GÓÐGERLAR OG SÝKLALYF - Guðrún Bergmann

GÓÐGERLAR OG SÝKLALYF

Eins og með svo margt annað sem mér finnst skipta máli fyrir heilsuna – til dæmis mikilvægi þess að taka inn magnesíum daglega – skrifa ég reglulega um það greinar. Stundum eru greinarnar tengdar því sem ég sjálf er að fara í gegnum eða einhver annar í kringum mig. Umræða um málefnið kemur upp á borðið, ráðleggingar ganga manna á milli og reynslan sýnir að ráðin duga. Þá þarf að deila þeim með öðrum. Þannig er það bara.

Í þessari grein fjalla ég um örveruflóru þarmanna, mikilvægi þess að viðhalda jafnvægi á henni með góðgerlum og hvað gerist þegar við þurfum að taka inn sýklalyf einhverra hluta vegna.

ÖRVERUFLÓRA ÞARMANNA

Þarmar okkar eru búsvæði milljón milljóna af örverum, þar á meðal baktería, vírusa, gerilveira og sveppa eins og candida sveppsins. Áhrifamestar eru bakteríur sem tilheyra Firmicutes og Bacteriodetes ættunum, en um þær má lesa nánar í greininni ÁHRIF ÖRVERUFLÓRU ÞARMA Á HEISLU OKKAR.

Allar þessar örverur í flóru þarmanna gegna sínu hlutverki í starfsemi þeirra og stuðla að niðurbroti og nýtingu fæðunnar sem við borðum. Örverurnar bregast við utanaðkamandi umhverfisáhrifum, þar með talið þeirri fæðu sem við borðum.

Ástand örveruflórunnar ræðst því meðal annars af því hvort við neytum heilsufæðis eða höldum okkur við skyndibitamat og hið svokallaða “ruslfæði”. Lyf af ýmsum toga, svo og streita og mengunaráhrif úr umhverfinu hafa líka áhrif á hana.

SÝKLALYFIN DREPA GÓÐU BAKTERÍURNAR

Það er auðvitað ákveðin einföldun að setja þetta svona fram en dugar engu að síður sem skýring. Þegar við tökum inn sýklalyf, drepa þau góða hlutann af örveruflóru okkar, sem samanstendur af um áttatíu prósentum hennar. Candida sveppurinn, ásamt öðrum bakteríum og sveppum, tilheyrir hinum tuttugu prósentunum. Dagsdaglega sér candida sveppurinn m.a. um að brjóta niður og eyða dauðum og rotnandi mat í þörmunum.

Hann lifir hins vegar ekki bara sýklalyfjainntökuna af, heldur blómstrar í þeim kringumstæðum sem þá verða til í þörmunum. Hann fjölgar sér með kynlausri fjölgun og þegar öðrum örverum fækkar, tekur það hann ekki langan tíma að stækka búsvæði sitt.

Því skiptir máli að reyna að halda honum í skefjum og koma sem fyrst jafnvægi á örveruflóruna á ný eftir að sýklalyfjainntöku lýkur.

GÓÐGERLAR MEÐ OG EFTIR SÝKLALYFJAINNTÖKU

Sumir halda því fram að það sé ekki til neins að taka inn góðgerla meðan á sýklalyfjainntöku stendur. Mín reynsla er hins vegar sú að það skili árangri sé það gert á ákveðinn máta.

Best er að taka góðgerlana inn á fastandi maga að morgni til, um klukkustund áður en sýklalyfin eru tekin inn. Svo er gott að taka góðgerlana inn aftur síðdegis – um 2 klukkustundum eftir mat og um einni klukkustund fyrir næstu inntöku af lyfinu, ef taka þarf það oft á sólarhring.

Mín reynsla er sú að Probiotic-10 50 billion góðgerlarnir frá NOW dugi vel á meðan á sýklalyfjainntöku stendur. Eftir að lyfjakúrnum lýkur er mjög gott að fá sér eitt glas af Probiotic-10 100 billion gerlunum frá NOW og taka inn tvöfaldan dagskammt þar til glasið er búið. Eftir það er aftur hægt að fara að taka Probiotic-10 25 billion góðgerlana, sem gott er að taka inn daglega, til að viðhalda jafnvægi á örveruflórunni.

Auk þess að taka inn góðgerlana er gott að borða súrkál, bæði á meðan á sýklalyfjakúr stendur, svo og eftir hann. Mitt uppáhalds súrkál er frá Primeal, því það er svo fínrifið og auðmelt.

EKKI GLEYMA BÖRNUNUM

Ekki gleyma því að börn eru líka með viðkvæma örveruflóru í sínum þörmum. Ef þau þurfa einhverra hluta vegna að taka inn mikið af sýklalyfjum á unga aldri getur það hafa viðvarandi áhrif á heilsu þeirra á fullorðinsárunum – NEMA unnið sé gagngert að því að styrkja og efla örveruflóruna á ný á meðan og eftir hvern sýklalyfjakúr.

Til eru tuggutöflur frá NOW sem heita Berrydophilus. Í þeim eru 2 billjónir af 10 mismunandi gerlategundum, sem stuðla að uppbyggingu þarmanna. Töflurnar eru formaðar eins og dýr og sættar með Xylitol, svo þær skaða hvorki tennur barna né fullorðinna.

KÓKOSOLÍA DREPUR CANDIDA SVEPPINN

Þegar við Hallgrímur heitinn Magnússon læknir, endurbættum þá útgáfu af bók okkar Candida sveppasýking sem kom út árið 2011 ríkti hálfgert kókosolíuæði í heiminum. Ég fór því að leita heimilda um áhrif hennar á candida sveppinn og fann niðurstöður úr rannsókn þriggja íslenskra lækna, sem gerð var árið 2001. Þar kom fram að ein af þremur sýrum kókosolíunnar drepur candida sveppinn.

Því er gott, til að slá á offjölgun candida sveppsins, að taka inn eina teskeið af kókosolíu á dag, t.d. þessa lífrænu frá Himneskri hollustu.

En það má líka nota kókosolíuna útvotis. Candida sveppurinn hefur ertandi áhrif og sé mikið af honum í hægðunum getur það valdið kláða við endaþarm. Þá er besta ráðið að draga fram einnota hanskana og bera kókosolíu á svæðið. Við það hverfur kláðinn yfirleitt innan 12 tíma.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Neytendaupplýsingar: Góðgerla er yfirleitt að finna í kælum verslana eins og Nettó, Fræsins í Fjarðarkaupum, Hagkaupa, Krónunnar og í lyfjaverslunum.

Heimildir: Candida sveppasýking eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann o.fl.
Mynd: CanStockPhoto/Kateryna_Ken – Myndin sýnir þarmatotur og örveruflóru í þörmunum.

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í tæp 29 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 256 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í tæp 29 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar