GRÆNKÁLSPESTÓ

Nýtt grænkál streymir nú í verslanir og á sveitamarkaði þar sem grænmeti er selt. Því er upplagt að nýta það í pestó. Grænkálspestó er sérlega fljótlegt að útbúa. Það smakkast vel með fisk- eða kjötréttum, ofan á glútenlausa pítsubotn, á glútenlaust kex og brauð eða sem ídýfa með grænmetisflögum.

Grænkálið er grunnurinn í uppskriftinni og ef ekki er til steinselja má nota kóríander, spínatkál eða aðrar grænar jurtir með því. Til tilbreytingar má svo setja kryddaðar möndlur, t.d. kryddaðar með Za’atar kryddinu frá Kryddhúsinu út í pestóið.

INNIHALDSEFNI:

Tilbúið grænkálspestó

1 1/2 bolli rifið grænkál – pressið kálið þétt í bollann
blaðstilkurinn skorinn frá og blöðin skorin í litla bita

1/2 bolli steinselja

1/2 bolli ólífuolía – extra virgin

safi úr 1-2 litlum límónum – byrjið með eina og
bætið safa úr hálfri eða heilli við eftir smekk

1-2 hvítlauksrif

fínt himalajasalt eftir smekk

múskat á hnífsoddi – eða 1/2 teskeið Sumac kryddið frá Kryddhúsinu

1/4 bolli næringarger frá Naturata

1/4-1/2 bolli möndlur

AÐFERÐ:

1 – Setjið grænkál, ólífuolíu, hvítlauk, límónusafa, krydd og næringarger í blandarann og blandið á púls-stillingu þar til blandan er orðin jöfn.

2 – Bætið möndlunum (með eða án hýðis) út í og blandið á púsl-stillingu þaar til þær eru malaðar í þann grófleika sem óskað er.

Geymist í góðu íláti í ísskáp í viku eða svo.

Uppskrif og myndir: Guðrún Bergmann