FULLT TUNGL Í KRABBA
Hér á eftir fylgir þýðing á skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á orkunni í kringum FULLT TUNGL í Krabbamerkinu þann 30. desember og áhrifum frá plánetunum fram í byrjun janúar.
Pam hefur veitt fullt leyfi fyrir þýðingum á skýringum hennar. Gott er að líta á þær sem nokkurs konar veðurspá fyrir orkuna sem fylgir framvindu og afstöðum himintunglanna.
JÖRÐIN OG LÍFHVOLFIÐ
Þótt ég hafi ekki haft aðstöðu til að þýða myndbandið hennar Pam Gregory fyrr en nú, þar sem ég var með skýringar fyrst á ALMYRKVA Á SÓLU og svo á SAMSTÖÐU JÚPITERS OG SATÚRNUSAR síðustu tvo þriðjudaga, þá birti Pam Gregory myndband með eftirfarandi skýringum þann 8. desember. Hún gerði það vegna þess að það er svo mikið að gerast í þessum mánuði og eins vegna þess að hún var með nýjar upplýsingar sem styðja við stjörnuspekiskýringar hennar síðustu vikur og mánuði.
Pam hefur áður lítillega minnst á mann sem heitir Rory Duff. Hún hefur fylgst með starfi hans í nokkuð mörg ár. Rory er mjög jarðbundinn og fastur í vísindum og mælingum, sem hann notar til að staðfesta kenningar sínar. Hann er lærður jarðfræðingur og er alger frumherji í Geobiology en það er svið vísindarannsókna sem kannar gagnvirkni eða víxlverkun á milli efnislegrar Jarðar og lífhvolfsins.
(Innskot: biosphere = lífhvolf, sá hluti lofts, láðs og lagar þar sem líf getur þrifist, þ.e. steinhvolf (lithosphere) , vatnshvolf (hydrosphere) og gufuhvolf (atmosphere) sem ein heild.) Geobiology er tiltölulega ný vísindagrein, sem kannar hvernig Jörðin og lífið hefur breyst samtímis.
GAMMA OG NEUTRINO
Rory er sérfræðingur í orkulínum Jarðar og því hvernig þær myndast, en margar þeirra myndast úr frá áhrifum úr geimnum. Pam varð yfir sig spennt þegar hún heyrði nýlegt viðtal við hann, sem hún segir vel þess virði að hlusta á þótt það sér tæplega klukkustundar langt. Hlekk inn á viðtalið er að finna neðst í þessari grein.
Þótt Pam hvetji okkur til að hlusta á viðtalið við Rory ætlar hún að draga fram nokkur atriði úr því, sem hún segir að styrki mjög það sem hún sér út frá stjörnuspekinni. Hann talaði um að Jörðin færi í gegnum Galactic rafbylgjusvið á um það bil 12.000 ára fresti. Þá förum við í gegnum kosmískar sveiflur frá Gamma geislum og Neutrino orku, en Neutrinos eru rafeindir.
(Innskot: Neutrinos frá sólinni veita okkur beint innsæi í kjarna sólarinnar. Neutrinos eru framleidd í kjarna sólarinnar og gera nokkuð sem þið ættuð ekki von á: Þeir koma til Jarðar, áður en ljósið frá sólinni, sem framleitt er af sömu viðbröðgum, kemur.)
Þessi Neutrino orka kemur í miklu mæli til Jarðar á 12.000 ára fresti eða svo. Spádómar um breytingar sem hafa áhrif á Jörðina utan úr geimnum og breytingar á Jörðinni á 12 þúsund ára tímabilum hafa komið fram hjá Hopi indíánunum í Norður-Ameríku og Mayan frumbyggjunum í Mið- og Suður-Ameríku, og bæði Pam og Rory hafa oft vísað til þeirra.
Þessar orkubreytingar gefa til kynna aldahvörf eða gagngerar breytingar sem verða, þegar þessi orka streymir til Jarðar og mun óhjákvæmilega hafa áhrif á og uppfæra DNA-ið í okkur.
ÓUMFLÝJANLEGT FERLI
Rory segir í þessu viðtali sem Pam vísar til að fyrst muni plasma bylgja skella á Jörðinni og svo kosmísk bylgja. Það sem Pam finnst heillandi við þetta er að þessi alda af orku, sem er afar sjaldgæf og verður aðeins á um 12.000 ára fresti og fyrstu bylgjurnar hafa, samkvæmt mælingum og rannsóknum Rory Duff, skollið á jörðinni frá 9. desember á þessu ári og ná hámarki sínu þann 20. desember.
Eins og þið vitið hefur Pam talað um þessa stigmagnandi orku sem hefur verið að byggjast upp og nær hámarki þann 20. eða 21. desember á Vetrarsólstöðum, þegar Júpiter og Satúrnus verða í samstöðu.
Þessar upplýsingar frá Rory eru því að mati Pam sérstaklega spennandi þar sem þessi orka tengist uppfærslu á meðvitund okkar. Hún undirstrikar jafnframt að þetta sé óumflýjanlegt ferli, það sé ekki hægt að stöðva þetta. Þetta gerist að hennar mati í réttri tímaröð, þetta er eðlisfræði. Engu skiptir því hvað við sjáum í kvöldfréttum sjónvarps, ekkert mun stöðva það sem við erum að fara í gegnum akkúrat núna. Þessa ótrúlega sjaldgæfu umbreytingu aldanna sem er mjög spennandi.
ÖLD FRIÐSEMDAR
Rory er meistari í notkun spákvista (dowsing= ekki endilega tvíarma spákvistur, heldur líka stundum prjónar, pendúlar eða önnur tæki) og hann hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína að fjórum sinnum á ári, daginn fyrir jafndægur að vori og hausti og daginn fyrir sumar- og vetrarsólstöður, verður samræmi eða samsvörun á öllum orkulínum Jarðar. Hann segir að fólk til forna hafi vitað þetta og þess vegna var það alltaf með seremóníur á þessum dögum.
Rory segir einnig að við séum á leið inn í nýtt tímabil í sögunni sem hann telur að hefjist árið 2024. Hann kallar það ÖLD FRIÐSEMDAR (Harmony), þegar samræmi eða samsvörun verður í öllum orkulínum Jarðar í um það bil 180-200 ár. Pam hvetur okkur til að hlusta á viðtalið til að fá frekari upplýsingar.
Rory segir að fleiri orkubylgjur séu á leið í gegnum sólkerfið og að við munum fá eina mjög stóra árið 2024. Pam segir þetta mjög áhugavert fyrir hana sem stjörnuspeking, vegna þess að það ár fer Plútó loks út úr Steingeitinni, hafandi lokið verkefni sínu, sem var niðurbrot hins gamla.
Pam segir þetta líka allt mjög spennandi, því við erum komin inn í upphafið á öllu þessu umbreytingarferli akkúrat núna, eftir að hafa farið um sársaukafyllsta hluta fæðingarvegarins þann 20. og 21. desember.
SKILABOÐ FRÁ ZACHARIA
Annað sem Pam finnst mjög áhugavert er að nýlega átti hún fund með hinni yndislegu veru Zacharia, sem hún fjallaði um í síðasta spjalli, en hún hefur fylgst með visku hans og miðlunum í nokkur ár – og hún segir hann alltaf vera með nákvæmar skýringar sem ganga eftir.
Zacharia lýsti þessu tímabili framundan sem tímabili með orkuöldu, sem við verðum að fara í gegnum. Hann kallaði þetta líka mestu uppfærslu sem orðið hefur á þessari plánetu, svo Pam vitni orðrétt í hann. Zac talar um að þetta verði ÖLD HJARTANS, ÖLD ÞRIÐJA AUGANS og ÖLD LAUSNA.
Þetta eru því að mati Pam afar spennandi tímar, en öll þessi orka er að streyma til okkar á tiltöluleg stuttum tíma eða frá 9. til 20. desember, svo það er ekki að furða að margir hafi fundið fyrir henni líkamlega. Hún segir jafnframt að þegar við förum inn í janúar og febrúar, sjái hún að orkan verði mjög kaotísk og að það verði undið mjög hratt ofan af gamla kerfinu.
UPPLAUSN Á LÆGRI ORKUTÍÐNUM
Vegna einskærrar eðlisfræði þessa hátíðniljóss frá Gamma og Neutrino geislunum, mun það þegar það kemur inn til Jarðar leysa upp lægri orkutíðnina sem er ekki að hjálpa okkur lengur. Orkutíðni sem styður hvorki við heilsuna né lífið í heild sinni. Það er bara hrein eðlisfræði og kallast niðurbrjótandi (eða niður á við) orsakalögmál.
Því verður ekki komist hjá því að þetta valdi kaosi, svo það er mikilvægt fyrir alla að gera sér grein fyrir því að við erum að fara í gegnum svona storm og að við verðum að halda ró okkar í gegnum hann.
FULLT TUNGL 30. DESEMBER
Tunglið verðu svo fullt á 8° og 53 mínútum í Krabba þann 30. desember kl. 03:28 fyrir hádegi á okkar tíma. Pam segir FULLT TUNGL alltaf vera hámark Tunglhringsins og þess vegna hefur það tilhneigingu til að draga fram ýmsar tilfinningar. Það á einkum og sér í lagi við þegar Tunglið er í vatnsmerki og enn frekar þegar það er í Krabba, því Krabbinn er merki sem stjórnast af Tunglinu.
Tilfinningar geta því orðið sérstaklega hástemmdar á þessum tíma, en áhrifa frá NÝJU og FULLU tungli getur gætt í tvær vikur sitt hvorum megin við þau. Þessi tilfinningaorka byrjaði því við ALMYRKVA Á SÓLU og NÝTT TUNGL þann 14. desember.
TILFINNINGALEGT ÖRYGGI OKKAR
En um hvað munu þessar tilfinningar snúast? Pam segir að þær eigi eftir að snúast um tilfinningalegt öryggi okkar, sem er mjög tengt Krabbanum. Það á líka eftir að snúast um fjölskyldur, því við erum óhjákvæmilega að fara í gegnum mjög sérkennilega jólahátíð á þessu ári af augljósum ástæðum. Annars vegar kann ykkur að líða mjög vel með fjölskyldunni þar sem þið getið haldið jólin með henni – eða ykkur kann að líða mjög illa vegna þess að þið getið ekki haldið þau með fjölskyldunni vegna allra reglugerða þar um. Hvor heldur sem ástæðan er, þá er líklegt að tilfinningarnar verði mjög sterkar á þessum tíma.
Sól og Tungl eru andstætt hvort öðru eða í 180° spennuafstöðu eins og alltaf á fullu Tungli. Þau eru svo með T-spennuafstöðu við Chiron, sem er á 5° í Hrútsmerkinu. Chrion getur táknað þau særindi sem við finnum í kringum þessi málefni, en hann býr líka alltaf yfir möguleikanum á heilun. Reyndin er nú sú að um jólahátíðina hafa oft komið upp ýmsar tilfinningar, þótt við höfum ekki verið að takast á við þær takmarkanir á samskiptum sem við höfum þurft að gera þetta árið.
STÍGÐU ÚT ÚR ILLDEILUM
Pam hvetur okkur því til, vegna möguleika á að tilfinningaleg særindi komi upp hjá okkur, að forðast eins og við getum að lenda í rifrildi, því andstæðar skoðanir í fjölskyldum geta oft leitt til þess. Slík staða á bara eftir að næra orkuna sem vill halda spennu og togstreitu á milli fólks og það viljum við ekki gera.
Við þurfum að ná samhljómi í meðvitund okkar til að ná því besta út úr þessum tíma. Pam ráðleggur okkur því ef við lendum í svona samstuði innan fjölskyldunnar, að stíga til baka, út úr þörfinni fyrir að sigra í einhvejru rifrildi. Hún hvetur okkur til að hugsa og sætta okkur við innra með okkur að við erum ekki á sama máli, og hætta jafnframt að taka þátt í bardaganum. Við töpum bara á því að næra þessar andstæðu skoðanir með orku okkar.
Þessi spennuafstaða milli Sólar og Tungls og svo Chiron er ein af mikilvægu afstöðunum á þessu FULLA TUNGLI.
MARS, ERIS OG PLÚTÓ
Við höldum áfram að vera með þessa kjarnmiklu og hráu frumorku á götunum, líkt og verið hefur undanfarið, þar sem Mars á 26° er áfram í samstöðu við Eris á 23° í Hrút. Eris er sú sem vekur upp kvenorkuna, herská og fylgin sér og orka hennar ýtir fólki út á göturnar.
Þessar plánetur eru í áframhaldandi 90° spennuafstöðu við Plútó. Plútó í Steingeit stendur fyrir stjórnvöld og reglur, skipanir að ofan og niður. Við höfum séð þetta samstuð ótrúlega skýrt þetta árið og það þarfnast ekki frekari skýringa við. Hins vegar er þessi spenna að ná hámarki núna, því við erum með þriðju og síðustu 90° spennuafstöðuna milli Mars og Plútó þann 23. desember.
MITT Á MILLI HINS NÝJA OG GAMLA
Ef þið skoðið JÚPITER OG SATÚRNUSAR SAMSTÖÐUNA, munið þið að samstaðan er á stjarnfræðilegri lengdargráðu þann 21. desember, en „declanation“ samstaðan er 25. desember. Við erum því að fara í gegnum hverja ölduna á fætur annarri af nýju upphafi með þessum samstöðum og mitt á milli þeirra (Mars-Plútó í spennuafstöðu) erum við að fá niðurbrot hins gamla í þriðju víddinni, á götum úti, þar sem orkan er hrá og fólkið er reitt.
Við sjáum hvernig þetta myndar gjá í orkunni og því skiptir máli hvar við setjum fókus okkar meðan farið er í gegnum þetta tímabil. Ætlið þið að setja hann á dramað og neikvæðnina og allt sem er að hrynja – eða ætlið þið að hefja ykkur yfir það?
ÓTTALAUS OG MEÐ INNRI FRIÐ
Þegar þessi orkualda, sem Rory hefur skýrt mjög vel, sem andlegt fólk víða um heim hefur fjallað um, sem gamlir spádómar segja fyrir um og sem kemur berlega í ljós í gegnum stjörnuspekina, hvolfist yfir okkur er mjög, mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með orkuástand okkar á besta stað mögulegum, en þetta hefur Pam aftur og aftur lagt áherslu á.
Best er ef við erum alveg laus við ótta og ef okkur tekst að halda innri friði og ró. Pam segir að það væri frábært og jafnvel enn betra ef við getum verið spennt og opin fyrir breytingunum.
Enn á ný minnir Pam okkur á að vera ekki með neinar væntingar um að finna miklar breytingar. Margir finna hugsanleg ekki fyrir neinu og hún segist sjálf ekki vita hvort hún komi til með að finni fyrir einhverju. Hvort sem við finnum eitthvað eða ekki skiptir í raun ekki máli, því uppfærslur á Jörðinni og okkur munu eiga sér stað hvort sem er. Við getum ekki barist á móti því, þar sem það er óhjákvæmilegt vegna þessarar kósmólógíu og þeirrar orku sem streymir til okkar.
Pam hvetur okkur jafnframt til að vera spennt og opin fyrir breytingunum. Ef við skynjum einhverjar breytingar er það frábært, en ef ekki, þá er það bara í lagi. Zac hefur staðfest það sem Pam sér í stjörnuspekinni, að á næstu mánuðum munum við öll öðlast meiri samúð með öðrum, við munum hafa meira umburðarlyndi og Vatnsberatengingu við aðra. Við komum til með að leita meira eftir samvinnu og við verðum með meira andlegt næmi. Allt mun þetta gerast smátt og smátt á næstu mánuðum.
STERKUR ÚRANUS
Úranus verður mjög sterkur á þessu FULLA TUNGLI, auk þess sem hann verður sífellt sterkari á næsta ári, því hann stjórnar Vatnsberamerkinu. Á þessu FULLA TUNGLI er Úranus á 6° í Nauti í 120° spennuafstöðu við Sólina og í 60° samhljóma afstöðu við Tunglið. Í gegnum öll þessi uppþot og mótmæi á götum úti er Úranus að ýta okkur inn í hið nýja.
Úranus er hærri birtingin á Merkúrorkunni. Úranus er táknrænn fyrir snilligáfuna, Úranus er táknrænn fyrir frelsið, Úranus er táknrænn fyrir uppreisn og Úranus er plánetan sem vekur fólk upp og Pam telur að á næstunni eigi ótrúlegur fjöldi fólks eftir að vakna. Vakna upp til meðvitundar um hvað er að gerast.
Úranusorkan snýst um sannleikann og við eigum því eftir að fá öldur af Vá!-um þegar hann birtist. Líklegt er að það verði í gegnum hneykslanlegar fréttir sem koma fram í dagsljósið sem fólk vaknar upp.
NEPTÚNUS OG ÖXULNÓÐAN
Við höldum áfram að vera með T-spennuafstöðu milli Neptúnusar og Öxulnóðunnar. Hún er sem stendur 1° frá því að vera alveg nákvæm, en verður alveg nákvæm um miðjan janúar. Við erum því enn um sinn í Neptúnusarþokunni, ekki viss um hvað er satt og hvað er logið.
Pam segir hins vegar að hlutirnir fari að skýrast betur á næstunni, því Úranus muni sjá til þess. Hann vinnur fyrir okkur í því að ýta sannleikanum upp á yfirborðið og þá skýrast málin.
STJÓRNVÖLD OG FÓLKIÐ
Eins og fram hefur komið hafa Júpiter og Satúrnus þegar fært sig yfir í Vatnsberann. Pam segir það mjög áhugavert, þar sem þessar plánetur hafa verið í Steingeit allt þetta ár. Steingeitin er táknræn fyrir stjórnvöld, en Vatnsberinn fyrir fólkið. Með þessum umskiptum yfir í Vatnsberann varð því umbreyting á orkunni. Pam segir hana vera að flytjast frá stjórnvöldum til fólksins og telur þessa breytingu mjög áhugaverða.
Júpiter í Vatnsbera er táknrænn fyrir mannúðlega draumsýn eða framtíðarsýn og Satúrnus, sem getur líka verið táknrænn fyrir uppbyggingu, stuðlar að því að gera hana að raunveruleika.
JÚPITER OG SATÚRNUS Í SPENNUAFSTÖÐU VIÐ ÚRANUS
Nú þegar Júpiter og Satúrnus eru á fyrstu gráðum í Vatnsberanum eru pláneturnar í 90° spennuafstöðu við Úranus sem er á 6° í Nauti. Sú spennuafstaða verður hins vegar nákvæm í janúar og fram í febrúar en Pam kemur til með að fjalla nánar um hana í næstu myndböndum sínum.
Þessi spennuafstaða er krafa um meira frelsi, í raun í meginatriðum út frá orkunni í Úranusi. Við megum því búast við að það verði öldur af eirðarleysi og óróa, þegar fólk vill drífa í hlutunum.
KÆRLEIKSORKAN
Að mati Pam eru því ótrúlega spennandi tímar framundan. Þeim mun fylgja kaos og óstöðugleiki og niðurbrot hins gamla, en það er hluti af ferlinu, eitthvað sem þarf að gerast til að hið nýja komist að. Þetta eru aldahvörf, svo þegar þessi orkualda skellur á okkur, er mikilvægt að við séum ekki bara opin til að taka á móti orkunni, heldur líka full tilhlökkunar.
Munið að verða ekki fyrir vonbrigðum ef þið finnið ekki fyrir neinum breytingum, því þá lækkar tíðnin ykkar. Reynið að halda ykkur í hjartanu og vera í kærleiksorkunni.
Ef þið getið verið í kærleikanum getið þið fleytt ykkur áfram á þessari Tsunami öldu af orku sem er að koma og þannig komist hærra upp á ströndina. Þessi orka veitir okkur að mati Pam ótrúlegt tækifæri til að komast langt upp á ströndina með meðvitundaruppfærslu okkar.
TENGINGIN VIÐ VETRARBRAUTINA
Pam hefur talað um það undanfarna mánuði og vikur að við séum að fara nær meiri tengingu við Vetrarbrautina (Galactic eða geiminn), þar sem Úranus stjórnar Vatnsberanum, en Úranus er líka táknrænn fyrir orku utan úr geimnum.
Við erum á leið inn í þess háttar orku núna, sem er mun meira tengd Vetrarbrautinni eða geimnum, það svæði sem er núna utan sjónarsviðs okkar og er enn hluti af hinu óþekkta.
