar um gagnleysi grímunotkunar má finna HÉR.

VIRKAR SUMS STAÐAR OG SUMS STAÐAR EKKI

Allt þetta fær mig til að spökúlera enn meira. Eins og til dæmis með tveggja metra regluna og grímur hér á landi. Við eigum að ganga með grímu þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli manna. Ef grímur veita okkur vernd, af hverju þarf þá að takmarka fjölda þeirra sem koma til dæmis inn í verslun? Ættu ekki allir að vera vel varðir með grímunum og því fjöldatakmörkun óþörf?

Svo er það þetta með hversu margir mega koma inn og hvar. Í sumum verslunum sem skilgreindar eru sem matvöruverslanir, meðal annars í Vínbúðunum sem moka gulli í Ríkiskassann sem stendur, eru engar fjöldatakmarkanir. Veiran veit væntanlega að þar er ekki hægt að smita neinn, því þar er allt fullt af vínanda. Ég spökúlera samt enn hvers vegna Vínbúðirnar eru skilgreindar sem matvöruverslanir því ég hef ekki rekist á neitt bitastætt þar inni í gegnum tíðina.

Í öðrum eins og BYKO (tekið sem dæmi vegna reynslu) sem er að reyna að halda uppi þjónustu hafa verið búin til hólf, sem einungis tíu manns mega vera í í einu. Ef þig vantar að redda einhverju í flýti og lendir í röngu hólfi, geturðu þurft að bíða lengi eftir einum hlut – því í verslunum eins og BYKO veit veiran væntanlega að það er hægt að smita fólk þótt það sé með grímu.

Læt þessum spökúleringum lokið í bili, en mikið væri nú frábært að fá rökfærðar skýringar á þeim.

Mynd: CanStockPhoto.com – Antonie_Diaz

 

 

 

 

 

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram