FULLT OFURTUNGL Í BOGMANNI

FULLT OFURTUNGL Í BOGMANNI

Sumartunglið í ár sem er Ofurtungl verður fullt þann 14. júní kl. 11:51 hér á landi á 23° og 25 mínútum í Bogmannsmerkinu. Tunglið kallast Ofurtungl vegna þess að það er á braut mjög nærri Jörðu, en þá er aðdráttarafl Tunglsins meira á á flóði og fjöru og á fleka Jarðar, svo og á sálarlíf fólks.

Við gætum því átt von á meiri jarðskjálftum eða jarðhræringum í kringum þetta Ofurtungl, en það er reyndar eitthvað sem við megum eiga von á allt til ársins 2026, eða þangað til Úranus fer úr Nautsmerkinu. Við þetta Ofurtungl getum við hins vegar átt von á að það myndist toppur í þessari skjálftavirkni, þar sem Tunglið er svo nærri Jörðu.

ÁHRIFASVÆÐI OFURTUNGLSINS

Svæðin þar sem þetta fulla Ofurtungl myndar vinkla eða sterkar afstöður við eru vesturríki Norður-Ameríku, Mexíkó og Argentína, vesturhluti Evrópu og vesturhluti Afríku, svo og Kína. Því eru allar líkur á að eitt eða fleiri af þessum svæðum verði áberandi á þessu fulla Ofurtungli.

Bogmaðurinn, sem stjórnað er af Júpiter, er táknrænn fyrir frelsi, sannleika og réttlæti. Sannleikurinn er áhugaverður vegna þess að ein sterkasta afstaðan á þessu fulla Ofurtungli er sú að Neptúnus, sem er í Fiskum – er í T-spennuafstöðu, eða 90° spennuafstöðu við Sól og Tungl og svo er 180° spennuafstaða milli Sólar og Tungls.

LEYNDARMÁL OG BLEKKINGAR

Neptúnus er táknrænn fyrir blekkingar og það að hlutirnir séu ekki eins og þeir virðast vera. Í þessu mjög svo bjarta ljósi frá þessu fulla Ofurtungli, sem kemur til með að virðast afar stórt þar sem það er svo nálægt Jörðu, er erfitt að fela eitthvað. Tunglið kemur til með að beina sínu sterka LJÓSI til Jarðar og afhjúpa öll leyndarmál og blekkingar.

Þegar Tunglið er fullt tengist það alltaf hápunkti eða endalokum einhvers. Því er mikilvægt að skoða hvar afstaða þess lendir í fæðingarkortum okkar og lýsir upp hluti sem við höfum kannski ekki verið meðvituð um.

PLÚTÓ GREFUR HLUTINA UPP

Plútó er að fara í gegnum síðustu gráðurnar í Steingeit og á þeim gráðum grefur plánetan upp allt það sem ekki hefur verið gert af heilindum eða ábyrgðarkennd og alla spillingu.

Sá uppgröftur á einkum og sér í lagi við um leyndarmál og óheilindi innan þeirra kerfa sem stjórnað er að ofan og niður, svona eins og hjá ríkisstjórnum og stjórnvöldum almennt, svo og hjá stofnunum og stórfyrirtækjum, sem hafa haft stjórn á lífi almennings.

Plútó á eftir að vera á för sinni um Steingeitina allt fram í desember árið 2024. Það verður því forvitnilegt að sjá hvaða leyndarmál, sem falin hafa verið almenningi, koma upp á yfirborðið á þeim tíma.

BLACK MOON LILITH

Black Moon Lilith er í eiginlegri merkingu ekki pláneta heldur er hún er táknræn fyrir fjærsta punktinn á sporbaug Tunglsins frá Jörðu. Henni fylgir frekar drungaleg orka, sem kann að hafa áhrif í kringum þetta fulla Ofurtungl.

Black Moon Lilith er á 1° og 33 mínútum í Krabba, en 0 gráðan í Kardinála merkjunum, sem eru Hrútur, Krabbi, Vog og Steingeit – og tvær gráður sitt hvorum megin við 0° teljast vera á Öxli Heimsins.

Ef um er að ræða plánetur eða afstöður við Öxul Heimsins í stjörnukortunum, er möguleiki á að sú orka sem þær eru táknrænar fyrir komi fram á hinu stóra leiksviði heimsins.

BLACK MOON LILITH OG BÖRN

Black Moon Lilith er í Krabbanum, sem er táknrænn fyrir móðurhlutverkið, þungun, ungbörn og svo framvegis. Lilith er í nokkuð þéttri 90° spennuafstöðu við Júpiter, en Júpiter þenur út alla hluti sem hann kemur nærri. Júpiter er því að þenja út það sem Black Moon Lilith er táknræn fyrir og Lilith er á Öxli Heimsins.

Black Moon Lilith er táknræn fyrir dimma, villta og eðlislæga kvenorku. Í mýtu Gyðinga er sagt að hún hafi verið fyrsta kona Adams, en vegna þess að hún var mjög ósveigjanleg vildi hún ekki lúta valdi Adams – og þess vegna segir mýtan að hún hafi verið rekin út úr aldingarðinum Eden.

Í refsingarskyni er sagt að hún hafi þurft að horfa upp á mörg barna sinna vera drepin – og í hefndarskyni fyrir það er sagt að hún hafi farið að ráðast á þungaðar konur, en það leiddi til þess að börn þeirra fæddust andvana.

Orka Lilith er mjög dimm – en hið áhugaverða er að þetta fulla Tungl er nánast í 180° andstöðu við Marsinn í korti Bandaríkjanna, en Marsinn þar er á 21° í Tvíbura í fimmta húsi, sem er hús barna.  Bandaríkin eru því dregin inn í myndina í tengslum við þetta fulla Ofurtungl.

Deilur um rýmkaðar heimildir til fóstureyðinga þar í landi eru svo sannarlega á leiksviði heimsins – og í þeirri baráttu koma fram mjög sterkar tilfinningar hjá fólki. En átökin snúast í raun um dýpstu og dimmustu leyndarmál samfélagsins, sem enginn vill kynna sér, því þau eru svo átakamikil tilfinningalega – en þau leyndarmál ná út fyrir umræðuna um fóstureyðingar…

PLÁNETURNAR VARDA OG MANWE

Þessi dimma og drungalega orka á sér sem betur fer einnig bjartari hlið sem tengist Kuiper-beltis dvergplánetunni Varda, sem er á  á 25° í Bogmanni í samstöðu við fulla Ofurtunglið og Miðju Vetrarbrautarinnar (The Galactic Center) sem er á 26° í Bogmanni.

Það sem er fallegt í þessari þreföldu samstöðu er að í mýtunni var Varda Stjörnukonan. Varda var líka eiginkona Manwe, en sú dvergpláneta er á Öxli Heimsins á 1° í Hrút – og saman sköpuðu þau hjón Alheiminn.

Manwe er tengdur andardrætti Guðs og sem Stjörnukonan var Varda sú sem kom Sólinni, Tunglinu og stjörnunum fyrir á himnafestingunni og kom þeim á sporbaug sinn. Við erum því með þessa fallegu skynjun á því að endurnýjun heimsins sé að eiga sér stað. Að NÝ JÖRÐ sé að fæðast.

LJÓSIÐ OG MYRKRIÐ

Þetta fulla Ofurtungl er að sýna okkur myrkrið, en líka LJÓSIÐ, því þetta snýst ekki bara um myrkrið, þótt mikið sé af því – heldur að við sjáum það svo vel vegna þess að LJÓSIÐ er svo skært.

Gott er að gera sér grein fyrir að það eru mismunandi tilfinningar sitt á hvorum enda tilfinningaskalans. Við getum fókusað á MYRKRIÐ og fundið fyrir ótta og þá er virkilega erfitt að finna fyrir kærleika – eða við getum fókusað á LJÓSIÐ þar sem kærleikurinn er og þá er erfitt að finna fyrir ótta.

Það er svo sannarleg óttafull tímalína í gangi í heiminum, en hún þarf ekki að vera okkar tímalína. Það er óteljandi tímalínur í gangi og við getum valið á hverja þeirra við ætlum að fókusa.

Myndir: CanStockPhoto / siberianart / darkfoxelexir

Heimildir: Útdráttur úr skýringum Pam Gregory stjörnuspekings fyrir fullt Ofurtungli í júní.

Nánari upplýsingar um Pam er að finna á www.pamgregory.com og www.thenextstep.co.uk