STEINSÚLUR SEM BIRTAST ÓVÆNT
Pam segist nýlega hafa hlustað á miðlun hjá Blossom Goodchild, en tengill inn á þá miðlun (á ensku) er neðst í greininni. Hún miðlar skilaboðum frá The Galactic Federation of Light (gæti útlagst sem Samtök Ljóssins í Geimnum), sem Pam segist oft hlusta á. Í þessari tilteknu miðlun var talað um einsteinunga (Monoliths) sem eru að birtast á ýmsum stöðum í heiminum. Þeir hafa meðal annars birst í Utah og á nokkrum stöðum í Englandi, meðal annars á Wight eyju, sem er rétt sunnan við Englandsströnd, ekki svo langt frá þar sem Pam býr.
Þessir einsteinungar virðast vera settir niður að nóttu til og fólk er að velta fyrir sér til hvers þeir séu. Pam hvetur okkur til að hlusta á miðlunina, ekki af því að hún sé að þrýsta einhverju að okkur, heldur af því að þetta eru merkilegar upplýsingar og miðlunin ekki löng. Sjá hlekk inn á miðlunina neðst í greininni.
Pam sagðist hafa fengið gæsahúð, þegar hún heyrði hvað The Galactic Federation of Light hafði að segja um einsteinungana og að það eigi eftir að birtast mun fleiri.
FJÖLSKYLDAN EÐA ÆTTBÁLKURINN
Pam veltir fyrir sér í þessari Krabbaorku, sem snýst öll um fjölskylduna, en er mögnuð upp af sterkri Úranusarorku, hvort við séum að skipta yfir í þann skilning að fjölskyldan sé fólk sem hugsar eins og við, ættbálkur sem er ekki skyldur okkur, en við höfum hugsanlega tengingu við í gegnum Netið um allan heim. Snýst þessi orka um skilning okkar á samfélagi eða fjölskyldum, sem eru að myndast með fólki sem hugsar eins?
Eins veltir hún fyrir sér hvort þetta tímabil marki upphafið á því að við verðum öll ein fjölskylda í geimnum. Tengd bræðrum okkar og systrum í geimnum, sem eru að hvetja okkur áfram í gegnum þessi ótrúlegu aldahvörf og þessar ótrúlegu uppfærslur á meðvitund okkar, því þau eru öll þátttakendur í þessu ferli með okkur.
„Vá!“ segir Pam! Hvílíkur tími að vera á Jörðinni!
Hún hvetur okkur jafnframt til að halda okkur í HJARTANU og í KÆRLEIKANUM. Treysta Planinu og skilja hversu mikið undur það er að vera á lífi á þessum tíma.
Og hún bætir við. Haldið fókus ykkar á hæstu tíðninni. Setjið augnhlífarnar á ykkur! Setjið kosmísku augnhlífarnar á ykkur! Haldið ykkur frá kaosinu bara þennan eina mánuð. Tyllið ykkur hátt á syllu meðal arna og fylgist með atburðarásinni, en takið ekki þátt.
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Það er fullt af efni í þessum skýringum hennar Pam og hún hefur farið yfir margt. Ef þið eigið ekki stjörnukort, getið þið farið inn á síðuna hennar www.pamgregory.com og gert ykkur þar ókeypis stjörnukort, til að sjá hvar þessar afstöður sem hún fjallaði um falla í kortinu ykkar.
Þar er líka að finna kennslumyndbönd hennar, bækur og fleira.
Facebook síðan hennar Pam þar sem hún fjallar um stjörnuspeki er: https://www.facebook.com/TheNextStepAstrology
Hér er hlekkur inn á viðtalið við Rory Duff – https://youtu.be/yqkxZTX_gOo
Hér er hægt að sjá myndband af einsteinungnum á Wight eyju – Monolith on Isle of Wight: https://www.youtube.com/watch?v=ezKxo….
Hér er miðlun Blossom Goodchild’s með skilaboðum frá The Galactic Federation of Light: https://www.youtube.com/watch?v=sT-s-….
Myndir: Can Stock Photo / arkela-kevron2001-Dole-ribah2012
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar7. desember, 2024MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
- Greinar28. nóvember, 2024LÉTT YFIR NÝJU TUNGLI Í BOGMANNI
- Greinar31. október, 2024MAGNAÐAR PLÁNETUAFSTÖÐUR Í NÓVEMBER
- Greinar21. október, 2024SÓLIN Í SPORÐDREKA