GLÚTENLAUS EPLAKAKA

Litla sonardóttir mín, Guðlaug Sóley, var í heimsókn um daginn og við bökuðum saman þessa eplaköku. Hún kom með nokkrar uppástungur að því hvernig við gætum breytt uppskriftinni, eins og að blanda bláberjasultu við eplin og setja smá suðusúkkulaði milli þeirra í botninum í mótinu. Þegar búið var að skera eplin og raða í botninn á eldfasta mótinu og strá súkkulaðibitum yfir, missti hún áhugann á bakstrinum og sneri sér að því að “vaska upp” fyrir mig. Það er alltaf svo róandi að sulla í vatni 🙂

En hér kemur uppskrift að kökunni sem ég fann grunn að inni á My Gluten-free Kitchen vefsíðunni og breytti svo aðeins, eins og gjarnan gerist.

INNIHALDSEFNI Í BOTNINN:

10 bollar afhýdd og sneidd lífræn epli (ég gerði hálfa svona uppskrift)
1/2 tsk Ceylon kanill frá Himneskri hollustu
2 msk safi úr lífrænni sítrónu
1 msk kalt vatn

INNIHALDSEFNI Í TOPPINN:

1 1/2 bolli púðursykurlíki frá t.d. Sukrin
1 bolli glútenlaus mjölblanda
1 bolli lífrænir, glútenlausir hafrar t.d. frá Bunalun
2 tsk Ceylon kanill
1/2 tsk múskat
1/8 tsk fínt himalajasalt (nota alltaf aðeins meira)
3/4 bollar (12 msk) ósaltað skýrt smjör eða mjólkurlaus smyrja eins og t.d. Olivo

AÐFERÐ:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Skrælið eplin og sneiðið þau eða skerið í smáa bita.
  3. Blandið í skál saman eplasneiðunum, 1/2 tsk kanil, sítrónusafa og vatni. Þarna breyttum við aðeins og bættum 3 tsk af bláberjasultu frá St. Dalfour út í blönduna. Setjið svo eplin í smurt eldfast mót – þessi stóra uppskrift þarf mót sem er ca 20×30 cm að stærð. Svo kom aðalinnlegg Guðlaugar Sóleyjar, sem fólst í því að dreifa 4 röðum af suðusúkkulaði frá Síríus, smátt söxuðu yfir eplin.
  4. Blandið þurrefnunum í toppinn saman í skál. Skerið skýrt smjör í litla bita og blandið vel saman við mjölið og setjið yfir eplin. Einnig má setja þurrefnin yfir eplin og bræða svo skýrt smjör og dreifa vel yfir. Það sígur niður í mjölið.
  5. Bakið við 190°C hita í 45 mínútur (eða skemur – fer aðeins eftir ofni) þar til eplin eru orðin mjúk og toppurinn stökkur og brúnn.
  6. Berið fram með þeyttum laktósafríum rjóma frá Örnu eða kókosís.

 

SKÝRT SMJÖR

Í bókinni ELDAÐ UNDIR JÖKLI, sem ég skrifaði árið 1998 með vinkonu minni Guðríði Hannesdóttur er uppskrift að skýrðu smjöri. Þeir sem eru með mjólkuróþol og candidasveppasýkingu geta notað smjör ef þeir skýra það, því þá aðgreina þeir mjólkursykurinn frá því, en hann er yfirleitt óþolsvaldurinn. Gott er að skýra svona 500 gr af ósöltuðu smjöri í einu, en í skýrðu smjöri eru engin kolvetni.

Í POTTI:

  1. Hitið smjörið í potti við vægan hita. Leyfið því að bráðna alveg og hækkið síðan hitann. Veiðið froðuna ofan af um leið og hún myndast og hendið henni. Þegar smjörið byrjar að sjóða, er hitinn lækkaður á ný og smjörinu leyft að sjóða rólega í um 10 mínútur.
  2. Þegar smjörið hefur kólnað aðeins er tæra gula vökvanum hellt í hreint glerílát. Mjólkurefnin safnast á botninn og verða ljósbrún, en þeim á að henda.
  3. Þegar smjörið hefur kólnað alveg, má setja lok á ílátið.
  4. Smjörið geymist lengi í ísskáp, en í nokkrar vikur við stofuhita.

Í ÖRBYLGJUOFNI:

  1. Skerið smjörið sem bræða á í litla ferninga og setjið í ílát sem þolir að vera sett í örbylgjuofn.
  2. Hitið á mesta hita í nokkra sekúndur eða þar til smjörið hefur bráðnað.
  3. Veiðið hvítu froðuna ofan af bræddu smjörinu og hendið henni.
  4. Hellið tæra gula vökvanum í geymsluílát og hendið því sem situr eftir á botninum í ílátinu.
  5. Þegar smjðrið hefur kólnað alveg, má setja lok á ílátið.

Eplamynd: Can Stock Photo / Subbotina
Aðrar myndir: Guðrún Bergmann