GRÆNMETISRÉTTUR MEÐ BASMATI HRÍSGRJÓNUM

Matarbloggari vefsíðunnar hún Björg Helen Andrésdóttir
er þessa vikuna með uppskrift að dásamlegum
grænmetisrétti úr öllu því frábæra grænmeti
sem nú fæst nýupptekið og flott
í matvöru-
verslunum eða á bændamörkuðum
víða um land. 


GRÆNMETISRÉTTUR MEÐ BASAMATI HRÍSGRJÓNUM

Hvað er betra en að elda fullan pott af litríku og hollu grænmeti með góðum kryddum í lok sumars? Þetta er seðjandi og staðgóður réttur en þó svo léttur í maga. Þið getið skipt út einhverju af grænmetinu og sett annað í staðinn. Og að sjálfsögðu er hægt að bæta út í hann t.d. baunum, kjöti eða fiski. Þetta er frekar stór skammtur en það er lítið mál að helminga hann.

Mér finnst skemmtilegra að  borða litríkan mat og trúi því að hann sé ekki síður góður fyrir sálina.

Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen

INNIHALDAEFNI Í GRÆNMETISRÉTTINN:

1 sæt kartafla
1 zucchini – kúrbítur
1 blaðlaukur
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 rauðlaukur
1 pakki snjóbaunir
2 dósir maukaðir tómatar
2 dósir kósosmjólk
1 sítróna
1 rautt chilli (má sleppa)
½ búnt kóríander
3 msk hnetusmjör
2-3 msk sýróp eða hunang
vatn
2 msk indversk karrýblanda Kryddhúsið
2 msk paprikuduft Kryddhúsið
½ msk chilli duft Kryddhúsið
1 msk túrmerik Kryddhúsið
1 msk cumin
2-3 litlir (kúlu) hvítlaukur eða 3-4 stór rif
3 cm rifinn ferskur engifer
1 msk Tamari soya sósa (má sleppa)
salt eftir smekk
olía

Basmati hrísgrjón soðin sér og borin fram með réttinum

 

AÐFERÐ:

1 – Byrjið á því að hella vænum slatta af olíu í pott og setjið síðan öll þurrkryddin út í ásamt rifnum hvítlauk, engifer og niðurskornu chilli. Hrærir saman við mjög lágan hita í smá tíma, svo kryddin brenni ekki.
2 – Setjið síðan niðurskorið grænmetið út í og hækkið undir pottinum. Steikið það í ca 5-10 mínútur, ekki steikja það of lengi. Gott er að hella ½ bolla af vatni út í eftir um 5 mínútur.
3 – Setjið síðan maukaða tómatana út í ásamt kókosmjólk, hnetusmjöri, tamari sósu og hunangi/sýrópi og hrærið vel saman.
4 – Rífið börk af einni lítilli sítrónu út í pottinn og kreistið síðan safann úr henni út í. Saxið kóríander smátt og setjið út í.
5 – Látið þetta malla þangað til ykkur finnst grænmetið verið „full eldað“ að ykkar smekk. Ef þið viljið þynna réttinn aðeins getið þið sett smá vatn út í hann.
6 – Smakkið síðan réttinn til og bætið salti og kryddi við ef ykkur finnst það vanta.
7 – Mér finnst oft gott að láta réttinn standa í 1-2 tíma og hita hann síðan upp áður en hann er borinn fram því þá er kryddið búið að „taka sig“.

Sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og berið fram með grænmetisréttinum.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir