Tunglið nær fyllingu sinni í merki Tvíburanna í dag klukkan 09:02, en á fullu Tungli eru Sól og Tungl í andstöðu, svo Sólin er í Bogmanni. Hér áður fyrr var þetta Tungl ársins kallað “kalda Tunglið”, enda víða orðið kalt á norðlægum slóðum. Það styttist í Vetrarsólstöður sem verða 21. desember og dagatalsárið er brátt á enda, svo margir eru að gera upp og ganga frá lausum endum í ýmsum málum.
BÆÐI BREYTILEG MERKI
Tvíburarnir og Bogmaðurinn eru bæði það sem kallast breytileg merki og tengjast bæði þekkingu. Tvíburarnir elska hvers konar gögn og upplýsingar, því þeir vilja deila þeim með öðrum, hvort sem það er í gegnum ritstörf, frásagnir eða brandara – eða í verstu útgáfunni, með því að deila sögusögnum. Bogmaðurinn vill gjarnan sjá stóru myndina til að geta haldið áfram inn í næsta mikilvæga æðra stig í eigin þroska. Þessi merki togast því á, því það er 180 gráðu spennuafstaða á milli þeirra.
Fullt Tungl gefur yfirleitt til kynna að einhver málefni séu að ná hápunkti og þar sem bæði Tvíburarnir og Bogmaðurinn eru forvitin merki, halda þau áfram að spyrja: “Hvað er eiginlega að gerast?”
SPENNUAFSTAÐA VIÐ NEPTÚNUS
Sól og Tungl eru líka í spennuafstöðu við Neptúnus, sem er á síðustu gráðunum í Fiskum. Neptúnus tengist hinu dulræna og andlega, svo og hugsjónum og blekkingum. Þar sem Neptúnus er í svona sterkri afstöðu við þetta fulla Tungl, getur það gefið til kynna að erfitt sé að skilja á milli þess sem er satt og rétt og þess sem er það ekki. Öflug afstaða þessara pláneta er að fletta ofan af þeim blekkingum sem heiminum hefur verið haldið svo lengi í, en hvað er raunverulegt og hvað ekki?
SÓL OG ÚRANUS
Sólin á 23 gráðum í Bogmanni er í 150 gráðu afstöðu við Úranus á 24 gráðum í Nauti. Við þessa afstöðu deila pláneturnar hvorki sama elementi né er á milli þeirra spennu eða samhljóma afstaða. Orkan á mill þeirra getur því verið pirrandi, eins og suð í flugu sem er lokuð inn í herbergi. Úranusi fylgir óvænt sundrandi upplausnarorka, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og við komum væntanlega til með að sjá hana víða í heiminum í kringum þetta fulla Tungl.
PLÚTÓ OG MARS
Plútó er á núll gráðu í Vatnsbera, en plánetan stjórnar niðurbroti, endurnýjun og uppbyggingu og er í 180 gráðu spennuafstöðu við Mars á 5 gráðum í Ljóni, sem aftur er í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Norðurnóðuna á tveimur gráðum í Hrút, en Norðurnóðan er táknræn fyrir sameiginlega framtíð heildarinnar.
Niðurbrot gömlu kerfanna heldur áfram, Mars er í ham í eldmerkinu Ljóni og Norðurnóðan í Hrút er að vekja okkur til vitundar um þær breytingar sem framundan eru og hjálpa okkur að komast út úr blekkingunum.
MERKÚR BREYTIR UM STEFNU
Merkúr, sem stjórnar Tvíburunum og þessu fulla Tungli, stöðvast í dag til að breyta um stefnu og halda fram á við. Við erum því að losna út tímabili, þar sem við höfum verið að endurmeta hlutina í lífi okkar og fara yfir hverju má breyta og hverju ekki (stjórnarmyndunarviðræður) áður en haldið er fram á við.
Táknmynd pláneta er alltaf öflugri, þegar þær eru í þessu viðsnúningsferli. Þar sem Merkúr er í Bogmanni vill hann leggja áherslu á sannleikann og koma fram með markmið um að byggja upp betri framtíð.
Merkúr er líka í 120 gráðu afstöðu við Mars í Ljóni og bæði merkin eru eldmerki, svo það er eldfim orka í kringum þessa afstöðu. Mars er frekar sjálfsupptekinn þegar hann er í Ljónsmerkinu og fylginn sér í framkvæmdum og vill fá það sem hann sækist eftir.
MARS OG VARUNA
Mars í Ljóni er í samstöðu við Dvergplánetuna Varuna. Varuna er táknræn fyrir sjálfræði okkar og sjálfstæði og því líklegt að þeir þættir komi upp bæði hjá einstaklingum og á meðal heildarinnar, vegna samhljóma afstöðu við Norðurnóðuna. Við viljum ekki lengur láta ráða yfir okkur, við viljum fá meira sjálfræði í eigin lífi. Sé litið til heimsfrétta má víða sjá merki um það, bæði austan og vestan hafs.
MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
Mars hóf aftur á bak ferli sitt þann 6. desember. Hann verður kominn inn í Krabbann þann 6. janúar og breytir ekki aftur um stefnu fyrr en þann 23. febrúar. Meðan á þessu ferli aftur og fram stendur, verður Mars óvanalega lengi í þessum tveimur merkjum, Krabbanum og Ljóninu.
Orkan í bæði Ljóninu og Krabbanum birtist á sinn einstaka hátt. Ljónið er skapandi og konunglegt, tignarlegt og elskar áheyrendur. Krabbinn er meira inn á við og verndandi. Krabbinn sáir fræjunum sem síðar munu spíra og blómstra – og skína eins og Ljónið. Við getum því á meðan á þessu ferli stendur spurt okkur sjálf að því hvað við ætlum að gera við okkar dýrmæta líf?
ATH! Stjörnukortin mín eru með 30% afslætti til jóla. Þau er frábær jólagjöf fyrir fólk á öllum aldri, sem öðlast dýpri skilning á þeirri orku sem það er að takast á við í lífinu og hvernig pláneturnar eru að hafa áhrif á líf þess. Tveir verðflokkar.
SMELLTU HÉR til að panta þér kort!
Myndir: Stjörnukort fyrir Reykjavík – shutterstock.com
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025
- Stjörnuspeki30. desember, 2024NÝTT TUNGL Í STEINGEIT 30.12.24